Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

1555 - Dómur um dóm

Scan229Gamla myndin.
Í Reykjavík.

Las áðan dóm Hörpu Hreinsdóttur um bókina Glæsi eftir Ármann Jakobsson. Minnir að sá Ármann sé tvíburabróðir Sverris og bróðir Katrínar menntamálaráðherra. Er semsagt altekinn þeim íslenska (ó)sið að ættfæra alltaf í huganum alla sem ég get. Stundum er þessi ættfærsla raunar tóm vitleysa en þá er taka því.

Dómur Hörpu er ágætur og ég hef satt að segja nokkurn áhuga á að lesa þessa bók. Hún tengir efnið við Eyrbyggju, en segir samt að á vefnum „Druslubækur og doðrantar,“ http://bokvit.blogspot.com/ sé því haldið fram að ekki sé nauðsynlegt að hafa lesið Eyrbyggju til að njóta bókarinnar.

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að bestu Íslendingasögurnar séu Njála, Laxdæla og Eyrbyggja. Hef satt að segja aldrei kunnað almennilega að meta Egils sögu og Grettlu. Aðrar Íslendingasögur en þessar fimm finnst mér standa þeim að baki. Fóstbræðra saga og Gísla saga Súrssonar eru þó ágætar og Hrafnkötlu hef ég alltaf litið á sem smásögu og talsvert sér á parti.

Hef lesið báðar bækurnar sem Einar Kárason hefur skrifað um efni úr Sturlungu og líkar ágætlega við þær. Kannski hentar efni af þessum toga mér vel. Er þó yfirleitt heldur andvígur skáldsögum. Hefur sjálfum dottið í hug að gott efni í sögu væri drápið á Jóni Gerrekssyni árið 1433, sem ég veit að hefur e.t.v. verið fjallað um á þann hátt fyrir löngu. Til er a.m.k. skáldsaga með nafni hans eftir Jón Björnsson, sem gefin var út árið 1947.

Í mínum augum er Sturlunga sagnfræðirit en Íslendingasögurnar sögulegar skáldsögur sem stundum eru vel heppnaðar en stundum miður. Íslendingaþættir örsögur eða stundum smásögur og Fornaldarsögur Norðurlanda skemmtisögur og krimmar þess tíma ásamt Riddarasögum o.þ.h.

Les stundum innlegg og athugasemdir á druslubókum og doðröntum (sjá link ofar) og sá þar um daginn skemmtilega grein og athugasemdir um les-stellingar í rúminu. Þetta er verulega spennandi rannsóknarefni og sömuleiðis hundseyru, bókarmerki og ýmislegt í þeim dúr. Verst hvað þetta er yfirgripsmikið efni.

Ef ég á að tala fyrir sjálfan mig get ég helst ekki lesið í rúminu nema upp við dogg og með bókina á bringunni. Get líka helst ekki farið að sofa nema lesa svolítið fyrst. Hundseyru set ég yfirleitt hikstalaust á bókasafnsbækur en viðurkenni að það er misþyrming á þeim. Sömuleiðis að leggja þær frá sér á grúfu. Það beinlínis getur brotið kjölinn á þeim. Skömminni skárra er að leggja þær frá sér upp í loft, en þá er hætta á að blöðin fari á fleygiferð hvort sem er, nema sett hafi verið brot í blaðsíðuna við kjölinn sem líka er misþyrming.

Best er auðvitað að nota bókarmerki og auðvitða má nota hvað sem er við slíkt. Þegar lesið er í rúminu er efni sem hægt er að nota sem bókarmerki sjaldnast við hendina. Fangaráðið hjá mér er þá oft að reyna að leggja blaðsíðutalið á minnið. Það gefst misjafnlega.

Hef nokkrar áhyggjur af því að ég bloggi fullmikið. Reyni samt ævinlega að hafa bloggin mín eins stutt og mér er mögulegt. Að blogga daglega eða uppundir það er bara orðið mér svo eðlilegt að ég get ómögulega hætt því.

IMG 7289Ekki veit ég hvert greinarnar á þessu tré hafa farið.


1554 - Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt

Scan228Gamla myndin.
Í Lækjargötu.

Einu sinni þegar ég var ungur, eða a.m.k. talsvert yngri en núna, datt mér jafnvel í hug að Styrmir Gunnarsson Moggaritstjóri væri sonur Gunnars Benediktssonar þess alkunna kommúnista. Styrmir er allsekki svo vitlaus. T.d. er ein af örfáum bókum sem auglýstar eru nú fyrir jólin, og mig langar dálítið til að lesa, eftir hann. Hún fjallar um geðveika eiginkonu hans og eflaust margt fleira. Ég hef engan sérstakan áhuga á að kynnast stjórnmálaskoðunum hans en veit þó að hann hefur í starfi sínu haft tækifæri til að kynnast mörgum og mörgu. Fyrirsögnin er höfð eftir honum að því er ég best veit. Mikið tilvitnuð ummæli hans eru þannig:

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Þeim sem lengst eru til vinstri í stjórnmálaflórunni og skrifa gjarnan í Smuguna (sem mér skilst að VG gefi út og er ekkert síður vörumerki en sumt annað) verður oft tíðrætt um siðferði. Einkum siðferði annarra. Ekki er víst að þeir sem lítið skrifa um siðferði annarra séu neitt verr staddir siðferðislega en þeir sem það gera. Það er t.d. ekki mikill vandi að búa sér til siðferðislega strámenn og ráðast á þá. Gallinn er bara sá að þessir siðferðislegu strámenn eru yfirleitt nákvæmlega eins og siðferðispostularnir vilja hafa þá. Það þjónar yfirleitt engum tilgangi að nefna ákveðin dæmi því þá getur komið í ljós að jafnvel örgustu þrjótar og útrásarvíkingar hafi snert af siðferði. Jafnvel að þeir séu fórnarlömb aðstæðna sem þeir réðu ekki eða ráða ekki við.

Að einu leyti hafa þessir sjálfskipuðu siðferðispostular þó rétt fyrir sér. Afskiptaleysi er ekki endilega einhver dyggð. Svo er að vísu oftast nær, því ástæðan fyrir afskiptaleysinu er venjulega sú að viðkomandi er hræddur um að taka ranga ákvörðun. Í huga þess sannfærða er slík afstaða samt öruggt merki um siðferðisbrest.

Það sem lítur út fyrir að vera viðleitni hins siðferðislega gallaða einstaklings til að skara eld að eigin köku í augum postulans þarf ekki endilega að vera það. Sá sem sífellt hugsar um siðferði annarra getur sem hægast lent á villigötum með sitt eigið siðferðismat.

Nú er ég búinn að fjasa svo mikið um siðferði að ég er stórlega farinn að efast um mitt eigið. Hversvegna ætti ég aumur bloggari að vera að dæma aðra. Ég hef litlar sem engar forsendur til þess. Þekki ekki nema af afspurn þau dæmi sem skoðanamyndandi eru siðferðislega séð.

Lífeyrissjóðir landsins eiga að vera sameign þeirra sem í þeim eru og þeir eiga að kjósa stjórnir þeirra. Þetta er röksemd sem oft heyrist og ekki er hægt að mæla á móti. Sjóðirnir urðu þó til með þeim hætti að atvinnurekendur þykjast hafa heilmikið um þá að segja. Þeir virðast ekki vilja viðurkenna að greiðslur sem þeir inna af hendi í lífeyrissjóðina séu hluti launa. Á það verða þeir samt fyrr eða síðar að fallast. Um þetta hefur víða verið deilt.

Svipað er um verðtrygginguna að segja. Stjórnvöld geta bannað slíka tengingu á venjulegum húsnæðislánum frá og með deginum í dag en hugsanlega ekki afturvirkt og starfsemi Íbúðalánasjóðs mundi breytast veruleg við slíkt bann.

IMG 7279Verið að hjálpa Tinnu í „lingana“ því hún er að fara út.


1553 - Skák

Scan191Gamla myndin.
Jól á Vegamótum. Hafdís er sennilega að rétta mér vindilinn.

Enn lengist Síonista-svarhalinn. Meira að segja Jón Valur Jensson er að mestu hættur að nenna að skrifa þar og er þá mikið sagt. Nú er verið að rífast um mismunandi greinar af Gyðingdómi, sýnist mér. Ekki ætla ég samt að loka fyrir athugasemdirnar. Fæ ekki séð að skrif af þessu tagi geri nokkrum mein. En ég vara menn við að lesa þessi ósköp, þau eru ekki þess virði að mínu mati.

Svona í tilefni af því að ungu og efnilegu krakkarnir tefldu nýlega við Friðrik Ólafsson sem nú er að verða 77 ára gamall og stóðu sig bara vel, langar mig að rifja upp smábút úr skáksögunni. Í pólska bænum Slupsk var árið 1979 haldið skákmót. Ungverski stórmeistarinn Istvan Bilek, sem fæddist árið 1932 og var fyrst Ungverjalandsmeistari 1963, tefldi þar og gerði jafntefli í öllum sínum 10 skákum og var fljótur að því. Lék alls 125 leiki og notaði samtals 109 mínútur. Geri aðrir betur. Bilek tapaði reyndar á tíma fyrir Bobby Fischer árið 1962 eftir að hafa notað meira en tvo og hálfan klukkutíma á 27 leiki. Fischer notaði 2 mínútur.

Mér finnst þetta Gilzenegger-mál sem allir eru að fjasa um núna vera með öllu óáhugavert. Óþarfi var þó að hafa mynd af honum utan á símaskránni, en vonandi hefur sú auglýsing verið dýr. Helst rándýr. Umræða um nauðganir er samt ekkert óáhugaverð í sjálfu sér, en ég hef bara skoðanir á sumu. Í aðalatriðum hef ég skoðanir á því sem mér sýnist og læt það duga.

Ekki sýnist mér þörf á að vorkenna Teiti Atlasyni ef dæma má eftir nýjustu vendingum í Kögunarmálinu. Gunnlaugur virðist samt ekki vera á þeim buxunum að hætta við málshöfðunina. Hann er þegar búinn að tapa svo miklu PR-lega á þessu máli að honum finnst kannski að hann geti ekki tapað meiru þar. En ef þetta mál hefur áhrif allt fram að næstu alþingiskosningum fara peningar að hætta að skipta máli. Íslenskir dómstólar virðast ætla að reyna að hafa áhrif á þróun málfrelsis á Internetinu. Líka er hætt við því að útrásarvíkingar fái vingjarnlega meðferð hjá þeim.

IMG 7203Sjóræningi í Fossvoginum.


1552 - Kidson Jack

Scan171Gamla myndin.
Hafdís Rósa Sæmundsdóttir að koma úr langferð.

„Fréttir af könnunum Capacent á fylgi flokka eru rangar. Fylgi flokka er nærri helmingi minna í könnununum en gefið er upp í fréttum. Hinar háu fylgistölur fást með því að draga þá frá, sem ekki svara og eru óákveðnir. Þeir munu að meðaltali kjósa öðruvísi en meðaltal hinna, sem afstöðu taka.“

Segir Jónas Kristjánsson á bloggi sínu. Að þeir sem ekki gefa upp skoðun sína kjósi eins og hinir er líklegt en alls ekki öruggt.

Svarhalinn við Síonistabloggið hjá mér er alltaf að lengjast, en ég fylgist samt með honum. Í mínum huga yfirskyggir þetta mál ekki öll önnur. Skrif um fólk eru alltaf varasöm. Og að skrifa fyrir heimsóknir eða athugasemdir er líka varasamt. Oftast er engin leið að sjá fyrir viðbrögð annarra. Að einbeita sér að því að skrifa um pólitísk mál sem fjallað er um í helstu fjömiðlum landsins finnst mér of takmarkandi. Þessvegna skrifa ég um allan fjárann.

Nú er ég eins og nývaknaður kettlingur, búinn að fara í bað og alles. Það er of lummó að segja „nýsleginn túskildingur“ Veit samt ekki hvað ég á að gera við þetta kettlingshugarfar. Kannski ég fari bara út að leika mér.

Litlum sögum fer af Occupy-hreyfingunni um þessar mundir, nema hvað það er alltaf verið að handtaka fólk sem mótmælir. Sennilega er dálítið hættulegt að mótmæla of mikið. En veðrið er gott. A.m.k. svona séð útum gluggann.

Hef undanfarið verið að lesa bækur eftir Peter Kidson og Róbert Jack. Ég er ekki laus við það frekar en aðrir að hafa áhuga á því hvað útlendingar hugsa um okkur Íslendinga. Man eftir að ég tók einhverju sinni viðtal við Róbert Jack fyrir vídeófélagið í Borgarnesi. Þá var hann held ég fluttur á Vatnsnesið. Hann var ánægður með viðtalið og mest held ég að það hafi verið vegna þess að ég leyfði honum að tala um það sem hann langaði til. Það var mest um fótbolta í Skotlandi fyrir langa löngu. Eflaust áhugavert fyrir suma.

Kópavogur og Kosovo eru ekkert ákaflega ólík orð. Lítil frænka konunnar minnar kom stundum færandi hendi með ömmu sinni fyrir nokkrum árum því hún heyrði oft minnst á Kosovo í fréttum og vorkenndi okkur að eiga heima á þessum hræðilega stað.

Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn eru að undirbúa framboð í næstu alþingiskosningum að sögn Morgunblaðsins. Hugsanlega er markaðssetningin rétt hjá þeim. Alveg eða að mestu leyti á samt eftir að sjá hvernig varan er. Stjórn Besta flokksins á Reykjavíkurborg er kannski bara æfing. Það er samt ekki víst að það sama eigi við um landsmálin og borgarmálefnin. Ingibjörg Sólrún flaskaði illilega á því.

IMG 7197Þreyttir pokar og þreyttur bekkur.


1551 - Um bíla

Scan117Gamla myndin.
Systkinin Hanna Rósa Ragnarsdóttir og Ómar Ragnarsson.

Enn er haldið áfram að athugasemdast við blogg mitt númer 1549. Kann heldur illa við það en vil þó ekki loka neinu eða flæma þá í burtu sem þar deila. Það sem þar er skrifað er mér og sennilega fleirum ansi illskiljanlegt. Ekki get ég þó séð að þeir valdi mér neinum skaða með því.

Fékk nokkuð langan svarhala í gær (fyrradag) útá að minnast á síonista í fyrirsögninni. Síonistinn sjálfur, dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, lét þó ekki mikið til sín heyra en aðrir þeim mun meira. Auðvitað má segja að ég hafi verið á „svarhalaveiðum“ og það er ágætt að vita hvernig á að fara að því. Það er samt ekkert sérstakt unnið með því að hafa svarhalana sem lengsta. Það eru ákveðnir menn sem gjarnan skrifa mjög langar athugasemdir í svarhala og copypeista þá gjarnan. Mér virðist það einkum fara eftur umræðuefninu og þó einkum fyrirsögninni hve svarhalinn verður langur.

Svei mér þá ef vinsældir Moggabloggsins eru ekki að aukast aftur. Nú þarf orðið um 80 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Gæti trúað að ég væri með aktívustu og elstu mönnum hér. Um gæðin get ég lítið sagt.

Ekki veit ég af hverju mér eru bílar og akstur ofarlega í huga núna. Kynslóðaskipti eru mjög greinileg þar. Pabbi hafði t.d. ekki bílpróf og keyrði aldrei bíl. Ég hef aftur á móti keyrt bíla frá 7. september 1960 eða eitthvað lengur ef dæma skal eftir ökuskírteininu.

Einu sinni hef ég farið upp í 140 km/klst á bíl en aldrei hraðar svo ég muni. Í gamla daga var það einfaldlega vegna þess að bílarnir komust ekki eins hratt og maður vildi. Svo voru allir vegir malarvegir þá og akstur yfir 120 km/klst talsvert varasamur. Á þvottabrettum var annaðhvort að lúsast á svona 30 km/klst eða fara yfir 80 km/klst því þá flaug bíllinn oftast yfir holurnar.

Í eitt skipti man ég eftir að hafa lent á hálkubletti og flogið útaf. Var mest hissa á hve fljótt þetta var að gerast. Sem betur fór lenti ég í skafli og næsti bíll dró mig upp. Ætli ég hafi ekki svona fjórum sinnum lent í árekstrum og oft í næstum því árekstrum. Eitt slíkt tilvik er mér mun minnisstæðara en árekstrarnir því ef mér hefði ekki tekist að forðast árekstur í það skipti hefði getað farið mjög illa.

Fyrir nokkrum árum tókst mér með mikilli snilld að læsa bíllykilinn minn inni í bílnum þegar ég var að erindast niðri í bæ. Það á samt að vera nánast ómögulegt. Þar sem ég vissi af aukalykli heima ákvað ég að taka bara strætó og sækja hann. Þegar ég kom á Hlemm fór ég inn í vagn sem mér fannst líklegur til að fara í Kópavog og spurði vagnstjórnann hvort hann færi þangað. Aumingja maðurinn skildi greinilega ekki orð í íslensku en svolítið í ensku svo ég komst fljólega að því að hann hafði ekki hugmynd um hvort hann væri á leiðinni til Kópavogs eða ekki. Þó hann væri að fara af stað gaf hann mér kost á að fara inn og spyrja hvort þessi tiltekni vagn færi til Kópavogs. Svo var og þegar við komum þangað fór ég út og vagnstjórinn sagði undrandi við mig: “Is this Kópavogur?”

IMG 7193Hús og bíll.


1550 - Líkamstjáning o.fl.

Scan99Gamla myndin.
Hér stendur greinilega mikið til. Man þó ekki hvað. Myndin er örugglega tekin á Snæfellsnesi. Þekkja má á myndinni Ása á Borg, (sá hávaxni á miðri mynd) hægra megin við hann er svo Kjartan á Hofsstöðum og Sigurþór í Lynghaga. Líklega svo Magndís Alexandersdóttir við hliðina á honum.

Á blogginu er talað um líkamstjáningu Jóhönnu Sigurðardóttur. Já, það er alveg rétt að hún hefur breyst. Ekki er samt sennilegt að Jóhanna sjálf hafi breyst mikið. Hún er bara orðin dálítið gömul og þreytt. Ekki er heldur líklegt að líkamstjáning segi allt sem segja þarf. Trúlega er Steingrímur sterki maðurinn í þessari ríkisstjórn. Ræður samt illa við eigin þingflokk og alls ekki er líklegt að stjórnin sitji út allt kjörtímabilið. Man vel eftir líkamstjáningu Steingríms Jóhanns fyrst eftir að hann varð ráðherra. Búralegri mann hef ég varla séð.

geirogingibjorgEn líkamstjáningu mátti líka sjá á fleirum. Man t.d. vel eftir tilhugalífi Geirs Haarde og Sollu sem hér er mynd af. Eiginlega sést sú tjáning ágætlega á þessari mynd. Þau voru svo upptekin hvort af öðru að allt fór í handaskolum og þar að auki þorði Geir ekki annað en að sitja og standa eins og sterki maðurinn í Svörtuloftum sagði honum. Jón Bjarnason var líka gríðarlega ánægður með að vera orðinn ráðherra á sínum tíma og sást það vel á líkamstjáningu hans.

En sem betur fer er lífið ekki tóm pólitík. Feminisminn og klámvæðingin vekur líka áhuga hjá mörgum. Ef feminismi er einkum það að halda börnum og unglingum sem mest frá bandarískri poppmenningu og eiturlyfjum þá finnst mér það jákvætt. Man vel eftir Elvis Presley og mjaðmaskakstri hans á sínum tíma. Eru ekki unglingar hvers tíma alltaf mest fylgjandi því sem þeir fullorðnu eru mest á móti? Man líka ágætlega eftir bítlahárinu sem kostaði tár og átök í mörgum fjölskyldum.

„Yes, but can she type?“ stóð undir mynd af Goldu Meir á plakati sem ég sá endur fyrir löngu. Karlmenn hafa löngum reynt að ráða yfir kvenfólki og gera enn. Munur kynjanna á andlega sviðinu er samt að líkindum enginn. Í krafti vöðvamassa og venju hafa karlmenn þó löngum reynt að stjórna öllu. Kvenréttindi fara samt vaxandi víðast hvar í heiminum. Karlmenn hafa tilhneygingu til að álíta þá þróun ganga hratt fyrir sig en konur ekki.

Lokaorð Teits Atlasonar í yfirlýsingu sinni um Kögunarmálið eru athyglisverð:

„Eins og Guðmundur Andri Thorsson segir í grein sinni „Kúgun og Kögun" frá 15. ágúst sl. mun Gunnlaugur „ekki endurheimta æru sína úr klóm Teits Atlasonar. Hún er ekki þar". En hann gæti látið staðar numið. Sjálfs sín vegna.“

IMG 7191Mikið notað skilti.


1549 - Síonistinn í Kaupmannahöfn

Scan85Gamla myndin.
Systkinin í Holti og Bjarni Sæmundsson við Veitingahúsið á Vegamótum.

„Alþingi viðurkennir eyðingu Ísraels“ segir Villi í Köben í fyrirsögn á sínu bloggi. Auðvitað er mér svosem sama hvað svona öfgamaður eins og hann segir. Hann á sér samt einhverja skoðanabræður hér á Íslandi.

„Eini flokkurinn á þingi, sem bjargaði andliti Íslands var Sjálfstæðisflokkurinn. Viðurkenning Alþingis á ríki, sem ekki er einu sinni sátt um meðal Palestínuaraba sjálfra, er Palestínuaröbum aumur stuðningur.“

Segir hann jafnframt. Sjallarnir voru nú ekki meira sammála honum en svo að þeir þorðu ekki að greiða atkvæði gegn þessu.

Frést hefur af tveimur sem ekki ætla að gefa kost á sér í komandi forsetakosningum. Það eru Salvör Nordal og DoctorE. Þeir kunna að vera fleiri.

Ég get alveg viðurkennt, að nú lítur út fyrir að við sem vildum samþykkja samninginn um Icesave höfum haft rangt fyrir okkur að miklu leyti. Þó eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi það mál.

Svo virðist einnig líta út að ekki verði af aðild að ESB í þessari umferð og að ríkisstjórnin hafi gert mistök þar líka vegna þess að VG mun aldrei samþykkja slíka aðild og hugsanlegt er að handjárnin haldi hjá framsókn og íhaldi. Eftir nokkur ár getur vel verið að eftirsjá verði mikil hér á landi með að hafa ekki gengið í ESB þegar tækifærið bauðst.

Margt hefur stjórnin samt vel gert og á hugsanlega eftir að koma í gegn lagfæringum varðandi fiskveiðistjórnunina. Ekki er annað að sjá en furðu vel hafi tekist að koma landinu uppúr eymdinni sem hér skapaðist fyrst eftir Hrunið. Gagnrýnin á stjórnina er þó hörð, jafnvel harðari en áður hefur tíðkast.

IMG 7190Heimreið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband