Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
20.6.2010 | 07:34
1055 - Evrópusambandsaðild og fleira
Margir eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að kenna einhverjum um bankahrunið sem hér varð á haustmánuðum árið 2008. Það er þungt fyrir fæti að ná til útrásarvíkinganna auk þess sem óvíst er að þeir séu borgunarmenn fyrir því tjóni sem þeir hafa valdið.
Ófáir kenna ESB um ósköpin og reyna að færa rök fyrir því. Ómögulegt er samt að ná til þess bandalags og varla getur verið rétt að fara bara í fýlu og segjast ekkert vilja hafa með það að gera. Það veldur þeim samtökum svo litlu tjóni þó við göngum ekki í þau að það er ekki umtalsvert. Með tímanum getur það hinsvegar valdið okkur Íslendingum miklu tjóni að vera ekki í samfloti með þeim þjóðum sem við höfum mest samskipti við.
Það er alveg fráleitt að það geti verið eitthvert reikningsdæmi hvort við eigum að gerast aðilar eða ekki og að við eigum aðeins að gerast aðilar ef við græðum á því í beinhörðum peningum. Sannfæring um aðild verður að byggjast á því að það sé rétt til framtíðar. Hvernig trúum við að framtíðin verði? Ef við trúum því raunverulega að Íslendingar verði neyddir í herþjónustu á vegum ESB og landbúnaður leggist hér af við aðild og allar hrakspár andstæðinga aðildar rætist þá er ekki um annað að gera en að ganga ekki í samtökin.
Ef við trúum því hinsvegar að mál séu að þokast til betri vegar í heiminum og stjórnendur ESB séu ekki verra fólk en almennt gerist ætti fólk að íhuga gaumgæfilega hvernig líklegt sé að þróunin verði í heiminum næstu áratugina.
Máni Atlason tekur skínandi góðar ljósmyndir og birtir eina á dag á vef sínum lason.is. Hvet alla til að kíkja þangað.
Frumvarp sem samþykkt var nýlega á Alþingi segir að stjórnlagaþing verði haldið í haust. Vonum bara og gerum ráð fyrir að það verði til einhvers gagns. Það þing verður þó aðeins ráðgefandi. Meðal annars vegna þess að í núverandi stjórnarskrá segir að henni verði aðeins breytt með samþykkt tvívegis á Alþingi með almennum kosningum á milli.
Ef samin verður ný stjórnarskrá er rétt að gera það á þann hátt sem sú gamla segir að það skuli gert. Ef sú stjórnarskrá sem væntanleg er verður samþykkt af Alþingi og síðan aftur eftir næstu kosningar fáum við nýja stjórnarskrá. Vitanlega samþykkir Alþingi ekki hvað sem er og vonandi fyrtast þingmenn ekki um of þó völd þeirra verði hugsanlega skert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2010 | 00:12
1054 - Fjölyrt um fésbókina
Komdu á Facebook þar er fjörið, sagði Sigurður Þór Guðjónsson einu sinni í bloggathugasemd hjá mér. Kannski er það ástæðan fyrir því að ég er alltaf að skrifa um fésbókarræfilinn. Ætli ég sé bara ekki orðinn of gamall og grumpy til að kunna að meta hana að verðleikum.
Er líka of fastur í gamla tímanum með því að einbeita mér um of að rituðu máli. Það er á undanhaldi. Myndir og þess háttar eru það sem koma skal. Allir eiga auðvelt með að tjá sig á Snjáldru og það er líklega helsti gallinn fyrir þá sem helst af öllu vilja predika yfir fólki eins og ég er vanastur.
Þyrfti að bæta fésbókarhegðun mína. Finnst samt bloggið skemmtilegra. Ennþá að minnsta kosti. Þar getur maður látið móðann mása. Rekst ekki á einhverja veggi sí og æ eða fídusa sem maður þarf endilega að skilja en skilur ekki og er alltaf að gera einhver mistök. Ágætt að tefla bréfskákir á fésbókinni samt.
Dagurinn byrjar gjarnan með því hjá mér að ég athuga fésbókina mína og hve margir hafa gert athugasemdir við bloggið mitt. Lít á nokkrar bréfskákir og fer svo að huga að hafragrautnum. Ennþá er ég fastur í því að setja á vegginn minn frekar efni sem mér finnst ekki eiga heima á blogginu. Þetta gæti breyst einhverntíma.
Hvað fésbókarvini snertir þá samþykki ég alla sem ég kannast eitthvað við en býð ekki öðrum en nánustu fjölskyldumeðlimum og ættingjum slíkt að fyrra bragði.
Það truflar mig dálítið hve margir eiga miklu fleiri fésbókarvini en ég. Mér væri sennilega nær að bjóða fleirum fésbókarvináttu. Held að bloggvinir mínir á Moggablogginu séu orðnir talsvert margir enda er ég búinn að blogga nokkuð lengi.
Nú er ég búinn að læra hvernig ég get nuddað fésbókarvinum mínum uppúr blogginu mínu. (Ekki flókið) Kann þó ekki enn að af-fela þá vini sem ég hef einu sinni falið þannig að það sem þeir skrifa birtist ekki á fésbókinni hjá mér.
Ég er allur í málfarinu. Í mínu ungdæmi var að brenna af það sama og að skjóta framhjá. Held að það sé meira að segja úr dönsku. Nú virðist ekki vera svo lengur. Þetta stóð einhvers staðar í dag. Sennilega á mbl.is:
Lukas Podolski brennir af víti
Lét Stojkovic verja frá sér vítaspyrnu.
Svoleiðis er það nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2010 | 00:15
1053 - Fésbók, Gnarr og ýmislegt fleira
Ekki ber á öðru. Nú hefur hæstiréttur sett allt á annan endann í þjóðfélaginu rétt á eftir Jóni Gnarr. Hvar endar þetta eiginlega? Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá (skegginu altsvo) en man ekki eftir svo hröðum breytingum sem nú skella á þjóðinni.
Þessi fésbók er meiri vitleysan. Nú er hægt að segja að maður kunni að meta athugasemdir og þeir sem það gera eru víst meiri manneskjur en aðrir. Kannski hefur þetta alltaf verið svona. Ef maður skrifar eitthvað á fésbókarvegginn eða annars staðar veit maður aldrei hvert það fer og hver sér það. Maður sér líka furðulegustu hluti. Sumir skrifa greinilega eitthvað þar og halda að sumir sjái það en aðrir ekki. Óttalega ruglandi.
Auðvitað er best að skrifa bara sem allra minnst en stundum ræður maður ekkert við sig. Fídusarnir eru líka svo margir að maður veit ekkert hvernig maður á að nota þá. Best að láta þá bara í friði. Svo hefur íslenskunin á skilaboðum í forritinu ekki alltaf tekist sem skyldi. Sumt er maður orðinn svo vanur að sjá á ensku að það skilst illa á íslensku.
Bloggi maður aftur á móti þá ímyndar maður sér að minnsta kosti að hlutirnir séu svolítið einfaldari.
Bloggið hans doktor Gunna er stórfínt. Mæli með að allir lesi. Hef samt aldrei komið honum í Google-readerinn minn.
Fylgist ekki nákvæmlega með því á hverju fólk heykslast mest á hverjum tíma. Síst af öllu hvaðan sú hneykslun kemur. Nú virðist fólk hneykslast mest á því að Jón Gnarr sé að gera eitthvað ólöglegt með því að fækka nefndum. Niður með þau lög sem banna slíkt, séu þau til. Svo eru aðrir að hneykslast á því að Jóhanna skuli rugla saman Dýrafirði og Arnarfirði. Mér finnst það skipta litlu máli. Sýnir bara að hún er lítið kunnug á þessu svæði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2010 | 00:40
1052 - Gengistrygging ólögleg
Hæstiréttur hefur talað. Sé ekki að grundvöllur sé til að breyta þeim úrskurði þó fjármögnunarfélögin muni eflaust reyna það. Treysti líka ríkisstjórninni til að fara ekki á taugum og reyna að draga þau að landi á kostnað almennings.
Sé að ég er alltof ónýtur við að lesa Google-readerinn minn. Eða þá að bloggin þar eru alltof mörg. Það eru margir dagar síðan ég leit á hann síðast og nú eru innleggin orðin meira en fjögur hundruð. Ég verð bara að þykjast lesa þau. Fjöldi þeirra er samt örugglega afar athyglisverður eins og venjulega. Ætti kannski að fækka bloggunum eitthvað.
Auglýsing frá Keflavíkurflugvelli. Furðulegt. Eins og við getum bara brunað uppá Sandskeið og tekið næstu vél til Langtíburtistan. Eru það ekki starfsmenn auglýsingastofunnar sem eru að auglýsa hvað þeir séu sniðugir að hafa platað forráðamenn vallarins til að kaupa þessa auglýsingu? Það finnst mér.
Afsakanlegt með Mjólkursamsöluna. Hún hefur þó komið sér upp einskonar samkeppni þó í smáu sé. Líklega eru auglýsingar frá einokunarfyrirtækjum sérgrein okkar Íslendinga. Hef bara aldrei spekúlerað í þessu.
HM í fótbolta truflar mig ekki sérlega mikið. Horfi hvort eð er ekki mikið á sjónvarp. Hef horft á hluta af nokkrum HM-leikjum og finnst myndatakan góð. Lúðrablásturinn er í lagi mín vegna svo og íslensku þulirnir. Auðvitað væri betra að heyra betur í leikmönnum og önnur umhverfishljóð og þulirnir mættu vera betur að sér um HM en það verður ekki á allt kosið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2010 | 00:20
1051 - ESB
Evrópusambandsóvinir hafa hátt um þessar mundir. Tillaga hefur verið flutt á Alþingi um að hætta við umsókn. Það er of mikill hringlandaháttur þó sennilega sé meirihluti kjósenda um þessar mundir andsnúinn aðild að ESB. Þetta segja skoðanakannanir en auðvitað getur það breyst. Alþingi samþykkti að sækja um aðild. Hinn möguleikinn sem einkum var rætt um á sínum tíma var að greiða atkvæði um hvort sækja skyldi um aðild.
Það er alveg óþarfi að hlaupa upp til handa og fóta útaf þessu. Það er hinsvegar ótækt að hafa menn á ráðherrastólum sem studdu umsókn á sínum tíma en segjast nú vilja afturkalla hana. Steingrími J. Sigfússyni er vorkunn að mörgu leyti. Flokkur hans er við það að klofna enda er það eðli íslenskra stjórnmálaflokka sem eru langt til vinstri að gera svo.
Framsóknarmenn í Sjálfstæðisflokknum og víðar reyna nú að herja sem mest á ríkisstjórninga fyrir að á einhverjum löngu boðuðum fundi hjá ESB sem halda á 17. júní næstkomandi eru líkur á að umsóknaraðild Íslendinga verði tekin til meðferðar. Mér vitanlega getur ríkisstjórnin ekkert að því gert þó auðvitað væri betra að fundurinn væri ekki haldinn 17. júní.
Nú er ég búinn að sálgreina þá sem eru sískrifandi á fésbókarvegginn sinn. Þeir komast ekki að annars staðar!! Hvað má þá segja um bloggarana? Hmm. Líklega er best að hugsa þetta aðeins betur.
Svo er hér í lokin mynd af 1. tbl. af Íþróttablaðinu Sport 3. árg. sem gefið var út árið 1957. Þetta fann ég í gömlu dóti. Kannski er þetta verðmæti hið mesta og kannski leynist fleira þessháttar í mínum fórum. Í miðopnunni á þessu blaði voru síðan gamlar íþróttamyndir og eru tvær þeirra hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2010 | 00:26
1050 - Með lúðraþyt og söng
Latabæjarmafían er að ná sér á strik. Var um daginn í stórmarkaði og þar var í stórri stæðu vatn í hálfs lítra plastflöskum á 149 krónur stykkið. Þetta vatn var með Latabæjarmerki og kallað Latabæjarvatn. Mér finnst eðlilegt að menn geri það sem þeir geta til að græða peninga og þó mér þætti þetta vatn í dýrara lagi var alveg vandræðalaust fyrir mig að sleppa því að kaupa það.
Varð þó dálítið hugsi þegar ég sá dreng einn lenda í rifrildi við móður sína. Hún taldi mikinn óþarfa að kaupa þetta vatn en drengurinn vildi að því er hann sagði fá sitt íþróttavatn.
Ekki veit ég hvernig þessari viðureign lauk en er það ekki svolítið óheiðarlegt að græða peninga með aðstoð lítilla barna sem ef til vill hafa lítinn skilning á fjárhagsmálum fjölskyldna?
Tími búsáhaldabyltingarinnar er liðinn. Hún verður ekki endurtekin. Þó Herði Torfasyni og félögum hafi tekist að safna saman verulegum fjölda fólks á Austurvöll í lok árs 2008 og janúar 2009 er ekki þar með sagt að hver sem er geti það hvenær sem er og af hvaða tilefni sem er.
Eitt er nú komið til viðbótar kreppunni sem ég get neitað mér að skrifa um og það er Heimsmeistarakeppnin í fótbolta. Svei mér ef allir fjölmiðlar eru ekki undirlagðir af þessum ósköpum. Öll sú þjóðremba og neikvæðni sem þarna birtist og fær útrás er góð áminning um hve siðmenning mannkynsins hvílir í raun á veikum grunni.
Talsverður fjöldi manna virðist standa í þeirri meiningu að þetta tuðruspark sé öllu öðru mikilvægara. Landsleikir eru orðnir óttalegt ómark ef þeir eru ekki liður í undirbúningi HM. Samt er gaman að þessu.
En býflugnasuðið í áhorfendum er hálfleiðinlegt og ég mæli með því að aðferð Brjáns Guðjónssonar verði notuð.
Skaði er að Alþingismenn skuli ekki nenna að sinna störfum sínum. Nú er þeim orðið svo mál að komast í sumarfrí að þeir geta ekki haldið áfram lengur. Það eru svo miklir örlagatímar í lífi þjóðarinnar einmitt nú að þingmenn ættu að sjá sóma sinn í því að starfa eins og menn. Hlustaði á hluta af eldhúsdagsumræðum áðan og þó eitthvað minna væri um við framsóknarmenn" og annað þess háttar þrugl en venjulega þá flækist flokkapólitíkin verulega fyrir mönnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2010 | 06:48
1049 - Moggabloggarinn ég
Samkvæmt teljara Moggabloggsins fer lesendum mínum fækkandi. Einnig virðist sífellt færri vikuheimsóknir þurfa til að komast á 400 listann. Síðast þegar ég gáði voru það 117. Einu sinni þurfti meira en 350 slíkar til að komast á hann, jafnvel 4 til 5 hundruð. En eins og við vitum sem komin erum á fullorðinsár fer öllu hrakandi.
Mér er alveg sama um hrakandi vinsældir Moggabloggsins. Auðvitað er meira gaman að vera mikið lesinn og ég veit alveg hvernig á að komast ofar á vinsældalistann á Moggablogginu. Nenni því bara ekki.
Kannski ég taki Sigurð Þór Guðjónsson mér til fyrirmyndar og fari að skrifa meira á fésbókina og fjölga vinum mínum þar. Að eiga gífurlegan fjölda af vinum á Facebook, líka við annað eins af hinu og þessu og skrifa undir hitt og þetta freistar mín bara ekki. En svo lengist lærið sem lífið var einu sinni sagt. Auðvitað er ég svotil alveg vinalaus á fésbókinni saman borið við Steina Briem til dæmis sem átti 3865 vini þar síðast þegar ég gáði.
Heimasíða Hafdísar. Var að taka til í dóti hjá mér. Þar fundust þessar slitrur af gamalli heimasíðu sem myndin er af. Hún er að sjálfsögðu hýst núna hér í Kópavoginum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.6.2010 | 08:21
1048 - Vatn
Vatnið er undirstaða lífs á jörðinni. Vatnalög svonefnd eiga að taka gildi 1. júlí næstkomandi ef ég hef skilið málið rétt. Þetta mál er mjög pólitískt og var afar umdeilt á sínum tíma. Æ ofan í æ hefur gildistöku laganna verið frestað. Ég sé ekki síðri ástæðu til þess nú.
Ríkisstjórnin sem nú situr vill fresta gildistöku laganna að ég held. Er þó ef til vill tilbúin til að láta þau taka gildi í hrossakaupum um önnur mál. Eflaust verður auðveldara að fá fjárfestingar erlendis frá ef vatnið er til sölu á sama hátt og önnur jarðargæði. Þetta frumvarp var á sínum tíma samþykkt á Alþingi Íslendinga og þeir þingmenn sem það samþykktu telja eflaust að nægilegar tryggingar hafi verið í lögunum til áframhaldandi notkunar almennings á vatninu.
Þeir þingmenn sem nú sitja eru eflaust sama sinnis. Gallinn er bara sá að þeim er illa treystandi. Það hve oft málinu hefur verið frestað bendir til þess að ekki sé allt eins og það á að vera.
Mér skilst að boða eigi til fjöldafundar um þetta mál næstkomandi mánudag við Alþingi Íslendinga. Gallinn er bara sá að það eru svo mörg önnur mál sem brýnt er að mótmæla að hætt er við að þetta afmarkaða mál drukkni í ósköpunum.
Ég vil ekki stuðla að því að núverandi ríkisstjórn hrökklist frá völdum. Sé engan veginn að líklegt sé að skárri stjórn taki við.
Fer nokkuð oft á Facebook því þar tefli ég nokkrar bréfskákir. Renni meðal annars yfir það sem fésbókarvinir mínir hafa til málanna að leggja. Er oftast fljótur að því. Skrifa yfirleitt ekki mikið sjálfur þar enda málefnin oftast ekki við mitt hæfi.
Eru þeir uppteknari af skoðunum annarra á sér og sjálfmiðaðri en aðrir sem skipta þar um forsíðumynd vikulega eða oftar? Kannski er það svo. Hvað veit ég?
Fésbókin er áhrifamikil leið til að koma af stað samskiptum manna. Bloggið reyndar líka þó það sé ekki eins mikið í tísku núna og Facebook, sérstaklega ekki Moggabloggið. Meðal vefmiðla virðist eyjan.is vera mjög að bæta sig. Að trúa öllu sem þaðan kemur og frá Agli Helga og dv.is er þó varasamt í meira lagi.
Morgunblaðið og mbl.is eru purkunarlaust notuð í pólitískum tilgangi og fréttablaðið og visir.is líka. Þetta vita allir sem vilja vita og þegar ég les mbl.is sem ég les mun meira en vísi.is þá tek ég að sjálfsögðu tillit til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2010 | 00:14
1047 - Pólitíkin er skrýtin skepna
Og ég er ósköp undarlegur. Þegar allir eru uppteknir af hruni og pólitík finnst mér slíkt fremur leiðinlegt. Þykist samt hafa vit á öllu. Og nú þegar HM skellur á þykist ég engan áhuga hafa á fótbolta. Komst þó einu sinni í fyrndinni svo langt að verða markmaður í aðalliði Hveragerðis. Selfyssingar voru þá aðalóvinurinn og við kepptum stundum við þá. Líklega hefur Hveragerði ekki mikið að segja í þá núna.
Pólitíkin er skrýtin skepna. Ég hef sagt það áður og get sagt það einu sinni enn. Hef enga trú á því að haldið verði marktækt stjórnlagaþing. Alþingismenn munu sjá til þess enda er mátturinn þeirra. Dýrðina fjalla ég ekki um. Allsekki er víst að sjálfsprottið stjórnlagaþing nái því flugi sem nauðsynlegt er. Reynslan mun skera úr um það.
Minnir að það hafi verið Grefillinn sjálfur sem hélt því fram í nýlegu bloggi að Jón Gnarr sé skilgetið afkvæmi bloggs og fésbókar. Komst auðvitað ekki þannig að orði en vildi meina að nefnd tölvuforrit væru orðin öflugri en aðrir fjölmiðlar og hefðu átt verulegan þátt í kjöri hans. Auðvitað eru venjulegir stjórnmálamenn og venjulegir fjölmiðlar ekki hátt skrifaðir hjá almenningi um þessar mundiir en samt er ég ekki viss um að þetta sé alveg rétt.
Vinsældir fyrirbrigðanna eru miklar og í Alþingiskosningum gæti munað mikið um mann á borð við Jón Gnarr. Það að demba bara skrifum eins og venjulegust eru í kjötheimum yfir fólk í Netheimum er ekki í samræmi við tímana sem við lifum á. Mér hefur samt fundist flest vefrit landsins gera þetta. Þess vegna eru áhrif fésbókarinnar og slíkra miðla svo áhrifamikil sem raun ber vitni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2010 | 07:59
1046 - Fúll á móti
Við gerum öll of mikið af því að spegla okkur í áliti annarra. Ef við völdum ekki öðrum skaða eða tjóni er okkar eigið álit markverðast af öllu. Verst er þegar fólk fær sig ekki til að gera það sem það langar vegna ímyndaðs álits annarra. Sú ímyndun gæti hæglega verið röng.
Sem bloggara ber mér að vera fúll á móti. Kannski er það líka mitt rétta eðli. Það er auðvelt að hafa allt á hornum sér. Sérstaklega í pólitík. Þar eru andstæðingarnir hvort eð er alltaf svo vitlausir. Mér finnst bara svo leiðinlegt að skrifa um pólitík.
Um daginn fór ég í smágönguferð. Fór meðal annars niður á svokallaðan Þinghól hér í Kópavogi. Þangað hafði ég aldrei komið áður. Tók nokkrar myndir á þeirri leið. Hef platað aðra til að skoða eitthvað af þeim með því að birta þær hér á blogginu.
Er um þessar mundir að lesa bók um ljósmyndun sem heitir Afturgöngur og afskipti af sannleikanum" og er eftir Sigrúnu Sigurðardóttur. Bókin er gefin út í tengslum við sýninguna Þrælkun, þroski og þrá í Þjóðminjasafni Íslands," eftir því sem segir utan á bókinni. Þetta er afskaplega merkileg bók og nú er ég farinn að halda að ég hafi sérstakan stíl í ljósmyndun þó ég kunni fremur lítið fyrir mér í þeim efnum. Hef samt lengi haldið að ég skrifi öðruvísi en aðrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)