Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

1006 - Í alvöru talað

Þetta með alvöruna og alvöruleysið sem Sigurður Þór skrifar í kommenti við bloggið mitt hefur valdið mér heilabrotum. Þetta á ekki bara við um blogg og fésbók. Heldur lífið sjálft. Það verður að nálgast það með talsverðu alvöruleysi annars er það óbærilegt. Mörgum er full alvara með því sem þeir skrifa á fésbókina og það er alltaf varasamt að gera ráð fyrir að fólk meini ekki það sem það segir. Þeir sem fátt segja um sína meiningu eða slá alltaf úr og í eru varasamastir. Það er ómögulegt að vita hvort þeir meina það sem þeir segja í það og það skiptið. Broskallar eru bölvun okkar tíma. Flestir nota þá til að dyljast fyrir öðrum.

Merkilegt hvað mér gengur oft vel að fimbulfamba um allan grefilinn þegar ég sest við tölvuna. Bloggin koma þá stundum næstum áreynslulaust á skjáinn. Þarf samt að lesa yfir. Annað ekki. Jú, kannski raða saman klausum. Er líka búinn að venja mig á að setjast við tölvuna af minnsta tilefni og raða orðum á skjá. Er oftast í bestu stuði ef ég verð andvaka og get ekki sofið. Þá er ekkert sem truflar.

Grefillinn sjálfur mælir með að ég setji bloggin mín bara líka á fésbókina. Mér hefur svosem dottið það í hug og kannski geri ég það og tek hugsanlega meiri þátt í snakkinu sem þar virðist ráða ríkjum en ég hef gert að undanförnu. En til hvers? Af hverju er ég að gera lítið úr fésbókinni? Þykist ég eitthvað betri en aðrir bara af því ég blogga? Meiningarlítið bloggsnakk á sér svosem stað líka. Líta ekki margir niður á bloggið? Er ég ekki að verða eins og þeir bloggarar sem á sínum tíma litu niður á Moggabloggið og töluðu mjög illa um það?

Æ, tölum um eitthvað annað. Þetta er svo deprimerandi. Auðvitað vona ég alltaf innst inni að eldgosið gleypi sem flesta og valdi sem mestum vandræðum. Kötlugos komi og spúi eldi og eimyrju yfir heimsbyggðina. Sjálfur muni ég þó lifa af með mestu harmkvælum. En þetta vill maður helst ekki viðurkenna. Þykist voða góður og hugsunarsamur. Gagnrýnir í mesta lagi málfar og hlær að mestu vitleysunum í fjölmiðlungum og þingmönnum. Bloggi og fésbók líka.

Hmm. Er eitthvað skárra að tala um þetta? Varla finnst öðrum það. Langar stundum á hátíðlegustu augnablikum, þar sem margir eru viðstaddir, að gera eitthvað alveg útúr kú. Hrækja á einhvern viðstaddra eða stökkva fram og æpa og góla eitthvað óskiljanlegt. En svona er þetta. Ef maður gerði alltaf strax það sem manni dettur í hug væri margt öðru vísi en það er.

Heyrði umfjöllun um Jóhannes úr Kötlum í Kiljunni. Man vel eftir Jóhannesi. Virðulegur eldri maður. Sat stundum yfir okkur krökkunum í prófum. Hef lesið eftir hann grein um veruna á Kili. Fannst meira til um þá grein en mörg ljóða hans. Heyrði á sínum tíma Sóleyjarkvæði sungið og það hafði meiri áhrif á mína pólitísku hugsun en flest annað.

Á minni tölvu koma þegar farið er á Netið Yahoo-fréttir sjálfkrafa upp og undanfarið hef ég lesið þar dálítið um ástandið í Thailandi. Enginn vafi er á því í mínum huga að þar eru merkilegir hlutir að gerast sem hæglega geta haft heimssögulega þýðingu. Þar gæti komið til borgarastyrjaldar þrátt fyrir að friðsamara fólk en Thailendingar sé vandfundið.

Þó það sé auðvitað óttalegt svindl þá er ég að hugsa um að setja myndir strax aftur. Það er bara komið vor og svo margt myndefnið.

IMG 1705Hér er sprænt uppí loftið af mikilli tilfinningu.

IMG 1710Tryllitæki.

IMG 1778Lággróður á steini.

IMG 1783Grænn steinn.

IMG 1793Álftanes.


1005 - Facebook vs. blogg

Vel er hægt að vera á báðum. Varla þó mjög afkastamikill beggja megin. Fésbókin á betur við suma en bloggið aðra. Nauðsynlegt er líklega að fylgjast með hvoru tveggja. Mér finnst betra að blogga en fésbókast. Að minnsta kosti ennþá. Held að allmargir fésbókarvinir mínir lesi bloggið mitt reglulega þó ég viti auðvitað lítið um það.

Lík 42 þúsund Dana eru brennd árlega. Á mbl.is er frétt um að óvirðulega sé farið með ösku þeirra Dana sem brenndir eru í Líkbrennslunni í Glostrup. Þetta leiðir hugann að líkbrennslu hér á landi. Ein slík minnir mig að sé í Fossvoginum. Ætli þar séu ekki bara brenndir þeir sem látið hafa í ljós ósk um það í lifanda lífi og gott ef lyktin þaðan fór ekki eitthvað illa í starfsfólkið við leikskóla í grenndinni. Það er ósiður að láta svona mikið og gott byggingarland fara undir kirkjugarða eins og gert er. Þessvegna ættu sem flestir að láta brenna sig eftir að jarðvist lýkur. Kannski dregur það úr mönnum ef óvirðulega er farið með öskuna. Mönnum ætti þó að vera alveg sama.

Með vaxandi bloggi er ég farinn að trúa því sjálfur að ég eigi auðveldara en  margir aðrir með að lýsa hlutum (og tilfinningum) í orðum. Illskiljanlegt hvað fólki finnst flókið við það. Ég er líka sæmilegur við að taka myndir af dauðum hlutum sem á vegi mínum verða (og jafnvel lifandi) og smíða læsilega skýringartexta  við þær. Er þetta það eina sem ég get? Ekki finnst mér það. Mér finnst ég geta næstum allt. Erfitt að vísu að gera sumt núorðið. Ágætt að þykjast eiga erfitt með það sem manni leiðist að gera. Það gat ég ekki þegar ég var uppá mitt besta. Mikið er rætt um laxveiðiferðir þessa dagana. Í því sambandi vil ég taka fram að mér hefur aldrei verið boðið í slíka ferð.

Varðandi stjórnlagaþing sem ég minntist á í gær vil ég bara segja að það er auðvelt að tala um slíkt og sumir stjórnmálamenn eru ágætir í því. Engin leið er samt að trúa peningasjálfsölunum sem nú um stundir þykjast vera þingmenn til að stuðla að því að slíkt þing verði haldið.

Og fimm myndir eins og oft áður.

IMG 1616Og ég sem hélt að ljósleiðarar væru ekki svona hlykkjóttir.

IMG 1699Jólasveinninn er ekki ennþá kominn uppá þak þó hann sé búinn að vera að hengslast í stiganum síðan fyrir jól.

IMG 1764Jú, sumarið er á leiðinni.

IMG 1732Þessi var sallaróleg í sinunni upp við Rauðavatn í dag.

IMG 1711Flottur mósaíkveggur.


1004 - Stjórnlagaþing

Svolítið er byrjað að ræða aftur um stjórnlagaþing. Vel hefði verið hægt að kjósa til þess samhliða komandi kosningum til sveitarstjórna og einu sinni var talað um að svo yrði. Það rætist þó ekki því búið er svæfa málið. 

Í mínum augum lítur þetta einfaldlega þannig út að Alþingi hefur ákveðið að slíkt þing verði ekki haldið enda mundi það draga úr völdum þess. Þjóðin getur að vísu sent þingmenn alla sem einn í langt og verðskuldað frí en vandséð er hvernig slíkt verður framkvæmt. Trausts njóta þeir ekki.

Í orði kveðnu fallast margir þingmenn á að stjórnarskráin sé meingölluð og jafnvel að eðlilegt væri við núverandi aðstæður að halda stjórnlagaþing til að búa til nýja. Þegar á hólminn er komið er þeim samt alveg ósárt um að málið haldi áfram að dragast eins og það hefur gert lengi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslans hefur haft orð á því að stjórnlagaþing þurfi að halda. Ekki hef ég samt trú á að hann geti boðað til slíks uppá sitt eindæmi. Það er þó ef til vill hugmynd sem ræða mætti. Mun líklegra er að einn maður geti komið slíku á en 63ja manna þing sem aldrei getur komið sér saman um neitt. Er eins og kattahjörð sem engin leið er að stjórna.

Áhætta Ólafs Ragnars er sú að í nýrri stjórnarskrá verði hlutverk hans ekkert. Líka getur verið að í nýrri slíkri fái þjóðkjörinn forseti aukin völd. Ekki er samt víst að Ólafur fengi þau völd. Hann verður varla kosinn oftar til að gegna þessu embætti. Um þetta allt saman má fabúlera og brjóta heilann endalaust.

Gaman er að sjá hve vel Steve Davis gengur í snókernum þessa dagana. Núorðið er það samt Ronnie O´Sullivan sem er minn uppáhalds-snókerspilari. Já, það eru ótrúlegustu íþróttagreinar sem ég fylgist með. Vorkenni þeim sem eru þeirrar skoðunar að engin íþróttagrein sé til nema fótbolti. Að flestum íþróttagreinum má hafa eitthvert gaman svo lengi sem maður skilur reglurnar sæmilega. Hef hvorki náð að skilja almennilega reglurnar í ameríska hornaboltanum eða enska krikketinu og þykir þessvegna lítið til þeirra íþróttagreina koma.


1003 - Intelligent design

Horfði á heimildarmynd í sjónvarpinu um búddískan munk sem settist að hér á Íslandi. Áhugavert efni. Hef heyrt að aðstandendur myndarinnar hafi verið í stökustu vandræðum með hvernig klippa ætti efnið saman eftir að hafa safnað í mörg ár. Klippingin var að vísu óttalega skrýtin en gekk þó að mestu upp.

Hef líka verið að lesa pælingar Kristins Theódórssonar um Mofa og margt sem tilheyrir þrætunum varðandi þróunarkenninguna og „intelligent design". Verð að viðurkenna að mér finnst Mofi fara mjög halloka í þeim deilum.

Skelfingar vinalæti eru þetta á Facebook. Það eru bara allir að verða vinir allra. Gott ef ég er ekki að dragast aftur úr eftir ágæta byrjun. Held samt að það sé betra að safna frímerkjum en fésbókarvinum.

Hinsvegar er bloggið mitt að verða samsafn af „one-liners. (eða few-liners a.m.k.)" Kannski á þetta betur heima á Facebook án þess að ég fatti það. Finnst ég ekki geta lagt það á fésbókarvini mína að fá þetta allt í hausinn fyrirvaralaust. Þannig skilst mér  nefnilega að þetta virki en auðvitað getur það verið tómur misskilningur. Líklega get ég stillt fésbókina þannig að eingöngu birtist þar það sem ég hef áhuga á.

Hef alltaf verið skíthræddur við stjórnborðið á Moggablogginu. Gunnar Helgi frændi minn á Topplistanum setti hausmyndina á það fyrir löngu (þar er nefnilega mynd af pabba hans) en ég hef alltaf verið afar íhaldssamur á útlit þess að öðru leyti. Tölusetningin á bloggfærslunum er mögnuð uppfinning hjá mér og ég reikna með að halda henni áram þó nú fari fjögur stafabil í þetta og  stytti með því þann hluta fyrirsagnarinnar sem kemst fyrir á blogg.gáttinni.

Helga Haraldsdóttir fyrrum sunddrottning sagði mér einhvern tíma að hún hefði stundað það þegar hún var að skemmta sér í miðbænum í Reykjavík og átti heima útá Kársnesi í Kópavoginum að synda yfir Fossvoginn á heimleiðinni. Einhverntíma brá henni illilega þegar yrt var á hana þar sem hún var á sundi og átti sér einskis ills von. Þar var þá lögreglan komin á bát til að fylgjast með þessari brjáluðu konu.


1002 - Druslur og fleira

Ég er svo tortrygginn á allt sem heitir viðskipti og auglýsingar að þegar ég heyri setningu sem er mjög algeng í lok snyrtivöruauglýsinga og hljóðar þannig: „Because you are worth it" þá geri ég strax ráð fyrir að það sem auglýst er sé dýrara en góðu hófi gegnir og auglýsandinn sé, hvort sem hann veit af því eða ekki, að reyna að afsaka það.

Aldrei hefur enn í manna minnum
meira riðið nokkur Íslendingur.

Svo yrkir Grímur Thomsen í Skúlaskeiði. Ég er einn þeirra sem hef alltaf viljað skilja þetta dónalegum skilningi þó Grímur hafi eflaust ekki meint það þannig. Á mínum unglingsárum var mikið stundað að afbaka vinsæla söngtexta. Man til dæmis eftir að við sungum ævinlega hið þekkta ljóð Jónasar Hallgrímssonar þannig:

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur?
Er gleðin skín á hverri mellubrá.
Eins og á vori er hittast tík og hundur
og hanga saman kynfærunum á.

Þetta minnir mig auðvitað á druslurnar svonefndu. Kirkjukórar æfðu oft sálmalög á stöðum sem ekki var öruggt að væru Guði þóknanlegir. Þá þótti ekki við hæfi að syngja sálmana sjálfa svo sungnar voru svokallaðar druslur sem voru kvæði sem féllu að viðkomandi sálmalagi. Oft voru þessi kvæði ekki par guðrækileg.

Nú er ég hættur að geta eytt skilaboðum sem koma á stjórnborðið hjá mér. Samt held ég að öll þjónusta við bloggara hér á Moggablogginu sé til mikillar fyrirmyndar. Þetta er svosem ekki til mikilla vandræða en breyting samt. Örlítið meiri fyrirhöfn að lesa upphafið á nýjum bloggum frá bloggvinum og heimsækja þau.


1001 - Þúsund og ein nótt

Dundaði mér einu sinni við að setja arabisku sögurnar sem bera þetta nafn á vef Netútgáfunnar. Lauk samt aldrei við það.

Stefán Benediktsson er athyglisverður og mjög góður bloggari þó hann sé sannfærður Samfylkingarmaður. Um daginn birti hann setningu á bloggi sínu sem ég man enn: „Vondir þegnar hafa alltaf ýtt okkur í átt til betra mannlífs."

Þetta má meðal annars heimfæra á útrásarvíkingana. Það má mikið vera ef lífið hér á Íslandi verður ekki betra þegar við erum búin að jafna okkur á hruninu. Gott ef eldgosin verða okkur ekki til blessunar líka á endanum.

Leó sem kallaði sig Ljón Norðursins var einu sinni með prjónastofu í Gamla Barnaskólanum í Hveragerði. Dóttir hans hét (og heitir eflaust enn) Katla eins og eldfjallið. Leó sá var eftirminnilegur.

Rödduð ell eða órödduð er eitt af því sem útlendingar skilja illa í íslensku en getur oft verið skemmtilegt að velta fyrir sér. Man samt aldrei hvort er hvort. Ella mella kúadella, sögðum við oft áðurfyrr án þess að meina nokkuð sérstakt með því. Eina vísu kann ég sem leikur sér vel með ellin. Hún er svona:

Skólapiltar fara á fjöll
og faðma heimasætur.
Ungar stúlkur elska böll,
einkanlega um nætur.

Veit ekki hvenær ég hætti að blogga. Örugglega þegar ég er dauður. Kannski fyrr. Aðrar tegundir af tölvusamskiptum eiga ekki nærri eins vel við mig og blessað bloggið. Er nýbúinn að prófa að skrá mig á fésbókina en hef enn ekki náð tökum á því formi. Bloggið er betra. Þar getur maður látið móðann mása án þess að vera truflaður.

Finnst einhvernvegin að fésbókin sé til þess að setja þangað samstundis það sem manni dettur í hug. Hægt er að vanda bloggskrif svolítið. Samt er margt mjög athyglisvert á fésbókinni. Til dæmis er víða svo mikið af myndum þar að spurningin er frekar að „nenna" en að „hafa áhuga á."

Göngustígareynsla mín í Kópavogi segir mér að áhugaverðara sé að ferðast þar til fóts en til bíls.


1000 - Já, þúsundasta færslan

Jæja, þá er komið að því. Þetta er hvorki meira né minna en mín þúsundasta bloggfærsla. Það er að segja ef ég hef alltaf númerað rétt. Hef ekki fundið missmíði þar á. 

Kannski er þetta mikið og kannski ekki. Í seinni tíð hef ég alltaf bloggað á hverjum degi hafi ég ekki verið mjög upptekinn við annað. Það sem auðveldar mér að halda númeraröðinni réttri er að ég byrja alltaf á næstu færslu strax og ég hef sett eina upp. Oftast er það auðvitað bara númerið, en með því verður það þó rétt.

Hef tekið eftir því að fólk horfir helst ekki á ljósmyndir hjá öðrum núorðið. Lætur nægja að skoða sínar eigin. Allir (að minnsta kosti flestir) eiga jú myndavélar og mikill fjöldi farsíma er með myndavél. Áður fyrr var jafnvel til siðs að myrkva stofur og sýna skuggamyndir þegar gestir komu. Slíkt þætti eflaust dónaskapur nú á tímum stafrænna myndavéla. Útaf þessu hef ég tekið upp þann sið að smygla öðru hvoru myndum með blogginu mínu. Þá geta þeir sem það lesa illa komist hjá því að sjá þær. Svo er líka möguleiki að einhverjir séu svo spenntir fyrir myndunum að þeir komi þeirra vegna og lesi bloggið mitt í leiðinni.

Umræðan um hrunið, Icesave og allt það einkennist of mikið af hatri, ofstæki og leiðindum. Jú, stjórnmálamenn brugðust einsog margir aðrir í aðdraganda hrunsins og jafnvel í hruninu sjálfu líka. Útrásarvíkingarnir stálu fjármunum okkar en samt sem áður finnst mér óþarfi að tala eins og sumir gera. Það er ekkert unnið með því að hvetja aðra til sem mestrar reiði. Hún skilar engu. Eyðileggur þá sem henni eru haldnir og er verkfæri andskotans eins og meistari Jón Vídalín sagði forðum.

Og myndir:

IMG 1654Tré ársins 2005. (svo segir á skilti við tréð)

IMG 1659Læks-mynd úr Kópavogi.

IMG 1678Þessi tré hafa víst verið fyrir einhverjum.

IMG 1687Hálfa húsið við Víghólastíg.

IMG 1688Skarðsheiðin í skini sólar.


999 - Ölfusá

Þegar farið er yfir Þjórsá nútildags verður maður varla var við það. Svo hefur ekki alltaf verið. Man vel eftir því þegar ég sá í fyrsta skipti það sem nú er kallað gamla brúin yfir Þjórsá. Þá var það nýja brúin á Þjórsá og ég hef væntanlega verið að fara með mömmu austur í Þykkvabæ. Velti fyrir mér hvort virkilega ætti að keyra eftir bogunum en svo var auðvitað ekki. 

Sagði um daginn stuttlega frá bók með greinum eftir Helga Ívarsson í Hólum. Hún heitir „Sagnabrot Helga í Hólum," og ég fékk hana lánaða á Bókasafni Kópavogs. Ein frásögn úr þeirri bók er mér af einhverjum ástæðum minnisstæðari en aðrar. Hún er svona: (ath. Þetta er skrifað árið 2008)

„Þó nú sé komið nokkuð á aðra öld frá því að sunnlensku stórárnar voru brúaðar, Ölfusá 1891 og Þjórsá 1895, vakir enn í huga mínum frásögn þátttakanda í ferjuflutningi sem ég heyrði í æsku. Læt ég hana fljóta með þótt hún sé miklu nær í tímanum en það sem er ritað hér að framan. Þegar ég var um tvítugt fyrir 60 árum heyrði ég á frásögn konu sem þá var áttræð en hún sagði frá því er hún var unglingur, þátttakandi í lestarferð sem fór yfir stórá á ferju, sennilega Ölfusá. Henni var minnisstæðast að ferjumaður og karlar þeir sem með lestinni voru þurftu að róa ferjuskipinu en hestarnir voru látnir synda á eftir. Því kom í hennar hlut að halda í taum á hesti sem synti næst skipi. Kveið hún því mjög því hún var smá vexti og létt og bar enn það vaxtarlag er hún sagði frá áttræð. Hélt hún að annaðhvort missti hún tauminn úr höndum sér og hestinn þar með út í ána eða þá hitt að hesturinn drægi hana fyrir borð svo létt sem hún var. Varð það úrræði hennar að hún lagðist á bakið ofan í skipið og spyrnti báðum fótum í þóftu sem var í afturstafni. Þetta dugði og allt fór vel en hún mundi þetta í sextíu ár og ég síðan í önnur sextíu og kem því nú á þetta blað. Þetta hefur gerst litlu fyrr en Ölfusá var brúuð."


998 - Sumardagurinn fyrsti

Nú þegar ég er aðeins farinn að venjast fésbókinni þá vaknar spurningin hvort vera mín þar muni verða til þess að ég bloggi minna. Fann örla fyrir þeirri tilfinningu þegar ég vaknaði í gærmorgun og fékk mér minn fyrsta kaffibolla að segja frá því á fésbókinni en stillti mig. Gat samt ekki stillt mig um að athuga hvað skráðir vinir mínir hefðu sagt eða gert í nótt samkvæmt nefndri bók. Meira fjör var á blogg.gáttinni. 

Guðbjörn Guðbjörnsson (minn uppáhalds sjálfstæðispólitíkus) skrifar hugleiðingu um „Konungsríkið Ísland". Það er ágætur pistill eins og jafnan hjá Guðbirni. Að verulegu leyti er ég sammála honum. Mér finnst samt Íslensk pólitík einkum vera vanþroskuð og barnaleg. Þá á ég ekki við umræðurnar. Þær eru stundum ágætar þó ramminn utan um þær sé skrýtinn. Heldur á ég við stjórnsýsluna. Hún og lagasetningin er oft ótrúlega óvönduð. Þingmenn virðast ekki einu sinni skammast sín þó í ljós komi að lagasmíð frá þeim sé ónothæf.

Flestir hafa allan fjárann á hornum sér. Ekki síður ég en aðrir. En sólin skín og sumarið er komið samkvæmt dagatalinu. Er ekki bara best að koma sér út í góða veðrið? Ég held það.

Og fáeinar myndir:

IMG 1646Esja.

IMG 1630Yfirbyggður bátur.

IMG 1642Beðið eftir viðskiptavinum.

IMG 1425Yfir Kringlumýrarbraut.

IMG 1592Háskólinn í Reykjavík.


997 - Davíð í stað Bjarna?

Nei, ég held ekki. Altalað er að Bjarni Benediktsson sé að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og leit standi yfir að eftirmanni hans. Það getur vel verið rétt en ég held ekki að Davíð Oddsson sé rétti maðurinn í það embætti eða hafi möguleika á að fá það þó hann vilji. Veðja frekar á Kristján Þór. Annars ráða sjálfstæðismenn þessu sjálfir og þurfa ekki að fara eftir því sem öðrum finnst.  

Skamma stund verður hönd höggi fegin. Þeir sem mærðu Ólaf Ragnar sem mest fyrir að skrifa ekki undir Icesave-lögin óskapast nú yfir því að hann skuli hafa sagt sannleikann í einhverjum sjónvarpsþætti. Það er greinilega vandasamt að vera forseti. Kannski hann eigi bara skilið að fá þessi háu laun sín.

Það er ekki sanngjarnt að ég skuli alltaf þurfa að vera ég. Miklu eðlilegra væri að geta flakkað á milli sjálfa. Auðvitað væru einhver vandræði með það þegar margir væru sá sami og sumir með ekkert sjálf en eflaust mætti ráða framúr því. Mestu vandræðin væru að koma þessu á.

Hef undanfarið verið að lesa bók sem heitir „Sagnabrot Helga í Hólum" sem er að stofni til úrval úr greinum Helga Ívarssonar í Sunnlenska fréttablaðinu árin 2004 til 2008. Afar fróðlegur og skemmtilegur lestur.

Finnst fésbókin ennþá dálítið ruglandi. Samþykki þá sem ég þekki og vilja gerast vinir mínir en veit lítið um hvað ég á að gera næst eða hvernig þetta virkar alltsaman. Finn eflaust útúr því fljótlega.

Hjá hundum er veröldin eitt völundarhús af lyktarferlum. Sjón og heyrn koma svo inn með meira og minna ruglingslegar myndir sem taka þarf tillit til. Kettir heyra betur en flest dýr og eiga ekki í neinum vandræðum með að vita nákvæmlega hvaðan tiltekin hljóð koma. Þetta með að þeir sjái í myrkri er ekki alveg rétt. Þeir þurfa hinsvegar litla birtu til að sjá sæmilega.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband