379. - Bloggað um blogg rétt einu sinni og lítið annað

Er annars nokkuð eins ómerkilegt og að blogga um blogg?

Mörgum þykja blogg fremur ómerkileg. Ég held samt að það séu einkum bloggarar sem óskapast yfir því. Flestir leiða fremur en hitt hjá sér umræðu um það. Lesa það samt í laumi. Ímyndum við bloggarar okkur að minnsta kosti. Annars eru alhæfingar um blogg alveg jafnvitlausar og aðrar alhæfingar. Blogg getur verið allur fjárinn.

Mér finnst mjög skiljanlegt að Víkverji Morgunblaðsins skuli ala á fordómum í garð bloggara. Allt sem er ókeypis ógnar Morgunblaðsveldinu. Maður gæti haldið að Ingibjörg Sólrún væri ókeypis miðað við hvernig Moggamenn tala um hana. Samt gefa þeir út ókeypis blað og standa jafnvel betur að dreifingu á því en Fréttablaðsmafían á sínu blaði. Svo er Moggabloggið í boði Moggans. Þetta er allt saman dálítið skrítið. En er nokkuð ókeypis ef grannt er skoðað.

Er ég ekki að vinna fyrir Moggann með þessu streði mínu? Auðvelda honum að auka sínar auglýsingatekjur. Svo eiga menn þar til að taka mín blogg traustataki og birta eins og ekkert sé í Mogganum. Kannski hef ég með aðgerðarleysi gefið þeim einhvern rétt til þess. En ekki meðvitað og af sjálfsdáðum. Ef ég væri spurður væri Mogginn síðasta blaðið sem ég mundi vilja að birti efni eftir mig.

Allmargir þeirra sem kommenta reglulega hér á bloggið mitt hljóta að vera nokkuð reglulegir lesendur þess. Þar fyrir utan veit ég um nokkra sem aldrei kommenta þó þeir lesi bloggið mitt reglulega. Vegna þess að ég er forsíðubloggari koma síðan á hverjum degi einhverjir tugir eða hundruð að kíkja á þetta undarlega fyrirbrigði. Þetta segja mér vinsældatölurnar. Ef þessum sem kíkja óvart líkar sæmilega það sem þeir sjá eru líkur á að þeir verði reglulegir lesendur með tímanum. Þessvegna reyni ég yfirleitt að vanda mig svolítið.

Undanfarna mánuði hef ég bloggað flestalla daga og í seinni tíð oft og einatt sent myndir líka. Allmörg komment hef ég fengið þar sem myndunum er hrósað svo ég reikna með að halda áfram að blanda þessu saman.

Nýlega var sagt frá því í fréttum að umhverfisráðherra hefði tekið fyrstu skóflustunguna að nýju náttúrugripasafni sem reyndar er kallað eitthvað annað. Húsið á að vera tilbúið í lok árs 2009. Einhvern vegin er það svo með mig að ég trúi því ekki að þetta standist.

Mér er minnisstætt að nokkru eftir miðjan síðasta áratug síðustu aldar fór ég á sýningu í Þjóðminjasafninu sem þá var verið að loka. Þar var auglýsing um að öfugt við það sem oft væri með framkvæmdir hér á landi þá væri nú ákveðið að örugglega mundi þjóðminjasafnið verða opnað aftur þann 17. júní árið 2000 í nýuppgerðu húsi og ekkert gæti breytt því vegna þess að búið væri að gera nákvæma áætlun um verkið allt og fjármögnun þess. Þetta stóðst ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband