3000 - Þrjúþúsundasta bloggið

Þetta er víst þrjúþúsundasta bloggið mitt. Auðvitað ætti ég að hafa það eitthvað minnisstætt, en mér dettur ekkert í hug. Ég er ekki einu sinni búinn að semja örsögu til að setja hérna, en kannski fæðist eitthvað þegar líða tekur á daginn.

Margir eru þeir sem skreyta bloggin sín eða fésbókargreinar með myndum sem finnast á netinu, en því nenni ég ekki. Nógu erfitt er að fara sífellt og ná í einhverja mynd sem ég sjálfur hef tekið og birta með sérhverju bloggi. Satt að segja er ég að hugsa um að hætta því og láta bókstafina nægja. Ef ekki er hægt að koma orðum að því, sem segja þarf, á íslensku og hugsanlega með hæfilegu magni af útlenskuslettum, sem allir þekkja og skilja, er hætt við að bloggið eða fésbókarinnleggið sé ekki mikils virði. Bloggathugasemdir eru líka oft hálfmarklausar vegna þess að sá sem skrifar er sjaldan viðlátinn.

Samt sem áður virði ég fésbókina mikils fyrir hraðann, samskiptin og kjaftavaðalinn. Það er ómetanlegt fyrir marga að geta strax brugðist við ef eitthvað vitlaust er sagt. Sem birtir greina og alvarlegrar umræðu er hún fremur lítils virði. Fyrir þá sem eru með Messíalarkomplexa og halda að þeir séu ómissandi er bloggið alveg upplagt. Auðvitað eru ekki allir bloggarar þannig. Líkja má blogginu við greinaskrif og e.t.v. við blaðamennsku. Þeir sem skrifa í blöðin  þurfa oft á því að halda að margir lesi það sem þeir skrifa en bloggarar virðast síður í þörf fyrir slíkt.

Hér er saga sem ég skrifaði áðan:

Andafjandinn kemur ekki, þó hann eigi að koma undireins og ég sest við tölvuna. Sennilega hefur hann öðru að sinna akkúrat núna svo réttast er að bíða svolítið. Undarlegur andskoti með þennan blessaðan anda. Hann er genverðugur mjög og engin leið að ganga útfrá því að hann komi alltaf þegar hann á að koma. Annars þarf ég ekki að kvarta neitt því örsögur hef ég skrifað hömlulítið undanfarið. Kannski hann hafi eitthvað að athuga við það að ég setji þær jafnóðum á Moggabloggið. Það verður bara að hafa það. Ekki fer ég að breyta því bara útaf einhverju andleysi.

Guðlaugur gekk í hringi. Loksins áttaði hann sig á því. Hann var semsagt orðinn villtur. Grjóthólinn framundan sér hafði hann áreiðanlega séð fyrir stuttu. Ekki gat hann með nokkru móti séð fyrir að þessi þokuskratti legðist yfir allt. Bölvaðar rolluskjáturnar að stinga svona af. Ef hann hefði hlaupið á eftir þeim er eins víst að þær hefðu farið sér að voða í þessari þoku. Sennilega voru þessar rollur frá honum Jónasi á Hóli, svo honum var skapi næst að láta þær eiga sig. Eiginlega var hyskið á Hóli í engu afhaldi hjá honum. Ekki dugði samt að láta það bitna á saklausum skepnunum. Nú var von á slæmu veðri og hann hefði viljað koma þessum kindum og þeim sem hann hafði fundið í dældinni hjá Staðarfjallinu niður að skála fyrir myrkur. Nú leit illa út með það útaf þessum skjátum sem hlupu út í buskann þegar þær áttu að fara í hópinn hjá hinum kindunum.

Hundlaus var hann því miður. Snoddas hafði verið svo fótafúinn að undanförnu að hann vildi ekki leggja það á hann að fara í þessar leitir. Ef hann hefði haft hundinn hefði hann samstundis og rollurnar tóku á rás sent hann á eftir þeim og látið hann sækja þær. Hann fann sér til sárrar armæðu að hundlaus var hann vanbúinn til þess að takast á við kindur sem voru að eðlisfari strokgjarnar. Sennilega var Hólsféð ekki af réttu kyni. Efast mátti um að búið væri að rækta strokið úr þeim. Kindurnar sem hann hafði fundið við Staðarfjallið voru muna meðfærilegri. Líklega var engin þeirra frá Hóli.

Guðlaugur vonaði að þokunni mundi bráðlega létta og á meðan var hann að hugsa um að hvíla sig. Hann var búinn að vera á næstum stöðugri göngu frá því snemma um morguninn og var satt að segja orðinn talsvert lúinn. Hann lagðist því á mosaþembu og fór brátt að hrjóta. Enginn Snoddas var að þessu sinni til að vekja hann. Þegar hann loksins vaknaði var næstum komið myrkur. Þokan var horfin og kindurnar sem höfðu rásað frá honum voru skammt frá. Hann sótti þær í flýti og setti saman við hinn hópinn sem var skammt í burtu í hina áttina.

Guðlaugur skildi ekkert í því hvernig hann hefði farið að því að vakna akkúrat á þessum tíma. Honum datt síst af öllu í hug sannleikurinn í málinu. Það var nefnilega svo að huldustrákurinn sem rakst á hann hafði einmitt vakið hann á sama hátt og Snoddas var vanur að gera. Það er að segja með því að sleikja hann í framan.

IMG 5529Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til hamingju með áfangann, Sæmi minn! cool

Þorsteinn Briem, 3.9.2020 kl. 10:37

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir með Steina.

Til lukku með áfangann, ekki margir sem ná þessu.laughing

Sigurður Kristján Hjaltested, 4.9.2020 kl. 16:57

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Steini og Sigurður.

Sæmundur Bjarnason, 4.9.2020 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband