Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

1125 - Vort daglega blogg

Dagleg blogg verða með tímanum eins og hver önnur óværa. Manni finnst að maður þurfi endilega að blogga en nennir því samt ekki. Að lesa daglega blogg hjá þeim sem ekkert hafa að segja er þó enn undarlegra. (Nú hætta allir að lesa bloggið mitt - stundum ratast þó kjöftugum satt á munn.)

Oft er ég í besta bloggstuðinu rétt eftir að ég hef sent upp mitt daglega blogg. Þá set ég stundum orð á blað (eða í tölvuskjal) sem ég lít svo betur yfir þegar tími er til kominn til að blogga næst. Þá sé ég oft (en ekki alltaf) hve léleg þessi orð eru og finn einhver skárri eða hendi þeim bara. Þetta er aðal-leyndarmálið við mína bloggun. Með því að gera þetta og lesa bloggin sæmilega yfir verður málfar á þeim skárra en hjá þeim sem alltaf eru að flýta sér og senda skrifuð orð jafnan strax út í eterinnn, eins og sumir (t.d. blaðamenn á netmiðlum) gera jafnan.

Ég miðla ekki fréttum með þessu, það veit ég. En eru blogg til þess? Mér finnst það ekki. Blogg eru næsti bær við skvaldrið á fésbókinni. Jafnast allsekki á við vandaðar og ritrýndar blaðagreinar en ættu yfirleitt að vera svolítið skárri en fésbókarspjallið.

Reyni að blogga sem minnst um mínar eigin upplifanir. Endurminningar er svosem gaman að skrifa en þær verða fljótt uppurnar og er satt að segja tímafrekt að gera almennileg skil. Þeim tíma sem ég eyði í bloggskrif (og blogglestur) væri eflaust betur varið í eitthvað annað. Það dettur mér oft í hug. En þá minnist ég þeirra sem þó lesa þennan samsetning og finnst ég vera að bregðast þeim ef ég set ekki nokkur orð á mitt blogg-blað.

Sjálfum finnst mér bloggin mín yfirleitt vera fremur stutt og kannski er það þeirra aðalkostur. (Fyrir utan að birtast daglega - eða næstum því.)

IMG 2964Blöðrusali (sennilega) í Reykjavík á menningarnótt (sem reyndar stendur allan daginn) Jú, víst er þetta menningarlegt.

1124 - Hátíðleg blogg

Nei, bloggin eru að verða hættulega hátíðleg hjá mér. Best er að tala í hálfkveðnum vísum og paradoxum.

Harpa Hreinsdóttir hallmælir prestum og prelátum fram og aftur í sínu bloggi. Erfitt er að vera ekki sammála henni. Kirkjan þarf svo sannarlega að taka til í sínum ranni. Hún hefur dregist háskalega aftur úr í almennri þjóðfélagsþróun.

Illugi Jökulsson og Þórhallur Heimisson deildu um daginn í kastljósi um trúmál. Mér fannst Þórhallur hafa það eitt til málanna að leggja varðandi aðskilnað ríkis og kirkju að kirkjan héldi uppi svo miklu félagsstarfi á fámennum stöðum að ekki mætti hætta því. Semsagt eina réttlætingin fyrir allri litúrgíunni og kjólastandinu væri að prestarnir í litlu sóknunum úti á landi væru að finna sér allt mögulegt til dundurs.

Mér fannst Illugi koma betur út úr þessari umræðu. Kannski var það bara af því að hann speglaði betur mína fordóma. Veit það ekki.

Þó stjórnlagaþing og ESB séu mín hjartans mál að mörgu leyti dugir ekki að skrifa bara um svo leiðinlega hluti. Ekki get ég samt reitt af mér brandarana eins og sumir. Frekar mundi ég setja þá einn og einn í einu á fésbókina. Bloggið á að vera svolítið hátíðlegt.


1123 - Stjórnlagaþing

Bankahrunið, Icesave, glæpamenn á biskupsstóli, pínulítil morð og þessháttar eru auðvitað smámál í samanburði við væntanlegt stjórnlagaþing. Ef vel tekst til verður þarna gerður rammi um Íslenskt þjóðlíf næstu áratugina eða lengur. 

Hugsanlega skiptir ekki máli þó þingið sé aðeins ráðgefandi. Ótrúlegt er að stjórnvöld vogi sér að ganga gegn samþykktum þess ef þær eru nægilega samhljóða. Það er reyndar aðalgallinn við væntanlegt stjórnlagaþing. Hættan á að allt fari í tóma vitleysu vegna rifrildis. Stjórnmálaflokkarnir munu örugglega vilja ráða yfir þátttakendum þarna og hugsanlega er erfitt að koma með öllu í veg fyrir það.

Leyfilegt er samt að vona að þingið verði samstillt og árangursríkt. Mikið er búið að vinna að stjórnarskrármálum undanfarna áratugi og vel er líklegt að nota megi margt af því.

Eflaust eru hugmyndir manna um samstillt og árangursríkt stjórnlagaþing mjög mismunandi, en ef mönnum tekst að láta flokkapólitíkina víkja og sinn betri mann taka völdin er slíkt ekki útilokað.

Vel getur verið að hugsanleg aðild að ESB setji mark sitt á stjórnlagaþingið. Andstæðingar aðildar gætu reynt að koma inn ákvæðum sem gerðu slíkt erfitt eða ómögulegt. Þörfin á að koma með tillögur sem flestallir geta sætt sig við gæti þó komið í veg fyrir það.


1122 - Altice-málið o.fl.

Las í morgun athugasemdir hjá Jóni Val Jenssyni um Altice-málið. Margt fróðlegt kemur þar fram. T.d. þetta með að athugasemdir frá viðkomandi hverfa líka þegar lokað er. Það kemur sér stundum illa og ég hef minnst á það áður. Mér finnst að lokunum eigi að beita sem allra minnst. 

Er þó enn þeirrar skoðunar að Moggamenn hafi fullan rétt til að loka bloggum hér. Málefnalegir verða þeir þó að vera og eðlilegt er að vara menn við og gefa þeim kost á að bæta sig. Það skilst mér að hafi ekki verið gert í tilfelli Grefilsins. Veit ekki um Loft.

Mörgum þykir lokunum vera beitt í óhófi hér á Moggablogginu. Það verða þeir Moggabloggsmenn að eiga við sjálfa sig. Veit ekki hvort það er ástæðan fyrir vinsældatapi þess, en ekki er ólíklegt að það ásamt öðru hafi haft áhrif þar.

Sú skoðun kom fram í þessum athugasemdum að viss orð væru bannorð hjá Moggabloggsguðunum. Það held ég að sé alls ekki rétt og mikil einföldun að halda slíku fram. Öllu skiptir hvernig mál eru flutt og hver heildarsvipur bloggfærslna er. Líka skipta svör við athugasemdum máli geri ég ráð fyrir.

Hlusta oft á útvarp Sögu. Einkum innhringiþáttinn hjá honum Pétri. Oft er gaman að hlusta á þá Eirík Stefánsson og hann rífast um Evrópumál. Þau eru mörgum hugleikin og skaði er hve mjög þau virðast ætla að verða hörð og óbilgjörn á báða bóga.

Var að lesa bloggið hjá bloggvini mínum Arnþóri Helgasyni. Pistill hans um RUV er allrar athygli verður. Einmitt nú þegar afdrifarík mál eru mjög á dagskrá er hlutverk RUV mikilvægara en oft áður. Málefni samtímans þykja okkur ávallt merkilegust en mál einsog aðild að ESB og ný stjórnarskrá eru mikilsverð.


1121 - Hrun, trú og ESB

Það er tvímælalaust rétt að um þessar mundir eru þeir fleiri sem eru andvígir aðild að Evrópusambandinu en hinir. Ég get samt ekki séð neina ástæðu til að hætta við umsóknina. Sumir flokkar eru þó búnir að mála sig að því leyti út í horn að það er ekki ólíkleg niðurstaða ef núverandi ríkisstjórn hrökklast frá völdum. Ef við förum í gegnum þetta ferli sem nú er hafið erum við tvímælalaust betur í stakk búin til að taka ákvörðum um aðild. 

Mér finnst þjóðrembu- og stórríkisrökin bíta best hjá andstæðingum aðildar um þessar mundir. Þau geta þó orðið bitlausari með tímanum og einkum ef aðildarviðræðurnar ganga eðlilega fyrir sig.

Bankahrunið olli talsverðri vinstri sveiflu í stjórnmálum hérlendis. Sú sveifla virðist nú vera að koma fram í vaxandi andstöðu við þjóðkirkjuna. Á sama hátt og stjórnmálaumræðan er að yfirtaka hrunið er líklegt að hún verði þjóðkirkjunni fjötur um fót. Um þetta má auðvitað endalaust fjölyrða og verður líklega gert.

Heyrði ávæning af útvarpsviðtali við einhvern um Orkuveituna um daginn. Líklega var það við Alfreð Þorsteinsson. Hann líkti Reykjavíkurborg við fíkniefnasjúkling og að fixið hans hefði löngum verið að sækja peninga til Orkuveitunnar. Nefnd var talan 70 milljarðar. Ekki veit ég hvernig hún var fengin en þó hún sé há er hún ekki nema hluti af því sem veitan er sögð skulda núorðið. Sýnir reyndar líka, ef rétt er, að verðlagning afurðanna frá Orkuveitunni hefur ekki verið í samræmi við tilkostnað.

Ekki fylgist ég nú vel með þó ég þykist vera áhugamaður um blogg. Moggabloggsguðirnir virðast hafa lokað bloggi Lofts Altice Þorsteinssonar án þess að ég tæki eftir því. Aðrir tala um þetta eins og alkunna staðreynd en hún hefur farið algjörlega framhjá mér. Er ekki vanur að lesa bloggið hans og er eiginlega nákvæmlega sama þó því hafi verið lokað. Oft var hann giska orðljótur og eiginlega furða að því skuli ekki hafa verið lokað fyrr. Veit ekki hvað það var sem bloggguðunum ofbauð núna en krassandi hlýtur það að hafa verið.

Líklega fjölgar þeim um þessar mundir sem búast við að ríkisstjórnin hrökklist frá. Það er samt ekki líklegt. Vinstri grænir munu halda áfram að styðja hana þó ekki væri nema valdanna vegna. Ögmundur og Liljurnar láta illa en munu samt styðja stjórnina ef á reynir.


1120 - Orkuveitan

Af hverju fór það allt saman svona þetta með Orkuveituna? Er eðlilegt að við neytendur borgum tuttugu til fjörutíu prósent hærri orkureikninga bara vegna þess að einhverjum Nígeríubréfum var veifað framan í afglapana í stjórn fyrirtækisins? Ég segi nei. Er ekki bara skárra er að láta helvítið fara á hausinn? Líklega missa þá allar toppfígúrurnar vinnuna. En mér er sama. 

Á góðum dögum þykjumst við Íslendingar borga lægra orkuverð en aðrir. Líklega er það tóm vitleysa. Reynt er að láta borgarkómedíuna sem spiluð var á síðasta kjörtímabili líta út sem björgunaraðgerð vegna Orkuveitunnar. Kannski var hún það en kannski kom hún bara í veg fyrir að hækkunin nú yrði nokkur hundruð prósent.

Magma - Orkuveita - biskupar - Icesave - ESB - Jón Bjarnason. Allt eru þetta bara ómerkilegar fréttir dagsins. Gleymdar á morgun. Ný stjórnarskrá er málið og þar af leiðandi væntanlegt stjórnlagaþing. Nýjasti bloggvinur minn, Sigþrúður Þorfinnsdóttir, heldur úti sérstakri bloggsíðu um stjórlagaþingið. Síðan heitir stjornlagathing.blog.is - semsagt einskonar útibú frá Mogganum eins og ég.

Fékk áðan tölvubréf frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Já, ég gekk í framsóknarflokkinn á sínum tíma til að hjálpa systursyni mínum Bjarna Harðarsyni á þing og síðan hefur mér ekkert gengið að komast úr honum aftur. Hef heldur ekki gert mikinn reka að því. Rukkanir frá þeim forðast ég samt að borga. Las ekki bréfið Sigmundar nema rétt byrjunina enda er það óralangt. Hann telur upp ein 10 til 20 mál sem hann segir að framsóknarmenn hafi staðið sig vel í. Gat ekki séð að þar væri minnst á aðildina að ESB eða stjórnlagaþing. (Gáði að því.) Ætli framsókn segi ekki bara pass í báðum þessum málum?


1119 - DV ollir ýmsu

Flestir eiga sér sínar uppáhalds málfarslegu vitleysur ef svo má segja. Það fer hræðilega í taugarnar á mér þegar ég sé að blaðamenn og aðrir málsmetandi menn kunna ekki að beygja rétt í kennimyndum sterku sögnina að valda. Þetta er þó ótrúlega algengt. Þessi tilvitnum hér fyrir neðan er úr DV.is og þó orðið „kynferðismisnotkunarmálin" sé afkáralegt og alls ekki blaðamanni sæmandi er sögnin að „olla" sem kemur rétt á eftir margfalt verri að mínum dómi.

segir Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, um kynferðismisnotkunarmálin sem hafa ollið miklu umtali um hæfni Þjóðkirkjunnar til að bregðast við slíkum málum.

Auðvitað er það hrein smámunasemi að vera að finna að málnotkun og þessháttar þegar önnur og miklvægari mál skekja þjóðfélagið. Þjóðkirkjan er greinilega í vanda og vörn. Vinstri menn sækja hart að henni. Biskupinn fer undan í flæmingi og búast má við að trúmál verði stjórnmálunum að bráð. Stjórnarandstaðan sækir hart að ríkisstjórninni og ekkert er athugavert við það. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinna fara undan í flæmingi og reyna að hefna þess í héraði sem hallast á í þjóðmálum.

Bloggarar hafa hátt og reyna að valda sem mestu uppnámi. Búast má við hávaðasömu Alþingi og að talsvert muni reyna á fjölmiðla.

Samkvæmt rannsókn sem ég las einhvers staðar um eyðir fólk í fyrsta heiminum nærri helmingi vökustunda sinna við samskiptatæki. Síðan eru talin upp sjónvörp, símar og tölvur og sögð vera þau samskiptatæki sem rætt er um. Einhver er þarna afar illa að sér. Útvarp og bækur og blöð eru a.m.k. jafnmikil samskiptatæki og sjónvörp. Bílar jafnvel líka. Margir halda sig á Netinu m.a. til að lesa. Fréttir af þessu tagi eru alveg út í hött. Lífshættir fólks eru þó að breytast. Nútildags eyðir fólk ekki nærri eins stórum hluta vökustunda sinna til vinnu eins og áður var. Sé aukinn frítími notaður vitlega getur hann sannarlega verið til góðs. Of miklar frístundir geta líka verið til tjóns. 

Og nokkrar myndir:

IMG 2721Kópavogsfjara.

IMG 2888Reyniber.

IMG 2802Fylgst með fésbókinni.

IMG 2813Reisulegt hús á Álftanesi.

IMG 2832Fíflalegur þessi.

IMG 2842Tómatur ættaður úr stofuglugga.


1118 - Afsakið

Það var ógætilegt að nota nafn biskupsins fyrrverandi í fyrirsögn. Mörg hundruð manns hafa litið á bloggið mitt í dag. Sumir kannski eingöngu vegna fyrirsagnarinnar. 

„Þar sem bókmenntunum sleppir tekur tónlistin við," segja tónlistarunnendur stundum.

„Þar sem heimspeki og rökræður enda taka trúarbrögðin við," segja trúmenn gjarnan.

Um þetta má rökræða fram og aftur án þess að komast að nokkurri niðurstöðu. Leiðin að einhverju ímynduðu markmiði getur verið jafn markverð og markmiðið sjálft.

Ég ímynda mér að fólki leiðist oft trúmálaumræður vegna þess að það vill komast hjá að setja sig inn í hugsanagang annarra og hefur ekki lagt í vana sinn að koma hugsunum sínum í orð.

Óneitanlega eru þessar umræður oft staglkenndar og einstaklingsbundnar. Hver og einn trúir á sinn hátt. Notkun trúfélaga á skattpeningum og sókn þeirra í að binda börn á einhverskonar klafa eru þó vissulega ekki til fyrirmyndar.

Deilumeistarar hér á Moggablogginu virðast flestir sérhæfa sig annað hvort í trúardeilum eða deilum um aðild að ESB. Er ekki rétt að fara að keppa bara í þessu?

Annað hvort er að fara á berjamó núna fljótlega eða sleppa því alveg þetta árið. Sveppatíminn stendur líka sem hæst núna. Þegar næturfrost fara að verða algeng er þetta búið spil.


1117 - Ólafur biskup

Því skyldi ég vera að þræta við lesendur mína í kommentakerfinu? Þeir hafa allir meira og minna rétt fyrir sér. Hvað sem hver segir skiptir trú fólk máli. Þrátt fyrir hrun og menningarnótt eru frásagnir um að biskup landsins hafi verið ótíndur kynferðisafbrotamaður það sem fær fólk til að skjálfa í dag. Geir Waage er líka á því að Drottinn sé skelfilegur og prestar allir séu fulltrúar hans. Svona öfgar hélt ég að hefðu dáið út með pápiskunni. Barnaníði er engin leið að mæla bót. Dóttir Ólafs segir ekki frá afbrotum hans af einhverri léttúð. Því er engin leið að trúa. Dómgirni getur það ekki heldur verið. Saga hennar nístir eflaust hjörtu trúaðra. Gott ef ekki er betra að vera trúlaus.

Samkvæmt fréttum í athugasemdakerfi mínu er Hólímóli Grefillinn sjálfur. Ætli hann sé ekki bara feginn að vera laus úr klóm Dabba og Co? Mér finnst það heiður að bæði DoctorE og Grefillinn skuli kommenta hjá mér. Trúmál eru merkileg. Heimspeki einnig. Stjórnmál reyndar líka. Þau eru samt svo síbreytileg að nauðsynlegt er að fylgjast vel með til að vera marktækur þar. Þessvegna eru þau svona leiðinleg. Visst frelsi að vera að mestu laus við þau.

Væntanlegt stjórnlagaþing er að verða mitt hjartans mál. Nauðsynlegt er að hafa eitthvað slíkt mál á heilanum og einbeita sér að því. Það er mikilvægara að huga að því hvernig stjórnskipun landsins verður næstu ár og áratugi en hvort tilteknir útrásarvíkingar sitja nokkrum dögum lengur eða skemur í gæsluvarðhaldi. Hinn sérstaki saksóknari þarf þó að fara að gera eitthvað fljótlega. Það eru allir að verða leiðir á honum. Þá á ég ekki við þá sem eru alltaf á móti öllu. Heldur venjulegt fólk sem er búið að bíða alltof lengi eftir því að byrjað verði að vinda ofanaf hruninu háa. Glæpirnir eru margir og honum mun hvort eð er ekki takast að fylgja þeim öllum eftir. Og hvar er Eva Joly? Held að hún sé búin að fá leið á okkur eins og fleiri.


1116 - Trúboð DoctorE

Hér talast við mitt ego og mitt alter ego. Mér finnst einfaldlega henta vel að koma ýmsu til skila í samtalsformi.

E: Svanur Gísli er að rökræða um trúmál við Doksa. Guð hjálpi honum.

A: Já, hann kallar yfir sig mikinn fjölda af athugasemdum, en til hvers?

E: Mér finnst DoctorE reka eins konar trúboð. Hann vill að sem flestir hugsi á líkan hátt og hann. En hver græðir á því? Ekki hann.

A: En himnafeðgarnir tapa.

E: Já, þannig virkar trúboð. Er ekki trúleysi trúboð? Um það deildu Kiddi og Grefill sem frægt er orðið. Peningar koma málinu ekkert við. Ekki heldur barnaníð, sorg eða aðrar kenndir. Heldur ekki rökfræði eða jólasveinar.

A: Ibexinn var sniðugur. Ef doctorE líkist honum en trúmenn kallinum þá vil ég Ibexinn frekar. Finnst þetta myndband samt ekki innlegg í trúmálaumræðu.

E: DoctorE hefur heilmikið fyrir þessu trúboði sínu. Safnar miklu efni úr erlendum fjölmiðlum og dreifir því. Tekur líka mikinn þátt í trúardeilum.

A: Eins og þú.

E: Ég reyni nú að vera fjölhæfari og minnast á fleira. Vara mig líka á Morgunblaðsguðunum. Það eru mín trúarbrögð.

A: Hahaha. Góður þessi. Er Dabbi þá sama og Sússi eða Guddi?

E: Eiginlega.

A: Tölum um annað. Dabbamál leiða bara að hruninu. Það viljum við umfram allt forðast. Þetta er að verða eins og hver önnur pólitík.

E: Sem er slæm tík.

A: Já, ekkert betri en rjómatíkin hans Kiljans.

E: Svanur Gísli saknaði trúleysingjanna sem venjulega láta til sín heyra í svona málum. DoctorE var eiginlega einn á móti öllum þarna. Og þó ekki.Margir eru sammála honum um sumt.

A: Er búinn að pæla í gegnum fleiri komment hjá Svani. Mér finnst þau skemmtileg. Villi í Köben svarar kallinum eiginlega af mestum krafti.

E: Já, en ég er samt á móti honum. Hann réðist einu sinni á mig að ósekju og ég studdi Doksa þegar hann var rekinn af Moggablogginu. Er tvístígandi í þessu sem öðru.

A: Þú ert bara blaðrari sem þarft heilt blogg þegar flestir láta sér nægja stutt komment.

E: Nú er ég sár. Ég sem reyni alltaf að vera stuttorður og gagnorður.

A: Komment eru blogg og blogg eru komment. Voru það ekki Moggabloggsguðirnir sjálfir sem útmáðu skilin þarna á milli?

E: Í kommenti ertu ofurseldur öðrum. Í þínu eigin bloggi ræður þú öllu.

A: Ásamt Moggabloggsguðunum. A.m.k. í þínu tilfelli.

E: Ég kann að umgangast þá.

A: En Doksi ekki, eða hvað?

E: Er blogg trúarbrögð?

A: Já, hjá þér.

E: Tölum um eitthvað annað. Hvað er klukkan?

A: Málmur og gler og mælir tímann.

E: Ertu genginn í barndóm, eða hvað? Svona tilsvör þóttu skemmtileg þegar ég var ungur. Aðeins meira vit en þetta ættirðu að hafa í fórum þínum.

A: Veit ekki hvort ég vil eyða því í svona innihaldslitlar umræður.

E: Hvað er merkilegra en trúmál?

A: Heimspeki.

E: Þykist þú vera einhver heimspekingur?

A: Meiri en þú.

E: Pabbi minn er stærri en pabbi þinn og ég skal láta hann lemja þig. Svona rök eru lítils virði.

A: Hvort eigum við heldur að tala um blogg eða heimspeki?

E: Heimspeki bloggsins. Annars vorum við að tala um trúmál og DoctorE.

A: Mér finnst þetta trúmálastagl jafnleiðinlegt og hrunfréttir.

E: Hvað eigum við þá að tala um?

A: Ekkert.

E: O.K. Hættum þessu þá.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband