2910 - Bjarni Harðarson

Nei, ég er svosem ekki dauður ennþá, þó langt sé umliðið síðan ég bloggaði síðast. Eiginlega ætti ég ekki að vera að þessum andskota. Einhverjir láta þó svo lítið að lesa þetta. Sennilega eru það einkum vinir og vandamenn. Annars veit ég minnst um það. Mér nægir alveg að blogga í sífellu. Ekki þar fyrir að það væri svosem gaman að vita hverjir lesa þessi ósköp. Konan mín gerir það, að ég held, svo og systkini og afkomendur. A.m.k. flestir hverjir. Einsog ég hef áður sagt, þá bloggaði ég einu sinni daglega, en er steinhættur því, enda er það til þess eins að þynna út þessi skrif. Svo merkileg eru þau ekki. Það að ég skuli vera að þessari vitleysu á Moggablogginu hefur enga sérstaka pólitíska merkingu. Ég áskil mér fyllsta rétt til þess að vera mótsnúinn Davíð frænda ef mér þykir þess þurfa og hef engar áhyggjur af því að verða vísað héðan. Svo vitlaus er hann ekki. Vitlaus er hann samt. Fer ekki nánar útí það hér og nú.

Rithöfundur er ég ekki. Vildi samt gjarnan vera það. Bjarni frændi minn Harðarson er rithöfundur en þó hef ég ekki lesið skáldsögur eftir hann til enda, þrátt fyrir góð tilhlaup til þess. Mér finnst hann oft fyrna þar mál sitt að óþörfu. Ingibjörg systir og Hörður pabbi hans gáfu mér eitt sinn bók eftir hann í afmælisgjöf og þó skömm sé frá að segja hef ég ekki lesið hana ennþá. Hinsvegar bera ferðaþættir hans og ýmis önnur skrif af, svo og eru ræður hans bráðskemmtilegar. Þar fer hann svo sannarlega á kostum. Hann er líka einn besti og frumlegasti viðmælandi sem Egill Helgason hefur kynnt fyrir okkur í Silfri sínu. Ættfræðingur og bóksali er hann einnig par excellence og að sjálfsögðu einnig fyrrverandi þingmaður.

Sennilega eru áhrifin af heimshlýnuninni og Wuhan-veirunni ofmetin í fréttum. Vonum það a.m.k. Einnig eru líkurnar á Grindavíkugosinu vonandi ofmetnar líka. Það sem búið er af óveðri og þessháttar er þó ekki ofmetið. Áður fyrr hefði fréttaflutningur af þessum hörmungum samt verið mun minni. Kannski stafar þetta einkum af því að tímarnir eru breyttir og ekki þýðir af fárast yfir því. Keppnin á milli félagslegu miðlanna og hinna er alltaf að aukast. Þeir félagslegu eru sífellt að auka útbreiðslu sína og verða, ef útbreiðslan er mikil, að gæta sín á falsfréttunum. Þeim fjölgar mjög sem vilja auka áhrif sín sem mest og skirrast e.t.v. ekki við að dreifa fréttum sem þá grunar að séu falsaðar.

Minningar og þessháttar á fésbókinni eru varasamar. Ef t.d. eru birtar myndir af börnum, sem manni sjálfum finnst kannski vera góðar og krúttlegar, er allsekki víst að krökkunum finnist það sjálfum seinna meir. Fyrir nú utan það að þær kunna að verða misnotaðar. Netið og fésbókin gleyma aldrei neinu, menn ættu að minnast þess. Fátt er opnara en lokaðar fésbókarsíður. Munið það fyrir alla muni.

Sennilega eru myndir með því vandmeðfarnasta á fésbókinni og á blogginu. Hver nennir að lesa gömul rituð blogg eða fésbókarinnlegg eftir aðra. Sumir liggja á því lúalagi að vísa í gömul blogg, en jafnvel ég sem er greinilega með bloggarblæti nenni yfileitt ekki að sinna slíku. Hámarkið er sennilega að lesa sín eigin gömlu blogg. Það geri ég stundum, en ráðlegg hér með öðrum frá því að gera það. Seint verður það eins og að lesa eða skoða gamlar bækur.

Oft og einatt gera menn þau mistök í greinaskrifum að hafa þau of löng. Óþarft er með öllu að skrifa um allt sem manni dettur í hug í sambandi við það sem um er rætt. Kannski er ég með þessu að afsaka minn eigin veikleika, sem er greinilega sá að vaða sífellt úr einu í annað. Krafa dagsins er að koma sér undireins að efninu. Þessvega er það sem krimmar eru stundum lítið annað en dægrastytting höfundar. Plottinu væri hægt að koma fyrir á örfáum síðum. Hitt er uppfylling. Auðvitað eru höfundar misjafnir að þessu leyti.

IMG 6410Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Las þetta tékk!

Góður krimmi er eins og góð naglasúpa. 

Plottið er naglinn og aukaatriði, maturinn liggur allur í hinu. 

Nenni samt ekki að lesa krimma. 

Horfi á þá í sjónvarpinu og þykir þeir bestir þegar enginn er drepinn og enginn er glæpurinn t.d. eins og Martin læknir.

Bjarni Gunnlaugur 9.2.2020 kl. 01:04

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Bjarni. Ég er eiginlega alveg sammála þér.

Sæmundur Bjarnason, 9.2.2020 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband