114. blogg

 Undarlegt með ættfræðina. Hún læðist aftan að manni þegar maður fer að eldast.

Lengstum hefur mér fundist þessi fræðigrein lítt merkileg og satt að segja hundleiðinleg, en það álit er að breytast. Nú orðið finnst mér mest varið í að lesa um eitthvað gamalt.Oft finn ég einhverjar tengingar við hluti sem ég kannast við og þær geta oft verið skemmtilegar og merkilegar.

Það er áberandi hvað ég hef orðið miklu meiri áhuga á bókum sem fjalla um löngu liðna atburði en áður var. Einu sinni dæmdi ég bækur talsvert eftir því hve langt var síðan þær voru gefnar út og hvort þær fjölluðu um nýlega atburði. Þá þótti mér bækur yfirleitt því merkilegri sem nýlegri svipur var á þeim. Nú hefur þetta eiginlega snúist við. Ég er að mestu hættur að lesa svokallaðar fagurbókmenntir. Ævisögur og allskyns þjóðlegur fróðleikur og frásagnir ásamt vísinda- og fræðiritum heilla mig miklu fremur.

Að undanförnu hef ég verið að lesa bók sem gefin var út árið 1982. Hún heitir "Sögur úr byggðum Suðurlands" og er eftir Jón R. Hjálmarsson. Hún er byggð upp af samtölum við gamalt fólk. Réttara væri að segja; ... samtölum við fólk sem orðið var gamalt þegar bókin var gefin út.

Í samtali við Daníel Guðmundsson bónda og oddvita í Efra-Seli í Hrunamannahreppi segist honum svo frá: Konráð, bróðir minn, hafði þá um skeið verið bóndi hér í Efra-Seli í Hrunamannahreppi. Átti hann þessa jörð ásamt Hallgrími, bróður okkar, sem þá var togaraskipstjóri, en síðar framkvæmdastjóri við togaraafreiðsluna í Reykjavík....

Þarna er örugglega komin tenging við Gunnar Hallgrímsson bekkjarbróður minn og herbergisfélaga frá Bifröst. Hallgrímur þessi var eflaust pabbi hans og það skýrir líka af hverju Gunnar er nú fluttur að Flúðum.

Þessi bók er fengin að láni á öðru hvoru bókasafninu sem ég skipti við og þaðan er líka bók sem ég er að byrja á núna. Hún heitir: "Og náttúran hrópar og kallar."

Þessi bók sem er eftir Óskar Guðmundsson er ævisaga Gulla í Karnabæ sýnist mér. Bókin fjallar í byrjun a.m.k. einkum um uppvöxt Guðlaugs á Selfossi á heimsstyrjaldarárunum síðari. Ég þekkti Guðlaug aldrei neitt, en bróður hans Grétar kannaðist ég aftur á móti svolítið við. Margt er eflaust áhugavert í þessari bók og þar býst ég við að sagt sé frá mörgu sem ég kannast eitthvað við.

 

Bjarni Ármannsson, sem nauðsynlegt þótti að láta hætta sem framkvæmdastjóra Glitnis, hefur nú loksins fundið sér aðra vinnu.

Glitnir sem áður hét Íslandsbanki var myndaður úr því bankakraðaki sem eitt sinn var hér á landi. Verslunarbanka Íslands - sem nánast fór á hausinn við að dæla hér um bil ótakmörkuðu fé í Stöð 2 á sínum tíma, Iðnaðarbanka Íslands, Alþýðubanka Íslands og Útvegsbanka Íslands - sem Hafskip setti á hausinn (eða var það öfugt?)

Eitthvað held ég líka að Framkvæmdabanki Íslands komi þarna við sögu. Þann banka keyptu Jón Ásgeir Jóhannesson, Jón Ólafsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og fleiri og fengu í kaupbæti óvild og jafnvel hatur Davíðs Oddssonar og afla innan Sjálfgræðisflokksins sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Samvinnubankinn lenti hins vegar í einni skúffu í Landsbankanum og Búnaðarbankinn breyttist í Kaupthing banka.

Bjarni Ármannsson ætlar nú í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur og kannski einhverja fleiri, að stofna fyrirtæki sem hann mun veita forstöðu og sem ætlar að hasla sér völl á sviði orkurannsókna. Bjarni segist bara hafa lagt í þetta litlar og skitnar 500 milljónir króna, sem er náttúrlega bara eins og hver annar skítur á priki og engan getur munað um að snara út. Þessum smáaurum önglaði Bjarni saman í sínu fyrra starfi hjá Glitni. Einhver sagði reyndar að framlag Bjarna væri um 800 milljónir, en þar munar nú svo litlu að enginn nennir að velta því fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Gamlar bækur eru góðar og karlagrobb er oft skemmtilegt. Kveðja.

Eyþór Árnason, 13.9.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband