Bloggfærslur mánaðarins, september 2010
30.9.2010 | 01:36
1155 - Eitt og annað
Mér hættir til að segja of lítið þegar nánari útskýringa er kannski þörf. Þetta stafar af löngun minni og þörf til að vera stuttorður. Um daginn birti ég mynd á bloggi mínu af skilti einu þar sem stóð Seldalur. Undirskriftin minnir mig að hafi einfaldlega verið: Seldalur, hvað? Þetta átti samt að vera gagnrýni á bæjarstjórn Kópavogs. Þetta skilti og þessi órækt er einfaldlega í Kópavoginum miðjum og tölum ekki meira um það.
Leiðindaveður er úti núna. Rok og rigning. Kannski skrepp ég samt út að labba. Eiginlega er ekkert veður vont ef maður klæðir sig bara rétt. Leiðist samt alltaf mikil rigning.
Hrunblogg eru alltaf jafnvinsæl. Auðvitað hefur fólk farið mjög misjafnlega illa útúr þessu öllu saman en við því er lítið að gera. Hugarfar fólks breytist þó og stjórnmálin og fjármálalífið verður kannski ögn manneskjulegra nú eftir að búið er að ákveða að ákæra Geir. Að öðru leyti er okkur sennilega hollast að halda bara áfram þar sem frá var horfið. Ég var t.d. byrjaður að blogga fyrir hrun og ætla að halda því áfram. Helst vil ég bara leiða hjá mér þessa fjárans Icesave-landsdóms-hrun vitleysu alla saman.
Er að lesa um þessar mundir bókina Í fótspor afa míns." Það er einskonar framhald bókarinnar Í húsi afa míns," sem ég las líka. Höfundur er Finnbogi Hermannsson og honum tekst ágætlega að lýsa andrúmslofti uppvaxtarára sinna uppúr 1950. Óx upp á Njálsgötunni og lýsir umhverfinu þar mjög vel og dregur fátt undan. Fyrri bókin var samt betri.
Þrjú boðorð hef ég uppgötvað í þessu bloggdedúi mínu undanfarin ár. Eitt: Engin leið er að lesa væntanleg blogg of oft yfir áður en þau eru send út í eterinn. Tvö: Hæfileg lengd á hverju bloggi er afar þýðingarmikil. Þrjú: Ekki sjá eftir því sem þú hefur einu sinni sett á blað. Ef það passar ekki hentu því þá sem allra fyrst.
Mikið er fjölyrt um návígisþáttinn Þórhalls Gunnarssonar þar sem hann ræddi við Lilju Mósesdóttur. Sá seinni hluta þess þáttar og í mínum huga er merkilegast við hann að vissum stíl var beitt. Myndirnar hafðar þannig að svipbrigði komi mjög vel fram og hugsanlegt er að allt öðru vísi hefði verið að hlusta á þáttinn í útvarpi. Lilja komst ágætlega frá þessu öllu en Þórhallur ekki. Hann glotti of mikið og virtist alls ekki taka þáttinn alvarlega þó málefnið væri það.
Var að enda við að horfa á Kiljuna hjá Agli Helga og fer ekki ofan af því að það er einn albesti þátturinn á dagskrá ríkissjónvarpsins. Bæði fróðlegur og skemmtilegur svo vitnað sé í lokaorðin í þættinum í kvöld.
Þó merkið á þessu húsi sé ansi Rotarylegt er eitthvað minnst á Skátafélagið Kópa þar ef ég man rétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2010 | 07:02
1154 - Kosið um Landsdómsfyrirköllun
Jafnvel er búist við atkvæðagreiðslu um landsdómsfyrirköllun á Alþingi í dag. Margir bíða úrslita í þessari atkvæðagreiðslu með talsverðri eftirvæntingu. Ég á von á að ef af henni verður muni hún ekki verða minnisstæð. Þó er erfitt að vera á annarri skoðun en að hún geti endanlega skorið úr um framtíðaráhrif og vald Alþingis Íslendinga. Líklegast er að ef tillagan verður felld verði áhrif Alþingis nánast engin í fyrirsjáanlegri framtíð og Samfylkingin gæti líka farið mjög illa útúr þessu. Mun líklegra er að Íhald og Framsókn haldi sínu.
Hvar liggja mínir hæfileikar? Einhvers staðar eru þeir og hljóta að vera. Eru það blogg skrifuð undir Sæmundarhætti? Líklegt er það. Annars væru þau varla nefnd eftir mér. Er ég þá ekki líka manna best fallinn til að skýra þennan vandaða blogghátt? Jú, að sjálfsögðu. Sæmundarháttur í bloggi er að blogga á svipaðan hátt og ég geri. Mest um blogg og sjálfan mig en þó svolítið um annað stöku sinnum. Gæta skal þess að móðga engan og helst má ekki minnast á hrun, stjórnmál og þessháttar málefni.
Fyrir mér eru blogg bókmenntagrein og ég tel sjálfum mér trú um að ég sé ákaflega flinkur bloggari. Það er ekkert sérlega erfitt. Mér finnst gaman að blogga. Einkum og sér í lagi vegna þess að ég þykist svo góður í því. Það er líka gaman að hrósa sjálfum sér. Aðrir gera það ekki. Það er þeirra vandamál.
Endalaust má bollaleggja um málfar. Sjálfur skrifa ég oft að eitthvað sé líklegt. Er það þá eins og lík, eða hvað? Látum ekki enska lækið trufla okkur þó búið sé að troða því kyrfilega í fésbókarlingóið eða jargonið sem allir kunna orðið hrafl í.
Já, ég er búinn að vera mikið í því að hrósa sjálfum mér hér á blogginu að undanförnu. Er jafnvel að hugsa um að taka Pálssoninn á þetta. Eins og sumir muna sem lengi hafa fylgst með bloggskrifum stundaði Stefán Pálsson það eitt sinn að fullyrða við hvert tækifæri sem bauðst (og þau voru allmörg í þeirri fréttaþurrð sem þá ríkti) að hann væri besti bloggari landsins. Á endanum voru sumir blaðamenn og jafnvel fleiri farnir að trúa þessu. Það er jafnvel ekki örgrannt um að það eimi eftir af þessu enn.
Því fer fjarri að Stefán sé besti bloggarinn á landinu né hafi nokkurntíma verið það. (Og eflaust ég ekki heldur). Það sem ég finn honum einkum til foráttu fyrir utan magnaðan besservisserahátt er hve ósýnt honum er um að viðurkenna nokkurntíma eigin mistök. Ef slíkt er borið uppá hann (sem er nokkuð oft) fer hann bara að tala um eitthvað annað. Þetta gera fleiri. T.d. eiga þingmenn flestir (og forystumenn flokka alveg sérstaklega) mjög erfitt með að viðurkenna eigin skeikulleika.
Málfar er mér oft ofar í huga en ég vil viðurkenna. Á það til að rífast hástöfum við sjónvarpið þegar ég þykist verða var við augljósar málvillur þar. Auðvitað þýðir það ekki neitt en stundum næ ég að skrifa slíkt hjá mér. Ég er þó ekki nærri eins duglegur við að safna ambögum og Eiður Guðnason. Sverrir Páll Erlendsson (en ekki Erlendur Sveinn Hermannsson eins og ég hélt fyrst að hann héti) kennari á Akureyri var líka duglegur við þetta og mig minnir að hann sé á Gúglreader-listanum mínum. Þarf samt að athuga það betur. Kannski er hann bara hættur þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.9.2010 | 00:09
1153 - Ég er afi minn
Var eitthvað að hálfskopast að vefsetrinu hárlenging.is í mínu síðasta bloggi. Bið afsökunar á því. Eflaust kemur þetta einhverjum að gagni. Sé núna að ég hef gleymt að setja link á þetta vefsetur þó ég hafi ætlað mér það. Lít á það sem bendingu frá æðri máttarvöldum um að hugmynd mín um hið daglega vefsetur sé ekki sérlega góð.
Flowers for Algernon
Hver var Algernon? Jú, það var músin sem upphaflega tilraunin var gerð á og blómin voru til að setja á gröf hans að beiðni Charlies.
Las smásögu með þessu nafni fyrir langalöngu. Líklega hefur hún þá verið tiltölulega nýútkomin. Hún er eftir Daniel Keyes. Saga þessi fjallar um mann að nafni Charlie Gordon sem með skurðaðgerð fékk gáfnavísitölu sína hækkaða úr 68 í 185.
Fann svo út sjálfur að kenningin að baki þessari skurðaðgerð var gölluð og framfarirnar aðeins tímabundnar. Það var auðvitað ekkert sem hann gat gert við þessu og ferðalagi hans til baka til sinnar lágu gáfnavísitölu er vel lýst í sögunni.
Stíll sögunnar er afar eftirminnilegur. Þar er um að ræða stuttar greinargerðir Charlies sjálfs á framförum sínum og síðar afturför. Réttritun og málfar allt ásamt breytingum á því sýnir þróunina vel.
Kvikmyndin Charly sem gerð var árið 1968 og Cliff Robertson lék aðalhlutverkið í er gerð eftir þessari sögu eða réttara sagt skáldsögu sem höfundurinn gerði seinna eftir sögunni.
Sagt er að nú sé verið að gera nýja kvikmynd eftir þessari frægu sögu og að Will Smith sé bæði framleiðandi og aðalleikari.
Ég er afi minn." Þetta er ljóðlína (eða nafn á ljóði) sem ég heyrði einhvertíma fyrir löngu og er bara fjári góð. Ekki get ég notað hana því allir mínir afar eru löngu dauðir. (Merkismenn að sjálfsögðu og langafarnir líka. Einn slíkur var líka langafi Hrunvaldsins mikla í Hádegismóum en förum ekki nánar úti það) Sjálfur er ég afi og ætti að láta mér það duga.
Var að horfa á umræður á Alþingi áðan. Þar eru menn greinilega enn fastir í gamla hjólfarinu og komast ekki uppúr því. Sem betur fer eru flestir hættir að taka mark á þeirri stofnum og hún er greinilega til hliðar við alla aðra umræðu í þjóðfélaginu. Helst þyrfti að setja ríkisstjórnina á sama hátt til hliðar en ekki er sjáanlegt hvernig það getur gerst.
Sá drykk um daginn til sölu í stórmarkaði. Hann vakti athygli mína. Var sagður allrameinabót. Meira að segja var hann sagður vinna á deburð. Deburð??? Ég snarstoppaði. Gat verið að það stæði deburð þarna? Hvað er deburð eiginlega? Jú, það bar ekki á öðru. Þarna stóð deburð. Ég fór að lesa þetta betur. Jú, þetta átti greinilega að vera depurð. Einstöku sinnum finnst mér að kunnátta í stafsetningu sé mér til góðs. Svo var í þetta sinn.
Ekki má gleyma hundasögunni. Kannski ég setji hana bara í salt að þessu sinni. Hundurinn er hvort eð er sofandi núna minnir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2010 | 05:13
1152 - Ljóðablogg
Eru bloggin að lengjast hjá mér? Já, en það er útaf sögunum. Á ég kannski að sleppa þeim? Mér þykir einmitt svo gaman að svoleiðis vitleysu. Framhaldssagan um hundinn síkáta gæti einmitt orðið að ódauðlegu bókmenntaverki með tímanum. Reyndar hafa færri áhuga á henni en dagbók borgarstjórans í Kardemommubæ.
Framvegis er ég að hugsa um að taka Jens á þetta. Það er að svara öllum athugasemdum sem ég fæ. Helst jafnóðum eða sem fyrst. Gott ef ég hef ekki sér svar fyrir hverja athugasemd. Óþarfi að vera að spara plássið.
Óskar Þorkelsson kvartaði undan of löngu bloggi. Ekki vil ég styggja hann. Datt samt í hug áðan að bæta við einum föstum lið í bloggið mitt. Sá á að heita: Vefsetur dagsins". Sá nefnilega áðan eitt sem eflaust á erindi þangað. Það heitir harlenging.is (linkur) og er raunverulega til.
Líklega vantar Ingibjörgu Sólrúnu hörkuna og ófyrirleitnina sem Davíð Oddsson hefur og hafði. Ástæðan fyrir látunum í henni núna er eflaust sú að henni finnst sér ógnað. Sennilega hefur hún misst að mestu áhrif sín í Samfylkingunni en Davíð heldur sínu kverkataki á Sjálfstæðisflokknum. Ef kærumálin frá Atlanefndinni koma til atkvæða á Alþingi er alls ekki ljóst hvernig það allt saman fer. Kannski líst Jóhönnu illa á þá kattasmölun sem fram þarf að fara hjá Samfylkingunni svo hlutirnir gangi upp og mun því reyna að komast hjá atkvæðagreiðslu.
Hér er afspyrnugott nýort atómljóð sem heitir:
Súld
Það er kominn síðari hluti september.
Hlýtt samt.
Ánamaðkarnir hraða sér eftir malbikinu
á votum gangstígunum.
Laufin eru ekki enn fallin af trjánum.
Sums staðar eru samt gulnuð laufblöð á stígum og túnum.
Göturnar eru blautar.
Bílarnir hraða sér í burtu.
Grasið er grænna en það hefur nokkru sinni verið.
(sérstaklega hinum megin)
Sólin er í felum og himinninn grár.
Suðurloftið er bjart.
Litirnir eru allt öðru vísi en í sólskini.
Fáir eru á ferli.
Hundarnir skíta víst inni.
Nei, sennilega hef ég ekki neina sérhæfileika á þessu sviði. Samt er síðasta ljóðlínan nokkuð góð hjá mér. Bíð nú með öndina í hálsinum eftir að fótboltavertíðinni ljúki með sigri Breiðabliks. Hvaða önd er það?" Hef enga hugmynd." En haustvertíðarlok hljóta að vera á næsta leiti. Þá er hægt að fara að snúa sér að alvöruíþróttum eins og félagsvist, bingó og þess háttar.
Svo haldið sé áfram með framhaldssöguna þá er hundhelvítið farið að sofa. Búið að útvega rónanum brennivín og hætt við öll sjálfsmorðsáform. Sé illa framá að hægt sé að gera neðanmálssöguna spennandi með þessu áframhaldi. Verð að láta Snata lenda í einhverju krassandi.
Einu sinni hitti hann Balka og Stralka eða eitthvað þannig hétu þeir. Þá voru þeir nýkomnir úr geimferð og varla hægt að tala við þá fyrir monti. Nei annars, þetta er víst vitleysa hjá mér. Ætli þeir hafi ekki bara drepist í geimnum og öllum verið sama.
Reyni betur. Ljótasti hundur í heimi kom eitt sinn í heimsókn. Sá var nú ljótur. Svotil alveg hárlaus, önnurhver tönn brotin, annað eyrað horfið og allt eftir því. Konan mín teiknaði samt mynd af honum en myndavélin neitaði öllum vendingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.9.2010 | 00:05
1151 - Blogg, fésbók, saga o.fl.
Var að enda við að lesa bók sem ég fékk á bókasafninu um daginn. Hún heitir Stórkostlegt líf herra Rósar og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki" og er eftir Ævar Þór Benediktsson. Þessi bók mun vera nýkomin út og er styrkt af Menningarsjóði Borgarbyggðar. Í henni eru allnokkrar (yfir 30) smásögur, allar fremur stuttar enda er bókin ekki nema um 90 blaðsíður. Höfundurinn er ekki nema 25 ára og auk þess að skrifa er hann einnig þekktur sem leikari.
Sögurnar eru vissulega áhugaverðar og vel skrifaðar. Bókin er fremur fljótlesin og gerir ekki miklar kröfur til lesenda. Semsagt afar auðveld yfirferðar en ekkert lakari fyrir það.
Stundum reyni ég að skrifa eitthvað gáfulegt á fésbókina. Það þýðir samt lítið. Fáir taka eftir því. Kannski er ekkert betur tekið eftir gáfulegum hlutum hér á blogginu en maður getur þó alltaf talið sér trú um að svo sé. Lítið er samt að marka athugasemdirnar. Þær fara aðallega eftir því hvort minnst er á trúmál eða ekki. Svo athugasemdast sumir hjá mér af gömlum vana. Fésbókarskrif fara ekki nógu víða nema maður eigi einhvern helling af fésbókarvinum og það er heilmikil fyrirhöfn að koma sér upp slíku safni. Svo eru flestir fésbóklingar uppteknir við bústörf og leikjarísl sýnist mér.
Spurning spurninganna er: Var allt farið til fjandans þegar ríkisstjórn Geirs Haarde og Samfylkingarinnar tók við eða var hægt að bjarga einhverju.
Þeir sem velta þessum málum fyrir sér segja að það hefði að minnsta kosti mátt flýta bankahruninu og þá hefði skaðinn orðið minni. Þetta er að mestu leyti ósannað mál og byggist eingöngu á getgátum. Eftiráspeki af þessu tagi er ekki mikils virði og hæpið að dæma fólk til refsingar á henni einni saman.
Samt sem áður er ég fylgjandi tillögum Atlanefndarinnar og tel að líkurnar á sýknu séu ekki nógu miklar til að vera á móti þeim.
Að Ingibjörg Sólrún skuli núna hamast eins og sært ljón gegn Atla og nefnd hans er óhjákvæmilegt en hefur vonandi lítil áhrif. Fróðlegt verður að sjá eftir helgi hvernig mál skipast á Alþingi.
Einkennilegt er að heyra þingmenn tala um það í fullri alvöru að lögin um landsdóm séu úrelt og að engu hafandi. Það er ekki vaninn hér á Íslandi að setja slíkt fyrir sig og úreltari lög en þau um landsdóminn eru mörg til og oft dæmt eftir þeim. Fáránlegra en flest annað er þó að hægt skuli að setja menn í fangelsi í langan tíma ef skrifstofustjóra Alþingis finnst það við hæfi og ef menn eru taldir tefja þingstörf á þessu einskisverða Alþingi. Virðing þess er komin hættulega nálægt núllpunkti.
Til hvers er ég eiginlega að þessu sífellda bloggi? Finnst mér þetta sniðugt? Finnst mér þetta skáldlegt og flott? Finnst mér þetta bæta samband mitt við annað fólk? Veit það ekki en get ekki að þessu gert. Afar hentugt að geta losað sig svona fljótt og vel við það sem maður hefur skrifað. Það er að segja það skásta af því. Sumu hendir maður náttúrulega sem fyrst. Mest hefur mér farið fram með árunum í því að greina á milli hverju ég á að henda í ruslið og hverju á Moggabloggið. Hmm, þarna sagði ég sennilega of mikið. Það verður bara að hafa það. Svona er þetta.
Hver skyldi grufla í gömlum bloggum? Ekki ég. Gúgli frændi er alltaf með nefið niðri í þessu og sumir eru alltaf að vísa í gömul blogg eftir sig. Kann ekki að fíla slíkt. Veit að ég endurtek mig óþægilega oft. Segi þó vonandi ekki alveg á sama hátt það sem ég hef áður sagt. Viðvaranir um að lesa ekki eru lítils virði. Annaðhvort nennir maður að lesa eða nennir því ekki.
Sjálfhverfur er ég með afbrigðum. Þykist samt aðallega skrifa um blogg. Auðvitað mest um mitt eigið því ég þekki það best. Örstuttar athugasemdir eru samt stundum um önnur blogg. Þar verður þó að fara varlega. Sumir eru svo viðkvæmir. Kannski ég sé það líka. Sem betur fer skrifa þeir fáu sem á mitt blogg minnast fremur jákvætt um það. Veit ekki hvernig ég brygðist við gagnrýni. Mér hefur samt verið hallmælt og ég tek öll almenn ummæli um blogg til mín. Er samt alveg sama þó fólk líti niður á þessa iðju. Fyrir mér er hún mun betri en ekki neitt.
Nú þarf ég eiginlega að setja saman einhverja sögu eins og í gær. Hún gæti svosem verið framhaldssaga um hundinn herlega sem þar var minnst á. Hann átti hvergi höfði sínu að halla og var allsstaðar fyrir. Að lokum ákvað hann að drekkja sér. Þá stóð hann frammi fyrir því óleysanlega vandamáli að enginn hefur áhuga á dauðum hundum. Íslendingar éta ekki einu sinni hunda!!
En hann var eiginlega alveg farinn í hundana svo hann ákvað að taka málið í sínar eigin hendur. Þá tók annað vandamál við. Hann var nefnilega handalaus eins og flestir hundar. Þetta hefði getað farið illa en þá hugkvæmdist honum að taka til fótanna og það gekk alveg prýðilega.
Á örskömmum tíma komst hann alla leið til tunglsins. Karlinn þar tók allshugar feginn á móti honum en sagði þó: Hvað er þetta? Ertu ekki með súrefnisgrímu?" Þá tók semsagt eitt vandamálið enn við svo hann hljóp stystu leið til baka.
Þá mundi Snati skyndilega eftir því að róninn hafði sagt honum að fara og ná í flösku fyrir sig. Það var einmitt upphafið að öllum hans óförum. Snati komst að því í snatri að kannski væri bara betra að komast yfir eina brennivínsflösku en að lenda í öllum þeim vandræðum sem hann hafði lent í.
Snaraðist því í hasti til sprúttsala sem hann þekkti dálítið og bað hann um brennivínsflösku. Sprúttsalinn sagði að hún kostaði tíuþúsundkall og af því að Snati átti ekki slíkan ofsapening handbæran þá vatt hann sér samstundis í að útvega hann.
Hann sá nokkra krakka sem óðu í peningum uppí mjóalegg. Fór til þeirra og bauð þeim að sveifla sér í hringi á skottinu fyrir þúsundkall. Krakkarnir þáðu það eins og skot og sneru Snata í tíu hringi og borguðu honum tíuþúsundkall. Þá var Snati orðinn svo ringlaður að hann þurfti að láta þau snúa sér öfugt í tíu hringi. Fyrir það fékk hann annan tíuþúsundkall og keypti bara gos útí brennivínið og sælgæti fyrir það allt og þá er sagan búin því róninn hafði dáið brennivínsdauða yfir þessu öllu saman.
Bíll í ógöngum. Og búinn að týna númerinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2010 | 00:08
1150 - Blogg um blogg
Þrennt er það sem vinsælast er í bloggheimum (Moggabloggsheimum) Fyrst er að telja það sem vinsælast er en það er að blogga nógu oft á hverjum degi og tengja blogginn jafnan við vinsælar og mjöglesnar fréttir á mbl.is. Þetta gefst oft allvel en fáir nenna að standa í þessu lengi.
Trúmál kalla ævinlega á vissar vinsældir. Margir hafa unun af því að athugasemdast við svoleiðis blogg. Vinsældirnar geta þó brugðist því það er aðallega viss hópur ( og kannski ekki svo ýkja stór) sem eltir svona blogg.
Það er líka vinsælt að blogga um hrunið. Best er að þykjast vera hagfræðingur eða eitthvað þessháttar og taka stórt uppí sig. Tala mikið um hvað aðrir séu vitlausir og hve auðvelt hafi verið fyrir snillinga eins og þá sjálfa að sjá alla hluti fyrir sem hrunið snerta. Þetta er alltaf jafnvinsælt því fjöldi fólks bíður eftir sannleikanum stóra um þetta mál. Gott ef ekki er von á Messíasi.
Hér er til dæmis ágætt dæmi um hrunblogg:
Bílar geta verið t.d. bifreiðar eða sjálfrennireiðar. Skruggukerrur, kaggar, fóstureyðingartæki, druslur, statussymból og margt fleira. Viltu færa þessa druslu þarna," heyrði ég kallað hér fyrir utan rétt áðan. Eigandanum hefur sennilega sárnað. Enginn vill eiga bíldruslu. Eru bíldruslur annars ekki orðnar stórum færri í umferðinni uppá síðkastið en áður var?
Stærri hús, betri bílar, malbikaðir vegir, fleiri kaffihús og matsölustaðir eru allt saman ávöxtur fjárfestingarfyllirísins sem hratt bankahruninu af stað. Og nú verðum við að borga fyrir þetta alltsaman hvort sem okkur líkar betur eða verr. Auðvitað líkar okkur það aðallega verr því útrásarvíkingarnir voru þurftafrekir í öllu sínu gulláti og komu jafnvel stolnum peningum haganlega fyrir í hinum fjölbreytilegustu skattaskjólum. Svo er að minnsta kosti sagt.
Sorgarbloggin voru líka einu sinni vinsæl en þær vinsældir hafa dvínað dálítið í seinni tíð. Gott ef þau eru ekki komin úr tísku. Þeir sem í erfiðleikum eiga og glíma við illvíga sjúkdóma ættu samt ekki að láta þessa aðferð alveg afskiptalausa.
Og smámálfarshorn eru ómissandi í vinsældasókninni. Hér er til dæmis smáklausa úr hægrimannaboðskap frá AMX: Hugsjónir og hugmyndir sjálfstæðisstefnunnar eiga því undir vök að verjast."
Undir vök þær verjast best
og vökvun þurfa enga.
Af þeim sökum svíkja flest
og sjaldan ná að menga.
Já, það er gaman að blogga um blogg þó Gísli hlaupari kalli það ómerkilega iðju. Hvers vegna skyldi maður ekki blogga um blogg? Hvað er merkilegra en blogg? Er ekki sjálfsagt að blogga um það sem merkilegast er?
Það er skrýtinn skolli
að skjálfa af kuldahrolli,
en verða þó að vita
veröld fulla af hita.
Einu sinni orti ég
afar góða vísu.
En þegar kom að botninum
lenti ég í óttalegri krísu.
Var að enda við að setja saman eina flippaða sögu. Hún er svona:
Þegar Guð kíkti niður um gatið í skýjunum sá hann hvar róninn var í þann mund að taka hundinn upp á skottinu. Þetta gengur ekki. Ég verð að gera eitthvað í þessu," hugsaði Guð með sér. Kallaði í Þór og bað hann að senda eldingu í rassinn á rónanum. Þá varð til vísan fræga:
Farðu í rass og rófu
ríddu grárri tófu.
Af einhverjum ástæðum man ég ekki botninn en það gerir ekkert til. Gott ef það mundi ekki skemma söguna ef ég hefði hann á takteinum. Nú, ég var semsagt staddur þar sem Guð kallaði á Þór. Í þessu er náttúrlega mótsögn en það vill svo til að Guð er Ásatrúar. Tölum samt ekki meira um það. Snúum okkur að hundinum sem var næstum tekinn upp á skottinu. Auðvitað leið honum ekki vel útaf þessu öllu saman. Það var samt ekki um annað að gera en að láta sem ekkert væri. Hann beit saman skoltunum og bölvaði í hljóði.
Róninn sem fékk rafmagnið í rassinn heitir Rögnvaldur Rögnvaldsson og er búinn að vera fullur í tvo mánuði. Ástæðan fyrir því að hann ætlaði að taka Snata upp á rófunni var sú að hann hlýddi honum ekki þegar hann sagði honum að fara og ná í flösku fyrir sig. Horfði bara á hann með spurnaraugum og lét eins og hann skildi ekki neitt.
Þetta gæti svosem verið ágætis byrjun á sögu. Hægt er að halda áfram með frásögnina af rónanum eða halda sig við hundinn. Auðvitað má líka halda áfram með hugmyndina um Guð (með stórum staf) sem kallar á Þór þegar hann þarf á hjálp að halda. Nenni samt ekki að fara útí guðspekilegar pælingar svo líklega vel ég annaðhvort hundinn eða rónann. Einn möguleiki enn er að hætta bara núna og hafa söguna ekki lengri. Held ég taki þá leið útúr þessari vitleysu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.9.2010 | 00:03
1149 - Jó-jó ís fyrir Geirfugla
Keypti jó-jó ís um daginn. Stutt að fara. Var örugglega elstur þar. Mest unglingar. Sniðugt að flytja nammidagshugmyndina á ísinn. Maður blandar sitt eigið stöff og borgar svo eftir vigt. Greinilega vinsælt ennþá. Löng biðröð en allt gekk samt snurðulaus og fljótt fyrir sig. Ísinn frekar dýr. En what the heck. Hugmyndin er ágæt.
Líklega eru bloggskrif mín það sem ég er einna bestur við og geri sæmilega vel. Finnst ég lítt bergmála aðra. Umfjöllunarefni mín eru yfirleitt upprunnin hjá mér sjálfum. Kannski ekki alltaf merkileg en það er aukaatriði. Dæmigerð besservisseraskrif. Hér er raunverulega hægt að láta ljós sitt skína. Jafnvel þó í daufara lagi sé á köflum.
Stundum (jafnvel alloft) geri ég það að fara yfir bloggtexta sem ég á rétt ósendan upp á mbl.is og breyti tilgátum í fullyrðingar. Gera textann allan ákveðnari og eindregnari. Þetta þarf ekki endilega að standa í sambandi við hversu sannfærður ég er um réttmæti fullyrðinganna heldur hvernig textinn lítur best út.
Þetta er ein af staðreyndum bloggsins og vel getur verið að ég yrði fljótari að bakka frá svona staðhæfingum en öðrum væri ég konfronteraður. Á það hefur bara ekki reynt svo ég muni.
Ég mundi gjarnan vilja myndskreyta bloggin mín svolítið. Til dæmis líkt og Dr. Gunni gerir. Nenni því bara ekki. Man líka að Gurrí á Skaganum myndskreytti sitt blogg oft skemmtilega en eftir að hún fór af Moggablogginu les ég bloggið hennar afar sjaldan.
Allmargir flækjast hingað daglega þó ég geri lítið í að beina þeim á rétta leið. Ég skil illa hvernig á því stendur að svo margir koma. (eftir teljaranum að dæma) En það er samt tilefni til að vanda sig sem mest. Bloggskrif af þessu tagi virðast eiga sérlega vel við mig. Lesendum mínum fjölgar frekar en hitt þó Moggablogginu hraki jafnt og þétt. Ætti ég kannski að flytja mig eitthvert annað? Yrði ég vinsælli þar? Skiptir það mestu máli?
Nei, ég er svo íhaldssamur á sumum sviðum a.m.k. að ég á best heima hér á Moggablogginu. Finnst samt stundum eins og ég sé síðasti Geirfuglinn hérna. Geirfuglinn? Hmm, merkilegt orð.
Gæti ég með mína bloggunarkunnáttu og æfingu ekki skrifað eitthvað bitastæðara en blogg. Jú, líklega. En hvað? Endurminningar? Kannski. Ætti hugsanlega að fara að taka það föstum tökum. Það er bara svo þægilegt að gera lítið sem ekkert.
Íslensk stjórnmál eru einstaklega hatrömm um þessar mundir. Allt tiltækt er notað og öllu beitt sem hægt er að beita. Fáir áttu von á að notkun málskotsréttar forseta kæmist í tísku. Svo fór samt. Fáir reikna með að landsdómur verði kallaður sama. Svo fer þó líklega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2010 | 02:26
1148 - Útvarp Saga
Mér finnst Útvarp Saga hafa sannað sig á ýmsan hátt sem vettvangur hins talaða orðs. Hinn tónlistarlegi jafnaðarvæll sem einkennir flestar aðrar útvarpsstöðvar hér á landi er augljóslega bara til notkunar þegar fólk vill ekki hugsa eða nennir því ekki.
Auðvitað er ég afskaplega ósáttur við umfjöllun Útvarps Sögu um mörg málefni. Það eru örugglega margir. Samt er það svo að maður hlustar á þessi ósköp og borgar ekki krónu fyrir það. Þeir sem hlusta á tónlistarvælinn borga auðvitað ekki heldur neitt en mér finnst auglýsendur hafa uppgötvað Útvarp Sögu nú í seinni tíð. Kannski er fjárhagslegur grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstur stöðvarinnar að skapast.
Arnþrúður hefur unnið þrekvirki í að koma stöðinni fyrir vind. Er hún annars ekki búin að því? Skaði ef Sigurður G. Tómasson er hættur. Hann er margfróður mjög og innhringiþættirnir hjá honum ágætir. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur skemmir hann svolítið og saman eru þeir eitt versta Gróu-á-Leiti-par sem hægt er að hugsa sér.
Arnþrúður virðist helst ekki borga fólki fyrir að koma fram og margir virðast hafa hrakist í burtu af stöðinni. Það er samt allt í lagi. Fólk verður bara að passa sig á henni.
Mjög margir hrakyrða allt sem frá Sögu kemur. Telja hana vera kverúlantastöð og aldrei beri þar á ánægju með neitt. Fara jafnvel í stríð við kellingarnar þar en þær kunna vel að svara fyrir sig. Svo finnst sumum útvarpsstöðin ekki vera nógu pólitísk eða of pólitísk. Þegar til kosninga kemur er ómetanlegt að hafa yfir að ráða tæki sem Útvarpi Sögu og það er ég viss um að Arnþrúður kann að nota sér.
Ínn-ið hans Yngva Hrafns er á svolítið annarri bylgjulengd og ekki er víst að myndirnar, þó ódýrar séu, bæti miklu við umfjöllunina. Þar er pólitíkin (pólitík Yngva Hrafns) í öndvegi og kemur kannski í veg fyrir vinsældir.
Þegar að næstu kosningum kemur (líklega vorið 2013) verða þetta stöðvarnar sem blakta. Sumir munu að vísu halda sig við RUV-ið en það verður ekki á þeim vettvangi sem hlutirnir gerast.
Tætingslegir sveppir og svolítið ofskynjunarlegir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.9.2010 | 00:03
1147 - Gnarr í 100 daga
Í dag (22. sept) er sagt að hveitibrauðsdögum (100 talsins) Gnarrista við stjórn Reykjavíkurborgar sé lokið. Þá má semsagt gagnrýna helvítið og friðurinn ætti að vera úti. Ég man reyndar ekki eftir neinu gagnrýnisefni nema þá helst þessu með laun varafulltrúa í borgarstjórn. Kannski þarf bara að útskýra það betur. Ég bý líka í Kópavogi svo það er ekki að marka. Mér finnst Samfylkingin ekki hafa riðið feitum hesti frá þessu samstarfi. Það álit gæti þó breyst. Kannski er þeim mikilvægast að halda Sjálfstæðismönnum frá kjötkötlunum.
Ásamt hefðbundnum svefnmeðölum er kaffi mitt helsta svefnmeðal. Skil ekki þá sem hafa talið sjálfum sér og öðrum trú um að kaffið sé óvinur svefnsins númer eitt. Nú er ég andvaka, nýbúinn að drekka fullan stóran kaffibolla, taka hálfa pínulitla svefntöflu og blessuð syfjan að koma.
Nú gengur maður undir manns hönd með að fullyrða að ekki megi sækja fólk til saka nema líkur á sakfellingu séu mjög miklar. Þetta kann að vera eitthvað sem sækjendur miða við og þá hljóta þeir að gera það miðað við eigið álit. Að heimfæra þetta á saksókn yfirleitt er mesta vitleysa. Flestum ákærum ætti þá að ljúka með sakfellingu en svo er ekki. Þetta mætti þó athuga.
Sumum finnst allt snúast um þennan árans landsdóm. Mér finnst hann einfaldlega litlu máli skipta. Sannleiksnefnd eftir Suður-Afrískri fyrirmynd væri miklu fremur það sem okkur Íslendinga vanhagar um. Við þurfum svo sannarlega að fara að gera eitthvað annað en að súrmúla sífellt útaf þessu hruni. Það er liðin tíð og lítið sem við getum endurheimt af þeim peningum sem frá okkur var stolið.
Umskipti hjá Samfylkingunni" segir mbl.is kotroskið mjög í fyrirsögn. Það er engu líkara en það sé takmark Morgunblaðsritstjórans fræga að Samfylkingunni gangi sín barátta sem verst. Hélt að takmark hans væri velgengni Sjálfstæðisflokksins. En það er eitt aðaleinkenni stjórnmálabaráttu að þegar einum gengur vel gengur öðrum illa. Þannig verður niðurlæging andstæðingsins smám saman jafnmikilvæg eigin velgengni. Þetta er það sem mér gengur verst að sætta mig við í þeirri margfrægu baráttu sem senn hefur lokið við að gleypa hrunið. Best er að vera ekki ofurseldur þessari fúlu samkeppni allri saman og reyna að hafa áhuga á einhverju öðru.
Daglega og stundum oft á dag hljóma í kollinum á mér nokkrar ljóðlínur úr revíu sem ég hef einhverntíma heyrt. Þessar ljóðlínur eru alls ekki merkilegar og nú ætla ég að athuga hvort þær hverfa ef ég skrifa um þær hér á blogginu. Í þessari revíu var af einhverjum ástæðum verið að fjölyrða um konuskipti á Grænlandi og þau fjalla um það og eru svona:
Þeir segja að það verði vafalaust
að vera milligjafarlaust.
En umfram allt það verði bara tafarlaust.
Ágætis rím reyndar en ekki er hægt að segja að þessar ljóðlínur séu merkilegar fyrir neitt annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2010 | 00:05
1146 - Virðing Alþingis
Allar götur síðan mér var fyrirvaralaust kippt uppí stórhausaflokkinn hér á Moggablogginu hef ég leitast við að skrifa sem allra oftast og reglulegast. Veit ekki af hverju. Kannski hefur það verið dulinn ótti við að verða tekinn úr þessum merka flokki aftur sem hefur knúið mig áfram. Eftir á séð hefur þetta mestmegnis verið óttalegt raus hjá mér.
Bekkjarsammenkomst var á laugardaginn hjá okkur í árgangi 1942 (örlítið blandaður með 1943) við Miðskólann í Hveragerði. Gaman að hittast svona og heimsóknin í Vatnsverksmiðjuna hans Jóns Ólafssonar að Hlíðarenda í Ölfusi var eftirminnileg. Fórum víða og fengum okkur að borða í lokin á Hótel Ljósbrá. Segi ekki meira þó vel mætti fjölyrða um þetta.
Nú eru allir (eða flestir) önnum kafnir við að velta fyrir sér hvað Alþingi gerir. Sjálfum finnst mér að á eftir A hljóti að koma B. Þá á ég við að úr því þingmannanefndin komst að þeirri niðurstöði að kæra bæri þá setji Alþingi talsvert ofan ef það fylgir því ekki eftir.
Annars er Alþingi kannski ekki viðbjargandi. Kæra skrifstofustjórans (í umboði forseta þess - hlýtur að vera) á hendur níu-menningunum bendir ekki til að fólki þar sé annt um virðingu sína. Að lög séu gömul, úrelt og sjaldan notuð hindraði ekki þar. Og illa er ég svikinn ef kært hefur verið eftir þeim bókstaf sem líklegast var að fá sakfellingu (og jafnvel skaðabætur) samkvæmt. Nei, sýndarmennskan var allsráðandi. Um að gera að sýna pöplinum hver ræður.
Hvað á unga fólkið í dag svosem að trúa á annað en peninga og endalausar framfarir. Hugsjónir eru bara gamaldags píp sem engum kemur að gagni. Ekki er hægt að éta slíkt eða framfleyta á því fjölskyldum. Það er í raun ekkert til að trúa á nú orðið. Helst er að trúa á sinn eigin mátt. Hlutirnir gerast ekki sjálfkrafa, það verður að sparka þeim af stað.
Já einmitt. Pulsusjoppa í Bankastrætinu. En þetta er nú menningarnótt og ekki að marka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)