238. - Sóley Tómasdóttir, Guðbjörg Hildur Kolbeins, Jón G. Friðjónsson og fleiri

Hvað er líkt með Sóleyju Tómasdóttur og Guðbjörgu Hildi Kolbeins?

Jú, þær eru báðar Moggabloggarar og hvorug þeirra leyfir komment á sín skrif. Þetta er svolítið pirrandi en ég ímynda mér að þetta sé ekki að ástæðulausu. Mér finnst ögn skárra að loka fyrir komment og kommenta samt sjálfur villt og galið á skrif annarra en að kommenta eins og rófulaus hundur og hafa svo sitt eigið blogg lokað og læst fyrir öllum utanaðkomandi. Í mínum huga er munurinn þó ekki mikill.

Ég veit ósköp lítið um Sóleyju Tómasdóttur annað en að hún er feministi sem hefur sérstakt lag á að æsa menn upp á móti sér. Svo er hún líka mágkona Simma í Kastljósinu. Guðbjörg Hildur Kolbeins er aftur á móti kennari við Háskóla Íslands og kennir þar eitthvað viðvíkandi fjölmiðlun. Hún er vel að sér um margt í því sambandi en þó virðast margir fjölmiðlamenn hafa horn í síðu hennar. Líklega einkum vegna þess að hún hefur aldrei unnið við fjölmiðlun sjálf.

Annars skil ég ekki þessar takmarkanir á málfrelsinu. Mér finnst málfrelsi vera annað hvort eða, með fáeinum undantekningum þó. Ef mikill fjöldi athugasemda veldur vandræðum hlýtur að vera einfaldast að hætta bara að lesa þær.

Jón G. Friðjónsson, sem ég álít að sé með fróðustu mönnum um íslenskt málfar, hélt nýlega erindi um Biblíuþýðinguna nýjustu. Ég las greinarkorn eftir Jón um þetta efni ekki alls fyrir löngu. Ég er viss um að í fyrirlestrinum hefur hann fundið þýðingunni flest til foráttu eins og í greininni og áreiðanlega hefur ekki skort dæmi um það.

Einn helsti veikleiki Jóns þegar hann fjallar um íslenskt mál er einmitt að hann styður mál sitt oft með óþarflega mörgum dæmum. Ég veit ekki hvort einhverjir verða til þess að mótmæla þessum skoðunum hans um biblíuna, en ef ekki þá verður að skoða þá þögn sem samþykki.

Í tilkynningu sem ég sá um þetta á bloggi Jóns Vals Jenssonar stóð að erindið heiti: „Það skal vanda sem lengi á að standa." Illa trúi ég að þetta sé frá Jóni G. komið því ég man ekki betur en að þessi málsháttur sé svona: „Vel skal það vanda sem lengi á að standa." Lítill munur kannski, en þýðingarmikill samt.

Nú er kominn febrúar og hænufet sólarinnar fara smástækkandi. Vel má sjá að myrkrið er að hopa, einkum ef bjart er yfir. Það er líka ansi kalt um þessar mundir og væntanlega fer þessum ósköpum að linna.

Reykingar aukast nú í Reykjavík sem aldrei fyrr. Barir í Reykingavík keppast nú við að auglýsa reykingar af miklum krafti. Þeir sem aldrei hafa reykt eru undir auknum þrýstingi varðandi Rei-kingar og reykur liðast svo víða um loft að boðuð hefur verið koma indíánskra reykmerkjafræðinga..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarft nú ekki að vera hissa á því að Sóley Tómsdóttir leyfir ekki athugasemdir á sínu bloggi........hún þyrfti þá að hafa ein allt moggabloggið fyrir sig eina til að athugasemdirnar kæmust að....svo þetta er vel skiljanlegt.Konan er svo veruleika firrt og hefur svo sérstakar skoðanir að það eru svo fáir sammála henni.Nú og svo er hún ekki meira fylgjandi tjáningarfrelsinu eða málfrelsinu en þetta...nema þa ðsnúi að henni eða henti henni....þetta kallast einstefna.

Svo er nú líka með sumar af þessum feministum að þær minna mann á lítinn einræðisherra á blogginu.Það er alveg sama hvað þær blogga um og hversu merkilegt eða ómerkilega það er þá kemur alltaf sami herskarinn inn,sömu einstaklingarnir,sömu nöfnin og skrifa athugasemdir við það....þó ekki sé nema "já alveg sammála" eða "takk fyrir gott blogg"Þetta eru svona áhangendur eða aðdáendur....minnir mig oft á svona grúppíur sem fylgdu eftir vissum hljómasveitum hér í den og dýrkuðu þær,alveg sama hvað þær spiluð eða gerðu......þá kom alltaf vá vá en æðislegt.

Júlíus Már Baldursson 2.2.2008 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband