Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
10.6.2010 | 01:12
1045 - Gestabækur á fjöllum
Ef mín æðsta þrá væri að komast sem hæst á vinsældalista Moggabloggsins þá mundi ég gera sem flestar athugasemdir við fréttir á mbl.is. Svo er bara ekki og ég læt mér nægja að númera mín blogg til að gera þau ólík öðrum og blogga síðan yfirleitt einu sinni á dag. Oftast um miðnæturleytið en þó alls ekki alltaf. Það er algjör óþarfi að blogga daglega og bloggin verða með því óttalegur samtíningur. Nær væri að blogga sjaldnar og þá með skárri blogg-greinum. Tek það kannski upp hér með.
Sú sjálfhverfa sem oft er áberandi í mínum bloggum er af sumum nefnd Sæmundarháttur í bloggi. Það er ekki að ófyrirsynju því blogg um blogg eru mínar ær og kýr. Nenni ómögulega að semja löng blogg um stjórnmál og önnur leiðindi. Væri kannski annað mál ef einhver vildi borga mér fyrir það.
Gestabækur eða einhvers komar miðar til minnis um þá sem sigrað hafa viðkomandi fjall eru gjarnan á fjallstoppum. Fyrir þessu er gömul hefð. Eitt sinn tókum við okkur til við ég og Bjössi bróðir minn og fjarlægðum alla þá miða sem lágu undir skemmdum í lekum rörhólki sem komið var fyrir í vörðu á toppi Skeggjans sem er hæsti punkur Hengilsins.
Nöfnin og dagsetningarnar skrifuðum við svo upp í stílabók sem við komun aftur fyrir í hólknum eftir að við höfðum reynt að laga hann svolítið.
Á toppi Helgafells hjá Hafnarfirði er forláta gestabók í sérlega vel gerðum kassa sem starfsmannafélag Álversins í Straumsvík hefur gefið ef ég man rétt.
Þegar ég stundaði fjallaklifur af sem mestum móð var það mjög undir hælinn lagt hvort gestabækur var að finna eða aðrar upplýsingar um þá sem sigrað hefðu fjallið á toppum þeirra. Vörðubrot voru samt algeng og sumsstaðar voru þríhyrningamælistaðir með vel hlöðnum vörðum og fagurlega gerðum skjöldum þar sem stóð meðal annars RÖSKUN VARÐAR REFSINGU", og er þar opinberum aðilum rétt lýst.
Og nokkrar myndir:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.6.2010 | 00:08
1044 - GPS og farsímar
Ævintýri á fjöllum vegna þess að fólk villist eru ekkert sérlega áhugaverð lengur. Það eru einkum klaufar og viðvaningar sem lenda í því. Mest útaf því að heilbrigð skynsemi, GPS-tæki og farsímar stjórna ekki gerðum manna á réttan hátt. Áttavitar eru nánast úreltir en geta samt staðið fyrir sínu ef menn kunna á þá.
Fyrir þónokkrum árum fór ég í gönguferð ásamt fleirum á Stóra-Meitil. Það var í upphafi farsímaaldar. Þar sem ég lá í mosanum uppá toppi Stóra-Meitils datt mér skyndilega í hug að hringja í Bjössa bróðir þaðan fyrst farsími var með í för. Þetta er það fjallaævintýri sem mér kemur fyrst í hug. Ég hef aldrei villst eða lent í nokkurri hættu á fjöllum svo ég muni.
Mér líkar best að vera einsamall á gönguferðum. Þá get ég farið á þeim hraða sem mér líkar og stoppað þar sem mér sýnist. Öðrum gæti samt hentað betur að ferðast með öðrum. Það hefur augljósa kosti líka. Fólk ætti þó aldrei að fara einsamalt í fjalla- eða öræfaferðir öryggisins vegna. Umhverfið hefur ekkert endilega nein sérstök áhrif á mig. Ég get alveg eins farið í gönguferðir um götur og stræti eins og annað.
GPS-tæki hef ég ekki lært á enn enda ekki haft þörf fyrir það. Farsíma kann ég þó á. Bæði þessi tæki hafa aukið til muna öryggi og frelsi í óbyggða- og fjallaferðum. Nú orðið er óhjákvæmilegt í öllum frásögnum af ferðalögum á hálendinu að geta þess hvort slík tæki hafi verið með í för.
Og nokkrar myndir:
Það er gott að búa í Kópavogi."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2010 | 00:04
1043 - Smjörklípa og fleira
Í útvarpsfréttum var nýlega sagt að einhver atburður hefði orðið eða ætti að verða á Þorlákshöfn". Þarna er venja að segja í Þorlákshöfn. Forsetningamál af þessu tagi eru erfið. Mér er ekki kunnugt um neina reglu á svona málum. Málvenja staðarbúa hlýtur að ráða. Séu fréttamenn í vafa um hvort nota eigi á eða í þarf að spyrja. Þeim sem til þekkja finnst svona lagað skelfilega einfalt.
Útivera (öskufallslaus) er miklu heilnæmari en innivera. Tala ekki um þegar komið er fram á vor. Kannski ég fari að stunda gönguferðir og lýsa þeim hér á blogginu.
Það eitt að Jón Gnarr skuli í viðtölum tala hægt og vanda sig er mikil bót frá venjulegu kranafráskrúfelsi hjá öðrum stjórnmálamönnum. Honum fyrirgefst líka þó hann glotti svolítið stundum. Sennilega er hann bara að hugsa um eitthvað sniðugt.
Fótboltinn er skemmtilegur, sagði ég í færslu eða athugasemd um daginn. Kvennaboltinn er þó skemmtilegastur. Mér finnst það meðal annars vegna þess að ég skil hann betur enda hægari en karlaboltinn. (Og stelpurnar auðvitað fallegri.)
Fylgdist talsvert með tennismótinu á (eða í) Roland Garros þar sem úrslit réðust um síðustu helgi. Sagt var frá þeim í fréttum hér á Íslandi í fáeinum orðum og sagt að sigur Nadals í karlaflokki táknaði mikil tímamót. Það fannst mér ekki en úrslitaleikurinn í kvennaflokki milli Schiavone og Stosur hinsvegar gera það. Gæti skrifað langa færslu sem væri bara um tennis en hver hefði áhuga á því?
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður sagði í dag að hann hefði traustar heimildir fyrir einhverju sem hann tiltók um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Traustar heimildir eru einskis virði ef ekki er vitað hvaðan þær koma. Ef ekki er hægt að segja frá því eru þær afar ótraustar. Simmi reyndi að sauma að Jóhönnu í kastljósinu í kvöld en hafði ekki erindi sem erfiði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2010 | 00:20
1042 - HM í knattspyrnu
Heimsmeistarakeppnin í fótbolta sem nú er að hefjast í Suður-Afríku er eins og Ólympíuleikarnir drifin áfram af peningum. Peningar, peningar, peningar. Peningar eru það sem máli skiptir og fátt annað.
Alþjóðaknattspyrnusambandið útdeilir peningum í samræmi við árangur liðanna. Knattspyrnusambönd þjóðanna útdeila síðan því fé (og jafnvel meiru til - hvað veit ég?) til leikmannanna sjálfra. Sagt er að Bandaríkjamenn og Spánverjar bjóði sínum knattspyrnumönnum mest fé fyrir góðan árangur í mótinu. ( Og jafnvel lélegan líka, enda er það heilmikið átak að komast í úrslitakeppnina) Kappkostað er þó að hafa þetta allt svo flókið að erfitt sé að skilja það.
Alþjóðaknattspyrnusambandið veður í peningum enda er knattspyrnan vinsæl íþrótt um allan heim og sjónvarpsstöðvarnar látnar greiða háar fjárhæðir fyrir að fá að sýna frá mótinu enda standa þær og falla með því hvernig til tekst við útsendingarnar.
Svolitlum hluta (eða afgangnum ef vitlaust er reiknað) af þeim auði sem þannig safnast er deilt út til hinna ýmsu knattspyrnusambanda heimsins. KSÍ er oft í vandræðum með að koma sínum peningum í lóg því þeir geta ekki byggt reiðhallir í hverri sveit eins og Guðni. Gefa jafnvel sínum peningagrísum leyfi til að verða sér úti um annars konar reið á kostnað KSÍ. Ókey, þessi var fyrir neðan beltisstað.
Við Íslendingar erum dálítið hrekkjaðir á því að láta peninga ráða of miklu. Íþróttir á heimsmælikvarða eru alltof háðar peningum og magn peninga ræður beinlínis vinsældum íþrótta. Í Golfinu er (eða var a.m.k.) mönnum einfaldlega raðað á styrkleikalista eftir því hve miklu verðlaunafé þeir geta sankað að sér. Aðrar greinar nota úthugsaðri aðferðir. Það hve íþróttagreinum tekst að ná í mikla peninga er aðallega undir sjónvarpsstöðvunum komið.
Þeir sem stjórna heimsmeistarakeppninni sem nú fer í hönd gera mikið úr áhuga Afríkumanna á knattspyrnu og keppninni sem slíkri. Forsala aðgöngumiða var lengi vel einungis á Netinu og allt er dýrt sem að keppninni snýr. Gisting á hótelum er dýr, minjagripir um keppnina dýrir og í raun er fjöldi áhorfenda bara ein breytan í exelskjali og einnig verð aðgöngumiða. Verðlagningin er eins og hjá flugfélagi eða símafyrirtæki. Viss upphæð þarf að nást og möndla skal með breytur þar til henni er náð. Verði íþróttavellirnir ekki mátulega fullir er það merki um mistök af hendi keppnishaldara.
Kaupskapur hvers konar og auglýsingastarfsemi er mikil í kringum mótið. Alþjóðasambandið selur stórfyrirtækjum einkaleyfi til alls slíks og minniháttar aðilar geta með engu móti komist þar að.
Í forsölunni á Internetinu seldust ekki margir miðar til íbúa Afríku enda hefur þeim lengi verið haldið í fátæk. Einkum af nýlenduveldum Evrópu. Svo fátækum hefur þeim verið haldið að þeir hafa ekki efni á að borga hátt verð fyrir aðgöngumiða og hafa yfirleitt ekki Internetaðgang.
Knattspyrnuleikvangarnir eru áberandi og fallegir. Þeir taka líka mikið pláss. Þar voru stundum fátækrahverfi fyrir en yfirvöld losuðu sig við þau og komu íbúunum fyrir annars staðar.
Svo meiðast knattspyrnumenn í hrönnum útaf fyrirganginum við undirbúninginn og missa jafnvel af fúlgum fjár.
Þetta sem hér hefur verið sagt er allt sem neikvæðast en fótboltinn sjálfur er samt skemmtilegur og það er jafnvel kvenfólk farið að finna. Því var reyndar lengi vel haldið utan við svona lagað og er að miklu leyti enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.6.2010 | 02:04
1041 - Úr útiverunni
Þessi bók kom út árið 2006 hjá bókaútgáfunni Hólum. Já, þetta er einskonar auglýsing á henni og ekki síður á Borgarbókasafni Reykjavíkur sem vinsamlega lánaði mér þessa bók.
Hún er athyglisverð í meira lagi og fjallar um mál sem ég hef (eða hafði) sérstakan áhuga á. Ég er búinn að lesa hana spjaldanna á milli og áhugi minn á göngu- og fjallaferðum hefur vaknað að nýju. Reyndar er ég alls ekki sú fjallageit lengur sem ég einu sinni var. Nú orðið hentar mér betur að ferðast á jafnsléttu. Brekkur eru mun erfiðari og svo hefur lofthræðslan farið vaxandi.
Það eru margar bækur til af þessu tagi en hér er fjallað vítt og breitt um fjallasýki og skylda sjúkdóma. Höfundur segir af skiljanlegum ástæðum mest frá sjálfum sér og gerir það vel. Hann er fyndinn og skemmtilegur og laus við svo til allan hátíðleika. Allmargar teiknaðar myndir eru í bókinni og hefur Ragnar Kjartansson gert þær. Einnig eru allmargar vísur þar sem flestar eru eftir Davíð Hjálmar Haraldsson. Til dæmis þessi:
Í uppsveitum Önundarfjarðar
ég æfingar stundaði harðar.
Þar var svo bratt
að þegar ég datt
þá var rúm tomma til jarðar.
Það getur vel verið að ég stæli þessa bók eitthvað í bloggskrifum mínum á næstunni. Þá mundi ég skrifa um Hengilsvæðið og nágrenni Hveragerðis en ekki Tröllaskagann eins og Bjarni Guðleifsson. Þegar ég var unglingur fórum við skátarnir víða um Hengilsvæðið, Hellisheiðina, Reykjafjall og allt til Ingólfsfjalls.Um þetta svæði má margt segja og eflaust er það mörgum kunnugt nú orðið. Svo var samt ekki í mínu ungdæmi.
Bjarni Guðleifsson segist sjálfur vera með fjallasýki og segir að Steindór Steindórsson frá Hlöðum hafi sagst vera með öræfasýki. Þegar ég skoðaði eitt sinn hið magnaða Íslandslíkan sem geymt er í kjallara ráðhússins í Reykjavík kom mér á óvart hve Ísland er eiginlega lítið fjöllótt. Jú, á ýmsum svæðum eru brött og mikilfengleg fjöll en miðhálendið er mestallt ein eyðimörk að sjá. Þangað hef ég aldrei komið en næst því með að ganga frá Hvítárvöllum til Hveravalla sem í þann tíð var mikil tískuleið.
Margar ferðir fór ég á þeim tíma og hef líklega klifið flest þau fjöll sem sjáanleg eru frá Reykjavík og nokkrum sinnum farið gangandi milli Hveragerðis og Reykjavíkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2010 | 06:20
1040 - Nokkur spakmæli
Frestaðu því aldrei til morguns sem þú getur alveg eins gert hinndaginn.
Ekkert er svo einfalt að ekki sé hægt að klúðra því.
A feature is a bug with seniority.
Þegar þú ert byrjaður að skilja hvernig tölvan þín vinnur þá er hún orðin úrelt.
Sælir eru unglingarnir því þeir munu skuldirnar erfa.
Sá sem brosir í erfiðleikum er búinn að finna einhvern til að kenna um.
Láttu mig vita ef þú hefur ekki fengið þetta bréf.
Númerið sem þú hringir úr hefur verið aftengt.
Framtíðin er eins og nútíðin nema lengri.
Nú þegar ég hef gefið upp alla von líður mér miklu betur.
Enginn sleppur lifandi frá lífinu.
Það er lífshættulegt að verða gamall.
Hreint skrifborð er merki um troðfullar skrifborðsskúffur.
A clean desk is sign of a sick mind.
Bannið ruslpóst og bjargið trjánum.
Sannleikurinn er bara enn einn misskilningurinn.
Mánudagar eru rót alls ills.
Stöðugar breytingar eru komnar til að vera.
Skerðu pizzuna i 6 sneiðar ég get ekki borðað 8.
Ég er ekkert búinn að tapa vitinu. Það er backup hérna einhvers staðar.
Ef verkið heppnast ekki í fyrstu tilraun skaltu eyða öllum ummerkjum um að þú hafir reynt.
Ef þér mistekst allt í fyrstu tilraun er fallhlíffarstökk ekki fyrir þig.
Ef ég bjarga hvölunum, hvar á ég þá að láta þá?
Farðu að mínum ráðum. Ég þarf ekki á þeim að halda.
Munnlegur samningur er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.6.2010 | 00:29
1039 - Blogg vs. fésbók einu sinni enn
Bloggarinn Marínó G. Njálsson fer oftast vel með tölur. Hann heldur því fram að allir aðilar fjórflokksins hafi tapað umtalsverðu fylgi í síðustu kosningum. Þar er ég honum sammála.
Bloggið mitt var ekki á Blogg-gáttinni áðan en er komið þangað núna. Internetið hagaði sér líka eitthvað undarlega í morgun en er orðið betra. Eitthvað bilaði víst hjá Snerpu á Ísafirði segir Mogginn og ekki lýgur hann.
Fésbókarskrif eru mestan part stjórnlaust skvaldur. Við nánari athugun kemur oft í ljós að betra hefði verið að orða hlutina öðruvísi. Eða jafnvel að hafa aðra skoðun.
Vetfang og vettvangur er ekki það sama. Mér fannst þulur í útvarpinu leggja mikla áherslu á framburðinn í dag þegar hann sagði að atvinnulausum á einhverjum stað hefði fjölgað svo og svo mikið í einu(m) vettvangi. Þarna hefði hann átt að tala um vetfang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.6.2010 | 00:17
1038 - Hafragrautarhugleiðingar og fleira
Fyrir nokkru birti ég hér á blogginu hugleiðingar um hafragrautargerð. Birti jafnvel uppskrift að slíku góðgæti. Fá blogg frá minni hendi hafa vakið jafn mikla eftirtekt. Minnir mig.
Nú er ég, samkvæmt tillögum í athugasemdum, ævinlega farinn að bæta ýmsu í hafragrautinn sem ég fæ mér næstum alltaf á morgnana. Þegar búið er að setja saxaðar döðlur, kanel og hunang útí er þetta eiginlega enginn hafragrautur lengur en góður samt. (Stundum fara jafnvel bananar útí hann líka). Fæ mér ekki lýsi á eftir en í staðinn blóðþrýstingspillur og þess háttar.
Svo kann að fara að sú ákvörðun Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins að halda flokksþing fljótlega sé hans besta ákvörðun. Líklegt er að hún tryggi endurkjör hans í formannssæti flokksins. Að minnsta kosti eru tveir helstu keppinautar hans um hnossið þau Hanna Birna og Kristján Júlíusson talsvert löskuð eftir sveitarstjórnarkosningarnar.
Eitt fleygasta orðatiltækið úr kosningabaráttunni finnst mér vera: Allskonar fyrir aumingja." Með því hefur Jón Gnarr sagt pólitískri rétthugsun stríð á hendur. Hingað til hefur verið bannað að taka svona til orða í kosningabaráttu. Og hver hefur bannað það? Fjórflokkurinn að sjálfsögðu. Hefur nokkur minnst á þetta við aumingjana? Ekki held ég það.
Leyndardómar Facebook eru smám saman að ljúkast upp fyrir mér. Hef samt ekki enn fattað hvernig ég læt innlegg frá fésbókarvinum sem ég hef falið" birtast aftur. Bréfskákin sem boðið uppá þarna virðist vera þokkalega hönnuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2010 | 00:25
1037 - Árásin á skipalestina
Árás Ísraelsmanna á skipalestina mun verða mál málanna næstu daga og auka veg Palestínumanna í deilunum við Ísraelsmenn. Ástandið í Miðausturlöndum er samt ekki fyrir venjulegt fólk að skilja almennilega. Það er samt Bandaríska ríkisstjórnin sem ræður mestu þarna. Ef Obama getur ekki gert eitthvað í þessu máli og ráðið við olíulekann á heimaslóðum verður hann máttlaus forseti og ekki minnisstæður.
Það getur vel verið að færri drepist úr sulti í fangabúðunum á Gaza en venjulega í stríðsfangabúðum eða gettóum. Margt er samt líkt með þeim. Íbúarnir á Gaza telja sig örugglega aðeins geta valið á milli Hamas og Ísraelsstjórnar þó alþjóðasamfélagið svonefnda undir forystu Bandaríkjanna vilji helst fara einhverja millileið.
Aðgerð Ísraelsmanna var það sem oft er kallað Commando raid". Árásin á Entebbe tókst vel á sínum tíma og stundum hafa aðgerðir Ísraelsmanna tekist vel frá þeirra sjónarmiði að minnsta kosti. Aðgerð þeirra að þessu sinni mistókst hins vegar herfilega og getur orðið Ísraelsmönnum dýr.
Áreiðanlega mun Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson Moggabloggari í Kóngsins Köbenhavn rísa upp á afturlappirnar útaf þessari misheppnuðu árás enda lítur hann á sig sem sérlegan málsvara Ísraelsku ríkisstjórnarinnar. (Og les stundum bloggið mitt). Hann er þegar risinn sýnist mér og kennir Tyrkjum um þetta allt saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.6.2010 | 06:33
1036 - Kosningum lokið - Allir þreyttir
Einhverntíma var sagt: Er nokkuð til eldra en dagblað frá í gær?" Nú sé ég að hér eru eldri og ómerkari hlutir. Nefnilega bæklingar með kosningaáróðri sem eftir á að henda. Get ekki ímyndað mér úreltari hluti.
Merkilegt hvað allir stóðu sig vel í nýafstöðnum kosningum. Unnu yfirleitt á eða töpuðu að minnsta kosti afar litlu ef viðmiðin eru höfð rétt. Einstaka eru samt svo slæmir að þeir fara bara í fýlu og segja af sér. Jón Gnarr tapaði reyndar engu og hafði engu að tapa.
Fyrir mér sýna kosningaúrslitin um helgina einkum það að hlutirnir geta breyst þó erfitt sé að gera ráð fyrir slíku. Vonandi gengur einhver gnarrlegur fram fyrir skjöldu í næstu þingkosningum. Það er að segja ef Jón og félagar standa sig bærilega.
Best að skrifa sem minnst ef maður hefur ekkert að segja. Þessvegna þagna ég núna en set inn fáeinar myndir.
Ghostbusters á Akureyri. Ætli það séu ekki draugafælur sem þeir eru með á bakinu?
Galleríið hjá Jónasi Braga. ÓRG fékk glerlistaverk hjá honum til að gefa Margréti Þórhildi þegar hún átti afmæli eða eitthvað.
Og hér er ein að reyna að komast út.
Bíóhöllin á Akranesi. Fædd 1942 eins og fleiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)