Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
9.2.2008 | 00:44
244. - Æ, ég veit ekki hvaða fyrirsögn ég á að setja á þetta
Lauk áðan við að lesa bókina Skipið" eftir Stefán Mána.
Hún er nokkuð spennandi, byrjar ansi bratt, en undir lokin er eins og höfundurinn sé orðinn leiður á henni og drífí sig í að láta hana enda. Eftir því sem nær dregur lokum bókarinnar verður atburðarásin ósennilegri og ýktari og undir lokin er manni eiginlega orðið alveg sama um hvernig þetta fer allt saman. Lengi vel er atburðarásin þó spennandi og raunveruleg. Bókin er líka óneitanlega vel skrifuð.
Sigurður Þór Guðjónsson bloggar nú sem aldrei fyrr. Hann er einn af mínum uppáhaldsbloggurum hvort sem hann bloggar mikið eða lítið. Ég hef þó lítinn áhuga á veðurpælingum hans og tónlistarskrifin heilla mig ekki heldur. Þetta með tónlistarskrifin stafar ugglaust eingöngu af því að ég er með öllu hæfileikalaus sjálfur á því sviði. Með dálitlum ýkjum má eiginlega segja að mér finnist öll tónlist bara vera hávaði.
Það er alveg óþarfi að vera að strekkja við að hafa hverja færslu af ákveðinni lengd. Oftast reyni ég þó að hafa hverja færslu svona eina Word-blaðsíðu eða svo, en auðvitað er það engin nauðsyn. Þær mega vel vera styttri. Hins vegar nenni ég ekki að blogga oft á dag eins og sumir gera. Þá finnst mér betra að vaða úr einu í annað í sama blogginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2008 | 02:04
243. - Evrópusambandið er að ná forystunni í skrifræðissamkeppninni miklu við Bandaríkin
Bjarni kom heim frá Bahamaeyjum í gær og er þegar farinn að vinna á verkstæðinu hjá Opnum Kerfum.
Charmaine kemur svo að líkindum í lok febrúar. Það er samt búið að ganga á ýmsu hjá þeim við að fá Shengen-visa fyrir hana og langt í frá að ljóst sé enn hvort það tekst. Þau eru búin að vera að vinna í þessum málum síðan í byrjun nóvember.
Það er með ólíkindum hve stjórnvöld í svonefndum Schengen löndum og sendiráð og ræðismenn sömu landa ganga langt í því með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að fólk komi í heimsóknir inná hið háheilaga Schengen svæði. Ef ég væri ekki búinn að heyra um þetta í smáatriðum mundi mér aldrei detta í hug að trúa því. Íslensk stjórnvöld eru alveg eins og önnur slík þegar að þessum málum kemur.
Eina von fólks til að komast áfram í þeim frumskógi sem búið er að reisa í kringum þetta er að vera að minnsta kosti eins vel að sér og starfsfók viðkomandi stofnana. Það er alls ekki hægt að fá annað á tilfinninguna en að þetta starfsfólk beini allri sinni orku í að finna leiðir til að flækja málin sem mest og halda fólki á þann hátt frá því að leggja til atlögu við það risavaxna skrifræðisbattery sem búið er að reisa í kringum þessi mál.
Það væri auðvitað hægt að nefna tugi eða hundruð dæma um þetta en mér finnst eðlilegra að tala um það á almennum nótum. Flestum leiðist að lesa um tiltekin dæmi. Fólk þekkir þau þó og veit vel að stjórnvöld reyna að halda því þrælbundnu á sínum stað og vona að það trúi bara að sýndarfrelsið og dásemdir neyslunnar séu sælan sjálf.
Horfði áðan á upptöku af fróðlegum kastljósþætti sem var víst sendur úr fyrr í kvöld. Gamli góði Villi sat þar eins og dæmdur og hlustaði á Sigmar hella sér yfir hann. Skaut inn orði við og við og kannaðist ekki við neitt. Ekki að bera neina ábyrgð. Ekki að hafa orðið tvísaga eða margsaga. Ekki að hafa staðið að málum eins og lýst er í skýrslunni Svandísar. Og yfirleitt ekki að hafa gert nokkurn skapaðan hlut. Svo er myndaður meirihluti um það að hann fái enn eitt tækifæri.
Mér finnst alveg óþarfi að borgarstjórar sem sannanlega standa sig illa fái annað tækifæri. Nóg er af mönnum sem vilja taka þetta að sér og geta það. Samflokksmenn hans sem brugðust honum einu sinni geta ekki verið þekktir fyrir að éta núna allt ofan í sig. Ef þau standa að endurreisn Villa eru þau að kveða upp pólitískan dauðadóm yfir sjálfum sér og hljóta að gera sér grein fyrir því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 00:39
242. - Marklitlir spádómar á útvarpi Sögu, Bjarni á Bóli og fleira
Svo var það maðurinn sem alltaf tók með sér handsprengju þegar hann fór í flugvél. Einhver spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann gerði það. "Jú, sjáðu til. Samkvæmt skýrslum er það næstum óhugsandi að tveir menn með handsprengjur fari um borð í sömu flugvélina."
Bjarni á Bóli var pabbi Eiríks á hótelinu. Hann var með dálítinn búskap í húsi skammt frá hótelinu. Beljurnar hans voru reknar niður í móa hjá réttunum á hverjum morgni og heim aftur á kvöldin. Okkur krökkunum þótti talsvert sport að taka þátt í þeim rekstri. Ein íþrótt sem við stunduðum var að þegar belja lyfti upp halanum og ætlaði greinilega að fara að skíta, þá var hendin sett undir rassgatið á henni og svo þegar skíturinn kom þá var íþróttin sú að kippa hendinni undan drellinum rétt áður en hann skall á henni. Stundum tókst það ekki og íþróttamaðurinn varð aðeins of seinn. Það var ekki mjög geðslegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2008 | 00:33
241. - Egill Helga, Villi vs Fischer (einu sinni enn), stjörnufræði, norðurljós og fleira
Egill Helgason spurði Björn Bjarnason að því í silfrinu sínu í gær hvort hann mundi verða ráðherra út kjörtímabilið.
Svar Björns var að mestu út úr kú og greinilegt að það er a.m.k. í umræðunni að hann hætti von bráðar. Ég reikna fastlega með að svo verði.
Það er augljóst að sá veiki meirihluti sem ræður í borginni um þessar mundir mun tæpast sitja til loka kjörtímabilsins. Skipta þá engu máli góður hugur eða fagrar yfirlýsingar. Villi fær varla fleiri tækifæri og ekki er líklegt að framsóknarmenn eigi þátt í næsta meirihluta og alls ekki Ólafur F. eða hans fólk. Þá eru eiginlega bara tveir möguleikar eftir. Sjálfstæðismenn í samstarfi við Samfylkingu eða Vinstri Græna. Niðurstaða í því efni mun koma í ljós fyrr en varir.
Sérlegur erindreki ríkisstjórnarinnar í Ísrael Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson er enn að eflast í Fischer-látunum. Nú leggur hann mest uppúr því að fyrirsagnirnar á Moggablogginu sínu séu nógu krassandi. Nýjasta afrek hans þar heitir "Líkrán og ljúgvitni", hvorki meira né minna.
Svo virðist hann vera lentur í klónum á séra Torfa Stefánssyni í kommentakerfinu og þar má segja að Skrattinn hafi hitt ömmu sína. Annars hefur varaforseti skáksambandsins, Óttar Felix Hauksson, nú blandað sér í málin og þau eru mjög umrædd á skákhorninu. Sjá link hér til hliðar.
Annars finnst mér einkennilegt að þeir Óttar Felix Hauksson og Hrannar Baldursson skuli taka undir með Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni. Hrannar Baldursson segir til dæmis í grein á Skákhorninu: "Ef rétt er að Fischer hefur ekki talað um Watai sem eiginkonu, heldur vinkonu, er rétt að fá staðfestingu á málinu. Ef þau sannarlega hafa ætlað að giftast, sama hvort að vegabréf Fischer hafi verið gilt eða ekki, þá voru þau hjón. Hins vegar bjuggu þau ekki saman og ekki hefur verið staðfest að pappírarnir komi beint frá japönskum yfirvöldum."
Hér segir heimspekingurinn fullum fetum "Hinsvegar bjuggu þau ekki saman." Ég held einmitt að það hafi komið fram að þau bjuggu saman meðan Fischer dvaldi í Japan. Þau bjuggu að vísu ekki saman eftir að Fischer var sleppt úr fangelsi í Japan og fluttist til Íslands. Hún hefur ef til vill haft öðrum hnöppum að hneppa í Japan.
Vilhjálmur Örn hefur rétt fyrir sér að einu leyti. Þetta mál er allt með mestu ólíkindum. Einn maður hefur ekkert tjáð sig um það, en veit þó líklega meira um það en flestir aðrir. Þetta er Garðar Sverrisson. Hafi Fischer treyst honum betur en öðrum og ekki kært sig neitt um viðhöfn og snobb í kringum útför sína, þá finnst mér að eigi að virða það.
Oríón er býsna hátt á lofti í suðri um þessar mundir í kringum miðnættið. Einu sinni voru fjósakonurnar svokölluðu, sem eru belti Oríons, eina fyrirbrigðið á stjörnuhimninum sem ég þekkti. Síðan bættist Sjöstirnið við og svo koll af kolli. Svo missti ég eiginlega áhugann á stjörnufræði og ekki bætti ljósmengunin hér í Reykjavík úr skák. Hér sést næstum ekkert á himninum fyrir henni.
Einu sinni átti ég þátt í því ásamt Kalla Jóhanns og fleirum að stofna frímerkjaklúbb sem við ákváðum að kalla Sjöstirnið (lílega höfum við verið sjö sem stofnuðum hann) Þessi klúbbur varð svo frægur að minnst var á hann í frímerkjablaði hérlendis og þaðan komst nafn hans og heimilisfang mitt í sænskt frímerkjablað (kannski hef ég verið formaður eða ritari). Hellingur af bréfum kom svo til mín og ég man að flestir kölluðu klúbbinn Sjöstirniö.
Þegar ég var krakki finnst mér að brakandi norðurljós hafi nánast verið reglan á vetrarkvöldum. Auðvitað hefur ekki verið svo en þó finnst mér líklegt að þau hafi verið algengari þá en nú. Annars er það undarlegt hvað allt virðist hafa verið betra í gamla daga. Varðandi norðurljósin minnist ég þess til dæmis ekki að verið hafi kalt þegar maður var að virða þau fyrir sér. Nú set ég eiginlega samasemmerki á milli kulda og norðurljósa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 00:26
240. - Íþróttir, skák og fleira
Helstu áhugamál mín um þessar mundir eru fjölmiðlar og blogg. Þetta má eflaust sjá á skrifum mínum að undanförnu.
Það er samt margt fleira sem ég hef áhuga á.
Áður fyrr hafði ég mikinn áhuga á íþróttum. Sá áhugi er farinn að dofna núna. Í gamla daga í Hveragerði býst ég við að ég, Guðjón Stefánsson og Reynir Unnsteinsson höfum verið álitnir talsverðir íþróttanördar að því leyti að við lögðum á minnið alllskyns fuðulegustu hluti í sambandi við hverskonar íþróttir. Einkum þó met og þessháttar að sjálfsögðu.
Ég man eftir að löngu seinna, en þó fyrir allnokkrum áratugum, hittumst við og vorum þá að leggja þrautir um þessi mál fyrir hvern annan. Ég spurði meðal annars hvort þeir vissu hver hefði orðið í öðru sæti í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952. Alltof einfalt var að spyrja um fyrsta sætið. Það hlyti hver einasti maður að vita.
Annað gríðarlegt áhugamál hjá mér var skák. Ekki nóg með að ég tefldi alltaf þegar ég mögulega gat, heldur höfðaði skáksagan til mín með mjög öflugum hætti. Mig dreymdi skák og átti í stökustu vandræðum með að hugsa um annað en mannganginn og þess háttar ef ég gekk eftir hellulagðri stétt. Ég man að ég fylgdist af áhuga með heimsmeistaraeinvígum sem fram fóru alltaf í Sovétríkjunum á þessum tíma. Önnur blöð íslensk en Þjóðviljinn sinntu þessum málum afar lítið. Ég man að ég fékk stundum að kíkja í Þjóðviljann hjá Björgvini Árnasyni en hann var sonur Sigga Árna. Ég man ekki eftir að hafa velt því fyrir mér af hverju hann væri þá ekki Sigurðsson. Kannski var hann bara sonur konunnar hans. Hvað veit ég?
Seinna kom svo Friðrik Ólafsson til skjalanna og þá var skákin allt í einu forsíðuefni og umfjöllunin um skák í fjölmiðlum svo mikil að með ólíkindum var.
Ég er enn með skákbakteríuna. Metnaðurinn er þó orðinn ansi lítill. Í fyrra bað sonur minn mig um að tefla nokkrar skákir á Íslandsmóti skákfélaga. Ég held að við höfum teflt í 4. deild og ég var annaðhvort á neðsta eða næstneðsta borði. Ég tefldi einar þrjár skákir og tapaði engri þeirra, vann meira að segja eina og hafði mjög gaman af þessu.
Tímaritið Skák efndi einhverntíma til bréfskákmóts og ef til vill var það fyrsta íslenska bréfskákmótið í sögunni. Ég tók þátt í þessu móti og man að ég var í riðli með Jóni Einarssyni sem þá var skólameistari á Skógum og Guðmundi G. Þórarinssyni sem þá var nýkominn frá námi erlendis. Ekki man ég hvernig þessar skákir fóru. Líklega hef ég gefist upp á póstþjónustunni og hætt áður en úrslit fengust í nokkurri skák.
Fyrir daga Internetsins tefldi ég dálítið í alþjóðlegum bréfskákkeppnum og gekk ekkert óhemju illa. Þetta var þó með eindæmum fyrirhafanarsamt og flókið mál. Eftir að Internetið kom til sögunnar hefur orðið afar einfalt að tefla bréfskákir á Netinu og ég hef gert dálítið af því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2008 | 00:07
239. - Sporbaugur jarðar, PostDoc, Acta Mediorum og fleira
Í gamla daga velti ég oft fyrir mér ýmsum undarlegum útreikningum.
Einhverju sinni var ég að lesa bók um stjörnufræði þar sem útskýrt var hvað sporbaugur væri. Jörðin snýst eins og kunnugt er eftir sporbaug í kringum sólu. Í sporbaugi er tvær miðjur ef svo má segja. Í tilfelli Jarðar og Sólar er sólin í annarri miðjunni. Jörðin fer mishratt eftir sporbaugnum, hraðar þegar hún er nær sólu en annars hægar.
Þar sem ég vissi að möndulhalli jarðar ræður því að norðlægar slóðir snúa frá sólu þegar Jörðin er næst henni, þá dró ég þá ályktun án þess að á það væri minnst í bókinni að þetta hlyti að þýða að sumur á norðurhveli jarðar væru lengri en veturnir. Í skyndilegri hugljómun fékk ég þá hugmynd að hægt væri að ganga úr skugga um þetta með því einfaldlega að telja dagana frá jafndægrum á vori til jafndægra á hausti annarsvegar og frá jafndægrum á hausti til jafndægra á vori hinsvegar.
Það var með nokkrum spenningi sem ég fór að telja dagana. Þegar í ljós kom að þetta var einmitt alveg rétt hjá mér varð ég ótrúlega stoltur þó eflaust þyki mörgum þetta annað hvort sjálfsagt mál eða litlu skipta.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson þreytist ekki á að blogga um Bobby Fischer. Þetta er niðurlagið á síðasta bloggi hans um það efni sem ég hef séð:
"Svo einfalt er málið. Þeir Íslendingar sem halda því enn fram að Watai hafi verið gift Bobby Fischer, ættu kannski að fara kynna sér ákvæði hegningarlaga við slíku."
Það munar ekki um það. Best að passa sig. Svo fjölyrðir Vilhjálmur Örn mikið um dóttur sem Fischer eigi á Filippseyjum og þykist með skrifum sínum vera að hjálpa henni. Ég hef bara ekki heyrt sagt frá neinum vondum mönnum sem eru að reyna að hafa af henni arfinn, en Vilhjálmur hlýtur að hafa gert það. Kannski hann brjóti bara odd af oflæti sínu og segi frá því.
Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar færslu á sínu bloggi sem hún kallar "Ár í bloggheimum." Þar skrifar hún margt skynsamlegt um blogg og fjölmiðlun. Ég fylgist gjarnan með því sem hún skrifar og líkar margt af því mjög vel. Ég er þó ósáttastur við að hún skuli ekki leyfa athugasemdir. Ég mundi að vísu ekki skrifa þær margar, en stundum held ég að menn vilji gera það.
Ég hef einhverntíma sagt að ekki skuli eyða góðum hugmyndum í forgengileg komment heldur safna þeim saman og blogga um þær sjálfur. Ég get vel skilið að fólki ofbjóði stundum það sem sagt er í kommentum og oft lítur svo út sem þau séu með öllu óþörf. En þó ekki væri nema til að sýnast þá held ég að Guðbjörg Hildur ætti að leyfa athugasemdir. Engin nauðsyn er að lesa þær hvað þá að svara þeim.
Réttað var í barnsfaðernismáli. Stúlkukindin var látin lýsa hvernig barnið hefði komið undir. Samræðið hafði farið fram í bát nokkrum í miklum þrengslum. Lýsti stúlkan því í smáatriðum hvernig þau hefðu borið sig að við athöfnina. Sýslumaður fylgdist með af áhuga. Að lokum þótti honum stellingin sem lýst var vera orðin nokkuð flókin og snýr sér að skrifara sínum og segir:
"Er þetta hægt, Matthías?"
Þetta er síðan orðið að máltæki og ekki víst að allir sem taka sér það í munn viti uppruna þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað er líkt með Sóleyju Tómasdóttur og Guðbjörgu Hildi Kolbeins?
Jú, þær eru báðar Moggabloggarar og hvorug þeirra leyfir komment á sín skrif. Þetta er svolítið pirrandi en ég ímynda mér að þetta sé ekki að ástæðulausu. Mér finnst ögn skárra að loka fyrir komment og kommenta samt sjálfur villt og galið á skrif annarra en að kommenta eins og rófulaus hundur og hafa svo sitt eigið blogg lokað og læst fyrir öllum utanaðkomandi. Í mínum huga er munurinn þó ekki mikill.
Ég veit ósköp lítið um Sóleyju Tómasdóttur annað en að hún er feministi sem hefur sérstakt lag á að æsa menn upp á móti sér. Svo er hún líka mágkona Simma í Kastljósinu. Guðbjörg Hildur Kolbeins er aftur á móti kennari við Háskóla Íslands og kennir þar eitthvað viðvíkandi fjölmiðlun. Hún er vel að sér um margt í því sambandi en þó virðast margir fjölmiðlamenn hafa horn í síðu hennar. Líklega einkum vegna þess að hún hefur aldrei unnið við fjölmiðlun sjálf.
Annars skil ég ekki þessar takmarkanir á málfrelsinu. Mér finnst málfrelsi vera annað hvort eða, með fáeinum undantekningum þó. Ef mikill fjöldi athugasemda veldur vandræðum hlýtur að vera einfaldast að hætta bara að lesa þær.
Jón G. Friðjónsson, sem ég álít að sé með fróðustu mönnum um íslenskt málfar, hélt nýlega erindi um Biblíuþýðinguna nýjustu. Ég las greinarkorn eftir Jón um þetta efni ekki alls fyrir löngu. Ég er viss um að í fyrirlestrinum hefur hann fundið þýðingunni flest til foráttu eins og í greininni og áreiðanlega hefur ekki skort dæmi um það.
Einn helsti veikleiki Jóns þegar hann fjallar um íslenskt mál er einmitt að hann styður mál sitt oft með óþarflega mörgum dæmum. Ég veit ekki hvort einhverjir verða til þess að mótmæla þessum skoðunum hans um biblíuna, en ef ekki þá verður að skoða þá þögn sem samþykki.
Í tilkynningu sem ég sá um þetta á bloggi Jóns Vals Jenssonar stóð að erindið heiti: Það skal vanda sem lengi á að standa." Illa trúi ég að þetta sé frá Jóni G. komið því ég man ekki betur en að þessi málsháttur sé svona: Vel skal það vanda sem lengi á að standa." Lítill munur kannski, en þýðingarmikill samt.
Nú er kominn febrúar og hænufet sólarinnar fara smástækkandi. Vel má sjá að myrkrið er að hopa, einkum ef bjart er yfir. Það er líka ansi kalt um þessar mundir og væntanlega fer þessum ósköpum að linna.
Reykingar aukast nú í Reykjavík sem aldrei fyrr. Barir í Reykingavík keppast nú við að auglýsa reykingar af miklum krafti. Þeir sem aldrei hafa reykt eru undir auknum þrýstingi varðandi Rei-kingar og reykur liðast svo víða um loft að boðuð hefur verið koma indíánskra reykmerkjafræðinga..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2008 | 01:51
237. - Sjón, framboðsmál, Laugavegskofar og Pirate Bay
Þegar krakkarnir mínir voru á fyrsta ári tók ég eftir því að á tímabili sem stóð í nokkra daga voru þau mjög gjörn á að halla undir flatt.
Á þessum tíma hafði ég einmitt nýlega lesið að augað virkaði að ýmsu leyti eins og myndavél og kastaði mynd af því sem fyrir framan það væri öfugri á eitthvað sem tengdist heilanum. Ég þóttist reikna það út að einmitt þegar krakkarnir hölluðu sem mest undir flatt þá væri heilinn að æfa sig í að snúa myndinni við.
Kannski var þetta rétt hjá mér og kannski ekki. Sjónin hefur líka ótrúlega mikið með jafnvægirsskynið að gera. Einkum vex hlutverk hennar að þessu leyti þegar fólk eldist. Ætli ég hafi ekki verið orðinn rúmlega fimmtugur þegar ég las einhvers staðar að það væri merki um að fólk væri farið að eldast, ef það gæti ekki staðið á einum fæti með lokuð augun.
Ég mátti náttúrulega til með að prófa þetta og komst að því að það er ótrúlega erfitt að halda jafnvæginu við þessar aðstæður.
Mér dettur alltaf í hug vélbyssa þegar ég heyri í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Kannski eru það meðmæli með henni. Hún hefur að minnsta kosti kraftinn og ákveðnina fram yfir Gísla Martein sem ef til vill er ekki annað en brosmildur glókollur.
Ég er þegar farinn að velta fyrir mér framboðslista Sjálfstæðisflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum. Líklega ætlar Hanna Birna sér efsta sætið. Auðveldast verður fyrir hana að losna við Villa gamla úr slagnum. Gísli Marteinn og Kjartan Magnússon gætu orðið ögn erfiðari, en varla mikil fyrirstaða samt. Aðrir koma varla til greina.
Sagt var frá því í fréttum í kvöld, og Ólafur borgarsjóri borinn fyrir þeirri speki, að kaupin á Laugavegskofunum hafi verið borginni mjög hagstæð vegna þess að eigendur kofanna hafi viljað fá mun meira fyrir þá í fyrstu en að lokum samdist um. Ekki held ég að Ólafur sé svo þunnur að hafa sett þetta svona fram. Líklegra þykir mér að fjölmiðlamönnum þyki sæma að afflytja hans mál sem mest. Það breytir þó ekki því að mér finnst alltof mikið hafa verið greitt fyrir þessi kofaræksni og vel geti verið að með þessu sé gefið fordæmi sem verði afar dýrt á endanum.
Þeir Pirate Bay menn í Svíþjóð hafa nú verið kærðir fyrir ólöglega dreifingu á höfundarréttarvörðu efni. Fróðlegt verður að vita hvað kemur útúr því máli. Höfundarréttarmál sem tengjast Netinu eru alltaf forvitnileg. Eigendur hugverka eru þó sífellt að vitkast og selja efni sitt nú á mun sanngjarnara verði en áður var. Betur má þó ef duga skal og á endanum verður þetta líklega þannig að höfundarréttargreiðslur verða ekki hærri en svo á Netinu að öllum finnist þær sanngjarnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)