Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
18.9.2011 | 21:45
1479 - Skautar
Einu sinni þegar ég stundaði nám að Bifröst var í útivistartímanum ákveðið að fara í skautaleiðangur niður að Hreðavatni. Ekki man ég glöggt hve mörg við vorum. Líklega svona sex til átta. Ekki bjuggum við svo vel að við ættum öll skauta. Ég fékk léða skauta hjá einhverjum en veit ekki með vissu hvernig aðrir fóru að.
Skautarnir sem ég fékk lánaða voru sagðir vera svonefndir hokkí-skautar. Ég vissi svosem ekkert hvað það þýddi og hafði meiri áhuga á því hvort skautarnir væru nógu stórir á mig. Svo reyndist vera, en naumlega þó. Ég ákvað samt að fara með og láta á skautakunnáttuna reyna. Þegar niður að vatni kom fór ég að troða mér í skautana og gekk það sæmilega. Ég var að vísu alls ekki meðal þeirra fyrstu út á ísinn en heldur ekki langsíðastur.
Þegar út á vatnið kom versnaði málið og ég komst smám saman að því hvað hokkí-skautar eru. Hífandi rok var og stóð það út á vatnið. Sæmilega vel gekk mér að halda jafnvæginu og barst ég fyrir vindinum óðfluga burt frá hópnum. Eftir nokkra stund var ég kominn mun lengra út á vatnið, en allir hinir. Þá fór ég að velta fyrir mér hvað það þýddi að vera á hokkí-skautum. Þó ég hefði aldrei á skauta komið fyrr hafði ég tekið eftir því að engar rifflur voru fremst á skautunum sem ég var á.
Ég fór því að velta fyrir mér hvernig ég ætti að komast til baka og sá að nú voru góð ráð dýr. Eiginlega rándýr. Þegar ég hafði velt þessu fyrir mér svolitla stund ákvað ég að fara ekki lengra fyrr en ráðning á þessu vandamáli væri komin. Ég lét mig því detta og tókst það vel. Ekki meiddist ég neitt og fyrr en varði nam ég staðar.
Ráðningin á því hvernig ég ætti að komast til baka lét samt á sér standa. Eiginlega kom mér ekkert ráð í hug og á endanum skreið ég einfaldlega í land og hef ekki á skauta komið síðan.
Líklega hef ég áður sagt frá þessu hér á blogginu, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.
(Auðvitað er þessi stytta af Jóni Ósmann eins og mér var strax bent á - sjá athugasemdir)
Bloggar | Breytt 19.9.2011 kl. 07:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.9.2011 | 16:19
1478 - Fundarsköp
Að Bifröst kenndi Snorri Þorsteinsson á Hvassafelli okkur íslensku og ensku. Þar að auki fundarsköp og fundarreglur að ógleymdum enskum verslunarbréfum. Hann átti stundum erfitt með að hætta að tala. Guðmundur Vésteinsson frá Akranesi var hringjari. Fundarsköpin sem við lásum voru í fjölrituðu hefti í fólíó-stærð.
Einhverju sinni eftir að Guðmundur var búinn að hringja út (sitjandi í sæti sínu, því hinn bekkurinn var bara hinum megin við harmónikuhurðina) átti Snorri erfitt með að hætta. Ég gerði þá eins konar lúður úr kennslubókinni og sagði: (eiginlega alveg óvart) Tíminn er búinn. Ég var ekkert frekar að segja þetta við Snorra en sessunauta mína. En hann heyrði þetta vel og strunsaði út saltvondur. Jón Eðvald, Baldur, Árni og fleiri bekkjarfélagar mínir voru alveg hissa á að ég skyldi hafa þorað að segja þetta. Snorri gætti þess að taka mig upp fyrstan í næsta tíma svo ég skildi að atvikið væri geymt en ekki gleymt.
Fundarsköp Alþingis eru fyrirmynd margra. Þó eru þau ekki sérlega góð. Sú æfing í ræðumennsku sem alþingismenn virðast telja mikilvægasta er að tala í allan þann tíma sem leyfilegt er. Ekki að segja meiningu sína í sem fæstum orðum. Þetta veldur því að venjulegt fólk álítur alþingismenn mun vitlausari en þeir eru.
Um þessar mundir er ég að lesa sjálfsævisögu Jóns Á. Gissurarsonar sem heitir Satt best að segja og er gefin út af bókaútgáfunni Setbergi árið 1985. Hálfasnalegt þykir mér að skrifa heila sjálfsævisögu í þriðju persónu. Þessi saga er þó um margt merkileg og lýsir vel aldarfarinu á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Þetta er að mörgu leyti sama tímabilið og lýst er bók Theodórs Friðrikssonar Í verum, nema hvað sú bók er mun betur skrifuð. Af einhverjum ástæðum er þetta tímabil mér hugleikið. Þó miklu fremur þjóðlífið í heild en stjórnmálin sérstaklega.
Sumarið er búið. Græni liturinn er á undanhaldi. Þó eru haustlitirnir ekki komnir.
Veitingahús á Hofsósi. (Svolítið lágt til lofts þar inni)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2011 | 20:59
1477 - Alþingi
Það er ofætlun mikil að ætla sér að blogga á hverjum degi af einhverju viti. Ég hef þó vanið mig á dagleg blogg, en leyfi öðrum að dæma um vitið. Vel er hægt að stytta mál sitt og gera hugmyndum sínum þannig fært að komast á bloggið. Fréttaskýringar allskonar eru vinsælasta bloggefnið en ég er ekki sérlega góður í þeim.
Pólitíkin er mjög ráðandi í öllu bloggstandi, en þar er ég því miður tvístígandi mjög. Pólitískt séð eru það einkum tvö mál sem ég hef rætt um hér. Annarsvegar er það ESB-aðildin og hinsvegar stuðningur við ríkisstjórnina. Hvorttveggja eru þetta fremur óvinsæl mál og pólitískt séð er greinilega mest lagt uppúr því að bloggin séu sem allra neikvæðust.
Fyrir utan þetta hef ég reynt að hafa bloggin mín sem fjölbreytilegust en kannski eru þau óttalega moðvolg og lítt ákveðin. Minningar eru að mestu uppurnar og er það engin furða. Þau pólitísku skrif sem hér er að finna eru skelfing ómarkviss og snúast oft um það eitt að komast sæmilega að orði.
Margrét Tryggvadóttir skammast sín fyrir að vera þingmaður og Styrmir Gunnarsson leggur til að þingmenn fari á námskeið í mannasiðum. Það er alveg rétt að virðing almennings fyrir Alþingi Íslendinga hefur farið þverrandi að undanförnu. Ástæður fyrir þvi eru vafalaust margar. Ein sú veigamesta held ég að sé sú fjölmiðlun sem stunduð er. Bloggarar, vörp öll, dagblöð, vefmiðlar og allir sem nokkurt tækifæri hafa til, gagnrýna þingmenn mjög.
Oft er það með réttu og ummæli þeirra í ræðustól alþingis er alltaf hægt að sannreyna. Hvað þeir segja í nefndum og hvernig þeir starfa þar er minna rætt. Eflaust er ekki hægt að snúa aftur með beinar útsendingar frá fundum þingsins en greinilega eru fundarsköpin þar ekki nógu góð. Ég efast ekkert um að þingmennirnir eru nægilega gáfaðir fyrir okkur og álitið á störfum alþingis hygg ég að megi laga með bættum fundarsköpum og betri fundarstjórn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2011 | 21:07
1476 - Ólafi bölvað og ragnað - eða þannig
Mér gengur ekkert að hætta að blogga. Jú, ég er hættur að blogga rétt eftir miðnætti. Nú er ég venjulega farinn að sofa um það leyti. (sko Gróa á Leiti var svo einföld að það má hafa einfalt i þar að öðru leyti er upsilon það rétta.)
Þegar ég skrifa blogghugleiðingar mínar hef ég ímyndaða lesendur oftast í huga. Mér finnst ég þekkja þá betur sem láta öðru hvoru í sér heyra, hvort sem það er á fésbókinni, í pósti, kjötheimum, athugasemdum við bloggið mitt eða öðruvísi. Jafnvel þó ég reikni með því að allir sem ég hef heyrt í lesi bloggið mitt reglulega eru samt fleiri sem lesa.
Ég reyni einnig að taka tillit til þeirra, en auðvitað eru það fyrst og fremst mínar eigin hugsanir sem hér komast á blað. Stundum eru þær ekki nærri nógu vel ígrundaðar og við því er ekkert að gera. Mér finnst umhendis að sanka að mér staðreyndum um öll þau mál sem ég hef áhuga á svo oftast nær eru hugleiðingar mínar lausar við þær. Þær má oftast gúgla og það reyni ég að gera ef ég get. Sérfræðingur í gúgli er ég þó ekki.
Talsverður tölvutími fer líka flesta daga í það að ákveða leiki í bréfskákunum mínum. Úrslitin í þeim tek ég þó lyfirleitt ekki mjög alvarlega. Maður veit líka aldrei hve mikið andstæðingarnir leggja upp úr úrslitunum.
Þó mikið gangi á þessa dagana útaf Jóni Bjarnasyni hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Össur Skarphéðinsson sé helsta vandamál þessarar ríkisstjórnar (og Samfylkingarinnar), að svo miklu leyti sem hægt er að hengja þann stimpil á einstaka menn. Nú er ég að komast á þá skoðun að Ólafur Ragnar Grímsson sé mesta vandamálið. Samt kaus ég hann og fagnaði því að forsetaembættið væri væntanlega gert pólitískara með því en áður hafði verið.
Á sínum tíma kaus ég líka Vigdísi og hennar sýn á embættið var talsvert önnur en Ólafs Ragnars. Hún lét ríkisstjórnina beinlínis kúga sig og eru mörg dæmi til um það. Samt var hún ágætur forseti. Ólafur er það líka. Hann þarf bara að huga betur að því hvaða áhrif hann hefur á hugsunarhátt annarra. Íslenskir stjórnarhættir eru mörgum mikil ráðgáta. Í staðinn fyrir að útskýra þá virðist ÓRG hugsa of mikið um eigin hag og í hvaða ljósi útlendingar sjá hann sjálfan.
Mesti leyndardómurinn varðandi forsetakjörið næsta vor er hvort Ólafur Ragnar gefur kost á sér einu sinni enn. Það hefur örugglega áhrif á það hverjir verða í framboði. Alls ekki er víst að allir treysti sér í þá hakkavél sem almenn umræða er að verða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2011 | 21:51
1475 - "Bölvaður kötturinn étur allt"
Sennilega þykir sumum sem þetta blogg mitt lesa, að það sem ég skrifa um stjórnmál sé heldur grunnfærið. Það getur vel verið rétt, en ég er þeirrar skoðunar að betra sé að segja eitthvað en ekkert. Þau vandræði sem steðja að mörgum nú í kjölfar hrunsins umtalaða eru þannig vaxin að margir þegja og kjósa að tala ekki um þau. Kosningar og skoðanakannanir eru samt það sem mest er mark takandi á og verður að taka mark á.
Þeir sem hæst hafa um glæpamennsku ríka fólksins og erfiðleika heimilanna vilja margir hverjir beinlínis byltingu. Auðvitað ráða peningar og auður í öllu formi mestu og þannig hefur það alltaf verið. Þannig mun það halda áfram að vera í því kerfi sem við höfum kosið að lifa í. Samtakamáttur þeirra snauðu er samt mikilvægur. Byltingu er ég hræddur við. Hún étur venjulega börnin sín og borgarastyrjöld er það ógeðslegasta fyrirbæri sem hægt er að hugsa sér.
Bölvaður kötturinn étur allt, er frægt tilsvar úr sögunni um Bakkabræður. Nenni ekki að endursegja söguna hér, en læt nægja að geta þess að bræðurnir losuðu sig við köttinn. Sjálfum finnst mér að helvítis fésbókin gíni yfir öllu, og er skíthræddur við hana. Þegar ekki verður lengur hægt að gera athugasemdir hér á sjálfu Moggablogginu nema í gegnum fésbókina þá er ég hættur. (Þ.e.a.s hættur að athugasemdast þar hugsanlega held ég áfram að blogga.)
Mörgum finnst Villi í Köben vera öfgafullur í stjórnmálaskoðunum. Mér finnst hann þó yfirleitt skemmtilegur, en því er ekki að neita að oft er hann ansi orðmargur um málefni sem hann þykist hafa mikið vit á. Þau eru líka ansi mörg. Ef hann lumar ekki á einhverjum staðreyndum um málið þá býr hann þær bara til.
Í Ísrael er tryggt fullt jafnrétti allra íbúa í stjórnmálum og þjóðfélagsstöðu án tillits til trúarskoðana, kynþáttar eða kynferðis.
Fullyrti Villi í athugasemd hjá Hjálmtý Heiðdal um daginn, en flýtti sér svo að fara að tala um eitthvað annað í þeirri von að fáir tækju eftir þessu. Þetta er nefnilega engan vegin hægt að standa við. Það vita allir og Villi jafnvel líka.
Nú er til siðs að segja allt ómögulegt, ömurlegt og afleitt í Kína. Svipað var sagt um Japan fyrir áratugum síðan. Stjórnarfarið í Japan á þeim tíma var þannig að bandaríkjamenn réðu þar því sem þeir vildu ráða. Í Kína er stjórnarfarið þannig núna að kommúnistaflokkurinn ræður öllu. Lítill sem enginn munur semsagt.
Verðtrygginguna er hægt að leggja af á einni nóttu segir Jón Atli Kristjánsson á sínu bloggi. Eflaust er það rétt hjá honum. Gallinn er bara sá að það meina ekki allir nákvæmlega það sama þegar þeir eru að tala um verðtryggingu. Afleiðingarnar sjá menn líka í því ljósi sem þeim líst best á. Þannig er það bara og þó einhverjir vilji athuga sinn gang er alltaf auðveldast að telja fólki trú um að hlutirnir séu annaðhvort hvítir eða svartir.
Já, ég á svosem afmæli í dag (næstum orðinn sjötugur) og er búinn að fá mikinn fjölda af hamingjuóskum á fésbókinni af því tilefni. Hef reynt að svara þeim flestum, en finnst eiginlega betra að fylgjast með því hvað ég segi hér á Moggablogginu. Skil ekki fésbókina eins vel.
Jóhanna Magnúsdóttir hin kristilega Moggabloggsvinkona mín héðan af blogginu hefur að eigin sögn ákveðið að fara í forsetaframboð. Jóhanna minnir mig endilega að hafi verið aðstoðarskólastjóri við Menntaskólann hraðbraut, en hætt þar og bent á ýmsar misfellur í stjórn skólameistarans. Finn ekkert um hana á fésbókinni samt.
Hef líka heyrt að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hafi hug á forsetaframboði. Hugsanlegt er einnig að Ólafur Ragnar fari fram einu sinni enn næsta vor. Sagt er þó að hann og Dorritt hafi verið að kaupa sér hús um daginn.
Framboð þeirra Jóhönnu og Steinunnar eru e.t.v. einhvers konar grínframboð en þó finnst mér bíræfni að afskrifa þær með öllu. Fari Ólafur fram einu sinni enn er þó afar vafasamt að þær sigri hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.9.2011 | 08:04
1474 - Kæling, öfgar og Davíð Oddsson
Veðurstofan íslenska spáir ekki fyrir um kælingu (wind chill). Fyrir göngumann á Íslandi sem vill nýta sér þjónustu veðurstofunnar skiptir slík spá samt hvað mestu máli. Hana má reikna út þó sá útreikningur sé oft lítt fræðilegur og henti bara á ákveðnum sviðum. Þar skiptir máli bæði hitastig, raki, vindstyrkur og e.t.v. fleira. Einhverntíma heyrði ég þetta útskýrt þannig að kælingin skipti aðeins máli vegna þess að líkaminn leitaðist alltaf við að hafa ákveðinn hita á húðinni. Bílvél aftur á móti væri alveg sama hver kælingin væri. Þar skipti hitastigið eitt máli.
Af hverju ertu eiginlega að lesa þetta bull. Það er enginn sem neyðir þig til þess. Sennilega væri vissara fyrir þig að gera það ekki. Ég get ekki gert að því þó þú sért að lesa þetta. Þó mér þyki gaman að skrifa þá er ekki þar með sagt að þú þurfir að lesa þetta. Eiginlega ættir þú að hætta með öllu að lesa blogg. Alveg eins og ég ætti auðvitað að hætta að skrifa svona mikið. Það er engum hollt að skrifa endalaust og fá ekkert borgað fyrir það og borga heldur ekkert sjálfur.
Mér þykir sem öfgasinnaðir hægri og vinstri menn, aðgerðasinnar af öllu tagi o.s.frv. hafi sameinast í andstöðu við ríkisstjórnina. (Ásamt hefðbundinni stjórnarandstöðu að sjáfsögðu.) Það getur vel verið að margt sé athugavert við það sem hún hefur gert en engin von er til þess að nægilega margir andstæðingar hennar komi sér saman um eitthvað skárra. Þessvegna er kannski best að styðja bara ríkisstjórnina. Hrannar Baldursson segir á sínu bloggi að helsti styrkleiki illskunnar (held að hann sé að tala um ríkisstjórnina) felist í því hversu erfitt sé að trúa á tilvist hennar. Ég trúi því samt að núverandi ríkisstjórn sé til og sé skárri kostur en flest annað sem í boði er. Sé heldur ekki ill í eðli sínu.
Ein leið til þess að sjá hvern mann einstaklingar á fésbókinni hafa að geyma er að sjá hverjir eru fésbókarvinirnir. Þannig athugaði ég Pál Ásgeir Ásgeirsson og þóttist komast að raun um að hann væri óttalega snobbaður. Svo fór ég að skoða mína eigin fésbókarvini og sá að auðvelt var að komast að sömu niðurstöðu um mig.
Sagan endurtekur sig. Verið er að reyna að setja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í sömu aðstöðu og Davíð Oddsson var í þegar hann ákvað að láta til skarar skríða gegn Þorsteini Pálssyni. Sjálfstæðismenn virðast vilja sterkan leiðtoga og margir þeirra sjá hann í Hönnu Birnu. Það getur verið rétt og það getur verið rangt. Fyrir flokkinn held ég að það hafi verið rétt af landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma að kjósa Davíð Oddsson en eflaust má deila um hversu farsælt það hefur reynst þjóðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2011 | 06:09
1473 - Tjáningarfrelsi og nafnleynd
Um þetta tvennt hef ég margt að segja. Sumir fara alltaf eftir fyrirsögnunum þegar þeir velja hvaða blogg þeir eigi að lesa. Hvorttveggja er nauðsynlegt, tjáningarfrelsið og nafnleyndin, en hvorttveggja er líka oft misnotað herfilega.
Í gær sendi Gísli málbein http://malbeinid.wordpress.com/ mig á bloggspottið http://vegidurlaunsatri.blogspot.com/ og þar var margt að finna. Veit ekki hver vegur þar úr launsátri en ég las það sem þar var skrifað um Tjáningarfrelsi með ábyrgð og líka manifestóið sem hún vísaði í.
Um margt er ég sammála þeirri sem þar heldur á penna, en ekki allt. Það eru margir sem hafa mikinn áhuga á þessum málum og sá áhugi hefur aukist eftir að allir geta orðið tjáð sig næstum hvar sem er og um hvað sem er. Hverjir lesa og verða fyrir áhrifum er svo alltaf spursmál og engin leið að vita.
Mér virðist að gríðarlega margir lesi og skoði fésbókina og athugasemdir á vefmiðlunum, en ekki get ég sagt að það sé fróðlegur lestur. Þar virðist vera mest tekið eftir þeim sem hæst hafa og hver og einn reynir að yfirgnæfa annan. Margir hafa stöðugt horn í síðu nafnleysingja, en mér finnst þeir nauðsynlegir. Það er líka hægur vandi að svindla á kerfum sem eiga að koma í veg fyrir nafnlausar athugasemdir og þessháttar.
Allan fjandann er oft reynt að réttlæta með tjáningarfrelsi. Klassíska spuringin þar er hvort leyfa eigi hverjum sem er átölulaust að hrópa eldur í troðfullu kvikmyndahúsi. Auglýsingar hafa ekkert endilega neitt með málfrelsi að gera. Peningar geta samt ruglað alla.
Fyrr en varir er oftast farið að deila um stjórnmál ef talað er um nafnleynd og tjáningarfrelsi. Norski öfgamaðurinn hefur sennilega, auk þess að drepa allmarga, unnið hægrisinnum mikið tjón því þeir voru langt komnir með að telja (auðtrúa) fólki trú um að það væru bara vinstrisinnaðir öfgamenn og al-kvæda skæruliðar sem dræpu fólk.
Margt fleira væri hægt að segja um þessi mál en ég er að æfa mig í að vera ekki of langorður. Líka held ég að fleiri lesi það sem stutt er en langt.
En kannski ég segi nokkur orð um annað fyrst ég er byrjaður að blogga.
Gallinn við skoðanakannanir er að ekki er hægt að stjórna eftir þeim. Niðurstöðurnar eru líka ansi breytilegar og óvissan mikil. Greinilegt er að núverandi ríkisstjórn er töluvert óvinsæl. Kannski hún hækki samt aðeins í áliti ef Jóhanna forsætis lætur verða af því að rassskella Ólaf Ragnar. Hún er búinn að máta nokkuð marga við ráðherrastóla. Sumir fara í fýlu þegar þeim er hafnað og sumir reyna að spilla fyrir. Jón Bjarnason hafði með sér lím og nú er ómögulegt að koma honum úr ráðherrastólnum.
Við Siglufjörð.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2011 | 09:30
1472 - Fésbókin einu sinni enn
Mér leiðist frekjan í fésbókinni. Allt vill hún vita og allt gera sem flóknast. Fáir held ég að viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera þarna. En meðan einhverjir fara þangað og skrifa eitthvað er eitthvað að lesa. Auðvitað er það kostur. Samskipti eru þetta, ekki er hægt að neita því. Það eru bara svo margir að flækjast þarna að lítill er friðurinn. Auðvitað er hægt að stjórna því hvað maður sér mikið og hvað aðrir sjá um mann sjálfan (vonandi). Flestir vilja samt sjá sem mest og finnst þeir þurfa að vera þarna. Kannski fer þeim fjölgandi sem eru að gefast upp á þessari vitleysu. En hvað tekur þá við?
Bókmenntasnobbið í Agli Helgasyni er yfirgengilegt. Útlendingadekrið líka. Hann virðist halda að enginn viti neitt ef svo illa vill til að hann sé Íslendingur. Í síðasta þætti fengu Íslendingarnir náðarsamlegast að lesa upp kynningar á hinum almáttugu útlendingum. Palli og Kolla fengu þó að vera memm og ekki var mikill tími í fliss og flírulæti. Kiljan er samt með albestu þáttum sjónvarpsins og tekur langt fram ameríska léttmetinu sem oftast tröllríður öllu þar.
Auðlindir Íslands munu mala gull í vasa erlendra auðkýfinga og þeirra íslensku kvislinga sem seldu landið undan þjóðinni, en landsmenn verða á ný leiguliðar í eigin landi, roðhundar og þrælar í sjálfsköpuðum hlekkjum þrælakistu auðvaldsins.
Þetta eru lokaorð Írisar Erlingsdóttur í grein sem hún skrifaði í DV. Þeim sem vanir eru að hafa allt á hornum sér hættir til að vera alltof stórorðir. Virðast halda að því lengra sem gengið er í gífuryrðum og uppnefningum því betri og áhrifaríkari sé greinin. Íris hefur heilmikla þekkingu á því sem hún skrifar oftast um og hefur þar að auki dvalið alllengi meðal útlendinga en virðist samt halda það sama.
Mér finnst ekki að mér beri nein skylda til að hafa skoðanir á öllu því sem rifist er um í fréttum eða skrifa um það. Þó alþingi hafi ekki úr háum söðli að detta finnst mér það setja niður þegar rifist er um það heilu dagana hvað standi í Morgunblaðinu og hvort eitthvað sé að marka það. Það getur vel verið að svo sé en ég lít nú samt á þetta sem enn eina tilraunina til að koma stjórninni frá. Hingað til hafa þær allar mistekist og svo mun líklega verða enn um hríð.
Ekki er ég þó viss um að stjórnin sitji út kjörtímabilið og ræður þar mestu hve ósamstíga stjórnarflokkarnir eru um ESB-málið. Langlíklegast er að kosningar verði á næsta ári. Í mínum huga er mesta spurningin hvort það verður fyrir eða eftir ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig er mjög forvitnilegt að vita hvaða meðferð stjórnarskrártillögurnar frá stjórnlagaráði fá hjá Alþingi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.9.2011 | 12:15
1471 - Speki, eða ekki
Það er engin von til þess að maður geti fært í letur allar sínar hugsanir. Heldur ekki minningar. Margar þeirra eru alltof óljósar til þess. Margar minningar eru þannig að heilinn hefur numið þær án þess að hafa nokkra hugmynd um hversvegna hann gerir það eða um hvað þær snúast. Þegar best lætur minna lítt notuð skynfæri á einhverja óljósa minningu um fyrri hræringar sama skynfæris. Sumar minningar eru jafnvel meðfæddar.
Það er vissulega hægt að ná einhverri æfingu í að tjá sig með tali, bókstöfum, myndum eða á annan hátt og jafnvel að gera það fremur vel. En að lýsa fyrir öðrum hugsunum og minningum sem eru svo óljósar að ómögulegt er að festa hendur á þeim er auðvitað ekki hægt.
Flaum kynslóðanna í gegnum tímann og söguna er aðeins hægt að ímynda sér. Það er samt e.t.v. elsta og helsta minningin hjá flestum okkar og sú sem mestu máli skiptir. Hvað gerist þegar lífinu lýkur er sá mikli leyndardómur sem flest trúarbrögð byggjast á. Þennan leyndardóm fá allir að reyna og allir leysa hann á endanum, en samt er það svo að mennina bæði lífs og liðna bindur saman einhver dularfullur þráður, sem ekki er víst að slitni við dauðann.
Ef til vill er sá þráður á einhvern undarlegan hátt tengdur kynslóðunum sem koma og fara og leiða mannkynið áfram. Kannski í átt til tortímingar og kannski í átt til fullkomnunar. Orðamergð um þessi mál er ekki til neins. Hver og einn verður að finna sinn innri mann og rækta hann fremur en þann ytri sem snýr að veröldinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2011 | 14:09
1470 - Undirskriftasöfnun um ekkert
Heimspeki og sagnfræði eru þær vísindagreinar sem heilla mig mest. Einhvern vegin hefur mér ekki tekist að öðlast mikinn áhuga á ættfræði þrátt fyrir að ég hafi aldur til. Í umræðum um stjórnmál dagsins er t.d. oft gagnlegt að hafa svolítið inngrip í ættfræði. Þannig er oft auðveldara að rekja hagsmunaþræði íslensks samfélags. Gúgli (Google.com) getur þó komið þar til hjálpar eins og víða annars staðar.
Í mínum huga er lítill vafi á því að ættar- og fjölskyldutengsl ráða yfirleitt meiru í íslenskri stjórnun og stjórnmálum en góðu hófi gegnir. Þetta finna þeir vel sem hingað flytjast og hafa engin tengsl við valdastéttina. Sumir innfæddir hafa heldur ekki þau tengsl sem þarf eða vilja ekki nota þau. Meðal annars af þessari ástæðu er ég fylgjandi því að stjórnunarleg áhrif ættarveldisins íslenska minnki.
Það væri auðvitað mikil einföldun að halda því fram að stuðningur minn við aðild að ESB stafi af þessu aðallega. Það dregur þó ekki úr. Aðrir kostir aðildar eru svo augljósir að um þá er óþarft að fjölyrða.
Ókostir eru vitanlega einhverjir og andstæðingar aðildar hafa kosið að einblína á þá. Hinsvegar eru þeir (andstæðingarnir), af augljósum ástæðum hræddir um að sú andstaða, sem mælist um þessar mundir í skoðanakönnunum, endist ekki lengi. Þessvegna hafa þeir kosið að reyna að fylgjast með tímanum og efna til undirskriftasöfnunar á netinu um að draga umsóknina til baka eða leggja hana til hliðar ótímabundið.
Þeir gera sér nefnilega vonir um að ná meirihluta í næstu alþingiskosningum. Vel getur auðvitað verið að þeim takist það. Líka getur vel hugsast að inngöngubeiðnin í ESB verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. En að ætlast til þess að inngöngubeiðnin sé afturkölluð (eða lögð til hliðar) án þess að þjóðin verði um það spurð (nema í fésbókarlegri undirskriftasöfnun á Internetinu) er beinlínis kjánalegt.
Auðvitað er látið í veðri vaka að hugmyndin sé önnur. Það á að spara fé, auka samstöðu þjóðarinnar og ýmislegt fleira. Undirtektir við þessa söfnun eru dræmar og er það engin furða. Hún virðist þó um margt vera sæmilega undirbúin, en tvítekningar eru þó leyfðar og ekki er hægt að sjá hverjir hafa skrifað undir þó annað sé gefið í skyn í skrifum um söfnunina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)