Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
20.4.2010 | 06:57
996 - Afsagnir og önnur óáran
Nú hefur fjölgað þeim stöðum á Netinu sem ég þarf að kíkja á öðru hvoru. Þar á ég auðvitað við fésbókina. Læt samt kláðastillandi fótakremið eiga sig í bili. Bloggið mitt er í fyrsta sæti. Þangað lít ég oftast. Blogg-gáttina skoða ég líka talsvert oft. Póstinn öðru hvoru og annað svosem Google-readerinn eftir þörfum en samt of sjaldan. Sumt nálgast ég venjulega frá blogginu og undanfarna daga hef ég mikið horft á beinar útsendingar vefmyndavéla frá eldgosunum.
Nú segja menn af sér eins og þeim sé borgað fyrir. Er þeim kannski borgað fyrir það? Það eina í því sambandi sem veldur mér áhyggjum er að Jóhanna sjálf segi af sér líka. Auðvitað má hún fara eins og aðrir hrunverjar en það þyrfti að finna arftaka fyrst. Ekki líst mér á að vinstri grænir ráði öllu bara af því að þeir komust ekki að bankakötlunum. Hugsanlega eru þeir líka of vinstri sinnaðir.
Annars er rétta tækifærið núna til að endurnýja flokkakerfið. Fjórflokkurinn er úr sér spilltur og gegnrotinn en eitthvað verður að koma í staðinn. Stjórnlagaþingi var lofað á sínum tíma en Alþingismenn eru núna á harðahlaupum frá því loforði og tala helst ekki um það. Réttast væri að taka völdin með öllu af Alþingi. Þeir sem þar þenja sig eiga það skilið. Ólafur Ragnar er að reyna að hrifsa frá þeim völdin en er hann nokkuð betri sjálfur?
Er það gleði andskotans
umboðslaun og gróði
fémunir þá fátæks manns
fúna í ríkra sjóði.
Þessi vísa mun vera eftir Bólu-Hjálmar og á ekkert verr við núna en endranær. Hún var gerð um þá ónáttúru sumra manna og margra maurapúka að sanka að sér mat og geyma þar til hann skemmdist. Áður fyrr voru engar frystikistur og matur vildi eyðileggjast. Þeir sem auðsöfnun af þessu tagi aðhylltust þurftu ætíð að nota þann mat sem elstur var og geyma nýmetið þar til það var nánast ónýtt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.4.2010 | 00:04
995 - Gos
Ég spögúlera sennilega meira í bloggi og þessháttar en mér er hollt. Finnst meira gaman að spekulera í slíku en gosi. Nema þá helst Pepsi Max - Haha, þessi var þunnur. En hvað um það, nú er ég semsagt að spögúlera í því hvort Grefillinn sjálfur eða Guðbergur Ísleifsson sem bloggar af sem mestum krafti á Moggablogginu sé sami maðurinn og Bergur sá Ísleifsson sem farinn er að blogga á Eyjunni. Hann er þá næstum því eins afkastamikill og Ómar Ragnarsson og er þá langt til jafnað.
Jæja, þá er ég búinn að skrá mig á Facebook. Gerði ekkert meira. Jú, sendi mynd af mér og upplýsingar um fæðingardag og þess háttar. Facebook hélt því reyndar fram að ég væri skráður, en ég bað um nýtt password. Kannski hef ég skráð mig fyrir mörgum árum því nafn mitt var tengt netfanginu mínu. Þegar ég fer inná Fésbókarsíðuna stendur meðal annars hver er vinnuveitandi minn. Það er svosem ekkert leyndarmál en ég man alls ekki eftir að hafa gefið fésbókinni upplýsingar um það. Eftir því að dæma eru keyrðar þarna saman upplýsingar.
Hugleiðingar um gosið og truflanir á flugi sem af því leiða eru að taka við af hrun-hugleiðingum á blogginu. Hvorttvegga er að verða jafnleiðinlegt. Gaman samt að skoða vefmyndavélarnar sem beint er að gosinu. Skoða oft vélarnar þrjár sem mila.is sér um og líka vélarnar tvær hjá vodafone.is. Vodafone vélarnar gefa mjög skýrar og góðar myndir. Verst hvað skyggnið er oft lélegt á þessum slóðum. Einhver sagði að fréttir frá þessu gosi á sjónvarpsstöðvunum væru aðallega myndir af fréttamönnum. Svolítið til í því. Þar er litla fræðslu að fá um gosið sjálft og ekki neina um landafræði svæðisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
18.4.2010 | 00:04
994 - Skýrslan með stórum staf
Afsakanir þeirra sem í raun styðja aðgerðarleysi gagnvart þeim sem stolið hafa frá okkur eru mun ótrúverðugri eftir útkomu Skýrslunnar. Já, ég hef nafn hennar með stórum staf og held að enginn velkist í vafa um hvaða skýrslu ég á við. Það er samt leiðigjarnt að vera sífellt að klifa á þessu og að hinir og þessir ættu að segja af sér.
Þeir sem sakna innst inni þess siðferðis sem hér ríkti meðan bankarnir og útrásarvíkingarnir voru að soga til sín eigur okkar fara jafnan að tala um hvað núverandi ríkisstjórn sé ómöguleg ef orði er hallað á þau stjórnvöld sem leyfðu það sem hér tíðkaðist.
Ef litið er á það sem gerst hefur hér á landi eftir hrunið er undarlegast að einhverjir hafi kosið hrunflokkana í síðustu kosningum. Kannski hefur fólk verið of dofið til að skynja ástæður hrunsins. Ætli næstu kosningar verði ekki þær sem straumhvörfum valda í stjórnmálasögu landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2010 | 00:18
993 - Aukin reiði
Nú eftir útkomu hrunskýrslunnar skynja ég aukna reiði fólks í garð útrásardólganna. Ekki kæla eldgosin hugi fólks. Skoðanakannanir munu ef til vill sýna þessa reiði. Veit samt ekki hvernig hún muni brjótast út á endanum. Vonandi með sem mildustum hætti.
Mín skoðun er að hvorki Björgvin G. Sigurðsson né Illugi Gunnarsson eigi afturkvæmt í íslensk stjórnmál. Breytingar eru einnig vel hugsanlegar í forystuliði Sjálfstæðisflokksins og þinglið hans og fleiri flokka má sannarlega hugsa sinn gang. Ég er ekki spámaður og veit auðvitað ekkert hvernig þessi mál fara öllsömul en augljóst er að almenningur mun ekki lengur sætta sig við að verða féflettur á sama hátt og verið hefur undanfarin ár og áratugi.
Meðlimir rannsóknarnefndarinnar og helstu aðstoðarmenn eru hetjur dagsins. Krafa fólks um að hendur verði látnar standa fram úr ermum við rannsókn á afbrotum útrásarvíkinganna og stuðningsmanna þeirra meðal stjórnvalda er orðin svo hávær að engin eldgos, undirbúningur sveitarstjórnarkosninga eða hræðsla þeirra sem eiga að sjá um rannsóknina, draga úr henni. Ef ekki verður hreyfing í átt til aðgerða mjög fljótlega má búast við að einhverjir taki til sinna ráða.
Og nokkrar myndir:
Borgarspítali og Kringlumýrarbraut.
Mannvirki á Reykjavíkurflugvelli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2010 | 01:09
992 - Veit ekki hvernig ég á að hafa fyrirsögnina
Ætla heldur ekki að segja neitt fréttnæmt. Veit lítið um gos og þessháttar. Lætur best að skrifa um annað en harðar fréttir.
Er ekki frá því að það sé betra að hafa færri gesti og minni fyrirgang í athugasemdakerfinu en verið hefur hjá mér að undanförnu. Allavega er gott að vera laus við rifrildi og reiði. Kannski taka þeir sem rekast hingað inn mark á mér. Ég tel mér að minnsta kosti trú um það.
Svo er á það að líta að því minna sem bloggað er hverju sinni þeim mun auðveldara er að blogga á hverjum einasta degi. Er eiginlega orðinn háður þessu. Get ekki hætt.
Gosfréttir eru á margan hátt skárri en hrunfréttir. Tók eftir því að í tilkynningu sem birt var á ríkissjónvarpinu á miðvikudaginn þegar gosið í Eyjafjallajökli hófst var sagt að Suðurlandsvegur væri lokaður við Skeiðavegamót. Það stangaðist á við aðrar fréttir þar sem talað var um að fólk væri beðið um að vera ekki á ferðinni að óþörfu milli Hellu og Skóga. Kannski hafa þeir sem þetta skrifuðu bara ekki haft neina hugmynd um hvar Skeiðavegamót eru.
Áhrif gossins í Eyjafjallajökli virðast ætla að verða mest á flugsamgöngur. Flugið er líka orðið aðalferðamátinn hjá mörgum og almennt eru miklu fleiri á faraldsfæti nú en áður var.
Dreymdi nýlega að ég var að ljúka þáttöku í skákmóti og í beinu framhaldi af því var annað að hefjast. Bjarni var meðal þátttakenda þar og af einhverjum ástæðum þurftum við að nota sama bílinn. Meðal þátttakenda í seinna mótinu auk Bjarna man ég eftir Magnúsi Gunnarssyni frá Haga. Það eru nokkrir dagar síðan mig dreymdi þennan draum og ég held að hann þýði ekki neitt sérstakt frekar en draumar yfirleitt. Ástæðan til þess að ég man hann er áreiðanlega sú að ég punktaði eitthvað hjá mér um hann fljótlega eftir að ég vaknaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2010 | 00:30
991 - Slæmar fréttir
Útlendingar sem vanir eru að fylgjast vel með fréttum halda líklega að allt sé að verða vitlaust hér á Íslandi. Hrun, skýrslufréttir, nauðlendingar, eldgos hvert á eftir öðru og alls kyns óáran. Útlendingum sem hér búa er líka vorkunn. Sjálfur er ég uppteknari af fréttum frá Thailandi en góðu hófi gegnir. Annars eru blogg ekki rétti vettvangurinn fyrir fréttir og fréttaspekúleringar. Nær að skrifa um eitthvað annað. Leyfa fréttamiðlunum að þenja sig.
Í mínum huga er enginn vafi á því að vorið er að koma og ég ætla að njóta þess þó margt gangi á. Hrunfréttir, skýrslufréttir, eldgosafréttir, vinna, svefn - það er ekkert líf að skipta þannig. Vinnan verður þá að vera þeim mun skemmtilegri ef þetta á ekki að verða ömurlegt.
Ekki eru allar fréttir mbl.is tómt svartagallsraus. Eftirfarandi var birt þar í lok síðasta mánaðar og ég hlýt að mega taka frá þeim eins og þeir taka frá mér eins og þeim sýnist. Jæja, þetta er þá bara sýnishorn.
Breskum áhugaljósmyndara, Robert Harrison, hefur tekist að taka ljósmyndir af jörðinni með heimasmíðuðu loftfari. Um er að ræða nokkra loftbelgi sem svifu upp í 35 km hæð yfir jörðu.
Harrison hóf smíðina árið 2008 en loftfarið er búið til úr efnum sem auðvelt er að nálgast. GPS-tæki og útvarpssendir voru tengdir við loftbelgina og því gat Harrison auðveldlega fylgst með ferðum þeirra.
Hver og einn loftbelgur kostar tæpar 100.000 kr. í framleiðslu. Bandaríska geimferðarstofnunin (NASA) hefur sýnt útbúnaði Bretans mikinn áhuga. Heildarkostnaðurinn við verkefnið nemur 6.000 dölum (777.000 kr.) Harrison segir að kostnaðurinn hafi verið þess virði, en hann er fyrsti áhugaljósmyndarinn sem nær þessum áfanga.
Og nokkrar myndir enn og aftur:
Svona er náttúrulega upplagt að bera út.
Já, helvítis torfurnar fjúka sennilega í burtu ef þær eru ekki festar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.4.2010 | 01:40
990 - Skýrslan eina
Jæja, þá er friðurinn skollinn á. Ekkert rifist í athugasemdakerfinu mínu og ekkert ort lengur. Veit ekki hvort ég á að vera svekktur eða ánægður. Ef Steini Briem eða Jóhannes Laxdal rekast hingað þá passa þeir sig á að kommenta ekki. Skil þá vel.
Hef hlustað á margt og mikið um skýrsluna frægu í dag. Mest kemur mér á óvart hve illa er staðið að ákvörðunum á efstu stigum stjórnsýslunar. Fundargerðir fáar og lítið um skýrslur sem skýra ástæður aðgerða. Get ekki varist þeirri hugsun að raunveruleg ástæða fyrir því hjá þeim sem að þessu stóðu sé sú að fela slóð sína ef og þegar þessar ákvarðanir verða skoðaðar í nýju ljósi.
Flestir virðast sammála um að skýrslan sé nokkuð góð og afdráttarlaus. Eftir er að sjá hvaða áhrif hún hefur. Viðbrögð Alþingis skipta mestu máli. Hræddur er ég um að þar verði hver höndin upp á móti annarri og lítið gert. Aðgerðarleysi sérstaks saksóknara er líka farið að stinga í augu og verður ekki þolað endalaust af almenningi.
Það er tilraun til að sleppa billega að segja að allt sé þetta bölvuðum bankamönnunum og kaupsýslumönnunum að kenna. Stjórnmálamenn og embættismenn geta með engu móti hvítþvegið sig. Þeir hefðu átt að gera betur. Verði skipaður landsdómur er áreiðanlegt að hann tekur með vettlingatökum á þessu öllu.
Áberandi er hve margir hafa orð á því hve Ingibjörg Sólrún sleppi vel hjá skýrsluhöfundum. Hún fékk þó sitt tækifæri í landsstjórninni, klúðraði því og fær örugglega ekki annað. Björgvin G. Sigurðsson virðist halda að hann eigi enn tækifæri til einhvers í stjórnmálum. Svo er ekki.
Og nokkrar myndir:
Bökum snúið saman. Myndin tekin í Fossvogi.
Þessi kemst víst ekki lengra að sinni.
Útilistaverk í Kópavogi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.4.2010 | 07:06
989 - Ekki ég
Allir eru að fjalla um skýrsluna. Að sjálfsögðu. Þó ekki ég. Tímdi ekki að kaupa hana. Skilst að hún hafi kostað sex þúsund spírur og mörgum þótt hún nokkuð góð. Viðbrögðin við henni skipta þó mestu. Sjáum til.
Ró er að færast yfir kommentakerfið mitt. Þar hefur gengið töluvert á að undanförnu. Líklega eru allir að kynna sér hrunskýrsluna miklu sem óðast núna og ekki ætla ég að bæta neinu þar við. Eitthvað fleira verða menn þó að hugsa um. Margir um vinnuna sína að minnsta kosti.
Villi Bjarna gerði svosem rétt í því að neita að taka við verðlaununum í Útsvarinu um daginn en það er hálfvonlaust verk að ætla sér að bojkotta alla vondu kallana. Stjórnvöld fara eins varlega í sakirnar við hefndaraðgerðir og hægt er. Það gæti komið þeim í koll í kosningum. Viðbrögðin við hrunskýrslunni koma þó til með að ráða miklu um framhaldið. Æ, ég ætlaði ekki að tala um hana.
Í vísum má segja allt. Og helst ekki er hægt að svara fyrir sig nema í bundnu máli. Áður fyrr var þó jafnvel hegnt extra fyrir ljót orð sem þannig komust á kreik. Í vísum má jafnvel tala illa um biskupinn eða forsetann að ástæðulausu. En á það sama að gilda um leikrit til dæmis. Mér finnst það ekki. Jú, jú. Ólafur og Dorrit hafa, að sagt er, oft hagað sér eins og kjánar. Samt finnst mér að sýna megi þeim virðingu eða að minnsta kosti embættinu. Og sama er að segja um biskupinn. Auðvitað má gagnrýna þeirra gerðir en það er ekki sama hvernig það er gert. Og persónulegir þurfa menn ekki að vera. Bandaríkjamenn gera óspart grín að sínum forsetum. Við þurfum ekkert að vera eins og þeir.
Vafasamt er að gagnrýna aðra bloggara á bloggi. Eðlilega verða þeir foj við og gætu átt það til að ráðast að manni sjálfum. Ekki er samt hægt að vera alltaf jákvæður og í pollýönnuleik. Gagnrýnina má ekki alveg vanta.
Milljarður hér og milljarður þar, milljarðar allsstaðar. Öll sú fjármálaleikfimi sem stunduð var á Íslandi í gróðærinu var einkum til að bæta hag örfárra. Bankaleyndin átti að bjarga þeim. Almenningsálitinu flýja þeir þó ekki frá. Bíræfni úrásarvíkinganna var með ólíkindum. Sú stjórnmálastefna sem gat þessa víkinga af sér ætti að gjalda þess að minnsta kosti með því að ráðherrar og þingmenn sem sátu við kjötkatlana fyrir hrun hypji sig í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.4.2010 | 00:04
988 - Ekki um skýrsluna góðu
Nú um stundir geri ég ráð fyrir að flestir skrifi sem mest þeir mega um skýrslufjárann sem væntanlegur er á morgun, mánudag. Mér þykir aftur á móti hlýða að reyna að skrifa um eitthvað allt annað. Pólitíkin er samt svo dómínerandi í samfélaginu (bloggsamfélaginu??) að erfitt er að forðast hana alveg.
Atburðirnir í Thailandi minna mig óþægilega á það sem á hefur gengið hér heima. Af einhverjum ástæðum fylgist ég betur með því sem þar er að gerast en því sem á gengur víða annars staðar. Jú, ég hef að sjálfsögðu fylgst með fréttum af hinu sorglega flugslysi þar sem forseti Póllands fórst ásamt öðrum og votta Pólverjum öllum að sjálfsögðu samúð mína.
Margir hafa leitast við að túlka úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem hér var haldin í byrjun mars eftir sínu höfði. Jú, ég get fallist á að í henni hafi falist visst vantraust á ríkisstjórnina. Ekki get ég þó séð að hún þurfi að víkja þess vegna. Heldur ekki að þjóðin hafi samþykkt einhverja ákveðna skoðun varðandi Icesave umfram það að hafna lögunum frá í desember. Þetta Icesave mál er einfaldlega þannig vaxið að búast má við að það hangi yfir okkur árum saman en hverfi ekki og hvort þjóðaratkvæðagreiðslan hafi flýtt fyrir lausn þess er í besta falli umdeilanlegt.
Jón Steinar Ragnarsson segir í athugasemdum hjá mér að endurminningar séu vel þegið bloggefni hjá mörgum. Þarna er ég sammála honum og hef stundum reynt að taka hann til fyrirmyndar í því en gallinn er sá að það er ansi tímafrekt að koma viti í þannig efni. Hef reynt að tína endurminningarkafla úr mínum bloggum og setja saman í eitt skjal en það er ákaflega sundurlaust. Einu sinni þegar ég var að byrja að blogga var ég svo stoltur af bloggunum mínum að ég prentaði þau út og setti í möppu en er löngu hættur því.
Sæmundarháttur í bloggi snýst um sjálfhverfu bloggara. Meðan flestir eru ánægðir með að nota bloggið til að koma skoðunum sínum á mönnum og málefnum á framfæri eru aðrir haldnir sæmundarhætti og vilja fyrir hvern mun skrifa um bloggið sjálft og hvernig eigi að blogga og í sinni verstu mynd er þessi sjúkdómur þannig að menn geta ekki um annað skrifað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2010 | 00:13
987 - Rifrildi í athugasemdum
Steini Briem og Gísli Ásgeirsson lentu í rifrildi á blogginu mínu um daginn. Það byrjaði með því að Gísli gagnrýndi vísurnar hans Steina harkalega og Steini tók því ekki þegjandi. Annars hafa þeir báðir sér til ágætis nokkuð. Bloggið hans Gísla á malbein.is les ég oft og þykir með þeim allra bestu. Líka er bróðir hans Páll Ásgeir úrvalsbloggari, en er alltaf að hætta og byrja aftur. Báðir eru þeir útivistarmenn og fjallagarpar miklir og Páll hefur skrifað margar bækur um slík mál. Gísli er hinsvegar bæði langhlaupari, þýðandi og spurninganörd hinn mesti. Fyrrverandi kennari.
Gísli orti (að ég held) á sínum tíma fyrir hönd Más Högnasonar hér á Moggabloggið en er hættur því. Mörgum þótti hann full níðskældinn og alvörulaus. Yrkja jafnvel um atburði sem ekki ætti að yrkja um, hvað þá í hálfkæringi eins og Már köttur gerði gjarnan. Annars er meiri saga af Má Högnasyni en bara vísurnar. Fer samt ekki útí það hér. Mér þótti hann (og Gísli) um of á móti Moggabloggurum og setja þá alla undir sama hatt.
Á sínum tíma var það sameiginlegt einkenni flestra sem höfðu bloggað áður en Moggabloggið kom til sögunnar að finna því allt til foráttu. Þar held ég að þjóðmálapólitík hafi ekki ráðið heldur bloggpólitík. Nefni bara nafn Stefáns Pálssonar og þá vita líklega margir hvað ég á við.
Tískustraumar koma og fara í tölvuheimum eins og annars staðar. Einu sinni var irc-ið í tísku, tölvupóstur, msn, blogg, myspace, facebook o.s.frv. Sumir stöðvast í einhverju ákveðnu en aðrir eru sífellt að leita að einhverju nýju og eru aldrei ánægðir. Hvert nýtt trend ber jafnan í sér svolítinn hluta þeirra eldri og bætir einhverju nýju við.
Fésbókin finnst mörgum vera heillandi núna og vel kann svo að vera. Sé samt ekki betur en bloggið henti mér ágætlega, einkum vegna blogg-gáttarinnar þó satt að segja séu þeir orðnir ansi margir sem þar eru skráðir. RSS straumar hjálpa líka mikið þó margir (þar á meðal ég) viti varla um hvað þeir snúast. Samstarf milli bloggveitna mætti vera mun betra. Það sem ég hef einkum á móti fésbókinni er að þar skuli eitt fyrirtæki ráða öllu en auðvitað er hægt að vera þar og blogga eins og vitlaus maður líka.
Mitt helsta boðorð í bloggskrifum er að hafa hvert blogg ekki óhóflega langt. Svona eins og langa athugasemd. Það er þýðingarlaust að láta móðann mása endalaust og skrifa bara eitthvað. Enginn nennir að lesa slíkt svo nú er ég hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)