Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

902 - Skák og mát

Nýlokið er í London gríðarlega sterku skákmóti. Auðvitað var það Magnús Carlsen sem sigraði á mótinu. Hann er norskur og okkur Íslendingum að góðu kunnur. Stigahæstur skákmanna í heiminum og alls ekki lítill lengur. Á þessu móti tefldu meðal annarra Englendingarnir Luke McShane og Nigel Short. Sín á milli tefldu þeir óralanga skák. Hún varð heilir 163 leikir og þá loksins náði McShane að vinna. 

Lengsta skák sem vitað er um var tefld árið 1989 og var heilir 269 leikir. Það voru Ivan Nikolic og Goran Arsovic sem þar leiddu saman hesta sína. Sú skák endaði reyndar með jafntefli.

Lengsta skák sem lokið hefur með sigri var tefld fyrir tveimur árum og það var Alexandra Kosteniuk núverandi heimsmeistari kvenna sem sigraði Laurent Fressinet í 237 leikjum. Sú skák hefði raunar átt að enda í jafntefli því í síðustu 116 leikjunum var hvorki leikið peði né maður drepinn svo 50 leikja reglan svokallaða hefði átt að valda því að hægt væri að krefjast jafnteflis.

Talibanar eru ekki hátt skrifaðir um þessar mundir. Eru þó ýmist studdir af Rússum eða Bandaríkjamönnum. Þegar þeir eru ekki að sprengja ómetanlegar styttur í loft upp er sagt að þeir séu annað hvort að berja konurnar sínar eða rækta eiturlyf til að selja saklausum börnum á Vesturlöndum. 

Sem titrandi talibani.
tauta ég þakkargjörð.
Rússneskur kall eða kani
kaupir mín lambaspörð.

Einu sinni var ég alveg „húkkt" á Formúlu eitt og aðalátrúnaðargoð mitt þar var að sjálfsögðu Michael Schumacher. Ég byrjaði að horfa á Formúluna þegar hann keyrði í fyrsta sinn fyrir Ferrari, þá tvöfaldur heimsmeistari. Auðvitað átti hann svolítið erfitt uppdráttar í fyrstu, en fljótlega fór hann að láta finna fyrir sér. Nú er sagt að hann ætli að byrja aftur. Það líst mér illa á. Samt getur allt skeð.


901 - Einu sinni átti ég hest

Og það var sko enginn venjulegur hestur heldur hjólhestur. Og ekki einu sinni neinn venjulegur hjólhestur heldur hét hann Royal og var þess vegna konunglegur eins og búðingurinn frægi.

Jæja, ekki er að orðlengja það að hjólhesturinn minn var svartur. Hrafnsvartur meira að segja. Þetta var ekki nein Möve-drusla eins og Atli hreppstjóra átti. Dekkjastærðin var hvorki meira né minna en tuttugu og átta sinnum einn og hálfur. Ekki neitt tuttugu og sex sinnum einn og þrír fjórðu eða eitthvað svoleiðis.

Man að hjólhesturinn minn kom úr bænum að kvöldi dags sextánda júní. Af hverju man ég það svona vel? Nú vegna þess að sautjándi júni var daginn eftir. En við komum nánar að því bráðum.

Annað hvort kom hjólhesturinn minn með Gardínu-Palla eða Stjána í Saurbæ. Pabbi hafði keypt þennan dýrgrip handa mér í Fálkanum (eða var það í Erninum) daginn áður og ég gat smávegis prófað hann kvöldið sem hann komst í mínar hendur.

Auðvitað kunni ég að hjóla, því að öll höfðum við systkinin lært að hjóla á hjólinu hennar Sigrúnar. Það kom sér vel að það var kvenhjól því annars hefðum við þurft að hjóla „undir stöng" sem var ekki einfalt fyrir óinnvígða.

Jæja, þarna var ég semsagt með minn splukunýja hjólhest að kvöldi til hinn sextánda júní einhvern tíma nálægt miðri tuttugustu öldinni.

Nú var illt í efni. Ég hafði nefnilega nokkru áður látið fallerast og farið í skátana eins og nú er sagt. Það er ekki alveg það sama og að fara í hundana en í þessu tilfelli svipað.

Svo mikill hörgull var á strákum í mínu númeri í Skátafélagi Hveragerðis á þessum tíma að ég hafði verið dubbaður upp í að vera fánaberi í skrúðgöngunni á sautjánda júní. Til að geta sinnt því embætti þurfti ég að mæta snemma og þramma fram og aftur án þess að geta hjólað nokkuð. Það var erfitt en hafðist þó.

Ég man auðvitað ekkert eftir skrúðgöngunni eða skemmtiatriðunum á sautjánda júní skemmtuninni að þessu sinni. Kannski var skemmtunin haldin uppi í Laugaskarði eins og seinna tíðkaðist og þar var vinsælt að slást með koddum eða einhverju þessháttar á tréspýtu sem sett var þvert yfir laugina.

Kannski var skemmtunin á barnaskólatúninu eða á hótelinu ég veit það bara ekki. Líka tíðkaðist víst á sautjándanum að giftir og ógiftir kepptu í fótbolta. Þar keppti ég einhverntíma með ógiftum en aldrei með giftum.

Loksins lauk þó sautjandajúni skemmtuninni að þessu sinni og ég komst á hjólhestinn minn fína og svarta og hjólaði af hjartans lyst um allt. Sjálfsagt var það ekki í þetta sinn, en á þessum hjólhesti tókst mér einu sinni að hjóla án þess að snerta stýrið með höndunum næstum eftir endilangri Heiðmörkinni, eða allt frá bakaríinu og niðurundir Árnýjarhús. Svona var ég flinkur þá.


900 - Fréttablogg

Gott að þeir voru ekki á Evuklæðum, hún hefði orðið foj við. Og svo áfram.

Guð er aumingi segir Sigurður Þór Nimbus á sínu bloggi, en leyfir engar athugasemdir við þá færslu. Það er nú reyndar aumingjaskapur líka en vel skiljanlegur.

„Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf." Þetta lærði ég einu sinni eins og páfagaukur og fékk Jesúmynd í ramma fyrir á stúkufundi hjá Sigurþóri. Samt finnst mér ég ekki vera trúaður og strax um fermingu eða fyrr var ég farinn að efast mikið og ekki hefur trú mín styrkst síðan.

Ég er miðnæturbloggari og hef hingað til forðast að fréttablogga. Geri samt stundum vísur sem ég set á visur7.blog.is og hengi þær í fréttir á mbl.is. Gefst vel. Blogga eiginlega aldrei með hliðsjón af einhverju sem ég sé á Moggavefnum. Sumir hengja sín blogg samt oft í einhverjar fréttir og eru ekkert hræddir við takkann sem Mogga-guðirnir hafa sett fyrir þá sem vilja tilkynna vafasöm fréttablogg. Nýlegar og krassandi fréttir eru heldur ekki algengar um miðnæturleytið. Ætla samt að prófa þetta.

Vonandi fyrirgefst mér á efsta degi þó mér hætti til að rugla þeim saman Jórunni Frímannsdóttur og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Báðar eru þær að ég held borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í farsanum sem fram fór fyrir nokkru og kallaður var „blaðamannafundir vegna nýs meirihluta " man ég af einhverjum ástæðum betur eftir smáatviki á einum þeirra en flestu öðru sem þar fór fram. Þar komu annaðhvort Jórunn eða Þorbjörg við sögu.

Framarlega í flokknum
finnst mér hún um stund.
Skálmar hún í skokknum
skyndilega á fund.

Fékk nýlega bréf í tölvupósti frá Atlantsolíu. Í því stóð ekki annað en þetta: „Smelltu hér ef þú getur ekki skoðað póstinn eins og hann á að vera."  
Ég sá ekkert til að smella á og auk þess er ég ekki viss um hvernig pósturinn á að vera. Þarna er greinilega um að ræða gallaða hugsun annaðhvort hjá mér eða bréfritara.

5188 er að verða eins fræg tala og atkvæðin sem Ólafur F. Magnússon tónaði eða tuldraði í sífellu í Spaugstofuþættinum fræga og var víst atkvæðafjöldinn sem flokkur hans hlaut i borgarstjórnarkosningunum. Man samt ekki hver talan var. 5188 er fjöldinn sem þátt tók í „þjóðaratkvæðagreiðslunni" á Eyjunni. Semsagt marklaus könnun. Marktækar skoðanakannanir held ég samt að hafi sýnt meirihluta kjósenda andvígan Icesave-ríkisábyrgðinni. Líka hafa margir skorað á Ólaf Ragnar að skrifa ekki undir ríkisábyrgðarlögin. Getur orðið spennandi alltsaman.


mbl.is Vestfirskir fótboltamenn á Adamsklæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

899 - Hið nýja evangelíum

Hið nýja evangelíum birtist okkur í Kaupmannahöfn þessa dagana. Ráðamenn heimsins eru sammála um að ráðlegast til að hafa stjórn á skrílnum sé að skrifa uppá álit þeirra sem álíta að allt sé á hraðri leið til andskotans í loftslagsmálum.

Þeir sem allt hafa á hornum sér varðandi heimshlýnun og gróðurhúsaáhrif kunna vel að hafa rétt fyrir sér. Áróður þeirra er samt farinn að minna mig á trúarkreddur fyrri tíma. Sjálfur er ég svolítið hallur undir þá skoðun að ekki sé með öllu sannað að hlýnun andrúmsloftsins sé af mannavöldum. Þar með er ég víst orðinn afneitari og óalandi og óferjandi í ráðandi kreðsum í okkar heimshluta að minnsta kosti.

Áhættan sem því fylgir að taka mark á mér og mínum líkum í þessum efnum er samt töluverð. Hugsanlega meiri en hægt er að rísa undir. Mér finnst samt að svona afdrifarík mál megi ekki verða einkaeign sérfræðinga og stjórnmálamanna.

Þegar kemur að bankahruninu og kreppunni taka margir hlutina alltof mikið inná sig. Auðvitað hafa sumir það býsna skítt. Oft er það beinlínis útaf kreppufjandanum en stundum blandast aðrir hlutir saman við. Lífskjörin versna, ekki fer hjá því. En hefur það ekki alltaf verið svo? Eigum við einhverja heimtingu á að halda þeim lífskjörum sem einu sinni er náð? Er ekki lífið allt ein rússibanareið? Upp og niður í lífskjörum sem öðru? Allt fer þetta einhvern vegin og hæfilegt kæruleysi er af hinum góða.

Gríðarleg áhersla er nú lögð á að klekkja á ríkisstjórninni. Ekki bara Mogginn og ekki bara Bjarni Ben. og Sigmundur heldur eru allir virkjaðir sem mögulegt er. Ég ætla samt enn um sinn að styðja hana. Einkum vegna þess að ég er sannfærður um að aðrir kostir eru ekki betri. Enda virðist engum detta í hug að æskilegt sé að bjóða uppá eitthvað betra.

Eitt sinn var bryggja byggð á Íslandi. Man ekki almennilega hvar. Svo kom óveður og mikið brim og bryggjan brotnaði í spón. Þá var kveðið:

Hér var staurabryggja byggð.
Bæjarins mesta prýði.
Ellefu stundir stáli tryggð
stóð sú snilldarsmíði.

Mér varð hugsað til þjóðfundarins sem hér var haldinn með pompi og prakt í Laugardalshöll fyrir rúmum mánuði. Veit ekki hvers vegna mér datt ofanrituð vísa í hug í því sambandi. Staðreynd er þó að ekki hefur verið mikið minnst á þjóðfundinn í fréttum undanfarið. Það hlýtur þó að standa til bóta.


898 - Heimskuleg fyrirsögn

Einhver heimskulegasta fyrirsögn allra tíma blasti við þeim sem börðu DV augum í morgun. Þar stóð með flennistóru stríðsletri: „Prestur flýr land". Í mínum augum eru prestar ekki vitund merkilegri en aðrir og ef einhverjir kjósa að flýja land sé ég ekki af hverju prestar ættu að vera undanþegnir því. Las reyndar ekki greinina sem líklega hefur fylgt þessu svo hugsanlega hefur ritstjórinn einhverja afsökun fyrir vitleysunni.

Þegar rætt er um heimspekileg og trúarleg efni hér á Moggablogginu verður helst að hafa umræðuna þannig að allir geti skilið. Áberandi er að fræðimenn á þessu sviði verða oft svo illskiljanlegir að enginn nennir að lesa það sem þeir skrifa nema þá helst aðrir fræðimenn á sama sviði. Ætla að minnast hér á þrjá menn sem fást talsvert við að rökræða trúarleg efni, án þess þó að vera um of fræðilegir, og hvernig þeir koma mér fyrir sjónir. Auk þess að hafa gaman af trúarlegum pælingum eru þeir svo skrítnir að þeir lesa þetta blogg mitt reglulega og kommenta þar oft.

DoctorE er öfgafullur efahyggjumaður. Búið er að úthýsa honum af Moggablogginu en þann lætur það ekki á sig fá. Kannski er hann bara feginn. Bloggar af miklum krafti á eigin vefsíðu og setur þar gjarnan videómyndir eða linka í þær. Myndirnar fjalla einkum um trúarleg efni og augljóst er að Doksi fylgist vel með erlendri umræðu um hugðarefni sín. Kommentar miklu sjaldnar núorðið en áður var.

Kristinn Theodórsson er leitandi efahyggjumaður. Hefur gaman af rökræðum og að skilgreina umræður og fullyrðingar, bæði sínar og annarra.

Sigurður Þór Guðjónsson er svolítið stríðinn og það er stundum erfitt að átta sig á honum á þessu sviði. Slær stundum fram fullyrðingum sem líta fáránlega út á yfirborðinu en hann er samt tilbúinn að rökræða þær. Er fátt heilagt nema þá helst kötturinn Mali.

Ómar Ragnarsson lýsti því ágætlega á sínu bloggi um daginn hvernig menn glúpnuðu gjarnan fyrir Davíð Oddsyni á sínum tíma þó þeir væru sendir til að tala hann til. Merkilegast þótti mér þó alltaf hvernig Hreinn Loftsson gafst upp fyrir honum án þess að sjá hann. Talaði digurbarkalega í samtali við útvarpið um kvöldið þegar hann var að leggja af stað frá London en þegar heim kom var ekki á honum að heyra að neitt væri að. Þetta var um það leyti sem bolludagsræðan fræga var flutt. Hreinn vildi meina að Jón Ásgeir hefði ekki verið að biðja sig að múta forsætisráðherranum. Mútumálið sjálft og afdrif þess er svo efni í langa grein.


897 - Vísnablogg

Er bloggið mitt að breytast í vísnablogg? Kannski. Það er skárra en að það verði pólitískt blogg eða rakið fréttablogg. Verst að maður ræður ekki allskostar hvernig vísurnar verða sem maður setur saman. Vísur eiga vel heima í athugasemdum þykir mér. Vel má líka nota þær í bloggin sjálf. Einkum ef þær eru sæmilegar.

Gísli Ásgeirssson gerir þetta oft ágætlega í sínu bloggi og hann er þar að auki bæði fjölfróður og fyndinn. Hefur einnig ágætis tök á limrum sem ég hef næstum aldrei getað sett saman. Sömuleiðis eru blogg Páls bróður hans þannig að helst ekki má missa af þeim. Stundum er samt erfitt að fylgja honum eftir því hann bloggar hér og þar. Síðast þegar ég vissi var hann á Eyjunni en þar áður í húsmennsku hjá Gísla bróður sínum.

Mér leiðast Icesave-umræður. Pældi samt í gegnum umræður um það efni sem Emil Hannes fór af stað með. Er sammála honum um að siðferðislega er ekki hægt annað en samþykkja að greiða þetta. Lagakróka og þessháttar er hægt að nota í báðar áttir. Pólitískir flokkar ráða of miklu um afstöðu fólks í þessu máli og útlendingahatrið er alltof áberandi.

Íslendingaval minnir mig að atkvæðagreiðslan um Icesave sé kölluð á Eyjunni. Þetta er markverð tilraun og verður Eyjunni eflaust til álitsauka ef vel tekst til. Hugsa að ég taki samt ekki þátt. Finnst málefnið ekki henta nógu vel.

 


896 - Baugur, Ingibjörg Sólrún og Davíð

Sumir reyna alltaf að búa til grýlur og átök. Vinsælt er að stilla Davíð upp gegn Baugsveldinu svokallaða, Ingibjörgu Sólrúnu eða Jóni Ásgeiri. Margt er skrýtið í þeim átökum en allar þær persónur sem nefndar voru fara líklega fljótlega úr opinberri umræðu. Vel fer á því þó sumir bloggspekingar hafi þá minna um að skrifa en áður. Satt að segja leiðast mér þau öll. Nóg annað er um að tala.

Það er stórkostlegt ábyrgðarleysi að borga skuldir sínar eins og Bjarni Ármannsson hefur réttilega bent á. Fæstir vilja þó viðurkenna það og auðvitað er betra en að sýna svona ábyrgðarleysi að loka sig bara inni í skel sinni og hrækja í allar áttir. Vondir útlendingar vilja hvort eð er bara ná af okkur auðlindunum og öðru þessháttar auk þess að klekkja á forréttindaklíkunum sem hafa reynst okkur Íslendingum svo vel.

Allir vita að íslenskt þjóðlíf er gegnsýrt af spillingu. Enginn vill samt ræða um það og yfirleitt er til dæmis bara rætt um þær kannanir sem koma sér vel fyrir okkur. Samkvæmt þeim er auðvitað engin spilling hér. Hún er samt bara öðruvísi en víðast annars staðar. Hér þekkja allir alla og klíkur af öllu tagi vaða uppi og stjórna landinu og því sem stjórna þarf. Við erum orðin svo samdauna þessu ástandi að okkur finnst það bara eðlilegt.

Íslensk þjóðareinkenni þurfa að batna. Annars er bankahrunið til einskis. Ef við lærum ekki að haga okkur betur er Íslendingum engin vorkunn að lenda undir stjórn annarra. Hannes Hólmsteinn sjálfur hefur sagt að hrunið hefði komið fyrr ef Seðlabankinn hefði hagað sér eins og maður - ja, eða bara eins og seðlabanki. Svo er fyrir að þakka að hrunið kom þó. Ef það hefði komið seinna hefði það orðið enn verra og ef það væri ókomið enn væri heimsendir í nánd.


895 - Gönguferðir

Skömmu fyrir síðustu aldamót stundaði ég gönguferðir grimmt. Eitt sinn fórum við allmörg í gönguferð frá Hvítársskála við Hvítárvatn til Hveravalla. Gist var í skálunum við Þverbrekknamúla og í Þjófadölum. Margt er minnisstætt úr þessari ferð og um daginn fann ég vísu á bréfsnifsi sem ég hef líklega samið þá. Kann samt að vera eftir einhvern annan úr hópnum. Frá þessum tíma og ferð um þessar slóðir er hún þó örugglega. Svona er hún:

Í Þjófadali þreyttir slaga
þrettán útilegumenn.
Með tómar flöskur, tóma maga
og tómir verða pokar senn.

Í gestabókina í skálanum við Þverbrekknamúla minnir mig að hafi verið settur einhver samsetningur um sérsamband sauðaþjófa og þessi vísa kann að standa í einhverju sambandi við það.

Í minningunni eru merkustu ferðirnar í þessari göngudellu minni einkum fimm. Það er að segja tvær eftir Laugaveginum milli Landmannalauga og Þórsmerkur, tvær frá Hvítárvatni til Hveravalla og ein um Hornstrandir þar sem lagt var af stað í botni Hrafnsfjarðar og farið yfir í Furufjörð og þaðan sem leið liggur norður í Hornvík og síðan í Hlöðuvík og Kjaransvík og yfir fjallið til Hesteyrar, en þangað sótti Fagranesið okkur.

Nokkrum sinnum hef ég líka gengið milli Reykjavíkur og Hveragerðis en það telst nú varla til stórafreka. Þreyttur var ég þó eftir þær ferðir enda voru þær allar farnar eftir síðustu aldamót. Eitt sinn man ég að ég ætlaði mér að ganga þar á milli á hverju ári en síðustu árin hefur það farist fyrir.

Ég er svolítið hugsi yfir sumum kommentunum sem ég fæ. Svo virðist vera að einhverjir álíti mig hægri sinnaðan og andvígan ríkisstjórninni. Mér finnst ég vera:

Meðmæltur því að Icesave ríkisábyrgðin verði samþykkt eins og nú er komið sögu og ég veit best. Hjá því verður einfaldlega ekki komist.

Meðmæltur ríkisstjórninni sem nú situr. Hún gæti verið betri en er skárri en flest annað sem hugsanlega er í boði.

Meðmæltur inngöngu í ESB.

Margt má um þetta segja og vissulega skiptir þetta meira máli en einhverjir flokksstimplar. Auðvitað hef ég orðið fyrir áhrifum úr ýmsum áttum og einu sinni kaus ég meira að segja Framsóknarflokkinn. Það var þó bara einu sinni og hefur áreiðanlega verið vegna áhrifa frá Samvinnuskólanum.


894 - Jarðfræði

Sunnudaginn 23. október árið 4004 fyrir Krists burð skapaði Guð jörðina. Þetta reiknaði írski biskupinn Ussher út um 1650 og margir trúðu þessu eins og nýju neti. Í almanaki hins íslenska þjóðvinafélags frá 1911 er sagt: Á þessu ári teljast liðin vera frá sköpun veraldar 5878 ár.

Fremstu vísindamenn trúðu þessu þó ekki alveg. Darwin sjálfur taldi í bók sinni um uppruna tegundanna að meira en 300 milljón ár væru liðin frá frá síðari hluta miðlífsaldar. Lord Kelvin reiknaði hinsvegar út að miðað við þykkt jarðskorpunnar  gæti hún ekki verið eldri en svona 40 milljón ára. Þetta líkaði Darwin illa en gat ekki að gert. Í skjóli sjálfs Newtons var eðlisfræðin nánast jafn ósnertanleg og kristin kirkja.

Nóbelsverðlaunahafinn Ernest Rutherford leysti gátuna með því að sýna fram á að geislun ylli varmamyndun í iðrum jarðar. Þar með gæti jarðskorpan verið miklu eldri en áður var talið.

Þjóðverjinn Alfred Wegener kom með þá kenningu að meginlöndin væru á reki hvert frá öðru og studdi hana ágætum rökum. Gat þó ekki sýnt fram á hvaða kraftar það væru sem færðu meginlöndin til. Seinna var þó sýnt fram á að það mundu vera iðustraumar í jarðmöttlinum.

Ekki gekk landrekskenningin fyllilega upp fyrr en henni var breytt lítillega þannig að meginlöndin væru á flekum sem sumsstaðar nudduðust saman og framkölluðu þannig jarðskjálfta. Annarsstaðar, eins og til dæmis á Íslandi, færðust þeir hinsvegar hver frá öðrum og þar ætti eldur úr iðrum jarðar greiðari útgang en annarsstaðar.

Talið er að á um það bil 26 milljón ára fresti fari sólkerfið í gegnum loftsteinabelti eitt mikið og stundum lendi stórir loftsteinar á jörðinni og hafi mikil áhrif á líf og þróun þar. Til dæmis hefur hvarf risaeðlanna fyrir 65 milljónum ára verið útskýrt með því. Í þróunarsögu lífsins á jörðinni virðast álíka rof hafa orðið oftar.

Það sem hér hefur verið sagt er mjög stuttaraleg endursögn á merkri grein eftir Sigurð Steinþórsson sem hann nefnir „Heimsmynd jarðfræði í hundrað ár" og var gefin út árið 1994 í bókinni „Tilraunir handa Þorsteini". Þar er átt við Þorstein Gylfason prófessor í heimspeki sem fæddist árið 1942 og dó árið 2005.


893 - Þjóðaratkvæðagreiðsla

Verði Icesave-samkomulagið samþykkt í núverandi mynd þurfa Íslendingar að..... Undir þessum orðum er mótmælt hástöfum og mótmælafundir haldir. Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti fólks á þeirri skoðun að Icesave-samkomulaginu beri að vísa frá. Flokkssjónarmið og ríkisstjórnarstuðningur virðist þó ráða miklu um afstöðu fólks til þessa máls. 

Alþingi samþykkir væntanlega Icesave-samkomulagið og ef forsetinn er sjálfum sér samkvæmur og hefur framtíð embættisins í huga, neitar hann að undirrita lögin. Þá verður væntanlega þjóðaratkvæðagreiðsla um þau. Alveg óháð því hvað ríkisstjórnin gerir mun sú atkvæðagreiðsla auk annars snúast um líf hennar. Meirihluti kjósenda virðist fyrir því að samþykkja ekki lögin um Icesave. Óvíst er þó að svo verði þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram ef af henni verður.

Þó ríkisstjórninni takist kannski að koma Icesave-samkomulaginu í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu, mun henni varla takast að koma ESB-samningi af neinu tagi í gegnum Alþingi eins og það er núna. Stjórnin mun því hrökklast frá völdum áður en kjörtímabilið er úti og í næstu Alþingiskosningum mun einkum verða kosið um ESB þó fleiri mál verði til umræðu. Lengra nær spá mín ekki.

Tilraunin með Borgarahreyfinguna mistókst. Fjórflokkurinn blívur. Þá er helst að reyna að breyta flokkunum innanfrá. Hugsanlega er það að gerast þessi misserin. Kemur betur í ljós í næstu kosningum. Verði þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave getur hún veitt vísbendingu um breytingar. Við Íslendingar höfum alltaf verið háðir erlendu valdi. Svo er enn og verður áfram. Getum ekki haft raunveruleg áhrif en þó verið öðrum þjóðum fyrirmynd um margt. Einkum þó friðsemina. Í búsáhaldabyltingunni fyrir tæpu ári var ég aldrei hræddur um að hlutirnir færu úr böndunum.

Oft er gefið í skyn að frægt fólk sé heimskt. Svo er alls ekki. Þó Paris Hilton, Britney Spears, Madonna, David Beckham, Ásdís Rán, Gilzenegger og Bubbi Morthens hafi eflaust sína galla er enginn vafi á að sitthvað er í þau spunnið og gáfur hafa þau áreiðanlega vel yfir meðallagi. Það þarf hæfileika til að geta vafið fjömiðlamönnum um fingur sér þó ekki sé annað. Sum þeirra eru reyndar aðallega fræg fyrir að vera fræg en það þarf hæfileika til þess líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband