Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
29.9.2011 | 22:54
1489 - Mótmælin á Austurvelli
Takist þeim öflum sem nú reyna og reynt hafa undanfarið að koma núverandi ríkisstjórn frá með stjórnmálalegum aðferðum ekki ætlunarverk sitt næstkomandi laugardag tekst þeim það aldrei. Þá verður hún við völd eins lengi og flokkarnir sem að henni standa ætla sér. Það verður reyndar ekki alveg út kjörtímabilið vegna þess að flokkarnir eru alls ekki sammála um eitt meginstefnumálið, sem er aðildin að ESB. Held að aðdragandi þess að stjórnin fari frá verði ekki mótmæli á Austurvelli heldur eitthvað allt annað.
Það er ekki ónýtt að hafa yfirlesara eins og Ellismell. Það var hann sem tók strax eftir því um daginn að ég nefndi Jón Ósmann Jón Austmann. Nú í gær tók hann líka undireins eftir því að ég minntist ekkert á hver orti vísuna góðkunnu um heimska gikkinn. Gúgli segir að hún sé eftir Benedikt Gröndal eldri en ekki Hallgrím Pétursson. Og eiginlega er hún bara hálf. Framhaldið er svona:
Góðmennskan gildir ekki,
gefðu duglega á kjaft.
Slíkt hefir, það ég þekki,
þann allra besta kraft.
Hlustaði í dag á þá Jón Orm Halldórsson og Ævar Kjartansson ræða við Stefán Jón Hafstein, sem mér fannst komast vel frá öllu sem hann sagði. Ef Guðmundur Steingrímsson, Jón Gnarr, Ómar Ragnarsson og Stefán Jón Hafstein sameinast í einum og sama flokki í næstu alþingiskosningum mun ég áreiðanlega kjósa þann flokk. Hef samt ekkert fyrir mér nema eigin ímyndun um þessháttar flokk. Sagt hefur þó verið í fréttum að Jón Gnarr (eða menn honum tengdir) og Guðmundur Steingrímsson hafi verið að tala saman um pólitískt samstarf í næstu kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.9.2011 | 23:53
1488 - Haraldur yfirlögga
Hossir þú heimskum gikki
hann gengur lagið á.
Og ótal asnastykki
af honum muntu fá.
(Gamall húsgangur - bætt við seinna)
Haraldur ríkislögreglustjóri telur sig ekki þurfa að fara að ítrustu lögum. Menn á borð við hann telja sig þurfa að hafa neyðarrétt. En hver skilgreindi neyð Haraldar ríkislögreglustjóra. Nú, Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra. Ögmundur er víst dómsmálaráðherra núna og honum er illa við að vera bendlaður við fjórflokkinn og spillinguna sem honum fylgir. Flestum finnst hann reyndar ansi vinstri grænn. Held samt ekki að hann hrófli neitt við Haraldi. Samtryggingin blívur. Þó það komi ekki þessu máli við hefur Haraldur alltaf minnt mig á Herman Göring. Bæði í útliti og á annan hátt.
Þetta er eins og slökkviliðsmaður við umferðarstjórn.
Bloggar | Breytt 29.9.2011 kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2011 | 00:13
1487 - Lára Hanna
Þetta með númerin á bloggskrifum mínum er eiginlega alveg óvart. Upphaflega skrifaði ég þetta með bókstöfum og hafði engar fyrirsagnir minnir mig. En kannski þekkjast þau á þessu. Sé svolítið eftir því að hafa ekki byrjað uppá nýtt þegar þúsund voru komin. Þúsundið er svo stórt, einsog þúsundkallinn!! (Á Tenerife skipti fimmkallinn jafnvel máli en sleppum því.) Nú get ég eiginlega ekki hætt fyrr en við tíuþúsund og það er ansi langt þangað til.
Í fésbókartilkynningu (statusi) segir Lára Hanna Einarsdóttir nýlega meðal annars. Tilgangur vefjarins er.... Af hverju ekki vefsins? Lára Hanna er alls ekki ein um að beygja orðið vefur með þessum hætti. Mjög margir gera það. Kannski flestir. Ég hef samt aldrei skilið tilganginn með því. Í mínum huga er þessi eignarfallsmynd (vefjar) algerlega óþörf og ber aðallega vitni um einhverskonar fordild.
Flestir virðast hugsa þannig að vefjarmyndin sé sjálfsögð ef talað er um vef á Internetinu. Mundu þá sennilega nota hina myndina ef talað væri um t.d. kóngulóarvef.
Ef kíkt er á hvað Orðabók Menningarsjóðs segir um þetta tiltekna mál er ekki hægt að sjá að merkingarmunur sé á þessum eignarfallsmyndum eða að önnur sé rétthærri hinni. Mér finnst bara eðlilegra að tala um tilgang vefsins og eiginlega er ekkert meira um það að segja.
Ef mótmælin sem boðuð eru á Austurvelli á laugardaginn kemur leiða til þess að alþingi verður óstarfhæft og ríkisstjórnin hugsanlega einnig, er líklegast að það leiði til þess að sá sem sterkastur er og best vopnum búinn ræni völdum.
Hér er enginn her og lögreglan mun ekki reyna neitt slíkt. Sennilega verður reyndin því sú að það verða flokkarnir sem að ríkisstjórninni standa sem ákveða hvort áfram verður haldið eða ekki. Forsetann langar örugglega að blanda sér í málið, en getur hann það?
Í búsáhaldabyltingunni var það Samfylkingarfundur í Þjóðleikhúskjallaranum sem úrslitum réði um það að Samfylkingin ákvað að tilkynna Geir Haarde um endalok ríkisstjórnarinnar. Vinstri grænir hafa líf þessarar ríkistjórnar í hendi sér.
Kannski verða mótmælin ekki eins öflug og sumir virðast gera ráð fyrir og vona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.9.2011 | 23:44
1486 - Skákhundurinn
Sonur minn gaf einu sinni út tímarit sem hét Skákhundurinn. Ekki náði það mikilli útbreiðslu enda var það víst einskonar æfing í að nota eitthvert útgáfuforrit og átti sér sennilega stað nokkru fyrir síðustu aldamót. Greinarnar í blaðinu voru allar um skák og flestar teknar af Usenet ráðstefnunni rec.games.chess.
Já, ég get ekki neitað því að ég tefli marga tugi af bréfskákum samtímis á þremur serverum (vil nefnilega ekki borga fyrir þessi sérréttindi) og hef gaman af. En af hverju er ég að eyða tímanum í að tefla á Internetinu? Nú, það er til að geta setið sem lengst við tölvuna. Annars þyrfti ég líklega að gera eitthvað að gagni. Það er a.m.k. mun skemmtilegra að spekúlera í bréfskák en lesa þruglið á fésbókinni. Einn serverinn nálgast ég að vísu alltaf í gegnum Facebook.
Annars var ég núna áðan á mánudagsmorgni að eyða tímanum í að lesa nýjustu afurð Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar hér á Fornleifs(Mogga)-blogginu. Hér er beinn linkur á það til að flýta fyrir þeim sem vafra mikið um netið: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/ Þetta er blogg til að fylgjast með. Vilhjálmur er nær alltaf skemmtilegur og til viðbótar oftast fróðlegur. Ætíð full-orðljóður og umtalsillur að mínu mati en samt get ég ekki stillt mig um að lesa margt af því sem hann skrifar.
Það er oft heilmikið fjör hér á Moggablogginu, en ég skil samt ekki af hverju ég fæ ekki tilkynningu um að Villi hafi samþykkt mig sem bloggvin á Fornleifs-blogginu en samt er komin mynd af mér þar. Minnir endilega að slíkar tilkynningar hafi maður fengið í gamla daga. Kannski fékk maður bara tilkynningu ef einhver vildi gerast bloggvinur manns. En það er nú svo margt sem ég skil ekki. Einkum ef það snýr að tölvum.
Um daginn var ég að lesa um uppvöxt Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings og sumardvöl hans til margar ára í Strympu (aka Straumfjarðartungu). Sú sumardvöl hefur víst verið fyrir komu Ingólfs þangað svo það er ekki alveg að marka. Vegamót, Holt og Strympa var sá þríhyrningur sem líf mitt snerist einkum um á einu tímabili ævinnar.
Oft fer ég í gönguferðir um Fossvogsdalinn og Kópavoginn vítt og breitt. Yfirleitt er ég einn á ferð. Það má skipta þeim sem maður rekst á þar í fjóra flokka. Venjulegt göngufólk, skokkara, hjólreiðafólk og hundafólk. Hundafólkið er að sjálfsögðu langhættulegast. Reyndar bara hundarnir.
Hundar hér um slóðir skiptast einkum í þrjá flokka. Hunda í bandi, bandlausa hunda en með eiganda eða umráðamann í nágrenninu og lausa hunda án alls eftirlits. Hundafólk virðist alltaf gera ráð fyrir að það hafi fullkomna stjórn á viðkomandi hundi. Svo er bara því miður alls ekki. Algengt er að sjá stóra og grimmdarlega hunda sem mundu auðveldlega geta slitið sig lausa ef þeir kærðu sig um. Hundar án alls eftirlits eru sem betur fer sjaldgæfir á gangstígum hér, en hinir flokkarnir mjög algengir. Hundar bíta og eru hættulegir.
Sannfærður er ég um að gangstígarnir hér væru mun meira notaðir af fólki ef það gæti treyst því að verða ekki fyrir árásum hunda. Því miður eru margir hræddir við hunda. Hef aldrei heyrt um fólk sem óttast ketti.
Já, ég er meiri kattamaður en hunda. Frásagnir af hundum sem hafa bitið fólk eru legíó. Óljósar frásagnir um að kettir hafi stundum gert þarfir sínar í sandkassa sem börn hafa síðan komist í tæri við eru yfirleitt lygi.
Hellingur af sniglum að sniglast á gangstígnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 22:08
1485 - Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs
Sú kreppa sem e.t.v. er að skella á Evrópu og Bandaríkjunum og jafnvel fjármálakerfi Vesturlanda allt er tilkomin vegna græðgi og yfirgangs stjórnvalda. Ríkisstjórnir þriðja heimsins hafa reynt að sitja og standa eins og þeim hefur verið sagt og allur mótþrói er barinn niður með harðri hendi. Hagvöxturinn og peningarnir er það sem öllu ræður. Því meira, því betra. Einhvern tíma hlýtur þessari vitleysu að ljúka.
Í fjölmiðlum öllum er mikð fjasað um kreppur, peningamál og allskyns óáran. Reynt að láta líta svo út að íþróttir og annar óþarfi skipti öllu máli og hamast er við að draga athygli manna að einhverju slíku.
Mikið er fabúlerað og fjargviðrast útaf ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Mér fannst vatnaskil verða í því máli þegar Rabin og Arafat gerðu samkomulagið forðum daga undir handleiðslu Clintons Bandaríkjaforseta. (Minnir að það hafi verið á afmælisdaginn minn árið 1993 sem skrifað var undir það samkomulag.)
Nú eru þeir báðir dauðir Rabin og Arafat og kannski verður umsókn Palestínuaraba um inngöngu í Sameinuðu Þjóðirnar ný vatnaskil í málum þarna. Palestínumenn virðast hafa unnið áróðursstríðið og Ísraelar tapað því, þrátt fyrir stuðning Bandaríkjamanna. Að Obama skuli ekki hafa getað komið í veg fyrir að þetta færi svona sýnir afturför og aumingjaskap Bandaríkjanna á stjórnmálasviðinu. Nú neyðast þeir til að beita neitunarvaldinu og verða óvinsælli fyrir vikið.
Er ekki einfaldlega komið að því sem nefnt hefur verið Untergang des abendlandes? Það er ekki heimsendir þó fjármálakerfi Vesturlanda líði undir lok. Mér finnst margt benda til þess að forysta og yfirgangur Vesturlanda sé að komast að endamörkum. Hlutverk okkar Íslendinga í þeim risaátökum sem e.t.v. eru í vændum verður ekki mikið. Þó getur það orðið eitthvað.
Sumar auglýsingar (jafnvel flestar) á fésbókinni búa sjálfkrafa til nýjar tengingar á tölvuna hjá manni. Mér er illa við þessháttar og loka reglulega öllum mínum tengingum. Ég vil gjarnan sjá hverjum ég er tengdur og geta hoppað þangað fyrirvaralaust. Mér finnst fésbókarfjárinn alltaf reyna að eyðileggja þann möguleika.
Jú, það er alveg rétt. Ég geri fátt annað en að fjandskapast útí fésbókina. Ekki taka mark á því, þetta er bara venjulegt tuð.
Hermt er að margir séu svo spenntir fyrir fésbókinni að þeir vakni nokkru fyrr en venjlega til að missa af sem fæstum kjaftasögum. Mikið er víst smjattað og vei-að fyrir framan tölvuskjáina á morgnana því margir byrja á að fara þangað. Lestrarefnið er í raun æðislegt þessa dagana bara ef maður kynni að sortera það almennilega.
Allir sem skrifa opinberlega (bloggarar líka) taka þá áhættu að hafa rangt fyrir sér og heimska sig a.m.k. öðru hvoru. Er þá ekki best að halda sér bara saman? Jú, enda gera það flestir.
Sumir segja það samsæri andskotans að reyna að koma DV á hliðina með dómsmálum í löngum bunum. Víst er að mörgum þykir hlýða að fara í mál við miðilinn. En er ekki DV eini daglegi fjölmiðillinn sem reynir að stinga á þeim augljósu kýlum sem kvelja íslensku þjóðina? Vissulega eiga margir um sárt að binda vegna umfjöllunar þeirra og oft er hún skelfilega barnaleg og fáfengileg. Kannski er þetta samt sannleikurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.9.2011 | 22:24
1484 - 110 %
Sýnist bloggunum ekki fækka neitt verulega hjá mér þó ég sé hættur að vaka eftir því að koma þeim upp á netið og búinn að setja þau að flestu leyti aftar í forgangsröðina en áður.
Það virðist vera að hvessa eitthvað í Sögu Akraness-málunum. Páll Baldvin ætlar ekki sætta sig við aðdróttanir Árna Múla af frásögn Eyjunnar að dæma. Er þó engan vegin viss um að málaferli verði. Best gæti ég trúað að menn gættu þess að segja sem minnst úr því sem komið er. Ég held þó áfram að tuða, því enginn tekur mark á mér. Kannski Harpa haldi eitthvað áfram líka.
Fréttir sem ég hef heyrt get ég ekki skilið öðruvísi en þannig að allir sem húsnæðislán hafa útvegað nema Íbúðalánasjóður ætli að sleppa því að reikna aðrar eignir (s.s. bíla) með þegar reiknað er út hverjir verði þeirrar náðar aðnjótandi að fá felldan niður hluta lána samkvæmt 110% leiðinni. Mér finnst það með öllu óaðgengilegt að Íbúðalánasjóður sé að þessu leyti lélegasta lánastofnun landsins.
Byrjaði aðeins að fara yfir nöfn bloggvina minna hér á Moggablogginu. Margir eru hættir með öllu. Sumir farnir að blogga annars staðar. Aðrir blogga alltof sjaldan. Einhverjir eru greinilega hættir að blogga en lifa samt ennþá sem athugasemdistar. Sumir hafa læst blogginu sínu. (Af hverju skyldi það nú vera? Jú, sennilega er það þá einskonar dagbók fyrir útvalda!!) Líklega eru ekki margir sem blogga hér eins mikið og ég geri.
Rugla stundum saman Jakobi Bjarnar Grétarssyni og Símoni Birgissyni. Veit ekki af hverju. Hef lengi verið slæmur með að rugla saman ólíkum manneskjum. Sennilega er þetta einhver athyglisbrestur hjá mér.
Frostrósir koma með jólin, sagði sjónvarpið mitt mér áðan. Ég get ekki að því gert að mér finnst fullsnemmt að byrja á jólaauglýsingunum í september.
Einn bloggvina minna hef ég séð minnast á daglega bloggpistla. Það var Gísli málbein. Jú, við nánari athugun virðist hann blogga (næstum því) á hverjum degi. Líklega gera það fleiri, en þar er þá um að ræða blogg sem ég les ekki reglulega. Jú, Jónas bloggar reyndar oft á dag.
Ég er búinn að blogga svo lengi og svo mikið að mér finnst stundum að ég sé löngu búinn að skrifa mín skástu blogg. Samt held ég áfram í þeirri og vona að ég hitti á það að skrifa nokkur sæmileg blogg í viðbót.
Jenny Anna Baldursdóttir, sem oft bloggar ljómandi skemmtilega og er akkurat núna á DV.IS, óskapast yfir því á sínu bloggi hve leiðinlegt sé að verða gamall og einskis nýtur. Það ber vott um að hún sé að gamlast. Maður á alltaf að þegja yfir því hvað maður er gamall og utanveltu við veröldina. Ef aðrir finna það ekki og sjá, þá er allt í lagi. Allra síst á maður að vera að vekja athygli á því sjálfur. Um að gera að láta eins og maður sé unglamb, þó það verði stundum hjákátlegt.
Sé núna að Jenny Anna bloggar u.þ.b. daglega svo þetta er tómt rugl í mér hér svolítið framar. Sennilega les ég ekki nógu mörg blogg nógu reglulega. En mér þykir gaman að skrifa um blogg annarra. Jafnvel meira gaman en að blogga endalaust um misgáfulegar fréttir.
Vei, sagt er að Toyota sé á förum úr Kópavogi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2011 | 21:41
1483 - Komst í vanda kokkállinn
Þau tvö mál sem snerta tjáningarfrelsi og ég hef að undanförnu gert að umtalsefni í bloggi mínu eru mál sem vert er að fylgjast með og mun ég reyna að gera það.
Hið fyrra er mál Teits Atlasonar og Gunnlaugs Sigmundssonar þar sem Gunnlaugur hefur stefnt Teiti fyrir að hafa fjallað um Kögunarmálið án þess að nokkur ástæða væri til þess. Teitur hefur svarað Gunnlaugi fullum hálsi og ekki er útlit fyrir annað en mál þetta fari fyrir dómstóla. Úrslita má vænta snemma á næsta ári.
Hið seinna er mál Hörpu Hreinsdóttur og Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra á Akranesi. Harpa bloggaði allmikið um Sögu Akraness sem Gunnlaugur Haraldsson tók saman og fann henni flest til foráttu. Bæjarstjórinn reyndi að gera lítið úr Hörpu í viðtali við Skessuhorn. Hún brást illa við og skoraði á hann að finna orðum sínum stað. Ritstjórn Skessuhorns og Árni Múli virðast hafa bundist samtökum um að þagga niður í Hörpu. Sú þöggun er í fullum gangi og virðist ætla að takast. Upphaflega ætlaði Bæjarstjóraræfillinn sér að hjóla í Pál Baldvin Baldvinsson líka fyrir að hafa hallmælt bókinni í ritdómi í Fréttatímanum, en virðist hafa heykst á því.
Gúgli og Bing-i vaða sannfræðina og staðreyndirnar upp undir hendur. Að mörgu leyti eru þeir miklir óvinir þjóðlegra fræða. Sá sannleikur sem birtist í þjóðsögum okkar og fornum fróðleik allskonar er ekkert endilega verri en vísindalegur sannleikur. Það hve auðvelt er að gúgla allskyns staðreynir nú á þessum síðustu og verstu tímum dregur samt hugsanlega úr mörgum sem gjarnan vildu leggja lóð sitt á vogarskálar þjóðlegs fróðleiks.
Fékk á bókasafninu um daginn bók sem heitir Konur og kraftaskáld. Það var árið 1964 sem þeir Tómas Guðmundsson skáld og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur hófu að gefa út hinn vinsæla bókaflokk sem nefndur var ÍSLENZKIR ÖRLAGAÞÆTTIR. Sennilega er þarna um að ræða fyrstu bókina og þar er fjallað um Látra-Björgu, Vatnsenda-Rósu og Bólu-Hjálmar. Tómas skrifar um konurnar, en Sverrir um Bólu-Hjálmar. Ég er bara búinn að lesa þáttinn um Látra-Björgu og finnst Tómas hafa haft úr ansi litlu að moða þegar hann teygir lopann allar götur út á blaðsíðu 33. Þar er einna bitastæðust klámvísan alkunna:
Komst í vanda kokkállinn,
kviðarbrandinn hristi.
En Látrastrandar læsingin
lykilfjandann missti.
Sem Tómas segir vera eftir og um Látra-Björgu og fabúlerar mikið um það.
Ég er alveg að gefast upp á fésbókinni. Hún breytist svo ört og ég skil hana alls ekki. Nú er ég loks farinn að skilja Moggabloggið sæmilega en samt var byrjað að skora á mig fyrir löngu að yfirgefa það sökkvandi skip. Jú jú, þeim fer mjög fækkandi sem leggja sig niður við að skrifa á Moggabloggið. Mér finnst bara ekki að það sé neitt fínna eða betra að blogga á Eyjuna, Smuguna, Pressuna, Vísi, DV eða eitthvað annað. Sumir blogga á sitt eigið lén. Ég get ekki séð að það sé neitt betra heldur. Og áreiðanlega oft heilmikið vesen.
Brot úr minnismerki um Stephan G.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2011 | 22:58
1482 - Fyrsta og eina skíðagangan
Sagði söguna af allri minni skautaiðkun um daginn. Skíðaiðkunin er ekki mikið meiri og nú er ég að hugsa um að segja hana, þó ég hafi eflaust gert það áður hér á Moggablogginu.
Samnorræn sundkeppni var haldin einhvern tíma um miðja síðustu öld. Þá áttu sem flestir að synda 200 metra og vera skráðir sem fulltrúar þjóðarinnar í þeirri keppni og fá rétt til að kaupa sér barm-merki því til staðfestingar. Gert var ráð fyrir að halda þessa keppni reglulega. Á Íslandi var áhuginn fyrir þessari keppni mikill og áreiðanlega miklu meiri en á hinum Norðurlöndunum. Ég man t.d. eftir vörubíl með borða á framstuðaranum þar sem skorað var á fólk að synda 200 metrana.
Ekki er að orðalengja það að Íslendingar sigruðu glæsilega í þessari keppni. Svo glæsilega að hún hefur ekki borðið sitt barr síðan.
Skíðalandsganga var svo haldin nokkrum árum seinna með miklu húllumhæi og áróðri. Þá áttu allir að ganga 4 kílómetra á skíðum. Ekki dugði minna, ef ég man rétt. Engir 200 metrar þar.
Ég ákvað að sjálfsögðu að taka þátt í þessu merka átaki. Það dró ekkert úr mér kjarkinn þó ég hefði aldrei á skíði stigið.
Keppnisdagurinn rann upp bjartur og fagur. Nóg var af snjónum og ákveðið að þeir í Barna og Miðskóla Hveragerðis sem áhuga hefðu á að spreyta sig gætu gert það á spildunni milli Laugaskarðs og Fagrahvamms. Þar var lögð þessi fína braut, kílómeters löng og skyldi fara þá leið fjórum sinnum.
Ég fékk lánuð skíði og brunaði af stað. Eftir nokkra stund lá leiðin niður að ánni og þegar komið var á bakkann átti að beygja til vinstri. Ég hafði semsagt aldrei á skíði komið fyrr og hafði ekki hugmynd um hvernig átti að beygja. Halli var niður að ánni og ef ég hefði haldið áfram að renna mér þangað hefði ég endað í henni. Ég sá því ekkert annað ráð vænna en að láta mig falla á hliðina. Þegar ég stóð upp aftur gætti ég þess auðvitað að taka beygjuna áður en ég fór af stað.
Þetta reyndist vera eini hættulegi staðurinn á leiðinni, en fjórum sinnum þurfti ég að nota þessa aðferð mína, því auðvitað hætti ég ekki fyrr en kílómetrunum fjórum var náð. Ekki hef ég farið aftur á skíði eftir þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.9.2011 | 23:21
1481 - Bloggnáttúra og ADHD
Viss málefni kalla á margar athugasemdir. T.d. ESB, feminismi, trúarbrögð og fleira. Ég reyni að forðast þessi málefni, en hef samt ekkert á móti athugasemdum. (Fésbókaðar athugasemdir rugla mig þó stundum í ríminu) Hef oft skoðanir á þeim málum sem rifist er um í athugasemdadálkum, en ekkert endilega.
Réttritun hefur aldrei verið mér neitt verulegt vandamál. Sjónminni mitt á því sviði er nokkuð gott. Í gamla daga gerði ég það oft ef ég var í vafa um hvernig skrifa bæri orð að skrifa bæði afbrigðin á blað og sá þá venjulega strax hvort var rétt samkvæmt hefðbundnum og viðurkenndum skólareglum. Setan olli mér þó stundum hugarkvöl á stafsetningarprófum því reglur þar voru bæði flóknar og illskiljanlegar að mér fannst. Aftur á móti hefur upsilonið sjaldnast verið mér til trafala. Undarlegt er að ég er alls ekki alltaf á sömu línu og aðrir með það hvenær nota skuli eitt orð í stað tveggja. Mér finnst slíkt nánast ekki koma réttritun við.
Kiljanskan var illa þokkuð þegar ég var í skóla og Laxness álitinn rugla fólk að óþörfu. Þó er kiljanskan í rauninni aðeins tilraun til að vera öðruvísi en aðrir. Að hafa samræmdar stafsetningarreglur auðveldar mjög skilning manna á milli. Ekki er þó ástæða til að láta réttritun ráða öllu. Það eru til mikilvægari hlutir og ef hægt er að lesa í málið er oftast hægt að láta sér einfaldar réttritunarvillur (og jafnvel hugsanavillur) í léttu rúmi liggja.
Bloggnáttúran er eins og hver annar sjúkdómur. Stundum jafnvel ólæknandi. Ég á a.m.k. erfitt með að stilla mig. Er bloggið kannski eiturlyf?
Eru myndir og hreyfimyndir að taka við af ritmálinu?
Verða það bara fornleifafræðingar og grúskarar sem þurfa að læra lestur í framtíðinni? Pikka ekki allir á lyklaborð núorðið og skrifa æ minna?
Fór á bókasafnið um daginn og fékk m.a. lánaða nýjustu ljóðabók Eyþórs Árnasonar sem hann nefnir: Svo ég komi aftur að Ágústmyrkrinu. Eyþór var ekki byrjaður að senda frá sér ljóðabækur þegar ég kynntist honum á Stöð 2. Þar var hann sviðsstjóri og hvers mann hugljúfi eftir því sem ég best veit. Fyrsta bók hans minnir mig að heiti Hundgá úr annarri sveit.
Ég get ekki að því gert, en hundgáarnafnið minnir mig alltaf á vísuna alkunnu og ljótu þar sem önnur ljóðlínan er svona: Hinum megin við Esjuna snjóar. Ágústmyrkrið minnir mig aftur á móti á ljóðlínurnar úr dægurlaginu sem eru svona:
Það var í ágúst að áliðnum slætti
og nærri aldimmt á kvöldunum þeim.
Ég er lítið byrjaður að lesa þessa bók en er ekki frá því að ég endurskoði afstöðu mína til ljóðlistarinnar. Á henni hef ég löngum haft lítið álit. Það er samt ekki grundvallað á neinu sérstöku og þegar ég var um tvítugt fékkst ég svolítið sjálfur við að skrifa slíkt, en hætti því snarlega þegar mér varð ljóst hverskyns bull þetta var hjá mér.
Í næstu viku (eða þessari) verður reynt að vekja athygli á ADHD-samtökunum. Sýnt var í sjónvarpinu um daginn hvar Jón Gnarr (sem sagður er vera með ADHD ofvirkni og athyglisbrest) fékk fyrstu merkin og Hugleikur Dagsson (sem teiknaði merkin) hengdi þau á hann. Oftast virði ég lítt merkjasöluátök og á margan hátt er það einn helsti kostur hússins sem ég bý í að merkjasölubörn eiga erfitt með að finna það og innganginn í það. (Gæti líka verið skýringin á því að ég fæ aldrei Fréttablaðið og Fréttatímann bara með höppum og glöppum.) Í þetta skipti býst ég samt við að kaupa merki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2011 | 21:00
1480 - Um strámenn og besservissera
Ég blogga núna eingöngu þegar mér sýnist og bara um það sem mér sýnist. Mér sýnist ekki að blogga nema takmarkað um hrunið. Það er svo margt annað athyglisvert í veröldinni.
Kannski hefur hrunið í október 2008 bara orðið okkur til góðs. Það er ekkert sjálfsagt mál að lifa hér almennilegu lífi á hjara veraldar. Kannski sjáum við betur núna hin raunverulegu verðmæti. Peningar og græðgi hafa engin áhrif á þau.
Það er náttúran og allt sem henni tengist sem eru hin raunverulegu verðmæti. Auðvitað getum við enn betur notið hinna náttúrulegu verðmæta ef við erum södd og ósjúk og hugsanlegt er að kommúnisminn sé hið eina rétta form mannlegrar tilveru, þó Sovétmönnum hafi mistekist herfilega að koma honum á.
Mikið er fjasað um hrunið og er það eðlilegt. Mín skoðun á því sem gerðist er aðallega sú að þau lífskjör sem ríktu hér á landi árin fyrir hrun hafi verið lygi. Það er ekkert eðlilegt við það að lifskjör hér á landi séu miklu betri en annarsstaðar. Viðleitni margra (jafnvel flestra) hefur beinst að því undanfarið að leiðrétta þessa lygi og koma á eðlilegum lífskjörum á Íslandi. Auðvitað kemur mönnum ekki saman um hvernig það skuli gert. Þar að auki fóru landsmenn mjög misjafnlega illa útúr hruninu. Hrunið er nú að verða eðlilegt stjórnmálafyrirbrigði. Kosningar leita mjög í gamla farið. Þó nýtur fjórflokkurinn svokallaði líklega minna fylgis en áður.
Lára Hanna Einarsdóttir minntist á strámenn og tilurð þeirra á fésbókinni. Vísaði þar í skilgreiningu og umfjöllun Gísla Ásgeirssonar um efnið. Hann hafði skrifað greinina Strámenn Íslands og m.a. vitnað þar í Finn Þór Vilhjálmsson í því sambandi. Finnur sá hafði bloggað á blogspot.com og þar er ýmislegt að finna. M.a. hefur hann skrifað smásögu um Frímann einhvern og kveikjan að þeirri sögu hefur verið grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson um vændi og klám. Sagan um Frímann er langdregin með afbrigðum. Svo langdregin að ég gafst upp við lesturinn og spurði Gúgla frænda um nafnið Finnur Þór Vilhjálmsson og komst þá að því að lögfræðingurinn Finnur Þór Vilhjálmsson (sem hlýtur að vera sami maðurinn) hefur verið einn af aðstoðarmönnum Sannleiksnefndar Alþingis við gerð skýrslunnar frægu sem oft er vitnað til.
Hvers vegna er ég að tíunda þetta? Veit það svosem ekki. Sumir virðast vera jafnvel enn meiri besservisserar en ég. Ættfræðin er mér meira og minna lokuð bók en ég er þó þeirrar skoðunar að orsakir hrunsins fræga séu m.a. þær að yfirstéttin og útrásarvíkingarnir (já, eiginlega stjórnvöld öll) hafi klúðrað málum hrikalega í oflæti sínu, gerræði og einkavinavæðingu og nú eigi að láta almenning (mig og þig) borga brúsann. Það eina sem heldur aftur af aðgerðarsinnum dagsins í dag er sú staðreynd að bylting er hræðilegt fyrirbrigði. Ríkisstjórnin er því miður málþola og skilur ekkert í ástandinu. Vonar bara að enginn verði drepinn.
Þann 3. september 2007 (semsagt fyrir Hrun) bloggaði ég eftirfarandi:
"Í Svíþjóð er maður sem ævinlega brýtur rúðu í banka þegar hann er ekki í fangelsi. Hann hefur gert þetta í mörg ár. Þegar hann er látinn laus er hann vanur að hafa samband við fjölmiðla og tilkynna þeim að nú ætli hann að brjóta rúðu í einhverjum tilteknum banka. Svo mætir hann þar, hendir sínu grjóti, brýtur eina rúðu, fréttamenn taka sínar myndir og lögreglan, sem auðvitað mætir líka á staðinn, tekur hann fastan. Hann segist vera að mótmæla yfirgangi og frekju bankanna. Mótmæli sín séu fyrst og fremst táknræn. Ekkert sé af sér að taka. Hann eigi ekki neitt og eina ráð lögreglunnar sé að læsa sig inni. Þegar hann er svo að lokum látinn laus aftur hringir hann í fjölmiðla og hringrásin hefst á ný."
Þegar ég les þetta sé ég að mér hefur ekkert farið fram síðan þá og bönkunum líklega ekki heldur.
Glaumbær í Skagafirði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)