239. - Sporbaugur jarðar, PostDoc, Acta Mediorum og fleira

Í gamla daga velti ég oft fyrir mér ýmsum undarlegum útreikningum.

Einhverju sinni var ég að lesa bók um stjörnufræði þar sem útskýrt var hvað sporbaugur væri. Jörðin snýst eins og kunnugt er eftir sporbaug í kringum sólu. Í sporbaugi er tvær miðjur ef svo má segja. Í tilfelli Jarðar og Sólar er sólin í annarri miðjunni. Jörðin fer mishratt eftir sporbaugnum, hraðar þegar hún er nær sólu en annars hægar.

Þar sem ég vissi að möndulhalli jarðar ræður því að norðlægar slóðir snúa frá sólu þegar Jörðin er næst henni, þá dró ég þá ályktun án þess að á það væri minnst í bókinni að þetta hlyti að þýða að sumur á norðurhveli jarðar væru lengri en veturnir. Í skyndilegri hugljómun fékk ég þá hugmynd að hægt væri að ganga úr skugga um þetta með því einfaldlega að telja dagana frá jafndægrum á vori til jafndægra á hausti annarsvegar og frá jafndægrum á hausti til jafndægra á vori hinsvegar.

Það var með nokkrum spenningi sem ég fór að telja dagana. Þegar í ljós kom að þetta var einmitt alveg rétt hjá mér varð ég ótrúlega stoltur þó eflaust þyki mörgum þetta annað hvort sjálfsagt mál eða litlu skipta.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson þreytist ekki á að blogga um Bobby Fischer. Þetta er niðurlagið á síðasta bloggi hans um það efni sem ég hef séð:

"Svo einfalt er málið. Þeir Íslendingar sem halda því enn fram að Watai hafi verið gift Bobby Fischer, ættu kannski að fara kynna sér ákvæði hegningarlaga við slíku."

Það munar ekki um það. Best að passa sig. Svo fjölyrðir Vilhjálmur Örn mikið um dóttur sem Fischer eigi á Filippseyjum og þykist með skrifum sínum vera að hjálpa henni. Ég hef bara ekki heyrt sagt frá neinum vondum mönnum sem eru að reyna að hafa af henni arfinn, en Vilhjálmur hlýtur að hafa gert það. Kannski hann brjóti bara odd af oflæti sínu og segi frá því.

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar færslu á sínu bloggi sem hún kallar "Ár í bloggheimum." Þar skrifar hún margt skynsamlegt um blogg og fjölmiðlun. Ég fylgist gjarnan með því sem hún skrifar og líkar margt af því mjög vel. Ég er þó ósáttastur við að hún skuli ekki leyfa athugasemdir. Ég mundi að vísu ekki skrifa þær margar, en stundum held ég að menn vilji gera það.

Ég hef einhverntíma sagt að ekki skuli eyða góðum hugmyndum í forgengileg komment heldur safna þeim saman og blogga um þær sjálfur. Ég get vel skilið að fólki ofbjóði stundum það sem sagt er í kommentum og oft lítur svo út sem þau séu með öllu óþörf. En þó ekki væri nema til að sýnast þá held ég að Guðbjörg Hildur ætti að leyfa athugasemdir. Engin nauðsyn er að lesa þær hvað þá að svara þeim.

Réttað var í barnsfaðernismáli. Stúlkukindin var látin lýsa hvernig barnið hefði komið undir. Samræðið hafði farið fram í bát nokkrum í miklum þrengslum. Lýsti stúlkan því í smáatriðum hvernig þau hefðu borið sig að við athöfnina. Sýslumaður fylgdist með af áhuga. Að lokum þótti honum stellingin sem lýst var vera orðin nokkuð flókin og snýr sér að skrifara sínum og segir:

"Er þetta hægt, Matthías?"

Þetta er síðan orðið að máltæki og ekki víst að allir sem taka sér það í munn viti uppruna þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Guðbjörg Hildur Kolbeins brenndi sig illilega á kommentakerfinu. Hún hefur líklega fengið þau illskeyttustu komment sem nokkur bloggari hefur fengið. En nú er reyndar hægt að stýra því, líklega af illri nauðsyn, hvaða komment maður birtir.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.2.2008 kl. 00:41

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það er vont og það versnar:

http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/432866/ 

Svo er innanríkisráðuneyti Filippseyja að leita að barninu, en þar á bæ höfðu menn ekki fengið neinar fyrirspurnir frá Íslenskum yfirvöldum, þegar þeir tóku við leitarbeiðni minni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.2.2008 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband