243. - Evrópusambandið er að ná forystunni í skrifræðissamkeppninni miklu við Bandaríkin

Bjarni kom heim frá Bahamaeyjum í gær og er þegar farinn að vinna á verkstæðinu hjá Opnum Kerfum.

Charmaine kemur svo að líkindum í lok febrúar. Það er samt búið að ganga á ýmsu hjá þeim við að fá Shengen-visa fyrir hana og langt í frá að ljóst sé enn hvort það tekst. Þau eru búin að vera að vinna í þessum málum síðan í byrjun nóvember.

Það er með ólíkindum hve stjórnvöld í svonefndum Schengen löndum og sendiráð og ræðismenn sömu landa ganga langt í því með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að fólk komi í heimsóknir inná hið háheilaga Schengen svæði. Ef ég væri ekki búinn að heyra um þetta í smáatriðum mundi mér aldrei detta í hug að trúa því. Íslensk stjórnvöld eru alveg eins og önnur slík þegar að þessum málum kemur.

Eina von fólks til að komast áfram í þeim frumskógi sem búið er að reisa í kringum þetta er að vera að minnsta kosti eins vel að sér og starfsfók viðkomandi stofnana. Það er alls ekki hægt að fá annað á tilfinninguna en að þetta starfsfólk beini allri sinni orku í að finna leiðir til að flækja málin sem mest og halda fólki á þann hátt frá því að leggja til atlögu við það risavaxna skrifræðisbattery sem búið er að reisa í kringum þessi mál.

Það væri auðvitað hægt að nefna tugi eða hundruð dæma um þetta en mér finnst eðlilegra að tala um það á almennum nótum. Flestum leiðist að lesa um tiltekin dæmi. Fólk þekkir þau þó og veit vel að stjórnvöld reyna að halda því þrælbundnu á sínum stað og vona að það trúi bara að sýndarfrelsið og dásemdir neyslunnar séu sælan sjálf.

Horfði áðan á upptöku af fróðlegum kastljósþætti sem var víst sendur úr fyrr í kvöld. Gamli góði Villi sat þar eins og dæmdur og hlustaði á Sigmar hella sér yfir hann. Skaut inn orði við og við og kannaðist ekki við neitt. Ekki að bera neina ábyrgð. Ekki að hafa orðið tvísaga eða margsaga. Ekki að hafa staðið að málum eins og lýst er í skýrslunni Svandísar. Og yfirleitt ekki að hafa gert nokkurn skapaðan hlut. Svo er myndaður meirihluti um það að hann fái enn eitt tækifæri.

Mér finnst alveg óþarfi að borgarstjórar sem sannanlega standa sig illa fái annað tækifæri. Nóg er af mönnum sem vilja taka þetta að sér og geta það. Samflokksmenn hans sem brugðust honum einu sinni geta ekki verið þekktir fyrir að éta núna allt ofan í sig. Ef þau standa að endurreisn Villa eru þau að kveða upp pólitískan dauðadóm yfir sjálfum sér og hljóta að gera sér grein fyrir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband