1054 - Fjölyrt um fésbókina

Komdu á Facebook þar er fjörið, sagði Sigurður Þór Guðjónsson einu sinni í bloggathugasemd hjá mér. Kannski er það ástæðan fyrir því að ég er alltaf að skrifa um fésbókarræfilinn. Ætli ég sé bara ekki orðinn of gamall og grumpy til að kunna að meta hana að verðleikum. 

Er líka of fastur í gamla tímanum með því að einbeita mér um of að rituðu máli. Það er á undanhaldi. Myndir og þess háttar eru það sem koma skal. Allir eiga auðvelt með að tjá sig á Snjáldru og það er líklega helsti gallinn fyrir þá sem helst af öllu vilja predika yfir fólki eins og ég er vanastur.

Þyrfti að bæta fésbókarhegðun mína. Finnst samt bloggið skemmtilegra. Ennþá að minnsta kosti. Þar getur maður látið móðann mása. Rekst ekki á einhverja veggi sí og æ eða fídusa sem maður þarf endilega að skilja en skilur ekki og er alltaf að gera einhver mistök. Ágætt að tefla bréfskákir á fésbókinni samt.

Dagurinn byrjar gjarnan með því hjá mér að ég athuga fésbókina mína og hve margir hafa gert athugasemdir við bloggið mitt. Lít á nokkrar bréfskákir og fer svo að huga að hafragrautnum. Ennþá er ég fastur í því að setja á vegginn minn frekar efni sem mér finnst ekki eiga heima á blogginu. Þetta gæti breyst einhverntíma.

Hvað fésbókarvini snertir þá samþykki ég alla sem ég kannast eitthvað við en býð ekki öðrum en nánustu fjölskyldumeðlimum og ættingjum slíkt að fyrra bragði.

Það truflar mig dálítið hve margir eiga miklu fleiri fésbókarvini en ég. Mér væri sennilega nær að bjóða fleirum fésbókarvináttu. Held að bloggvinir mínir á Moggablogginu séu orðnir talsvert margir enda er ég búinn að blogga nokkuð lengi.

Nú er ég búinn að læra hvernig ég get nuddað fésbókarvinum mínum uppúr blogginu mínu. (Ekki flókið) Kann þó ekki enn að af-fela þá vini sem ég hef einu sinni falið þannig að það sem þeir skrifa birtist ekki á fésbókinni hjá mér.

Ég er allur í málfarinu. Í mínu ungdæmi var að brenna af það sama og að skjóta framhjá. Held að það sé meira að segja úr dönsku. Nú virðist ekki vera svo lengur. Þetta stóð einhvers staðar í dag. Sennilega á mbl.is:

Lukas Podolski brennir af víti
Lét Stojkovic verja frá sér vítaspyrnu.

Svoleiðis er það nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Sæmundur. Þessi færsla er afar skemmtileg, ekki síst vegna þess að ég hef verið að hugsa á þessum nótum. Reyndar finnst mér nokkuð ólíkt Feisið og bloggið. Á blogginu er ég aðallega að tala við sjálfa mig og lýsa minni skoðun og upplifun en á feisinu er meira samtal við aðra eða yfirlýsingar. Þar er fólk meira að vera fyndið eða upplýsandi um það sem það er að gera. Ég les það og fylgist með fjölskyldumeðlimum og vinum í gegna um það. S,s, símasparandi prógramm, fésið. Ég er reyndar komin með nokkuð stóran hóp og því alltaf eitthvað að lesa á "home" Síðan skubbar maður blogginu á fésið og blandar öllu saman :) kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 19.6.2010 kl. 07:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband