113. blogg

Anna í Holti segir í kommenti við síðustu færslu á þessu bloggi að mín sé einkum minnst í Borgarnesi fyrir afskipti mín af Vídeóinu þar, sem allfrægt var á sínum tíma.

Það er að vonum. Ekki skildi ég eftir mig djúp spor í Borgarnesi sem verslunarstjóri og þaðan af síður fyrir annað sem ég gerði þar.

Vissulega var þetta sérkennilegt félag og skemmtilegur tími. ÚSVB vakti athygli langt útfyrir Borgarnes. Þó var þar allt af miklum vanefnum gert og í sumum tilfellum hefði ekkert orðið úr hugmyndum sem fram komu ef ég (ásamt ýmsum fleirum) hefði ekki tekið að mér að sjá um framkvæmd þeirra, án þess að fá nokkuð fyrir.

Ég minnist þess að við vorum með allskyns þáttagerð. Spurningaþætti gerðum við og sömuleiðis áramótaþætti. Kvikmynduðum einnig allskyns hátíðahöld, vorum með beinar útsendingar frá bingói sem við skipulögðum að öllu leyti sjálfir, tókum upp íþróttakappleiki og margt fleira. Ég geri ráð fyrir að upptökur af ýmsu sem þarna fór fram séu til, því allar urðu þær eftir hjá þeim sem tóku við félaginu þegar ég flutti burt árið 1986.

Einhvern tíma um þetta leyti fór ég á ráðstefnu sem haldin var í Ölfusborgum. Líklega stóð Alþýðubandalagið fyrir þessari ráðstefnu. Ég átti að segja frá vídeókerfinu í Borgarnesi og svara fyrirspurnum um það. Björgvin Óskar Bjarnason fór með mér í þessa för. Minnisstætt er mér frá þessari ráðstefnu að Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðingur flutti þar erindi og kallaði mig og aðra vídeókerfastjórnendur misgerðamenn ríkisútvarpsins. Þetta að vera misgerðamaður er kannski einhver flottasti titilll sem ég hef fengið.

Á þessari ráðstefnu man ég einna best eftir ráðherrunum Ólafi Ragnari Grímssyni og Svavari Gestsyni. Vilborg Harðardóttir rithöfundur var þarna einnig og ég man að hún sýndi erindi mínu mikinn áhuga og spurði margs.

 

Merkilegt er hve mikið er bullað á þessu Moggabloggi. Kannski er þetta ekkert skárra á öðrum bloggveitum, hvað veit ég. Langflestir virðast einkum blogga til þess að ná upp einhverjum vinsældum. Auðvitað er það skiljanlegt. Líklega langar flesta að fá viðurkenningu annarra og auðvitað er það viðurkenning að fara á blogg annars manns hvort sem maður les það eða ekki.

Bloggefni mitt er einkum minningar frá ýmsum tímum. Dagsdaglega gerist ekki svo mikið í mínu lífi að það taki því að segja frá því nákvæmlega. Sumir stunda það þó að segja sem nákvæmast frá því sem gerst hefur næstliðinn dag. Auðvitað getur verið gaman að lesa það hjá þeim sem lenda í mörgu og kunna vel að segja frá, en hálf þreytandi er það nú samt oft.

Ég veð talsvert mikið úr einu í annað á blogginu mínu bæði í sambandi við minningar og annað sem ég segi frá. Inn á milli koma svo frásagnir í fremur stuttu máli um það sem á daga mína og minnar fjölskyldu drífur.

Þeir sem einkum stunda það að lesa bloggið mitt til að fylgjast með því sem gerist í minni fjölskyldu, verða að taka því að ýmislegt annað flýtur með. Bæði eru það hugleiðingar um allan þremilinn og endurminningar sem kannski einkennast öðru fremur af karlagrobbi og eru þar að auki frá ýmsum tímum og eflaust misáhugaverðar að dómi þeirra sem þær lesa. Sjálfum finnst mér þær þó að sjálfsögðu allar mjög áhugaverðar, annars væri ég ekki að þessu.

Stundum blogga ég af miklum móð dag eftir dag en stundum koma hlé á milli. Þá nenni ég varla að fara á Netið, en er bara að ýmsu öðru dútli. Tapa þá gjarnan fjölda bréfskáka á tíma, auk þess sem bloggin vanrækjast. Venjulega áset ég mér þegar ég byrja að blogga að ég skuli ekki skrifa meira en svona eina eða tvær blaðsíður í Word með fonti 14. Oftast stenst það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Ef rétt er að staðið er alls ekki dýrt að stunda s.k. innlenda dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Kostnaðurinn er í öfugu hlutfalli við hæfni þeirra sem við verkið vinna. Einu sinni var langskólagenginn kvikmyndagerðarmaður að gera 15 mín dagskrárkynningarþátt fyrir sjónvarp, þessi maður byrjaði kl. 9 f.h. kl. 17 tók annar við og var búinn að öllu kl. 18.00

Gestur Gunnarsson , 12.9.2007 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband