Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

1145 - Leikrit í einum þætti

B = Bloggarinn mikli; M = Myndasmiðurinn óviðjafnanlegi.

M: Kjörorð mitt er: Ein mynd á dag kemur skapinu í lag.

B: Nú, er ritað blogg þá einskis virði?

M: Segi það kannski ekki. En minna virði er það örugglega en almennilegt myndablogg. Getur þetta ekki bara verið svoleiðis blogg?

B: Ha? Myndablogg? Bloggið mitt?

M: Já, eða eitthvað svoleiðis.

B: Frekar blogg með myndum.

M: Eða myndir með viðfestum bloggum.

B: Jæja. Ég er nú hræddur um að ég hafi byrjað talsvert á undan þér hérna. Myndunum var bara bætt við seinna til skrauts.

M: Það getur vel verið. En hvort heldurðu að fólk komi hingað til að skoða myndirnar eða lesa ruglið úr þér?

B: Örugglega frekar til að lesa. Það veður allt allsstaðar í myndum. En úrvalsskrif eru ekki á hverju strái.

M: Góður þessi. Myndirnar eru það sem heldur þessu bloggi uppi.

B: Þú mátt halda það.

M: Það geri ég alveg hikstalaust.

B: Eigum við ekki frekar að ræða um eitthvað annað? T.d. Moggabloggið eða fésbókina.

M: Þú hugsar ekki um annað. Mér finnst Flickr mun merkilegra en fésbókin.

B: Flickr, hvað er nú það? Eitthvað um myndir geri ég ráð fyrir.

M: Já, svo sannarlega og það eru sko engar slormyndir.

B: Jæja, en þú vilt ekkert tala um hitt af því þú hefur ekkert vit á því.

M: Vit á bloggrövli. Það hafa allir. En það skilja ekki nema sumir myndasmiði eins og mig.

B: Já, það er satt. Þú ert frekar torskilinn.

M: Jæja, er það?

B: Já, það finnst mér.

M: Það geta bara sumir hugsað í myndum.

B: Nú?

M: Já, sumir hafa myndskynjun en aðrir ekki.

B: Og ég hef semsagt ekki slíka skynjun?

M: Jú, kannski smá.

B: Mér finnst nú tíðarandinn ráða þessu að talsverðu leyti. Nútildags er til siðs að segja allt í myndum eða hreyfimyndum. Sama hvaða bull er um að ræða. Aðallega er það vegna leti.

M: Jæja. Þetta segirðu bara af því að þú skilur illa myndmál. Jú, tíðarandinn ræður nokkru. Menn skilja myndmál miklu betur nú en áður. Það er framför en ekki leti.

B: Mér finnst það bara leti að geta ekki tjáð hugsanir sínar nema með því að ýta á takka og láta einhverja vél ákveða hvað er sagt. Halda því svo fram í fullri alvöru að ein mynd segi alltaf meira en þúsund orð. Gott ef það er ekki mest misnotaði málshátturinn ever.

M: Nú?

B: Já. Það er alveg eins hægt að segja að eitt orð segi stundum meira en þúsund myndir. Þetta er allt undir svo mörgu komið.

M: Það er nú oft miklu betra að lýsa einhverju með mynd en orðum.

B: Bara stundum. Nokkur hnitmiðuð orð geta sagt meira en hægt er að segja með þúsund myndum.

M: Það er óþarfi að rífast um þetta. Fólk ákveður svona lagað bara sjálft. Það er mjög ólíkt að þessu leyti.

B: Það getur vel verið. Mér finnst orð bara merkilegri en myndir.

M: Myndir eru miklu listrænni.

B: Huh. Sér er nú hver listrænan.

M: Já. Ljós og skuggar. Litir og litbrigði. Myndbygging og ótal atriði önnur hafa áhrif.

B: Geta skrif ekki verið listræn?

M: Jú, kannski. Stundum.

B: Eiginlega alltaf. Finnst mér.

M: Það er nú misskilningur.

B: Jæja. Sleppum listrænunni. Sleppum lýsingunni og litbrigðunum. Það geta allir tekið ljósmyndir.

M: Það geta líka allir skrifað.

B: Nú. Er það? Ég kalla það nú varla skrif. Bablið í sumum.

M: Eins er það með myndir. Þær eru nú ekki allar merkilegar.

B: Mér finnst þær allar vera eins.

M: Nú. Þú ert þá svona vanþroskaður.

B: Já einmitt. Eins og fleiri. Þroskaheftur kannski?

M: Já. Hvað myndir snertir.

B: Af hverju ertu þá að tala við mig. Ef ég er svona þroskaheftur.

M: Þú ert það ekki neitt.

B: Nú? Þú sagðir það samt.

M: Nú ertu orðinn reiður og þá er ekkert hægt að tala við þig.

B: Jæja.

Löng þögn.

M: Mér finnst nú samt gaman að taka myndir.

B: Og þú ert svosem ágætur í því.

M: Má ég þá kannski hafa tvær í hverju bloggi hjá þér?

B: Kemur ekki til mála.

M: Kannski eina á hver þúsund orð.

B: Ha?

M: Já. Svona eina mynd á hver þúsund bloggorð.

B: Þú meinar það.

M: Já, einmitt.

B: Ég reyni alltaf að hafa bloggin stutt. Það er þá helst í svona leikritum eins og þessu sem þau verða svolítið löng því greinaskilin eru svo mörg og setningarnar stuttar.

M: Ég skil.

B: Við skulum segja að það megi íhuga að leyfa þér að hafa fleiri myndir en eina ef bloggin hjá mér eru óhóflega löng.

M: Segjum það þá.

B: Já, já.

IMG 3010Hér er stokkið af mikilli list og lendingarstaðurinn athugaður um leið.

IMG 2988Jæja, en er hegningarhúsið kannski til sölu?


1144 - Uppnefni og stuttnefni

Bróðir minn heitir Vignir. Hann er þremur árum yngri en ég. Mér er sagt að þegar ég hafi verið að passa hann og verið spurður að því hvað hann héti hafi ég jafnan sagt: „Guðlaugur Viðar Vignir." Það er samt ekki rétt nafn hans því hann heitir bara Guðlaugur Vignir. Hef ekki hugmynd um hvaðan Viðarsnafnið er komið. Þegar Vignir var lítill var hann oft kallaður Vibbi. Það nafn hafði þá enga aukamerkingu. Ég held að það hafi ekki verið fyrr en löngu seinna sem farið var að tala um að menn væru algjörir vibbar o.þ.h. Þetta er slangur og jafnvel ekkert mjög útbreitt. Hvað veit ég?

Strák man ég eftir sem alltaf var kallaður Dúddi. Man ekki einu sinni hvað hann hét réttu nafni. Þetta var samt fjarri því að vera eitthvert slangur á þeim tíma eða hálfmislukkuð þýðing á enska orðinu dude eins og nú er. Einum strák man ég eftir sem alltaf var kallaður Kútur. Mamma hans kallaði hann það líka. Stundum voru menn kenndir við mæður sínar og föður sinn. Magga Klöru Kalla Magg þekkti ég vel á sínum tíma. Einnig Mumma Gunnu Bjarna Tomm. Sjálfur var ég í þeim stíl stundum kallaður Sæmi Rósu Bjarna Sæm o.s.frv.

Strákur sem var sonur ljósmóðurinnar í Hveragerði var aldrei kallaður annað en Jón bensín. Það var líka nauðsynlegt til aðgreiningar. Veit samt ekki hvaðan bensínnafnið er komið þó sögur hafi verið á kreiki um það. Frank Michelsen var oftast kallaður Kusi. Sú saga er til af tilkomu þess nafns að hann hafi einhverntíma haldið því fram að nafn sitt væri samstofna nafninu Frankus. Já, það þarf ekki alltaf mikið til og börn eru ákaflega miskunnarlaus.

Annars var ekki mikið um uppnefni í Hveragerði þegar ég var að alast þar upp. Strákur sem hét Ingvar Christiansen var samt aldrei kallaður annað en Lilli og Ingi lús var frá bæ í Arnarbælishverfi þar sem lús hafði fundist. Allskyns stuttnefni og kenningarnöfn tíðkuðust þó og uppnefni voru kannski algengari en ég man eftir.

IMG 1126Hér er allt á rúi og stúi en bjart fyrir utan.


1143 - Kaldur kjarnasamruni

Árið 1989 vakti það mikla athygli að tveir eðlisfræðingar að nafni Pons og Fleischman tilkynntu á blaðamannafundi að þeir hefðu fundið upp það sem vísindamenn allra tíma höfðu glímt lengi við. Það er að segja eilífðarvélina. Þeir kölluðu þetta kaldan kjarnasamruna og sýndu vél sem gerði nákvæmlega það. Hefði þetta verið rétt var þar með búið að leysa orkuvandamál heimsins til allar framtíðar.

Ástæðurnar fyrir þessu voru rangar og villandi mælingar. Í dag gera menn því skóna að Pons og Fleischman hafi í raun og veru trúað því sjálfir að þeir væru að gera merka uppgötvun. Þeir fóru að vísu rangt að. Tilkynntu þetta á blaðamannafundi en leituðu ekki fyrst álits vísindamanna á þessu sviði. Að því leyti var um svindl og svínarí að ræða hjá þeim og þeir hafa aldrei náð sér á strik eftir þetta.

Martin Fleischmann fæddist í Tékkóslóvakíu 29. mars 1927 og fluttist til Englands með fjölskyldu sinni árið 1938.   

Stanley Pons fæddist árið 1943 í Norður-Karólínufylki í Bandaríkjunum.

Á blaðamannafundi 23. mars árið 1989 tilkynntu þeir um uppgötvun sína um kaldan kjarnasamruna og sýnu vél eina því til sönnunar. Hún framkallaði vissulega orku og mælingar sýndu að sú orka hlaut að verða til við samruna kjarnakleyfra efna. Þeir lýsu aðferð sinni og aðrir reyndu að gera það sama og þeir en tókst ekki.

Enn í dag eru samt vísindamenn sem trúa því að kaldur kjarnasamruni sé mögulegur. Í dag eru rannsóknir á þessu sviði yfirleitt kallaðar „low energy nuclear reaktion" svo þær séu síður fordæmdar.

IMG 2830Uppúr þessu grjóti gráu
gægjast blómin undursmá.
Berjast þau í hrauni hráu,
hálfan sólargeisla fá.


1142 - Alþingi

Nú er í mikilli tísku hjá bloggurum að tína til ýmis rök fyrir því að rétt sé eða vitlaust að kæra fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi. Ég ætla að leyfa mér þann munað að taka ekki afstöðu í þessu máli. Finnst mér ekki bera nein skylda til þess. Vorkenni þessu fólki ekki rassgat að þurfa að standa fyrir máli sínu. Alþingi hefur ekki margt þarfara að gera en rífast um þetta mál. 

Já, ég held bara að mig langi ekki neitt til að verða Alþingismaður. Þeim er kennt um allt mögulegt og allir þykjast betri en þeir. Samt held ég að þetta sé ágætisfólk. Mér virðist að tvennt sem engin áhrif hefur á hversu góðir þingmenn þetta fólk er sé það sem mestu ræður um að það kemst í framboð. Það er að það sé duglegt að koma sér áfram í sínum flokki (með ýmsum ráðum) eða sæmilega gott í að koma fyrir sig orði í ræðustól. Það gerir t.d. Birgitta Jónsdóttir þó ekki. Hún les ekki einu sinni bærilega skrifaðar ræður. Ég dáðist á sínum tíma alltaf að Steingrími Hermannssyni fyrir hvað hann átti auðvelt með að halda góðar og skipulegar ræður blaðalaust.

Merkilegt með þetta líf. Alltaf skulu vera einhverjir aðrir tímar sem eru miklu verri en manns eigin (og jafnvel betri líka). Maður ræður engu um það hvaða tíma manni er úthlutað. Þó eru allir forvitnir um framtíðina og vilja sem mest um hana vita. Svo þegar þessari jarðvist lýkur þá fær maður kannski engar fréttir um framtíðina. Það er verst. Skítt með það þó maður geti lítið sem ekkert gert sjálfur.

Atli frændi minn Harðarson skrifar stöku sinnum í blöð og gerir það t.d. á laugardaginn var en þá birtist talsverður langhundur eftir hann í Morgunblaðinu um inngöngu Íslands í ESB. Þar segir meðal annars:

„En þótt þetta liggi fyrir heldur umræðan hér áfram að vera ýkjukennd og einkennast af fullyrðingum um að efnahagsleg áhrif inngöngu séu mjög mikil og öll á einn veg."

Þetta held ég að sé ekki rétt. Andstæðingum aðildar kann að finnast þetta en mér finnst sanni nær að önnur rök en efnahagsleg ráði mestu um þetta mál. Efnahagsleg rök má túlka á ýmsa vegu og sjaldan eru áhrifin jafn langvarandi og önnur. Það sem mestu máli skiptir varðandi inngöngu í ESB er líkleg þróun mála í samskiptum þjóða næstu áratugina eða jafnvel lengur.

IMG 3040Jú, jú. Það er lítið, skrýtið og skítugt en það stendur í miðbæ Reykjavíkur.


1141 - Haust

Eftir dagatalinu að dæma er haustið komið. Það er þó allsekki kalt og ég held að enn sé hægt að tína ber ef veður er sæmilegt. Það orð er dregið af sóma en ekki af mínu nafni. Ef mitt nafn er aftur dregið af sóma (frekar en sjó) þá er það ekki fyrir minn tilverknað. Nei, svona hugleiðingar eiga lítið erindi í blogg. Gat samt ekki stillt mig.

Þetta var semsagt dettingur (eða hugdettingur) sem er líkt orðinu hittingur og alls enginn hráskinnaleikur eins og rætt var um í athugasemdum við síðasta blogg.

Eða eins og segir í gamla húsganginum sem allir kunna:

Allt fram streymir endalaust
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust
horfin sumarblíða.

Haustið hefur enn ekki verið neitt hrímkalt en það á bara eftir að koma. Svo koma jólin og svo fer að vora á ný. En hugsum ekki um það. Njótum bara góða veðursins eins lengi og það endist. Förum í gönguferðir. Haustlitirnir eru fallegir. Drekkum lýsi. Það er meinhollt. Borðum hafragraut. Hann er ódýr núna í kreppunni. Hættum annars að hugsa um hana. Hún er deprímerandi.

Já, ég er í stökustu vandræðum með umfjöllunarefni. Blogga skal ég þó. Og mynd á ég.

Alþingismenn eru að farast úr þakklæti. Því meiri pappír sem fer í skýrslur þeim mun betri eru þær. Þetta vissi ég ekki en veit núna.

Hver var Magister Bibendi og af hverju kemur mér hann skyndilega í hug? Minntist að vísu á hann í einhverjum samsetningi hér um daginn. Man ekki betur en það þýði veislustjóri eða eitthvað þessháttar. Latínuglósa finnst mér það vera. Best að spyrja Gúgla. Besservisserar eins og ég og fleiri höfðum það á margan hátt betra hér áður fyrr þegar Gúglí var ekki svona útbreiddur. Nú geta allir farið þangað og spurt um hvað sem er og fengið fróðleik um það eftir því sem þeir nenna að lesa. Auðvitað veit sá besservisser samt ekki allt en ótrúlega margt.

Svona vitleysa á nú betur heima á fésbókinni en ég tími varla að spandera þessu á hana. Merkilegt hvað mér er fésbókin alltaf hugleikin. Á fésbókina skrifa allir jafnvel þó þeir hafi ekkert að segja og kunni ekki að skrifa. Auðvitað þykist ég vera miklu gáfaðri og merkilegri en það lið.

IMG 2969Listaverk í Austurstræti.


1140 - Ammæli

Mér finnst ég ekki þurfa að taka þátt í þeim pólitíska hráskinnaleik sem nú er stundaður. Þingmenn segja unnvörpum að nú þurfi að setja þjóðarheill ofar flokkshagsmunum en meina lítið með því. Aðallega að nú eigi allir að hugsa eins og þeir. Í stuttu máli sagt: Flokkshagsmunir eru okkar æðsta boðorð. Flokkurinn (með stóru effi) kom okkur í þessa valdaaðstöðu og ef við glötum henni er Flokknum tortíming vís. Það er óþarfi að reyna að leyna þessu. Þetta vita allir.

Átti afmæli í gær og þó það væri ekkert merkisafmæli fékk ég fullt af kveðjum á Fésbókinni og meira að segja eina afmælisgjöf.

Árið 2009 var metár í fæðingum hér á Íslandi. Þá fæddust 5027 börn og þar af 2466 stúlkur. Ein þeirra var afa- og ömmustelpan Tinna. Hún verður eins árs í næsta mánuði og er efnileg mjög. Löngu farin að ganga og við föðurforeldrarnir bíðum bara eftir að hún fari að tala. Skiljum reyndar nú þegar margt af því babli sem hún lætur sér um munn fara.

Á Fésbókinni talar hver upp í annan en mesta furða er hve margt kemst til skila. Engum er ætlandi að fylgjast með öllu sem þar fer fram. Sú meinloka virðist hinsvegar hrjá suma bloggara að þeir geti lesið öll blogg eða a.m.k. öll þau sem einhver veigur er í. Það er samt tómur misskilningur og veldur sumum oflestri. Hann lýsir sér einkum í því að viðkomandi er ekki málum mælandi og finnst hann sífellt vera að missa af einhverju. Hlustar á fréttir á harðahlaupum. Má helst ekki vera að neinu nema lesa og lesa.

IMG 2946Myndasögufígúrur á húsvegg.


1139 - Fésbókin einu sinni enn

Sálufélag mitt við fésbókarfólk er ekki eins gott og sálufélagið í bloggheimum. Þar hef ég líka búið (skrifað) lengur og þar eru nokkrir búnir að venja sig á að kommenta hjá mér. 

Það er örugglega mér sjálfum að kenna að ég skuli ekki ná jafngóðu sambandi við fólk á fésbókinni og í gegnum bloggið. Líklega ætti ég að fara að fjölga fésbókarvinum mínum. Prófa það. Veit samt ekki hvernig best er að fara að því.

Líka mætti athuga að blogga oftar og jafnvel enn styttra. Líst þó illa á það. Ef eitthvað er stundum varið í bloggskrifin hjá mér held ég að það sé einmitt vegna þess að ég set þau ekki alltaf upp nýskrifuð. Leyfi þeim oft að gerjast svolitla stund. Hætti jafnvel við eða fresta og breyti hugsanlegum bloggum.

Óhnitmiðuð skrif og beint af kúnni ef svo má segja finnst mér yfirleitt henta betur á fésbókina. Finnst líka alltaf að færri sjái skrif þar og séu ekki eins varanleg. En hvað er svosem varanlegt í þessum heimi breytinganna. Ekki bloggskrif.

Um daginn skrifaði ég dálítið um fjölmiðla, einkum um blöðin og bloggarana. Útvarp og sjónvarp minntist ég ekki á. Hvað fréttir og fréttaumfjöllun þar snertir finnst mér einkum bera á fréttastofu ríkisútvarpsins og útvarpi Sögu. Ríkisfréttastofan nýtur talsverðs trausts og fer ævinlega fram með mikilli gát. Kastljós sjónvarpsins er einkum notað til að fjalla um viðkvæm ágreiningsmál. Umfjöllun þar er mjög ómarkviss en vekur oft mikla athygli.

Útvarp Saga hefur skorið sig úr öðrum útvarpsstöðvum og lagt margt gott til mála. Þar er gjarnan tekið á vandamálum sem aðrir fjölmiðlar þegja sem fastast um. Umfjöllun þar er samt oftast óvönduð og illa grunduð. Einkennist gjarnan af persónulegum skoðunum þáttastjórnenda og stjórnenda stöðvarinnar.

Hver er hin pólítíska hugsjón Útvarps-Sögu-liðsins? Mér finnst stefnan þar vera sú að vera á móti sem flestu. Hallmæla öllum og þykjast merkilegri en aðrir. Þegar kosningar nálgast á ég von á að Útvarp Saga muni styðja frjálslynda flokkinn eins og fyrr og eigna sér allan hans árangur. Ég reikna semsagt með að sá flokkur rísi upp aftur og öðlist einhvern þingstyrk.

Annars er mjög erfitt að spá um stjórnmálaframvindu hérlendis. Jón Gnarr hefur vissulega hrist upp í hefðbundnum stjórnmálum og sú kenning Egils Helgasonar, að landsmálapólitíkusar óttist að eitthvað svipað gerist í landsmálum og í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavík síðastliðið vor, er alls ekki fráleit.

IMG 1032Gömul flugbraut fyrir geimför (líklega). Skammt frá Hjörleifshöfða.


1138 - Meistarar og lærisveinar

Pólitíkin er að gleypa hrunið. Eins og mig hefur alltaf grunað er Hrunið með stórum staf í þann veginn að verða bara deild í stjórnmálum dagsins á Íslandi. Verst af öllu er samt að stjórnmálin eru ekki að að breytast neitt eins og hægt var að binda vonir við í upphafi. Ef grein Andra Snæs í Fréttablaðinu er lesin sést að söngurinn er sá sami. Það verður haldið áfram að virkja í þágu atvinnutækifæra og byggja álver í þágu erlendrar fjárfestingar o.s.frv.

Stjórnmálamenn koma sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut og telja ætíð að flokkshagsmunir eigi að ganga fyrir þjóðarhag. Réttara sagt þá skilgreina þeir bara þjóðarhag eftir eigin þörfum. Svo eru fjölmiðlarnir alveg ábyrgðarlausir líka.

Gott dæmi um ábyrgðarleysi þeirra og illan hug er fár það sem skapaðist í heiminum vegna kóranbrennumálsins í USA. Einhverjum kalli datt í hug að minnast atburðanna sem urðu þegar Tvíburaturnarnir hrundu í New York árið 2001 með því að brenna nokkrar gamlar bækur. Fjölmiðlar komust að þessu og tókst að gera úr því alvarlegan atburð sem þjóðarleiðtogar heimsins áttu sumir hverjir í vandræðum með að taka afstöðu til.

Bloggáherslurnar eru að breytast hjá mér. Núorðið líður mér hálfilla ef ég hef ekki vikuskammt eða svo tilbúinn af myndum til að setja upp. Alveg kominn uppá það að birta eina mynd með hverju bloggi. Hef hvorki spurt kóng né prest að þessu svo þeir sem vilja mega endilega segja skoðun sína á því fyrirkomulagi í kommentum. Þau eru sjaldan of mörg.

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi Þórbergs Þórðarsonar. Las þó í æsku mörg af hans þekktari verkum og hreifst af. Hef nú lokið lestri nýjustu bókar hans sem kölluð er „Meistarar og lærisveinar". Sú bók er nýkomin út og þó tilvist handritsins að henni hafi lengi verið flestum kunn er fengur að útgáfu hennar. Suma kafla þessarar bókar hef ég líklega lesið áður og fyrir stuttu las ég einnig bók Halldórs Guðmundssonar um æfi þeirra félaganna Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar.

Einnig las ég á sínum tíma viðtalsbók Matthíasar við Þórberg sem nefnd var „Í kompaníi við allífið" og var auk þess um tíma fyrir 1970 verslunarstjóri í Silla & Valdabúð þeirri við Hringbraut sem var í sömu blokk og íbúð þeirra Þórbergs og Margrétar konu hans. Sá þau hjónin oft og kannaðist við þau. Ræddi samt aldrei við meistarann um andleg málefni.

Orðsins maður var Þórbergur á allan hátt. Stílisti svo af bar. Jafnvel sjálfhverfasta rugl og draumórar verða læsilegir hjá honum. Slíkur er galdur hans. Guðspekiþruglið í honum var kannski ekki alvitlaust. Trúgirni hans var samt til trafala þar. Það var varla hægt að taka skýjaglóp af hans tagi alvarlega. Þó rataðist honum furðuoft satt á munn.

Skáldsögur eru uppspuni og að engu hafandi. Raunverulegir atburðir eru margfalt merkilegri. Máli skiptir samt að klæða þá í viðeigandi búning. Ekkert er svo ótrúlegt að ekki taki því að rannsaka það.

Samkvæmt kenningum meistara Þórbergs og Krishnamurtis er það nú-ið sem öllu máli skiptir. Fortíðin og framtíðin rugla mann bara. Lífið sjálft er aðaltakmarkið og menn endurfæðast í sífellu og fara batnandi. Baráttan í heiminum stendur á milli hins góða sosíalisma og illa kapítalisma. Hvort óhjákvæmileg bylting verður blóðug eða kemur innan frá jafnt til kommúnista sem kapítalista er aðalmálið.

IMG 0967Reiðhjólafans í Nauthólsvík.


1137 - Axlar-Björn

„Smásaxast nú á limina hans Björns míns" á Steinunn kona Axlar-Björns að hafa sagt þegar hún horfði á mann sinn tekinn af lífi og hendur hans og fætur mölbrotnar á sem sársaukamestan hátt áður en dauðanum var leyft að koma til hans. Sjálf fékk hún að halda lífi þá um sinn því hún var þunguð.

Einn frægasti afbrotamaður Íslandssögunnar er án nokkurs efa Björn Pétursson er bjó að Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Sagt er að Pétur faðir hans hafi gefið konu sinni, vegna þrábeiðni hennar, blóð úr sjálfum sér að drekka þegar hún gekk með Björn. Sjálfri þótti henni það boða illt um Björn.

Björn ólst upp hjá Ormi Þorleifssyni ríka á Knerri. Þótti sá harðdrægur og óbilgjarn í viðskiptum og um hann var sagt:

Enginn er verri
en Ormur á Knerri.

Eftir að Björn hóf búskap að Öxl kom fljótlega upp sá kvittur að hann myrti menn til fjár. Þótti mönnum einkum hestar þeir sem hann átti vera margir.

Maður einn norðlenskur gisti hjá Birni. Undir rúminu sem honum var vísað á til að sofa í var dauður maður. Brá þeim norðlenska mjög við að uppgötva þetta eftir að ró var komin á í bænum en skipti samt um stað við þann dauða.

Um miðja nótt kom Björn og lagði til þess sem í rúminu lá.

Steinunn kona Björns segir þá: „Því eru svo lítil eða engin fjörbrot hans?"

Björn svarar: „Í honum krimti, dæstur var hann en ósleitulega til lagt, kerling."

Vegna vináttu Björns við Guðmund Ormsson á Knerri þorði enginn að kæra framferði hans.

Kerling ein að Öxl vildi vara systkini sem þar gistu við hættu þeirri sem yfir þeim vofði og raulaði eftirfarandi við barn sem hún var að svæfa.

Gistir enginn hjá Gunnbirni
sem klæðin hefur góð.
Ekur hann þeim í Ígultjörn.
Rennur blóð
eftir slóð
og dilla ég þér jóð.

Pilturinn komst síðan undan Birni við illan leik en stúlkan ekki og var Björn handtekinn af Ingimundi hreppstjóra í Brekkubæ nokkru seinna.

Sumar heimildir segja að Björn hafi framið alls ein átján morð. Fjöldi þeirra er samt á reiki og ekki er víst hve marga hann myrti. Sveinn skotti sonur Björns var einnig tekinn af lífi og sömuleiðis sonur Sveins sem Gísli hrókur var kallaður.

Afkomendur Björns í dag eru taldir um 20 þúsund. Þeir sem það vilja geta athugað í Íslendingabók um skyldleika sinn við hann.

Þau Björn og Steinunn voru bæði dæmd til dauða á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Sagt er að Björn hafi orðið vel og karlmannlega við dauða sínum og er dys hans enn sjáanleg hjá túninu á Laugarbrekku.

IMG 3031Lundi skundi í glugga túrhestaverslunar


1136 - Landsdómur

Mér finnst ég skrifa ágætan stíl. Knappan og auðskilinn. Það gera reyndar margir bloggarar. Jafnvel fésbæklingar líka. Hef aldrei skilið þá sem geta skrifað langar greinar um sömu hugsunina. Hugsun sem vel væri hægt að koma fyrir í einni hnitmiðaðri málsgrein. Bloggurum (mér líka) hættir mjög til að skrifa fréttaskýringar og langhunda um hrunfréttir og þessháttar. 

Ekki er nóg að afgreiða Egil Helgason, Sigrúnu Davíðsdóttur og Láru Hönnu Einarsdóttur með því einu að þau séu vinstrisinnuð. Þau hafa bara staðið vaktina vel og staðið sig miklu betur en þeir blaðamenn sem reglulega skrifa í prentuðu blöðin. Hægrisinnar hafa heldur ekki náð neinu flugi á Netinu. Atburðir hafa vissulega verið þeim andstæðir en það dugar ekki sem skýring.

Pólitískar fréttir og hrunfréttir á mbl.is litast mjög af ákveðinni sýn á atburði og því hvað álitið er að komi ákveðnum mönnum og ákveðnum flokkum best. Hvernig fréttir eru sagðar, hvort lögð er mikil eða lítil áhersla á tilteknar fréttir eða þeim jafnvel stungið undir stól er líka látið þjóna ákveðnu markmiði. Auðvitað getur þetta verið svipað hjá öðrum blöðum. Ég les bara mbl.is umfram önnur vefrit og er gagnrýninn á það.

Nú er mjög rætt um það að landsdómur verði líklega kallaður saman. Nefnd alþingismanna sem skipuð var til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar mun væntanlega skila áliti á laugardaginn og þá mun koma í ljós hvort hún mælir með því að ákæra fyrrverandi ráðherra fyrir vanrækslu eins og mælt var með. Líklegt er að Alþingi sjái sér ekki annað fært en samþykkja tillögu þingnefndarinnar.

Hrunstyðjendur eru þegar farnir að óskapast yfir því hve dýrt það verði fyrir ríkissjóð ef ráðherrar verði dæmdir af landsdómi fyrir vanrækslu og þar með að bera ábyrgð á hruninu. Þeir sem þannig láta eru að fara talsvert framúr sjálfum sér og fráleitt er að meta allt til peninga sem gert er eða látið ógert. Í lögum um ráðherraábyrgð er ekki getið um skaðabótaábyrgð svo dæma yrði eftir öðrum lögum um það.

Hitt er eflaust rétt að fyrrverandi ráðherrar eru varla borgunarmenn fyrir háum upphæðum. Jafnvel enn síður en útrásarvíkingarnir sem þó er forðast eftir megni að ákæra fyrir nokkurn hlut.

IMG 3001Dæmigerður graffari.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband