Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

789 - Landráðamenn og fleiri

Jafnvel Egill Helgason er búinn að sjá ljósið. Hann segir að það sé ljótt að kalla menn landráðamenn og föðurlandssvikara. Það er nokkuð umliðið síðan ég gerði mér grein fyrir þessu og bloggaði meira að segja um það. Sannleikurinn er þó sá að aðildin að ESB snýst um fleira en orðanotkun. Ef við Egill sættum okkur illa við hvernig sumir nota þessi orð þá er ekkert við því að gera. Alls ekki er víst að meiningin sé eins slæm og okkur sýnist. 

Ég ætla ekki að skrifa undir áskorunina til Ólafs Ragnars og vonast til þess og reikna með að hann samþykki lögin. Svo mikla heift og reiði er búið að breiða út um þetta mál að ég ætla ekki að fjalla um það efnislega. Finnst við fyrstu sýn afstaða Sjálfstæðismanna ekki til sóma. Að sitja hjá í máli sem þessu þegar ætlast er til að málið sé skoðað og afstaða tekin er í mínum augum hreinn heigulsháttur.

Aðrir en Alþingismenn hafa leyfi til að vera beggja blands í þessu máli og þegja yfir skoðun sinni ef þeir vilja. Þingmenn aftur á móti eru til þess kjörnir að taka ákvarðanir fyrir hönd kjósenda sinna. Hjáseta á rétt á sér þegar þingmaður hefur ekki haft tækifæri til að mynda sér rökstudda skoðun. Engu slíku er til að dreifa í Icesavemálinu. Miklu heiðarlegra er að vera alfarið á móti en að sitja hjá.

Horfði í gær á myndir og frásögn um „The Gimli Glider". Sagt var frá þessu á bloggi Ágústar H. Bjarnasonar og þar voru hlekkir á YouTube vídeómyndir um þennan merkilega atburð. Í sem allra stystu máli fjallar þetta um Boeing farþegaþotu sem varð eldsneytislaus og sveif úr mikilli hæð að flugvelli við Gimli í Kanada árið 1983.

A: „Jæja, þá fer þessari Icesave vitleysu bráðum að ljúka."

B: „Að ljúka? Nú er fjörið fyrst að byrja."

A: „Af hverju segirðu það?"

B: „Nú á að svæla melrakkann á Bessastöðum úr greni sínu."

A: „Nú? Og hvernig?"

B: „Henda í hann fimmtánþúsund undirskriftum og benda honum á að nú sé engin leið að klofa yfir gjána milli þings og þjóðar."

A: „Vá! Þú ert bara orðinn skáldlegur."

B: „Dugir ekki annað. Þessi Icesave ósköp eru að gera alla vitlausa."

A: „Satt segirðu. Að minnsta kosti þig."

B: „Ha?"

A: „Nei, ég segi bara svona."

B: „En meinar ekkert með því, eða hvað? En meðal annarra orða, ertu búinn að skrifa undir?"

A: „Undir hvað?"

B: „Nú, áskorunina á forseta vorn."

A: „Um hvað?"

B: „Ertu algjör auli? Náttúrlega um Icesave málið."

A: „Já, svoleiðis. Ja, eiginlega ekki.

B: „Drífðu þig þá í það."

A: „Bíddu við. Hvernig á ég aftur að gera?"

B: „Arrrgh. Eigum við nú að fara í gegnum það allt aftur? Komdu hingað."

 

788 - Hávaðafundur á Austurvelli

Í nafni bloggara var boðað til hávaðafundar á Austurvelli síðastliðinn föstudag. Samkvæmt fréttum virðist hávaðinn þó einkum hafa beinst gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Það var eflaust ekki ætlun fundarboðenda en sumum bloggurum virðist hafa hugnast það ágætlega.

Tilraunin til að fylkja bloggurum undir merki Hannesar og félaga virðist því hafa mistekist. Ekki þarf samt að fara í grafgötur um óánægju almennings með Icesave ósköpin. Óánægjan með ríkisstjórnina fer líka vaxandi en þó er ekki víst að samasemmerki sé þarna á milli.

Hvað gerir Ólafur Ragnar? Hve margir koma til með að skrifa undir áskorunina á hann? Hvað gera Bretar og Hollendingar? Lifir ríkisstjórnin? Hvernig verða fjárlögin sem opinberast okkur bráðlega? Já, við lifum á spennandi tímum og allt getur gerst.

Ég þarf að ákveða hvort ég skrifa undir áskorunina á Ólaf Ragnar. Eins og aðrir er ég búinn að hringsnúast oft í þessu árans Icesave-máli. Held bara að ég haldi mig til hlés úr þessu. Auðvitað er þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta æskileg en ef fyrirvararnir halda ætti hún ekki að vera nauðsynleg. Stefna ætti þó að stjórnlagaþingi sem allra fyrst.

Um mig hefur ekki væst
afrek vann ég sjaldan fæst.
Nú er það mín hugsjón hæst
hvenær verður étið næst.

Fyrri partinn prjónaði ég sjálfur enda lélegur. Hinn helmingurinn er úr minninu og miklu betri.

Ég er öfundsverður bloggari. Ekki nóg með að þónokkrir lesi það sem ég skrifa heldur fæ ég oft athugasemdir og yfirleitt ekki óvinsamlegar. Ég reyni að skrifa daglega og á sem fjölbreytilegastan hátt. Það er ágætis æfing að skrifa svona en kannski ekkert sérlega skapandi og eflaust tekur þetta orku frá einhverju öðru sem kannski væri betra.  Er bara orðinn háður þessu enda búinn að blogga síðan í desember 2006 ef marka má samantektina hér til hliðar.

Mér finnst hörmulegt að enn skuli menn vera að henda peningum í þessa andskotans hít sem kölluð er tónlistarhús. Nú síðast voru fréttir um að litlar 200 milljónir færu í að sjá til þess að bílakjallarinn flyti ekki í burtu.

 

787 - Langur gangur

Það er langur gangur fyrir hann svanga Manga að bera þang í fangi fram á Langatanga.

Ég fer um borð og borða um borð fyrst borðað er um borð á annað borð.

Kirkjubækur þar um þegja
þó er fyrst af Jóni að segja
að hann skaust inní ættir landsins
utanveltu hjónabandsins.

Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?

Um mig fitlar ununin
ástin kitlar sinnið.
Haltu um tittling mjúkan minn
með henni litlu þinni.

Þannig gæti ég haldið áfram lengi lengi og skrifað bara það sem mér kemur í hug. Ekki er það allt merkilegt og mikið er um endurtekningar. Þannig er bloggið líka. Eintómar endurtekningar. Hvað er ekki oft búið að segja Icesave þetta og Icesave hitt?

Svo eru menn að furða sig á Sigmundi Erni. Hikstalaust mundi ég drekka allt það rauðvín sem mér væri boðið og jafnvel vera til í að halda ræðu á Alþingi á eftir.

Fyrir þónokkru bloggaði ég um Icesave. Þá lét ég þess getið ef ég man rétt að ég væri á móti Icesave-samningnum. Þá var ekki farið að tala um neina fyrirvara og ég benti mönnum á kjosa.is og sagðist alvarlega íhuga að skrá mig þar. Nú er ég ekki viss. Ég vil vita hve lengi er hægt að skrá sig þar, hvenær stendur til að forsetinn undirriti lögin og margt fleira í þessu sambandi. Að sjálfsögðu á forsetinn ekki að láta stjórnmálaskoðanir rugla sig.

Samkvæmt fréttum í kvöld stendur til að afhenda forsetanum undirskriftirnar næstkomandi mánudag svo ekki er fresturinn langur.

 

786 - kjosa.is

Nú er kannski kominn tími til að dusta rykið af kjosa.is. Síðast þegar ég vissi voru meira en 3200 búnir að skrifa sig á þann lista. Kannski eru flestir búnir að gleyma því en þetta vefsetur var stofnað fyrir allnokkru þegar umræðan um Icesave var á frumstigi. Í sem allra stystu máli er þetta áskorun á forseta vorn um að skrifa ekki undir lögin um Icesave ríkisábyrgðina. Sjá nánar á vefsetrinu sjálfu.

3200 er auðvitað ekki mikill fjöldi en ef þeir sem hæst hafa látið útaf Icesave undanfarið hvetja nú alla til að skrifa sig á þennan lista kann þeim að fjölga.

Tónninn í stjórnmálaumræðu hér á landi hefur breyst að undanförnu. Netið á sinn þátt í því. Umræðan þar er ákaflega óvægin. Bloggarar eru mestan part vinstri sinnaðir og gjarnir á að halda að allt sem þeir lesa og segja sé undantekningalaust satt og rétt. Prófkjör og kosningar sýna vel vanmátt bloggsins. Vegur þess fer þó vaxandi og margir lesa greinar þar sér til gagns.

Jón Valur Jensson skrifar mikið á sitt blogg um fréttir dagsins en einkum þó um Icesave og ESB. Þar minnist hann oft á að Jón Sigurðsson forseti hefði gert þetta eða hitt ef hann væri á lífi og fengi að ráða.

Ég er sannfærður um að Jón Sigurðsson hefði verið fylgjandi aðild að ESB. Annars vil ég helst ekki ræða mikið um þetta mál því þá er hætta á að svarhalarnir lengist úr hófi og úr verði þrætubók af versta tagi.

Andstæðingar aðildar segja jafnan að fullveldi og sjálfstæði landsins sé lokið ef af aðild verður og þeir sem slíku mæli bót séu örgustu landráðamenn og svikarar. Þessu verðum við ESB-sinnar að sitja undir en sagan mun dæma um réttmæti þessara fullyrðinga og ekki kvíði ég þeim dómi.

 

785 - Básendar og fleira

Básendaflóðið er frægt í sögunni og margir hafa heyrt á það minnst án þess að vita mikið um það.

Eftirfarandi er að mestu byggt á hinni íslensku alfræðibók Wikipediu sem aðgengileg er á Netinu og hefur slóðina: http://is.wikipedia.org/. Þar má finna margt fróðlegt.

Það var aðfaranótt 9. janúar 1799 sem óveður gekk yfir landið og olli miklum skemmdum á Suðvesturlandi. Verslunarstaðurinn að Básendum vestast á Reykjanesi skammt frá Stafnesi varð rústir einar og byggðist aldrei aftur. Ein kona drukknaði í flóðinu. Kirkjur fuku á Hvalsnesi og Seltjarnarnesi. Mikið tjón varð allt frá Þjórsárósum að Snæfellsnesi. Bátar og skip skemmdust og eyðilögðust víða.

Stundum hefur verið fjallað um þetta mál á þann hátt að virst hefur sem þarna hafi heilt þorp verið jafnað við jörðu í hamfaraflóði miklu. Svo var ekki. Öll hús sem þarna voru tilheyrðu annaðhvort býlinu sem verið hafði að Básendum eða versluninni. Ekki bjuggu aðrir á staðnum en kaupmaðurinn og fjölskylda hans. Tjónið var samt mikið og staðurinn byggðist ekki aftur og eðlilegt er að kenna óveður þetta við hann.

Allt frá því að bankahrunið skall á okkur síðastliðið haust hef ég reynt að skilja hvað gerðist í raun og veru. En ég er engu nær. Er til nokkurs að vera að æsa sig útaf þessu ef maður getur lítil sem engin áhrif haft á málin? Er ekki alveg eins gott að láta bara eins og ekkert hafi gerst. Áhrifin á mig sjálfan eru nánast þau sömu og ég hef átt að venjast alla tíð. Aukin dýrtíð, allt á hraðri leið til andskotans og stjórnvöld vitlausari en allt sem vitlaust er. Hélt samt að málin væru svolítið að lagast. En svo var ekki.

Aðalmunurinn er sá að nú get ég illa farið fram á hærra kaup eða bætt við mig vinnu til að mæta áföllunum.

Nýjung er líka bloggið. Nú er hægt að láta móðann mása þó undir hælinn sé lagt hvort einhverjir lesa. Andleg hreinsun er það allavega. Sálarleg detox-meðferð.

Boðað er til hávaðafundar á Austurvelli á morgun fimmtudag. Vegna vinnu minnar kemst ég ekki á fundinn. Fulltrúi minn á honum verður Davíð Oddsson hinn engilhreini og er þar ekki í kot vísað.

 

784 - Skoðanakönnun um aðild að ESB

Fyrir nokkru var sagt í fréttum frá skoðanakönnun um aðild að ESB. Mig minnir að hún hafi verið tekin eftir að samþykkt var að sækja um aðild. 

17+17 prósent aðspurðra voru fremur eða mjög fylgjandi aðild en 19+29 prósent andvíg. Um 17 prósent voru síðan á báðum áttum. Eðlilega hafa aðildarsinnar ekki viljað ræða mikið um þessa skoðanakönnum. Sjálfur átti ég von á að fylkingarnar væru nokkuð jafnar, en svo er að sjá sem andstæðingar aðildar séu talsvert fleiri en aðildarsinnar eins og sakir standa.

Þetta kann auðvitað að breytast. Einkum ef einhver markverður árangur næst í aðildarviðræðunum. Hætt er við að Icesave-málið hafi haft áhrif á niðurstöðu þessarar könnunar.

Ég á von á að aðild að ESB verði mikið hitamál í allri stjórnmálaumræðu næstu misserin. Þetta mál hefur margar hliðar og er alls ekki einfalt.

Andstæðingar aðildar fullyrða gjarnan, án þess að vita nokkuð um það, að ESB muni á næstu árum og áratugum þróast í átt til þess að verða stórríki. Sumt fólk hefur meira að segja orðið andvígt aðild á þeim forsendum að annars endi afkomendur þeirra með að verða herskyldir í stórríkinu. Þetta er eins mikil fjarstæða og verið getur.

Ég er fylgjandi aðild eins og málin líta núna út en ef ekki nást almennilegir samningar getur stuðningur minn gufað upp á stuttum tíma. Auðvitað er eðlilegt að menn skipi sér í fylkingar og deili um þessi mál. Þetta getur vel orðið aðalhitamálið í íslenskum stjórnmálum næstu árin. Vonandi er samt að þessar deilur valdi ekki vinslitum þar sem síst skyldi.

Heyrði Hannes Hólmstein Gissurarson segja í einhverjum fréttatíma að bankahrunið væri okkur öllum að kenna nema Davíð Oddssyni. Finnst þetta hljóma eins og hver annar brandari en þó var ekki annað að heyra á Hannesi en honum væri fyllsta alvara með þetta.

Og í lokin nokkrar myndir.

IMG 3911Alveg til sóma enda með rjóma.

IMG 3916Hugsandi köttur.

IMG 3932Sveppanýlenda.

IMG 3962Þang og hrúðurkarlar.

IMG 3968Eitthvað grænt.

 

783 - Klámvísur trekkja

Klámskrifin hjá mér í gær vöktu nokkra athygli þó leikurinn væri ekki til þess gerður. Meining mín var einkum að sýna að sú hreinleikaímynd, sem Moggabloggsguðirnir með Árna Matthíasson í fararbroddi, vilja gjarnan breiða yfir Moggabloggið er lítils virði. Auðvelt er að komast framhjá henni og það eru þátttakendurnir sem skapa bloggímyndina en ekki stjórnendurnir. 

Bloggið er marktækur vettvangur hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Samt er hópur fólks sem tekur ekkert mark á því og telur flest slæmt sem þaðan kemur. Stjórnmálamenn eru þó farnir að taka mark á því og er það vel. Blaðamenn eru líka að komast upp á lag með að sækja þangað vit sitt.

Tek mig stundum til og les hin og þessi blogg alveg skipulagslaust. Það sem undrar mig mest er hve margir virðast álíta að besti bloggsiðurinn sé að taka nógu sterkt til orða. Undarlegt er það því flestir hljóta að verða með tímanum leiðir á ljótum orðum og ekkert er unnið með því að tvinna saman eins miklar svívirðingar og unnt er.

Toppur - Drekktu betur; er auglýst hvað eftir annað í sambandi við Evrópukeppni kvenna í fótbolta. Hvað er að drekka betur? Er það að drekka meira? Andstaðan við að drekka illa, eða hvað? Má bara hver skilja þetta á sinn hátt? Lélegur texti í þokkalega gerðri auglýsingu.

 

782 - Gaman er að gera hitt

Gaman er að gera hitt
á góðri stund.
Í píkuna að setja sitt.
Soldinn brund. 

Var ekki lengi að gera þessa vísu enda hef ég yfirleitt átt auðvelt með að setja saman dónalegar (óprenthæfar) vísur. Þarna þurfti ég á einhverju rammandi að halda í upphafinu.

Fáar vísur sem ég hef gert eru mér sérlega minnisstæðar. Ein klámvísa stendur þó uppúr. Hún er svona:

Tekur þýtt um tólið hlýtt
typpi er ýtt í skokkð.
Hárið sítt á tussu títt
titrar frítt og hrokkið.

Þessi er gömul og konan mín hjálpaði mér við hana. Gott ef hún á ekki fyrripartinn að mestu leyti. Sagði Þórði í Mýrdal einhvern tíma frá þessari vísu og síðan mátti hann ekki sjá mig öðruvísi en að fara með vísuna. Honum hefur líklega þótt hún góð.

Til konu minnar orti ég eitt sinn:

Mín ást til þín er alla tíð
sem eldfjalls heitur toppur.
Þú ert svanninn sem ég ríð
og svakalegur kroppur.

Ég álít semsagt sv- ekki vera einn af gnýstuðlunum eins og sumir gera. Í skólanum lærði ég að þeir væru þrír: sk- st- og sp-. Þetta er samt á mörkunum.


781 - Um bloggið mitt

Veit vel að ekki nenna margir að lesa bloggið mitt að staðaldri. Verð að una við það og er ekkert óhress með. Samt eru furðumargir sem skoða það. Ef dagar falla niður hjá mér fækkar lesendum mjög. Af því dreg ég þá ályktun að þónokkuð mikilll fjöldi skoði bloggið mitt einkum fyrir tilverknað RSS-strauma og þeirrar auglýsingar sem fólgin er í stórhausahugmyndinni hjá þeim Moggamönnum og ef til vill líka í bloggvinaæðinu hjá þeim. Já, ég velti mikið fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk er að lesa þetta.

Vildi að ég gæti skrifað um eitthvað bitastætt á hverjum degi en svo er ekki. Stundum stend ég sjálfan mig að því að reyna að gera eitthvað bitastætt sem í rauninni er það alls ekki. Til dæmis held ég að vísurnar hjá okkur Hilmari séu ekki spor merkilegar þó ég hafi leiðst útí að segja frá þeim í síðasta bloggi. Don Hewitt var þó merkilegur og Hólmfastur Guðmundsson líka.

Í kvöld er víst menningarnótt í Reykjavík en ég nenni ekki að fara. Of margir á ferðinni og of mikið vesen. Skárra að sitja hér og skrifa einhverja vitleysu.

Konan mín er nýbúin að auglýsa til sölu nokkrar myndir eftir sig á etsy.com og setja upp einskonar verslun þar.  asben.etsy.com - er urlið. Þar eru nokkrar fínar vatnslitamyndir og á eflaust eftir að fjölga. Etsy.com er annars ágætur vefur. Sérhæfir sig í öllu „handmade" og er greinilega nokkuð vinsæll. Einkum í Bandaríkjunum. Þar er margt að skoða hafi menn áhuga.


780 - 60 mínútur

Látinn er í hárri elli Don Hewitt sem stjórnaði lengi og kom á fót hinum fræga sjónvarpsþætti „60 minutes".

Hann stjórnaði líka hinu umtalaða sjónvarpseinvígi milli þeirra John F. Kennedy og Richard Nixons í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna árið 1960.

Sagt er að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem slíkum kappræðuþætti var sjónvarpað beint og hafa margir haldið því fram að þátturinn hafi haft talsverð áhrif á úrslit kosninganna.

Ég man að veturinn 1960 til 1961 var ég í Samvinnuskólanum að Bifröst og í stjórn svonefnds kvikmyndaklúbbs þar. Meðal annars var verkefni okkar að útvega kvikmyndir til sýninga á kvöldvökum þeim sem haldnar voru á laugardögum. Við byrjuðum starfsemina með því að skrifa ýmsum sendiráðum og öðrum aðilum og biðja um efni. Fljótlega fengum við 16 mm filmu frá Ameríska bókasafninu með upptöku af sjónvarpseinvígi þeirra Nixons og Kennedys og sýndum það á einni af kvöldvökum skólans.

Mér er þetta minnisstætt því ekki voru allir sáttir við að sýna þetta efni. Þótti það heldur tilbreytingarlítið og ekki var álitið að allir skildu vel eða hefðu mikinn áhuga á því sem þar fór fram. Textað var efnið að sjálfsögðu ekki. Myndin var líka að ég held sýnd eftir að kosningarnar höfðu farið fram og efnið því ekki mjög fréttnæmt. Minna má líka á að íslenskt sjónvarp hafði ekki tekið til starfa þegar þetta var.

Undanfarið höfum við Hilmar Hafsteinsson kveðist á í athugasemdakerfinu hér. Mér finnst bráðgaman að þessu og er með þeim ósköpum gerður að mér finnst vísnagerðarmenn enga ábyrgð þurfa að taka á því sem fram kemur í vísum þeirra. Þar taka stuðlar og rím oftast völdin af mönnum og vísurnar verða bara eins og þeim sýnist og mér finnst mega segja allt þar og að ekki verði þeim almennilega svarað nema í vísuformi sé.

Svona var þetta alls ekki til forna. Þá voru vísur mun dýrari en annað talað mál. Ritað mál var svo sjaldgæft að ekki tók að tala um það. Við mögnuðum níðvísum gat legið ströng hegning og búast mátti við grimmilegri hefnd.

Og fáeinar myndir svo í lokin.

IMG 3867Sólblóm í Kópavogi.

IMG 3877Dagsbrún.

IMG 3890Veit ekki hvað þetta er.IMG 3895

Í Fossvoginum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband