907 - Jólablogg um Icesave o.fl.

Jólablogg minnir á jólaglögg. Eru menn hættir að drekka á jólunum? Einu sinni, fyrir allar kringlur og smáralindir og þessháttar, var til siðs að vera blindfullur á Þorláksmessu. Allt var stútfullt af fólki í miðbænum sem þá var aðallega Lækjartorg og Austurstræti. Þar flugu kínverjar og púðurkerlingar um allt og margir voru að minnsta kosti hífaðir. Svo kom jólaglöggin eða var það jólaglöggið? Óviss um kynferðið. Nú er það bara skatan skelfilega. Ekki veit ég af hverju í ósköpunum fólk er að pína sig til að éta þennan óþverra. 

Einu sinni þegar ég bjó á Lynghaganum var ég svo fullur þegar ég kom af skrifstofunni hjá Hannesi Þorsteinssyni uppúr hádeginu á aðfangadag að ég sá varla Suðurgötuna. Þá tíðkaðist það víða að vera að sulla í víni rétt áður en hátíðin gekk í garð. Líklega er það minna núna. Mestmegnis drukkinn bjór og það þarf svo mikið af honum til að verða almennilega fullur.

Sagt er í detox-auglýsingum frá Jónínu Ben. að Chad Keilen sé viðurkenndur ristilskolari. Mér býður við þessu. Ekki vildi ég vera viðurkenndur ristilskolari. Vonandi fær hann sæmilega borgað fyrir þessi ósköp.

Icesave-málið er nú ekki beinlínis jólalegt. Mikið hefur verið talað um að mark eigi að taka á öllum fyrirvörum Alþingis frá því í sumar og ekki megi hvika frá þeim. Hefði ekki verið athugandi að þing Breta og Hollendinga hefðu ákveðið þetta?

Eins og ég lít á þetta mál þá álitu Bretar og Hollendingar að samþykkt Alþingis frá því í sumar væri tilboð um áframhaldandi viðræður. Að mínu viti höfðu þeir þrjár leiðir. 1. Samþykkja allt sem Alþingi sagði. 2. Neita því með öllu og fara aftur á byrjunarreit. 3. Halda viðræðum áfram eins og þeir gerðu.

Hætt er við að samningaviðræður tækju langan tíma ef Alþingi breytti sínu samningstilboði einu sinni til tvisvar á ári. Bretar og Hollendingar gætu jafnvel misst þolinmæðina að lokum.

Gegn því að taka tillit til þjóðarframleiðslu við ákvörðun afborgana og að viðurkenna flestallt annað sem Aþingi fór fram á fengu Bretar og Hollendingar vextina færða út fyrir sviga og varla trúi ég að almennt hafi verið reiknað með að skuldin bara hyrfi þegar ríkisábyrgð lyki ef eitthvað yrði eftir þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

There once was a lot of money,
in the land of milk and honey,
they were all fake,
from Al-Thani sheikh,
now we pay with cash like Oney.

Þorsteinn Briem, 26.12.2009 kl. 03:12

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Flott vísa og ekki skemmir Johnny Cash fyrir. Sjálfur hef ég alltaf átt erfitt með að semja limrur, svo ég tali nú ekki um á ensku.

Sæmundur Bjarnason, 26.12.2009 kl. 08:10

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  MR. Fólk sem borðar skötu pínir henni  ekki í sig. Mér finnst hún góð,eins og mörgum öðrum,en borða hana sjaldan á Þorláksmessu. Ég þáði svo himneskt að borða í Þorlákshöfn.

Helga Kristjánsdóttir, 26.12.2009 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband