Færsluflokkur: Ýmislegt

910 - DOS-fjarskinn, Icesave o.fl.

Af einhverjum ástæðum er ég dálítið fastur í þeirri hugmynd að skráarnöfn eigi ekki að vera meira en 8 stafa löng. Þannig var það í DOS-fjarskanum en á alls ekki við lengur. Það er betra að hafa skráarnöfn sem allra lengst. Þá er til dæmis betra að leita að þeim og oft hægt að sjá um hvað skrárnar eru án þess að opna þær. Endingin er sem áður oftast þrír stafir að ég held og forritum gjarnan kennt að leita að vissum endingum. Algengustu orðin í auglýsingum fyrir þessi jól fannst mér vera "punktur is" en það er önnur saga.

Hef hingað til trassað að setja mínar færslur í flokka. Af því væri samt augljós ávinningur. Sérstaklega hvað þær færslur varðar sem sérstakar eru. Oft skrifa ég hinsvegar í sömu færslunni um ýmislegt. Þær færslur mætti til dæmis setja í einskonar ruslflokk en þær færslur sem ljóslega væru endurminningar eða fjölluðu um sérstök málefni ætti hiklaust að flokka. Þetta er ég loksins að sjá skýrt núna. Kannski læt ég komandi áramót verða tímamótin í þessu efni. Fari semsagt að flokka sum bloggin mín.

Umræður eru hafnar um Icesave-málið á Alþingi. Líkindin með því og fjölmiðlafrumvarpinu frá árinu 2004 eru alltaf að verða skýrari og skýrari í mínum huga. Hef hlustað nokkuð á umræður þær sem um þetta hafa verið á Alþingi. Burtséð frá efnisatriðum málsins eða málanna er núverandi stjórnarandstaða að reyna af fremsta megni að koma ríkisstjórninni frá.

Sú var einnig raunin í fjölmiðlafrumvarpinu. Þáverandi stjórnarandstaða gerði það sem hún gat til að koma ríkisstjórninni frá og naut meira að segja til þess stuðnings forsetans á lokastigum málsins. Þáverandi ríkisstjórn tókst þó að standa árás stjórnarandstöðunnar af sér og sú mun einnig verða raunin nú. Við búum einfaldlega við fulltrúalýðræði en ekki beint lýðræði. Hin raunverulega valdatilfærsla (ef um hana er að ræða) á sér stað í þingkosningum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband