1050 - Með lúðraþyt og söng

Latabæjarmafían er að ná sér á strik. Var um daginn í stórmarkaði og þar var í stórri stæðu vatn í hálfs lítra plastflöskum á 149 krónur stykkið. Þetta vatn var með Latabæjarmerki og kallað Latabæjarvatn. Mér finnst eðlilegt að menn geri það sem þeir geta til að græða peninga og þó mér þætti þetta vatn í dýrara lagi var alveg vandræðalaust fyrir mig að sleppa því að kaupa það. 

Varð þó dálítið hugsi þegar ég sá dreng einn lenda í rifrildi við móður sína. Hún taldi mikinn óþarfa að kaupa þetta vatn en drengurinn vildi að því er hann sagði fá sitt íþróttavatn.

Ekki veit ég hvernig þessari viðureign lauk en er það ekki svolítið óheiðarlegt að græða peninga með aðstoð lítilla barna sem ef til vill hafa lítinn skilning á fjárhagsmálum fjölskyldna?

Tími búsáhaldabyltingarinnar er liðinn. Hún verður ekki endurtekin. Þó Herði Torfasyni og félögum hafi tekist að safna saman verulegum fjölda fólks á Austurvöll í lok árs 2008 og janúar 2009 er ekki þar með sagt að hver sem er geti það hvenær sem er og af hvaða tilefni sem er.

Eitt er nú komið til viðbótar kreppunni sem ég get neitað mér að skrifa um og það er Heimsmeistarakeppnin í fótbolta. Svei mér ef allir fjölmiðlar eru ekki undirlagðir af þessum ósköpum. Öll sú þjóðremba og neikvæðni sem þarna birtist og fær útrás er góð áminning um hve siðmenning mannkynsins hvílir í raun á veikum grunni.

Talsverður fjöldi manna virðist standa í þeirri meiningu að þetta tuðruspark sé öllu öðru mikilvægara. Landsleikir eru orðnir óttalegt ómark ef þeir eru ekki liður í undirbúningi HM. Samt er gaman að þessu.

En býflugnasuðið í áhorfendum er hálfleiðinlegt og ég mæli með því að aðferð Brjáns Guðjónssonar verði notuð.

Skaði er að Alþingismenn skuli ekki nenna að sinna störfum sínum. Nú er þeim orðið svo mál að komast í sumarfrí að þeir geta ekki haldið áfram lengur. Það eru svo miklir örlagatímar í lífi þjóðarinnar einmitt nú að þingmenn ættu að sjá sóma sinn í því að starfa eins og menn. Hlustaði á hluta af eldhúsdagsumræðum áðan og þó eitthvað minna væri um „við framsóknarmenn" og annað þess háttar þrugl en venjulega þá flækist flokkapólitíkin verulega fyrir mönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband