915 - Fáein orð um mál málanna

Það er að æra óstöðugan að halda áfram að ræða Icesave hér. Samt ætla ég að minnast á tvennt.

Sé ekki betur en mbl.is og Morgunblaðið hafi skipað sér í sveit með þeim sem umfram allt vilja að Ólafur Ragnar fari eftir þeim áskorunum sem komið hafa fram og undirriti ekki lögin um Icesave-ríkisábyrgðina. Í fyrirsögn á mbl.is segir: „Fjórir stjórnarþingmenn skrifuðu undir." Síðan er viðtal við menn úr Indefense hópnum og sagt nánar frá þessu. Ekki er samt minnst á hverjir þessir 4 þingmenn eru og þessvegna er fréttin ekki nema hálfsögð.

Haft var eftir varaformanni fjárlaganefndar í fréttum á RUV að Ólafur hefði eins og aðrir haft tækifæri til að fylgjast með umræðum um þetta mál og því getað tekið afstöðu strax. Einnig ætti hann að ræða við aðra en talsmenn Indefense hópsins. Þetta finnst mér ómálefnalegt og talsverður auglýsingakeimur af þessu. Ólafur sér hluti sem þetta án þess að vera bent sérstaklega á það.

Ártalið 2010 leggst vel í mig. Einhver sagði að hann mundi áreiðanlega verða fljótur að venjast því að skrifa 2010 í stað 2009. Sem minnir mig á að áður fyrr var heilmikið mál að muna eftir því að skrifa rétt ártal. Nú sjá tölvur um þetta að mestu leyti. Annars er 2010 dálítið vísindaskáldsögulegt ártal.

Reyndar þótti mér árið 2000 alltaf vera í órafjarlægð þegar ég var í skóla. Miðað við þær hugmyndir sem fólk hafði um miðja tuttugustu öldina er mesta furða hve lítið hefur breyst.

Þegar strákarnir mínir fóru í fyrsta skipti til útlanda voru þeir mest hissa á því að göturnar skyldu vera svartar og húsin í útlandinu næstum því eins og húsin hér heima. Í þessu tilfelli var útlandið Glasgow í Skotlandi.

Hefði ég sem skólastrákur átt að spá hvernig Ísland yrði árið 2000 hefði sú spá verið alveg í skýjunum. Eftirá séð er kannski sú framför mest sem orðið hefur í lífskjörum almennt. Tækniframfarirnar eru í raun takmarkaðar að því leyti að hraðinn er afar mismunandi eftir greinum.

Þegar bóndi einn, sem hokrað hafði á einhverju smábýlinu frá því snemma á tuttugustu öld og framundir þá tuttugustu og fyrstu, var spurður að því í hverju allra mestu framfarinrnar hefðu verið fólgnar í hans búskapartíð svaraði hann:

„Það var nú þegar stígvélin komu."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Það gæti nú farið að styttast í það að þjóðin þurfi að bíða í löngum biðröðum eftir bomsum og stígvélum líkt og tíðkaðist á sjötta áratugnum.

Kama Sutra, 3.1.2010 kl. 00:28

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Miklar og góðar þakkir fyrir þessa spaklegu úttekt á aðalatriðum.

Fæstir virðast geta rætt þetta án þess að gera sig að flóni og gegn um móðu einhverra flokkshagsmuna.

Árni Gunnarsson, 3.1.2010 kl. 10:10

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þegar ég fór að muna eftir mér, upp úr miðri 20.öld voru góð lífskjör á Íslandi, enginn skortur, en kannski minna óhóf og munaður en nú er. Það er ekki hægt að segja, eftir stríð, að lífskjör Íslendinga hafi verið slæm. Og upp úr 1960 var hér allt í blóma og mikið lífsgæðakapphlaup og síldar og loðnuat. En sú einkennilega firra hefur verið að breiðast út síðustu ár að Ísland hafi verið hálfgert bónbjargarland alveg fram að stórubólu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.1.2010 kl. 11:59

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég veit ekki hvaða stórubólu þú átt við Sigurður. Mitt minni nær ekki nema aftur til 1950 eða svo og alls ekki var neitt hallæri hér þá. Hjá miðlungsfjölskyldum fór stærri hluti af tekjum í mat en nú er. Sá matur var fremur fábreyttur. Verklegar framfarir held ég að hafi hafist síðar hér á Íslandi en annars staðar eða í byrjun tuttugustu aldar. Lífskjör bötnuðu hér mikið þegar blessað stríðið kom með Bretavinnu og engu atvinnuleysi. Eftir að ég kom úr skóla um 1960 hefur verið hér uppgangur og verðbólga lengst af.

Sæmundur Bjarnason, 3.1.2010 kl. 16:18

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmundur, ég vil leggja útaf síðustu orðum þínum "Eftir að ég kom úr skóla um 1960 hefur verið hér uppgangur og verðbólga lengst af" Nú sjáum við fram á samdráttarskeið öðru nafni kreppu en hvaða mælikvarðar eru notaðir á hagvöxt? Ef ég er að skilja menntaskóla hagfræðina mína rétt þá er eyðsla og sóun undirstaða hagvaxtar en nýtni og ráðdeild birtist í hagtölum sem samdráttur í neyzlu.....hm    En afhverju tala menn þá alltaf eins og samdráttur í neyzlu þýði lakari lífskjör? Það þarf nefnilega ekki að fara saman.  Þegar jörðin er að drukkna í drasli neyslubrjálæðisins þá er það besta sem getur komið yfir okkur efnahagsástand sem hvetur til betri nýtingar og minni sóunar.  Þessvegna væri mér alveg sama þótt ég þyrfti að bíða í biðröð eftir bomsum ef ég þyrfti á þeim að halda. Ég skrifaði einu sinnu comment við færslu Svans bónda í Dalsmynni um hinn fyrrta borgarbúa sem á hvorki úlpu né stígvél en það er önnur saga

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.1.2010 kl. 17:02

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, ég held að raunveruleg kreppa hafi alls ekki verið hér á Íslandi síðan e.t.v. í heimskreppunni miklu á fjórða áratugnum. Hve alvarleg sú kreppa er sem líklega er á leiðinni ræðst ekki hér á Íslandi. Þú vitnar í ummæli mín um að hér hafi verið uppgangur síðan um 1960. Ég minnist þess að um 1970 eða aðeins fyrr, þá hætti síldin alveg að veiðast. Þá hikstaði kerfið svolítið en náði sér undrafljótt.

Sæmundur Bjarnason, 3.1.2010 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband