787 - Langur gangur

Það er langur gangur fyrir hann svanga Manga að bera þang í fangi fram á Langatanga.

Ég fer um borð og borða um borð fyrst borðað er um borð á annað borð.

Kirkjubækur þar um þegja
þó er fyrst af Jóni að segja
að hann skaust inní ættir landsins
utanveltu hjónabandsins.

Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?

Um mig fitlar ununin
ástin kitlar sinnið.
Haltu um tittling mjúkan minn
með henni litlu þinni.

Þannig gæti ég haldið áfram lengi lengi og skrifað bara það sem mér kemur í hug. Ekki er það allt merkilegt og mikið er um endurtekningar. Þannig er bloggið líka. Eintómar endurtekningar. Hvað er ekki oft búið að segja Icesave þetta og Icesave hitt?

Svo eru menn að furða sig á Sigmundi Erni. Hikstalaust mundi ég drekka allt það rauðvín sem mér væri boðið og jafnvel vera til í að halda ræðu á Alþingi á eftir.

Fyrir þónokkru bloggaði ég um Icesave. Þá lét ég þess getið ef ég man rétt að ég væri á móti Icesave-samningnum. Þá var ekki farið að tala um neina fyrirvara og ég benti mönnum á kjosa.is og sagðist alvarlega íhuga að skrá mig þar. Nú er ég ekki viss. Ég vil vita hve lengi er hægt að skrá sig þar, hvenær stendur til að forsetinn undirriti lögin og margt fleira í þessu sambandi. Að sjálfsögðu á forsetinn ekki að láta stjórnmálaskoðanir rugla sig.

Samkvæmt fréttum í kvöld stendur til að afhenda forsetanum undirskriftirnar næstkomandi mánudag svo ekki er fresturinn langur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband