472. - Kreppir að á Krepputorgi

Fór á sunnudaginn uppá Krepputorg í grenjandi rigningu. Þarna var fólk að hamast við að eyða sínum síðustu verðlausu krónum og svo bíður Bauhaus sjálfur uppi í brekkunni þess albúinn að hirða þær örfáu krónur sem ef til vill verða eftir. Hræddur er ég um að þessar verslanir verði flestar komnar á hausinn fljótlega. Kannski er bara best að bíða eftir rýmingarsölunum sem þá verða.

Í sumum búðanna þarna fékk ég IKEA-kennd. Hún er þannig að mér finnst beinlínis óþægilegt að standa og finna draslið umlykja mig og næstum kæfa. Samhliða þessari tilfinningu þá flýgur manni í hug að kannski komist maður aldrei aftur út úr þessum ósköpum. Villist kannski þar um til eilífðarnóns.

Nú er um að gera að gleyma því sem liðið er og hefja fátæktarbaslið. Nú verður aftur farið að tala um gamla verðið og svo framvegis. Ég á fastlega von á því að verðbólgan æði áfram næstu mánuðina. Ekki er ólíklegt að bráðum þurfi að fækka eitthvað núllum í krónu-umræðunni. Það er sparnaður sem við Íslendingar kunnum. Það getur vel farið svo að ekki fari almennilega að rofa til í efnahagsmálum fyrr en eftir nokkur ár. Við skulum bara reyna að þreyja Þorrann og Góuna þangað til.

Vonandi tekst að forðast þjóðargjaldþrot en einhverjir munu nota tækifærið og raka saman aurum. Nýja þotuliðið er þeir sem kunna á verðbólguna og tekst að láta hana fleyta sér yfir ójöfnurnar.

Það er ekkert víst að það verði þeir sömu og borðuðu fjármálastofnanir í morgunmat og banka í hádeginu. Það gæti eins verið kaupmaðurinn á horninu sem fann óvænt helling af gömlum stígvélum niðri í kjallara eða maðurinn sem safnaði snærisspottum og gerði úr þeim úrvals kaðla.

Það var að mörgu leyti ágætt að vera verslunarstjóri eins og ég var á verðbólgutímunum upp úr 1970 eða svo. Það var varla hægt að gera svo vitlaus innkaup að þau yrðu ekki ágæt á nokkrum mánuðum. Það sem var óhóflega dýrt í fyrstunni varð með tímanum að reyfarakaupum enda voru yfirleitt ekki dagprísar í gildi.

Ótti við vöruskort og hungur er alveg óraunhæfur núna. Síðasta raunverulega kreppa hér á Íslandi var um 1930 og þá áttu margir við erfiðleika að stríða. Að erfiðleikarnir verði jafnmiklir núna og þá var kemur ekki til greina. Þeir sem eiga peninga eða aðrar eignir geta þó vel búist við að tapa einhverju. Þeir sem ekkert eiga tapa ekki miklu.

Ásakanir um hverjum núverandi ástand sé að kenna eru til lítils og fara jafnan í hringi. Sem kjósendur óhæfra stjórnmálamanna berum við öll ábyrgð. Þotuliðið var bara að nýta sér tækifæri sem buðust.

Horfði í kvöld á viðtal við Davíð Oddsson á Netinu. Eins og venjulega brást RUV þar og skrúfaði fyrir gagnastrauminn áður en viðtalið var búið. Þetta er að verða illþolandi.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband