2714 - Enn um Tromparann eina og sanna

Einhverjir held ég að hafi haldið því fram að við Íslendingar ættum að gerast ríki í bandaríkjunum. Svona á borð við Alaska. Ekki líst mér á það. Puerto Rico er eyja í Karíbahafinu. Bandaríkjamenn ráða þar lögum og lofum. Gott ef þeir sem þar búa eiga ekki að hafa full réttindi í USA. Íbúar þar eru nokkrar milljónir. Bandaríkjamenn hafa ekki viljað fallast á fylkisréttindi þeim til handa. Í september síðastliðnum gekk þar fellibylur yfir og olli talsverðu tjóni. Rafmagn er ekki enn komið á nærri allstaðar eftir þetta hvassviðri. Ef við Íslendingar ætlum okkur að gerast bandarískir þegnar án þess að færa USA einhverjar fórnir í staðinn held ég að við getum alveg gleymt þessu. Satt að segja líst mér betur á hugmynd Gunnars Smára um að gerast fylki í Noregi. Þó hafa Norðmenn aldrei sýnt okkur nein sérstök vinahót, nema kannski í orði. Skemmst er að minnast smugudeilunnar sálugu. Færeyingar og Grænlendingar líta hins vegar raunverulega upp til okkar.

Enn og aftur er Melania Trump sökuð um ritstuld. Að þessu sinni er hún að leiðbeina krökkum um nethegðun. Meðal annars talar hún um „Cyberbullying“. Maður hennar er einmitt frægur um víða veröld fyrir að stunda slíkt athæfi. Með sínum net-ofsóknum hefur honum tekist að fá nægilega marga til að kjósa sig. Sumir þeirra sjá eftir því, en í staðinn bætast einhverjir við.

Ljósmæður eru sennilega alveg við það að gefast upp fyrir Bjarna Benediktssyni og er það engin furða. Maðurinn kúgar alla sem nálægt honum koma. Hann gerir það kannski ekki Trump-lega en kúgar samt. Merkilegt hvað hann hefur góða stjórn á flokknum þó hann hafi farið með hann úr stórum flokki í lítinn og endar kannski á svipuðum slóðum og Framsóknarflokkurinn.

Ekki get ég stillt mig um að minnast á Trump. Öldungadeildarþingmenn eru valdamiklir í bandarískum stjórnmálum. Í Vestur-Virginiufylki verður í haust kosinn nýr slíkur. (Hugsanlega.) Sá gamli sem er úr Demókrataflokknum býður sig sennilega fram aftur. Á næstunni verður prófkjör hjá Repúblikönum. Sá sigurstranglegasti þar, sem er nýsloppinn úr fangelsi, segist vera Trump-legri en Trump sjálfur. Hann (sjálfur Tromparinn) er víst ekki hrifinn.

Svo maður haldi sig nú áfram á Trump-legum nótum þá hefur öldungardeildarþingmaðurinn John McCain, sem er af mörgum álitinn dauðvona útaf krabbameini í heila fremur óskað eftir því að Barach Obama flytji líkræðuna yfir sér en Trump. McCain þessi barðist við Obama í forsetakosningunum árið 2008 eins og margir muna. Trump vill hann að haldi sig sem lengst í burtu.

IMG 8223Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Pínleg Trumpsins pólitík,
á púka allra bandi,
mörg í heimi ferleg frík,
fólin óteljandi.

Þorsteinn Briem, 8.5.2018 kl. 18:24

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mér finnst það reyndar svolítið tvíbent hvort Trump eigi að verða sár yfir að maður með heilaæxli sé á móti honum.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.5.2018 kl. 21:18

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Annars:

Sæmi tekur Trump með trompi að vanda.

Trauðla mun hann sættast við þann fjanda.

Fyrr en hefst í himnarann,

horfinn út fyrir líkamann,

þá mun hann glaður geði við hann blanda.

 

Þorsteinn Siglaugsson, 8.5.2018 kl. 21:28

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Púkinn þessi pínlegi
píndi mikið Steina.
sendi hann í sveitina
svo hann fór að veina.

Já, ég veit að rímið er fremur ófullkomið í þessu, en ég held að stuðlasetningin sé í lagi.

Sæmundur Bjarnason, 8.5.2018 kl. 23:01

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þorsteinn, ég held að McCain sé ennþá öldungardeildarþingmaður. Þetta mál finnst mér samt fremur ómerkilegt.

Til að fá ljóðlínur með minna bili er nóg að ýta á shift og enter.

Limrum er ég alveg óvanur og veit ekki hvort ég get svarað þér eins og vert væri.

Sæmundur Bjarnason, 8.5.2018 kl. 23:07

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir leiðbeininguna. Þetta vissi ég ekki um lyklaborðið. En fyrst þú ert ekkert í limrum verður þú eiginlega að botna þetta. Það er auðvitað Trumpsi vinur þinn sem yrkir:

Ég elska þig Stormy sem geisar um grund
og gleðina vekur í karlmannsins lund
...

Þorsteinn Siglaugsson, 9.5.2018 kl. 09:34

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég elska þig Stormy sem geisar um grund
og gleðina vekur í karlmannsins lund.
Nú ætla ég bráðum að fara á þinn fund
og freista að vera þar dálitla stund.

Sæmundur Bjarnason, 9.5.2018 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband