Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
28.2.2009 | 00:09
618. - Áframhaldandi pólitískar pælingar. Aðallega fyrir sjálfan mig
Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði fyrir nokkrum árum grein í hið fræga dagblað Wall Street Journal. Þar sagði hann eitthvað á þá leið að róttæk og umfangsmikil frjálshyggjuvæðing hefði farið fram á Íslandi og afleiðingin væri sú að landið væri með auðugustu ríkjum veraldar. Þegar æfingarnar í stjórn Flugleiða stóðu sem hæst og öll stjórnin hætti og þar á meðal eiginkona fyrrum forsætisráðherra, Inga Jóna Þórðardóttir, hefði mönnum átt að vera ljóst að maðkur var í mysunni. En Geir ákvað að treysta betur Davíð Oddssyni en skynseminni og lokaði augunum fyrir allri svívirðunni. Kannski eru sæmilegar taugar í Geir. Ég man að ég dáðist nokkuð að honum fyrir rósemina í upphafi bankahrunsins. Seinna kom í ljós að sú rósemi var bara geðleysi og ákvarðanafælni. Ingibjörg Sólrún breytti sér á svipstundu úr "king-elect" í "kingmaker" og fórst það ágætlega. Ef hún ætlar svo að breyta sér aftur í king-elect þá er hætt við að það sé orðið of seint. Ég held að margir reikni með og vonist eftir samstjórn samfylkingar og vinstri grænna eftir næstu kosningar. Ef notast á við eldri gerðina af stjórnmálamönnum er Jóhanna Sigurðardóttir betur til þess fallin en Ingibjörg Sólrún að leiða þá ríkisstjórn. Nýjir vendir sópa samt best. Árni Mathiesen skildi það og Davíð hugsanlega einnig. Ný andlit á framboðslistum gömlu flokkanna eru ekki bara æskileg heldur bráðnauðsynleg. Það getur orðið sjálfstæðisflokknum dýrt ef hann getur ekki boðið uppá betri kosti en Bjarna Benediktsson og Þorgerði Katrínu í kraganum. Afturgenginn framsóknarmaður. Mér finnst ágæt hugmynd hjá Kidda að fara aftur til framsóknarmanna þó þeir hafi verið vondir við hann síðast þegar hann var þar. Kiddi er einhver efnilegasti framsóknarmaðurinn að mínum dómi. Hann geldur þess þó eflaust að hafa verið lengi á þingi þó ekki sé sanngjarnt að kenna honum um bankahrunið. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2009 | 00:09
617. - Pólitískar pælingar og vísukorn um Dabba
Það var áhugavert að heyra það um daginn að sjálfstæðisþingmenn allir með tölu og að minnsta kosti flestir framsóknarþingmenn biðu með óþreyju eftir línunni frá Brussel. Öðru vísi mér áður brá. Hvernig skyldu Evrópumálin fara á landsfundinum Sjálfstæðismanna? Bara að þeir gleymi þeim ekki. Svo var Álfheiður Ingadóttir ekkert voðalega óhress með álit þeirra EU-manna og þó er hún vinstri græn. Hvar ætlar þetta að enda? Einhverjir eru samt á móti þessu. Bjarni frændi virðist hafa mikinn áhuga á að koma í veg fyrir að Íslendingar álpist í Evrópusambandið og er að undirbúa framboð í þá veru. Vel getur verið að áhugaverðar niðurstöður verði í prófkjörum á næstunni. Komandi kosningar geta líka orðið einhverjar þær mikilvægustu í háa herrans tíð. Samkvæmt fréttum er Ingibjörg Sólrún að íhuga hvort hún eigi að gefa kost á sér í prófkjöri innan Samfylkingarinnar. Ég mundi ráðleggja henni að gera það ekki. Hún gæti orðið fyrir óskaplegum vonbrigðum. Jóhanna ætti hins vegar að íhuga vandlega að halda áfram. Þó held ég að hún geri það ekki. Annars ætti ég ekki að vera að ráðleggja mönnum eitt eða neitt í sambandi við prófkjör. Vafasamt er að mér finnist taka því að kjósa í þessháttar uppákomu. Það eru aðallega andstæðingar Evrópuaðildar sem hafa búið til þá þjóðsögu að stuðningsmenn aðildar haldi því flestir fram að slík aðild sé allra meina bót í þeim efnahagsþrenginum sem nú ganga yfir. Ég hef fáa heyrt halda slíkri vitleysu fram og það er alveg óþarfi að láta slíkar pælingar trufla sig. Og þá er Davíð víst bara farinn. Víkingana sönnu |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú er ég tekinn uppá því að blogga stundum um miðjan daginn og linka í fréttir. Biðst ekkert afsökunar á því.
Mér finnst nokkuð viðeigandi að skipta um sið í Eden eftir að Bragi er farinn. Tek líka eftir því að Jari sonur Braga er ánægður með þessi umskipti og óskar nýjum aðilum heilla.
Þegar ég var að alast upp í Hveragerði var Eden náttúrulega ekki eins gróinn staður og til dæmis Reykjafoss, Kaupfélagið og Hótelið. Þar að auki svolítið útúr en flottur staður samt. Ferðamenn hafa alltaf verið fjölmennir í Eden og Hvergerðingar stoltir af þessum stað.
Siðaskipti í Eden | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 00:12
615. - Um greindar vísitölur og ógreindar eða ógreinanlegar
Um daginn skrifaði einhver um greindar vísitölur. Mér finnst vísitölur yfirleitt ekki greindar. Ekki einu sinni greindarvísitölur. Oft eru þær notaðar til að rugla fólk í ríminu. Auðvelt er að finna upp alls kyns vísitölur og láta þær mæla allan fjandann. Fjölmiðlar eru yfirleitt mjög snoknir fyrir vísitölum og könnunum. Jafnvel Netkannanir sem búnar eru til af hagsmunaaðilum ganga oft í þá. Svo eru til menn eins og ég sem eru fyrirfram á verði gagnvart öllu og sjá púka í hverju horni. En hvar liggur sannleikurinn? Ekki veit ég það. Sennilega hvergi. Davíð er háll sem áll. Blaðamenn og aðrir reyna að ná tökum á honum en ekkert gengur. Í viðtalinu við Sigmar um daginn lét hann að því liggja að Geir Haarde hefði staðið sig illa sem forsætis. Sagði samt ekkert beinlínis. Aftur á móti er hann foj útí Jóhönnu og er það engin furða. Hún ætlar sér að koma honum í burtu með hægðinni og sennilega tekst henni það. Kosningarnar í vor verða litmus-test á það hvaða stjórnmálamenn ætlast virkilega til þess að verða kosnir aftur. Ég ímynda mér að þeir verði einhverjir og vona að þeir fái sem herfilegasta útreið. Eftir því sem Sigurður Þór Guðjónsson segir er Facebook = Kirkjugarðurinn. Þannig skil ég hann að minnsta kosti. Ég er að hugsa um að berjast gegn því eins og ég get að fara á fésbókina. Þangað fara flestir er sagt og þar er miklu skemmtilegra en á blogginu. Ég hef að vísu ekki sannfrétt ennþá hvað er svona skemmtilegt þar en eitthvað hlýtur það að vera. Í mínum huga er Facebook bara vörumerki. Deilurnar um Facebook vs blogg eru farnar að minna á trúarbragðadeilurnar á sínum tíma um PC vs Makka. Nú eða Microsoft vs Linux. Ég var PC-maður þá og á móti Makkamerkinu og nú er ég bloggari frekar en fésbókarmaður. Hvar endar þetta streð eiginlega? Verður aldrei friður fyrir þessum trúarbragðadeilum? Kannski Mogginn sé hættur við að fara á hausinn og við getum haldið áfram að blogga hér áhyggjulaus. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2009 | 00:18
614. - Kraftaverk í Kastljósi og Krossinum
Eitt af því sem allir eru að hamast við að blogga um núna eru prófkjör og þess háttar. Ekki nenni ég því. Mér leiðist pólitík sem er með því lagi sem nú tíðkast. Stjórnmálamenn reyna eins og þeir geta að koma í veg fyrir alla vitræna umræðu um þau mál sem brenna á þjóðinni. Til þess eru prófkjör og annað þess háttar vel fallin. Framsóknarsöfnuðurinn er alltaf að verða skrýtnari og skrýtnari. Nefni engin nöfn. Það eru margir sem bregðast um þessar mundir. Viðtalið við Höskuld Þröskuld sem birtist í Kastljósinu nýlega (mánudag líklega) hefur verið skilið ýmsum skilningi. Mér skildist á honum að hann hefði lofað að tefja Seðlabankafrumvarpið fram á fimmtudag í þessari viku og ætli sér að standa við það. Meðan stjórnmálamenn láta eins og fífl og ljá ekki máls á neinum lagfæringum varðandi jöfnun kosningaréttar eða á augljósum leiðréttingum á kosningalögum sé ég enga ástæðu til að kjósa. Geri heldur ekki upp á milli flokkanna. Fjórflokkurinn er gjörsamlega búinn að ganga sér til húðar. Heyrði í útvarpinu í dag að auglýsingar um kraftaverk í Krossinum og Kastljósviðtal við Davíð Oddsson voru nokkurn vegin hlið við hlið. Eflaust var þetta tilviljun en tilviljanir eru oft því tilætlaða skemmtilegri. Ég er ekki frá því að Davíð hafi ætlað að koma frá sér öðru eins kraftaverki í kvöld eins og þegar hann sagði hin fleygu orð í Kastljósi fyrir nokkrum mánuðum: "Við borgum ekki." Þetta er sagt að margir útlendingar hafi misskilið á þann veg að við Íslendingar borgum helst aldrei neitt. Erum við þannig? Horfði eins og aðrir á viðtal Sigmars við Davíð í Kastljósinu áðan. Sigmar stóð sig ekki eins vel og hann hefði þurft að gera. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2009 | 16:16
613. Að reykja hass með skólastjóranum
Í Morgunblaðinu í dag (þriðjudag) er alllöng grein um einelti á Selfossi. Ég er nú svo slæmur að ég var ekki einu sinni að lesa blaðið heldur bara að fletta því þegar eftirfarandi setning stökk í andlitið á mér: "Hún er ekki sátt við viðbrögð skólayfirvalda í máli sonar síns sem játaði að hafa neytt hass á fundi með skólastjóra." Fyrr má nú aldeilis fyrrvera spillingin. Strákarnir bara í hassneyslu með skólastjóranum.
Nei annars, auðvitað er þetta útúrsnúningur en svona skrifa ekki aðrir en þeir sem alls ekki kunna að skrifa. Fyrsta boðorð við blaðaskrif (og bloggskrif reyndar líka) er að lesa skrifin yfir. Það hefur ekki verið gert þarna, því hver meðalgreindur maður sér við yfirlestur, að þetta er herfilega illa orðað þó hægt sé að lesa í málið og skilja hvað vesalings skrifarinn á við. Auðvitað gera allir vitleysur en ég hélt að óvaningar væru látnir æfa sig á mbl.is til að skrifin á Morgunblaðinu væru í lagi. Hvers vegna í ósköpunum var prófarkalestri hætt á Mogganum?
Einelti látið viðgangast á Selfossi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2009 | 00:21
612. - Haraldur Hamar, blogghugleiðingar og fáeinar myndir
Í Kiljunni á miðvikudaginn var talað um Harald Hamar son Steingríms Thorsteinssonar skálds. Saga hans er um margt athyglisverð og var nokkuð rakin í þættinum. Einnig minntist Sigurður Þór Guðjónsson á hann á bloggi sínu. Svo hvarf það blogg en birtist aftur en virðist núna vera horfið einu sinni enn. Ég skil þetta ekki. Svo er Haraldur víst á Wikipediunni. Þegar ég horfði á Kiljuþáttinn rann upp fyrir mér að ég hef löngum ruglað saman tveimur Haröldum. Haraldur Hamar var á sínum tíma ritstjóri tímaritsins Iceland Review. Ég hef löngum talið að þetta væri einn og sami maðurinn og þess vegna ef til vill haldið ritstjórann frægari en hann var. Það er ágætt er að geta hent inn á bloggið ýmsu sem verið er að velta fyrir sér. Bloggskrif lúta að mörgu leyti eigin lögmálum og fólk bloggar af ýmsum ástæðum. Les líka blogg af ýmsum toga. Sú tíð er löngu liðin að allir noti svipaða fjölmiðla á svipaðan hátt. Það frelsi sem Netið býður uppá til að stjórna sinni eigin andlegu neyslu er ómetanlegt. Bloggið er einn hluti af Netinu og alls ekki sá ómerkasti. Áður fyrr réði fólk því hvaða bækur það las og hverja það umgekkst. Nú orðið ræður fólk fleiru sjálft og lætur ekki misgóða fjölmiðla ofan í sig mótmælalaust. Auk þess hefur bóklestur verulega dregist saman þó bókaútgáfa minnki ekki. Guðni Ágústsson, sem þá var ráðherra, sagði frá því fyrir nokkrum árum að mikið magn peninga hefði fundist eða komið í ljós við athugun. Ekki man ég hvernig á þessum peningum stóð en hann sagði að ákveðið væri að byggja reiðhallir fyrir þetta fundna fé. Nú virðist reiðhöllum fara fjölgandi eftir sjónvarpinu að dæma og ætti fólk að geta riðið mikið. Svo eru hér nokkrar myndir sem ég hef nýlega tekið. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2009 | 13:59
611. - Er hugsanlegt að kosið verði til stjórnlagaþings í vor?
Horfði á endursýningu á Silfri Egils í gærkvöldi. Sumum finnst allt ákaflega merkilegt sem frá Agli kemur. Ekki finnst mér það. Til dæmis er einkennilegt hve margir hámenntaðir hagfræðingar" sem starfandi eru útum allan heim hafa komið fram í þættinum hjá honum. Hann hefur samt rétt fyrir sér í ýmsu sem varðar bankahrunið. Samt stjórnar hann því hverjir komast í þáttinn og hvað kemur fram þar. Þar að auki er hann talsvert einsýnn.
Langmerkilegast fannst mér í þættinum í gær viðtalið við Eirík Tómasson. Hann er hræddur um að ekkert verði úr stjórnlagaþingi einfaldlega vegna þess að það er andstætt hagsmunum ráðandi afla í þjóðfélaginu að fá nýja stjórnarskrá eða breyta henni mikið. Flestir eru þó sammála um að ýmsu þurfi að breyta í henni en þingmönnum og einkum þó ráðherrum finnst langöruggast að breyta engu. Þar með verði völd þeirra tryggð áfram.
Það sem Eiríkur sér sem ráð til þess að leika á ráðandi öfl er að kjósa til stjórnlagaþings núna um leið og kosið verður til Alþingis. Ef Jóhanna Sigurðardóttir kemur því til leiðar á sínum forsætisráðherraferli að svo verði gert er það merkara en nokkuð annað sem hún getur hugsanlega gert. Ólíkt markverðara en að koma Davíð úr Seðlabankanum sem flestir vinstri menn virðast einblína á.
Afar einkennilegt er ef því hefur ekki verið fylgt neitt eftir sem Bretar sögðu þegar þeir voru spurðir hvers vegna þeir hefðu beitt hryðjuverkalögum til að stöðva íslensku bankana. Þeir sögðu að miklir fjármagnsflutningar hefðu verið til Íslands frá Bretlandi. Þó Geir hafi ekki haft hugmyndaflug til að tala sjálfur við Gordon Brown þá hljóta einhverjir að hafa skoðað þetta mál. Enn er það þó og reyndar allt sem snertir Icesafe reikningana algjört leyndó. Mér finnst áríðandi að fá að vita meira um þetta mál. Það getur ekki verið eðlilegt að halda öllu leyndu í sambandi þetta svona lengi. Eigum við bara að borga eins mikið og við mögulega getum sem allra lengst. Ég neita öllu slíku.
Sögur um Rússagull á Íslandi hafa gengið lengi. Sagt hefur verið frá þeim sögusögnum á Sky News. Einhverjir íslenskir ráðamenn hafa sagt að peningaþvætti sé óhugsandi hér þar sem lög banni slíkt. Þar með virðist málið dautt og enginn nennir að rannsaka eitt né neitt. Ég tel ekki óhugsandi að íslenskir auðmenn hafi stundað peningaþvætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2009 | 23:22
610. - Töpuðu einhverjir á bankahruninu?
A: Sko, þó við höfum verið með alls kyns æfingar og loftfimleika í sambandi við hlutabréfin í bankanum þá var það bara til að halda uppi verðinu á þeim. Enginn tapaði neinu og engir sköðuðust á endanum nema þá kannski við sjálfir.
B: Nú, af hverju voruð þið þá að þessu?
A: Kannski bara til að gera eitthvað.
B: Er hugsanlegt að einhverjir hafi grætt á þessu?
A: Örugglega ekkert að ráði. Mönnum leið bara betur ef hlutabréfaverðið hélst hátt.
B: Mér finnst sá möguleiki vera fyrir hendi að einhverjir hafi grætt á því að hlutabréfaverðið héldist hátt.
A: Ja, einhverjir kannski. Svona smávegis.
B: Græddu einhverjir á þessu?
A: Ja, kannski.
B: Ef einhverjir hafa grætt á þessu þá hafa einhverjir tapað.
A: Nei, alls ekki.
B: Jú, það er einfaldasti útreikningur í heimi.
A: Tapið, ef eitthvað var, dreifðist á svo marga að það voru bara einhverjir aurar á hvern.
B: Tap samt. Og það er ólöglegt að hafa áhrif á markaðinn á þennan hátt.
Einhvern vegin svona finnst mér vera að ætla sér að rökræða um bankahrunið. Menn tala bara í austur og vestur og vilja ekki skilja hvern annan. Og yfirvöld sitja bara á sínum feita rassi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 03:04
609. - Hjalti Rögnvaldsson les Bréf til Láru
Fékk mér eina hljóðbók þegar ég fór á bókasafnið síðast og í dag hef ég verið að hlusta á Hjalta Rögnvaldsson lesa Bréf til Láru".
Hjalti er Hvergerðingur eins og ég. Man vel eftir pabba hans en Hjalti sjálfur er yngri en ég og ég man eftir honum sem krakka.
Þórbergi man ég eftir síðan ég var verslunarstjóri í Silla og Valda búðinni að Hringbraut 49.
Lesturinn er mjög góður og bókin náttúrulega óviðjafnanleg. Tvímælalaust eitt af meistaraverkum tuttugustu aldarinnar.
Nú fara prófkjörin að dynja yfir og þau eru jafnvel leiðinlegri en kosningarnar sjálfar. Eiginlega ekkert varið í þau nema úrslitin. Auðvitað kannast maður við ýmsa sem gefa kost á sér og vill gjarnan vita hvernig þeim gengur.
Framsóknarsöfnuðurinn er alltaf að verða skrýtnari og skrýtnari. Segi ekki meira.
Fræg er úr sögunni setningin Íslands óhamingju verður allt að vopni". Þegar ég heyri þessa setningu nefnda í sambandi við stjórnmál detta mér alltaf í hug Sjálfstæðismenn á Suðurlandi. Það er ekki ofmælt að þeirra óhamingju verði allt að vopni. Einkum á þetta við um framboðsmál og ég þarf engin nöfn að nefna. Mér finnst þeir alltaf hafa verið ólánssamir með sína frambjóðendur.
Já, ég er Sunnlendingur og fyrsti framboðsfundurinn sem ég man eftir var í Hótel Hveragerði. Þar var Hvergerðingurinn Unnar Stefánsson efstur á lista fyrir Alþýðuflokkinn en aðra frambjóðendur þekkti ég ekki og man ekki eftir. Þetta gæti hafa verið árið 1959.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)