1561 - Stóra Vantrúarmálið

Scan35Gamla myndin.
Helga í Holti og Júlíana.

Verð að viðurkenna að „stóra Vantrúarmálið“ hefur hingað til að mestu farið framhjá mér. Þó hef ég orðið svolítið var við illt umtal um félagsskapinn Vantrú bæði á fésbók og annarsstaðar.

Tók mig því til í gærkvöldi og las á blogginu greinargerð Helga Ingólfssonar um málið og ógnarlangan svarhala við hana. Þrátt fyrir lengdina er sá svarhali mestan part mjög áhugaverður og þar með ólíkur þeim langa svarhala sem ég fékk fyrir nokkru við blogg-grein mína sem ég nefndi „Síonistann í Kaupmannahöfn.“ Horfði líka um daginn á viðtal við Bjarna Randver háskólakennara í Kastljósinu um þetta allt saman en skildi því miður lítið í því og fannst stjórnandinn hafa sífelldar áhyggjur af því að Bjarni væri of langorður.

Vel er hugsanlegt að einhverjir sem þetta lesa séu eins fáfróðir um þetta stórmál og ég var þangað til í ég las grein Helga og svarhalann. Þessvegna ætla ég að reyna að endursegja með mínum orðum um hvað þetta mál snýst alltsaman. Auðvitað er sú endursögn mjög lituð af mínum skoðunum og hugsanlega alls ekki rétt.

Vantrúarmenn virðast hafa verið óánægðir með umfjöllun háskólakennarans Bjarna Randvers um félagsskapinn við kennslu í guðfræðideild Háskóla Íslands og kært Bjarna til siðanefndar háskólans. Það er ekki óeðlilegt, þó auðvitað hefði mátt láta óánægju sína öðruvísi í ljós. Mál þetta hefur að því er virðist grasserað lengi í háskólasamfélaginu og rannsóknarnefnd verið skipuð á vegum Háskólans til að rannsaka þetta yfirgripsmikla mál.

Umfjöllun um það virðist hafa verið mikil og m.a. í greinum í Morgunblaðinu. Það blað les ég aldrei og hef því misst af þeim greinum. Svo virðist sem bæði Helgi Ingólfsson rithöfundur og Harpa Hreinsdóttir og hugsanlega fleiri hafi látið þetta mál hafa svo mikil og sterk áhrif á sig að þau hafa að eigin sögn látið skrá sig að nýju í þjóðkirkjuna. Lengra er varla hægt að ganga.

Yfirlýsing um málið er birt í mörgum fjölmiðlum í dag og safnað undir hana ótal undirskriftum. Ekki get ég séð að þessi yfirlýsing skýri margt. Finnst gagnrýnin þó einkum beinast að siðanefndinni en í minna mæli að Vantrú. Sé ekki betur en þetta mál sé á leiðinni úr öllu samhengi við allt.

Það er vandlifað fyrir bloggara í veröldinni. Fyrir ekki mjög löngu fóru margir bloggarar í flæmingi miklum frá Moggablogginu því Davíð Oddsson gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Allmargir þeirra fluttu sig yfir á Eyjuna. Nú er víst ekki almennilega líft þar lengur, en hvert á að fara?

Forsetakosningar eru miklu skemmtilegri en alþingiskosningar. Prestskosningar voru samt skemmtilegastar. Nema kannski fyrir prestana sjálfa. Ástæðan var sú að þar ríkja persónurnar einar. Málefnin skipta engu máli. Það t.d. hvort viðkomandi drekkur eða ekki, hvort hann hefur haldið framhjá konunni sinni eða ekki, eru fullkomlega gild umræðuefni.

Persónuleg reynsla mín af prestskosningum er samt afar lítil. Þorbjörn Hlynur, bróðir Árna Páls man ég þó að hafi komið í heimsókn til mín eitt sinn í Borgarnesi útaf þvílíkum kosningum.

Forsetakosningum man ég samt eftir allmörgum. Fyrst ber þá auðvitað að telja baráttuna á milli séra Bjarna og Ásgeirs Ásgeirssonar. Ég hafði auðvitað ekki kosningarétt þá en man eftir að hafa oft séð Ásgeir og forsetabílinn sjálfan sem ekki var síður merkilegur og einkum þó númerið á honum. Ásgeir var bróðir Ragnars á Helgafelli í Hveragerði og kom oft í heimsókn til hans.

Gunnar Thoroddsen, tengdasonur Ásgeirs ætlaði að sjálfsögðu að taka við af honum. Það var bara óvart Kristján Eldjárn þjóðminjavörður sem kom í veg fyrir það. Auðvitað kaus ég Kristján og man vel eftir fundi sem stuðningsmenn hans héldu í Laugardalshöll og var svo fjölsóttur að margir þurftu að standa úti og hlusta á ræðuhöldin þar. Þar á meðal ég. Man að ég stóð nærri suðvesturhorni hallarinnar.

Svo var það Vigdís. Ég kaus hana líka og talaði meira að segja fyrir hönd Borgnesinga á fundi sem stuðningsmenn hennar héldu í Samkomuhúsinu í Borgarnesi.

Einnig kaus ég Ólaf Ragnar á sínum tíma. M.a. vegna þess að Pétur Hafstein sem var hans helsti keppinautur var óþægilega hallur undir Davíð Oddsson og taldi sig þurfa leyfi hans til að bjóða sig fram. Þannig var fundur þeirra a.m.k. túlkaður af mörgum.

IMG 7441Fossvogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bendi bara á rökstudda grein http://www.vantru.is/2011/12/14/15.30/. Róar mig allaveganna.  Man vel eftir kosningabaráttu séra Bjarna. Afi var kosningarstjóri Bjarna, í Héðinshúsinu. Var notaður þar.  Ég var nokkuð röskur hlaupari. á þessum árum. Kynntist Ásgeiri síðar,  í gömlu sundlaugunum. Hann kom þar hvern dag, á Packardinum.  Talaði ljúfmannlega við okkur strákana, í sturtunni. Þorbjörn Hlyn hef ég aðeins hitt á Hvidt vinstue.

Ólafur Sveinsson 14.12.2011 kl. 17:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur. Las Vantrúargreinina sem þú bentir en gafst upp við svarhalann. Les yfirleitt ekki mikið vefsetrið hjá Vantrú en þó kemur það fyrir.

Já, þetta með forsetana er merkilegt. Hitti einu sinni Björn son Sveins Björnssonar en man ekki eftir að hafa séð hann sjálfan. Man eftir barnum í Khöfn sem þú talar um en held að ég hafi aldrei farið þangað inn.

Sæmundur Bjarnason, 14.12.2011 kl. 20:41

3 identicon

Las ekki svarhalann. Ekki þess virði.  Packardinn sem Ásgeir kom á í laugarnar var ekki sá sem var gerður upp fyrir metfé. Heldur 1950 árgerðin.

Við hjónin hittum Þorbjörn Hlyn 2 daga í röð, í Hvidts vinstue. Kom í ljós að við komum í sömu erindargjörðum. Að "horfa" á leik í HM, í fótbolta.

Ólafur Sveinsson 14.12.2011 kl. 22:36

4 identicon

'Eg þekkti dóttur Björns. Afbragðs kona. Gift Tryggva Þorsteinssyni, yfirlækni, Þorsteins prófast í Vatnsfirði. Björn varð óhappamaður. Ekkert fleira að segja á þessar opnu síðu.
Pabbi sýndi mér á götu enn verri mann á götu í Reykjavík Ólaf (Rinnanbanden/uppljóstrarar fyrir SS) Kynnti mér mál hanns þegar ég var við nám í Noregi 1966-1969.   Ljóti skúrkurinn. Bekkjabræður mínir (1966) þóttu mörg mál illa meðleikin, þ.s. feður þeirra voru drepnir í umvörpum af SS og Rinnanbandinu. Þekktu allir Rinnan og Ólaf) Þú sér að að eins voru liðin 10 ár frá atburðunum.  Fyrir krakka er þetta örskot.  Uppi á Fana fjalli, úti við Hernar og allan Öygården voru menn teknir af lífi án dóms og laga. . Fjöldamorðin við Þrælavík á Sotra. Rinnan og Ólafur störfuðu þó mest í Þrændalögum.

Ólafur Sveinsson 15.12.2011 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband