241. - Egill Helga, Villi vs Fischer (einu sinni enn), stjörnufræði, norðurljós og fleira

Egill Helgason spurði Björn Bjarnason að því í silfrinu sínu í gær hvort hann mundi verða ráðherra út kjörtímabilið.

Svar Björns var að mestu út úr kú og greinilegt að það er a.m.k. í umræðunni að hann hætti von bráðar. Ég reikna fastlega með að svo verði.

Það er augljóst að sá veiki meirihluti sem ræður í borginni um þessar mundir mun tæpast sitja til loka kjörtímabilsins. Skipta þá engu máli góður hugur eða fagrar yfirlýsingar. Villi fær varla fleiri tækifæri og ekki er líklegt að framsóknarmenn eigi þátt í næsta meirihluta og alls ekki Ólafur F. eða hans fólk. Þá eru eiginlega bara tveir möguleikar eftir. Sjálfstæðismenn í samstarfi við Samfylkingu eða Vinstri Græna. Niðurstaða í því efni mun koma í ljós fyrr en varir.

Sérlegur erindreki ríkisstjórnarinnar í Ísrael Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson er enn að eflast í Fischer-látunum. Nú leggur hann mest uppúr því að fyrirsagnirnar á Moggablogginu sínu séu nógu krassandi. Nýjasta afrek hans þar heitir "Líkrán og ljúgvitni", hvorki meira né minna.

Svo virðist hann vera lentur í klónum á séra Torfa Stefánssyni í kommentakerfinu og þar má segja að Skrattinn hafi hitt ömmu sína. Annars hefur varaforseti skáksambandsins, Óttar Felix Hauksson, nú blandað sér í málin og þau eru mjög umrædd á skákhorninu. Sjá link hér til hliðar.

Annars finnst mér einkennilegt að þeir Óttar Felix Hauksson og  Hrannar Baldursson skuli taka undir með Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni. Hrannar Baldursson segir til dæmis í grein á Skákhorninu: "Ef rétt er að Fischer hefur ekki talað um Watai sem eiginkonu, heldur vinkonu, er rétt að fá staðfestingu á málinu. Ef þau sannarlega hafa ætlað að giftast, sama hvort að vegabréf Fischer hafi verið gilt eða ekki, þá voru þau hjón. Hins vegar bjuggu þau ekki saman og ekki hefur verið staðfest að pappírarnir komi beint frá japönskum yfirvöldum."

Hér segir heimspekingurinn fullum fetum "Hinsvegar bjuggu þau ekki saman." Ég held einmitt  að það hafi komið fram að þau bjuggu saman meðan Fischer dvaldi í Japan. Þau bjuggu að vísu ekki saman eftir að Fischer var sleppt úr fangelsi í Japan og fluttist til Íslands. Hún hefur ef  til vill haft öðrum hnöppum að hneppa í Japan.

Vilhjálmur Örn hefur rétt fyrir sér að einu leyti. Þetta mál  er allt  með mestu ólíkindum. Einn maður hefur ekkert tjáð sig um það, en veit þó líklega meira um það en flestir aðrir. Þetta  er Garðar Sverrisson. Hafi Fischer treyst honum betur en öðrum og ekki kært sig neitt um viðhöfn og snobb í kringum útför sína, þá finnst mér að eigi að virða það.

Oríón er býsna hátt á lofti í suðri um þessar mundir í kringum miðnættið. Einu sinni voru fjósakonurnar svokölluðu, sem eru belti Oríons, eina fyrirbrigðið á stjörnuhimninum sem ég þekkti. Síðan bættist Sjöstirnið við og svo koll af kolli. Svo missti ég eiginlega áhugann á stjörnufræði og ekki bætti ljósmengunin hér í Reykjavík úr skák. Hér sést næstum ekkert á himninum fyrir henni.

Einu sinni átti ég þátt í því ásamt Kalla Jóhanns og fleirum að stofna frímerkjaklúbb sem við ákváðum að kalla Sjöstirnið (lílega höfum við verið sjö sem stofnuðum hann) Þessi klúbbur varð svo frægur að minnst var á hann í frímerkjablaði hérlendis og þaðan komst nafn hans og heimilisfang mitt í sænskt frímerkjablað (kannski hef ég verið formaður eða ritari). Hellingur af bréfum kom svo til mín og ég man að flestir kölluðu klúbbinn Sjöstirniö.

Þegar ég var krakki finnst mér að brakandi norðurljós hafi nánast verið reglan á vetrarkvöldum. Auðvitað hefur ekki verið svo en þó finnst mér líklegt að þau hafi verið algengari þá en nú. Annars er það undarlegt hvað allt virðist hafa verið betra í gamla daga. Varðandi norðurljósin minnist ég þess til dæmis ekki að verið hafi kalt þegar maður var að virða þau fyrir sér. Nú set ég eiginlega samasemmerki á milli kulda og norðurljósa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband