1485 - Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs

Sú kreppa sem e.t.v. er að skella á Evrópu og Bandaríkjunum og jafnvel fjármálakerfi Vesturlanda allt er tilkomin vegna græðgi og yfirgangs stjórnvalda. Ríkisstjórnir þriðja heimsins hafa reynt að sitja og standa eins og þeim hefur verið sagt og allur mótþrói er barinn niður með harðri hendi. Hagvöxturinn og peningarnir er það sem öllu ræður. Því meira, því betra. Einhvern tíma hlýtur þessari vitleysu að ljúka.  

Í fjölmiðlum öllum er mikð fjasað um kreppur, peningamál og allskyns óáran. Reynt að láta líta svo út að íþróttir og annar óþarfi skipti öllu máli og hamast er við að draga athygli manna að einhverju slíku.

Mikið er fabúlerað og fjargviðrast útaf „ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs“. Mér fannst vatnaskil verða í því máli þegar Rabin og Arafat gerðu samkomulagið forðum daga undir handleiðslu Clintons Bandaríkjaforseta. (Minnir að það hafi verið á afmælisdaginn minn árið 1993 sem skrifað var undir það samkomulag.)

Nú eru þeir báðir dauðir Rabin og Arafat og kannski verður umsókn Palestínuaraba um inngöngu í Sameinuðu Þjóðirnar ný vatnaskil í málum þarna. Palestínumenn virðast hafa unnið áróðursstríðið og Ísraelar tapað því, þrátt fyrir stuðning Bandaríkjamanna. Að Obama skuli ekki hafa getað komið í veg fyrir að þetta færi svona sýnir afturför og aumingjaskap Bandaríkjanna á stjórnmálasviðinu. Nú neyðast þeir til að beita neitunarvaldinu og verða óvinsælli fyrir vikið.

Er ekki einfaldlega komið að því sem nefnt hefur verið „Untergang des abendlandes“? Það er ekki heimsendir þó fjármálakerfi Vesturlanda líði undir lok. Mér finnst margt benda til þess að forysta og yfirgangur Vesturlanda sé að komast að endamörkum. Hlutverk okkar Íslendinga í þeim risaátökum sem e.t.v. eru í vændum verður ekki mikið. Þó getur það orðið eitthvað. 

Sumar auglýsingar (jafnvel flestar) á fésbókinni búa sjálfkrafa til nýjar tengingar á tölvuna hjá manni. Mér er illa við þessháttar og loka reglulega öllum mínum tengingum. Ég vil gjarnan sjá hverjum ég er tengdur og geta hoppað þangað fyrirvaralaust. Mér finnst fésbókarfjárinn alltaf reyna að eyðileggja þann möguleika.

Jú, það er alveg rétt. Ég geri fátt annað en að fjandskapast útí fésbókina. Ekki taka mark á því, þetta er bara venjulegt tuð.

Hermt er að margir séu svo spenntir fyrir fésbókinni að þeir vakni nokkru fyrr en venjlega til að missa af sem fæstum kjaftasögum. Mikið er víst smjattað og vei-að fyrir framan tölvuskjáina á morgnana því margir byrja á að fara þangað. Lestrarefnið er í raun æðislegt þessa dagana bara ef maður kynni að sortera það almennilega.

Allir sem skrifa opinberlega (bloggarar líka) taka þá áhættu að hafa rangt fyrir sér og heimska sig a.m.k. öðru hvoru. Er þá ekki best að halda sér bara saman? Jú, enda gera það flestir.

Sumir segja það samsæri andskotans að reyna að koma DV á hliðina með dómsmálum í löngum bunum. Víst er að mörgum þykir hlýða að fara í mál við miðilinn. En er ekki DV eini daglegi fjölmiðillinn sem reynir að stinga á þeim augljósu kýlum sem kvelja íslensku þjóðina? Vissulega eiga margir um sárt að binda vegna umfjöllunar þeirra og oft er hún skelfilega barnaleg og fáfengileg. Kannski er þetta samt sannleikurinn.

IMG 6617Blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það yrði lítill skaði þó þessi fjárans fésbók dagaði uppi í næstu sólaruppkomu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 25.9.2011 kl. 22:32

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, það yrðu alveg ótrúlega margir í öngum sínum!!

Sæmundur Bjarnason, 26.9.2011 kl. 06:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband