424. - Ólympíuleikar, Ólympíuleikar, Ólympíuleikar

Einu sinni þótti mér allt stórmerkilegt sem gerðist á Ólympíuleikum en ekki lengur. Núna finnst mér varla taka því að fylgjast með því sem fram fer á Ólympíuleikunum í Kína. Það er samt spennandi að horfa á leiki Íslendinga í handboltanum.

Fyrstu Ólympíuleikarnir sem ég fylgdist eitthvað með voru leikarnir 1952 í Helsinki en þó aðallega eftir leikana. Ég man eftir umfjöllun um Örn Clausen (eða Hauk bróðir hans) í einhverju blaði skömmu eftir leikana.

Þar var frá því sagt að í Helsinki hafi hann ætlað að lyfta ferðatösku sem hann hélt að væri níðþung en var þá galtóm og fislétt. Við þetta tognaði hann svo illilega í handleggnum að hann var settur á sjúkralista og gat ekkert keppt sem þó var ætlunin. Hann vildi þá meina að hann gæti verið fram eftir kvöldi að skemmta sér með öðrum Íslendingum sem ekki voru að fara að keppa í neinu. Þetta vildi íþróttaforystan ekki fallast á og deilur milli hennar og Clausenbræðra mögnuðust upp og þeir hættu íþróttaiðkun alltof snemma.

Svo var það á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 að Villi stökk í þremur stökkum svo eftirminnilega inn í íslensku þjóðarsálina að þaðan hefur hann ekki farið síðan.

Á fjögurra ára fresti var leikurinn svo endurtekinn. Oftast urðum við Íslendingar fyrir vonbrigðum. Það var svo aftur í Ástralíu en að þessu sinni í Sidney sem Vala Flosadóttir stökk á stöng eins og Sveinbjörn og Valbjörn forðum og vann til verðlauna. Svo má auðvitað ekki gleyma handboltalandsliðinu sem alltaf gerir það gott öðru hvoru og Bjarni júdókappi vann einhverntíma til verðlauna.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar sagt var frá því í hádegisfréttum í nóvember 1956 að Vilhjálmur hefði orðið annar. Maður trúði ekki sínum eigin eyrum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2008 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband