1047 - Pólitíkin er skrýtin skepna

Og ég er ósköp undarlegur. Þegar allir eru uppteknir af hruni og pólitík finnst mér slíkt fremur leiðinlegt. Þykist samt hafa vit á öllu. Og nú þegar HM skellur á þykist ég engan áhuga hafa á fótbolta. Komst þó einu sinni í fyrndinni svo langt að verða markmaður í aðalliði Hveragerðis. Selfyssingar voru þá aðalóvinurinn og við kepptum stundum við þá. Líklega hefur Hveragerði ekki mikið að segja í þá núna.

Pólitíkin er skrýtin skepna. Ég hef sagt það áður og get sagt það einu sinni enn. Hef enga trú á því að haldið verði marktækt stjórnlagaþing. Alþingismenn munu sjá til þess enda er mátturinn þeirra. Dýrðina fjalla ég ekki um. Allsekki er víst að sjálfsprottið stjórnlagaþing nái því flugi sem nauðsynlegt er. Reynslan mun skera úr um það.

Minnir að það hafi verið Grefillinn sjálfur sem hélt því fram í nýlegu bloggi að Jón Gnarr sé skilgetið afkvæmi bloggs og fésbókar. Komst auðvitað ekki þannig að orði en vildi meina að nefnd tölvuforrit væru orðin öflugri en aðrir fjölmiðlar og hefðu átt verulegan þátt í kjöri hans. Auðvitað eru venjulegir stjórnmálamenn og venjulegir fjölmiðlar ekki hátt skrifaðir hjá almenningi um þessar mundiir en samt er ég ekki viss um að þetta sé alveg rétt.

Vinsældir fyrirbrigðanna eru miklar og í Alþingiskosningum gæti munað mikið um mann á borð við Jón Gnarr. Það að demba bara skrifum eins og venjulegust eru í kjötheimum yfir fólk í Netheimum er ekki í samræmi við tímana sem við lifum á. Mér hefur samt fundist flest vefrit landsins gera þetta. Þess vegna eru áhrif fésbókarinnar og slíkra miðla svo áhrifamikil sem raun ber vitni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband