2986 - Kóvítinn enn og aftur

Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef bloggað. Man ekki hvenær þar var síðast. Að ég skuli byrja á þennan hátt sýnir að ég hef enga „mission“. Það er að segja mér er ekki sérlega sýnt um að sannfæra lesendur mína um nokkurn skapaðan hlut. Ekki einu sinni um sérstaka pólitíska skoðun. Margir hafa hana og reyna að sannfæra aðra um að hún sé sú eina rétta. Hvaða erindi á ég þá við væntanlega lesendur mína? Er það kannski að sannfæra hugsanlega lesendur um að skoðun mín á heimsmálunum og á Donaldi Trump Bandaríkjaforseta hljóti að vera sú eina rétta? Ég veit ekki einu sinni sjálfur hver hún er!!

Nú er kórónuveiran að ná sér á strik aftur. Sennilega verður þessi veiruskratti til þess að hugarfar almennings breytist verulega. Þeir sem einu sinni voru ríkir og voldugir verða kannski fátæklingar morgundagsins. Ekki veit ég hvernig þetta á að gerast, en leyfilegt er að vona. Kannski minnkar vonskan í heiminum við þetta. Hún gerði það að vísu ekki þegar síðasti faraldur gekk yfir. Kannski gerir þessi það samt. Nú hljóta menn að sjá að í raun og veru eru allir jafnir. Landamæri og aðskilnaður er bara til bölvunar. Óhæf stjórnvöld verður að setja af.

Sumir segja að fjármagn leiti alltaf þangað sem fjármagn er fyrir. Það sé semsagt eins og hver önnur óværa. Kannski er það rétt. Sé svo er lítil von til þess að ástand heimsmála batni við þessi ósköp. Hver veit samt nema veiran margumtalaða og mjöghataða sannfæri menn um að skipulag heimsins sé eins og hver önnur hugsanavilla. Þurfa menn endilega að vera ríkari en nágranninn. Held ekki. Samt er það svo að ekki geta allir verið jafnir. Það hefur verið sannað. Sósíalisminn hefur verið prófaður. Hann reyndist herfilega illa. Föðurlandsást og hernaður er afturhvarf til fyrri tíma. Hvað er þá hægt að gera? Kannski er veiran að sýna okkur það.

Ruglast svolítið á hinum fjórum stóru tæknifyrirtækjunum í Bandaríkjunum. Þau eru að ég held: Facebook, Amazon, Apple og Google. Sum þeirra heita reyndar eitthvað annað núna. Hafa sennilega gleypt einhver önnur fyrirtæki. Gott ef annaðhvort Amazon eða Google eiga ekki Twitter, Youtube, SpaceEx, Microsoft og Tesla, ásamt öðrum smáfyrirtækjum eins og t.d. PayPal og Instagram. Einu sinni voru kvikmydndafyrirtækin. olíufélögin og bílaframleiðslufyrirtækin í Bandaríkjunum talin allstór. Svo er ekki lengur. Einstaka menn telja bankana og Tryggingafyritækin þar stór. Svo eru það stóru fyrirtækin í Japan, Kína og Suður-Kóreu, að ekki sé minnst á Evrópsku fyrirtækin sem einu sinni voru álitin nokkuð stór. Hvar endar þetta eiginlega. Látum ekki stóru alþjóðlegu fyrirtækin ráða öllu. Það er til bölvunar. Ekki er nóg að segja Huawei að fara í rass og rófu þó sumir haldi það.

IMG 5730Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ætli það sé ekki um fjórða hver færsla hjá þér sem byrjar á yfirlýsingu um að það sé langt síðan þú bloggaðir síðast Sæmundur.

En til upprifjunar var það um miðja síðustu viku. Það er visst áhyggjuefni ef þú manst það ekki embarassed

Þorsteinn Siglaugsson, 4.8.2020 kl. 10:55

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Trúboð ekkert telur hann,
í trúboðsstellingunni,
trúna hann og traustið fann,
hjá tíræðri kellingunni.

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 13:39

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

já, Siglausson, áhyggjuefni er það. Skammtímaminninu er ekki að treysta hjá mér. Sennilega er það aldurinn. Auðvitað hefði ég getað gáð að því. Þakka þér samt fyrir að segja mér þetta.

Sæmundur Bjarnason, 4.8.2020 kl. 14:48

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini Briem, held að ég hafi trassað að svara vísum þínum að undanförnu, þetta er stundum argasta hnoð hjá mér og eins gott að sleppa því. En góði haltu áfram en þú nennir. Sú tíð mun vonandi koma að ég fari aftur að svara vísum þínum í sömu mynt.

Sæmundur Bjarnason, 4.8.2020 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband