2691 - Lífið er ekki sanngjarnt

Lífið er ekki sanngjarnt og ellin er áhyggjur. Þegar við erum loksins búin að læra eitthvað nokkurnvegin til hlítar, þá erum við eiginlega orðin óþörf. Eðlilegt má það kannski kalla, en ekki verður það neitt betra fyrir það. Auðvitað getum við ekki gert allt það sem við gátum áður fyrr. Þegar aldurinn færist yfir okkur verðum við stirðari og hreyfingar okkar hægari. Samt erum við ekki óalandi og óferjandi. Sum okkar kunna ýmislegt fyrir sér. Ýmislegt vitum við til dæmis. Kannski ekki jafnmikið og Gúgli frændi. Þó hann sé fljótur þá eigum við til að vera fljótari. Okkur er hálfilla við að vera meðhöndluð sem börn. Þeir sem litlu eða engu ráða eru okkur oft hagstæðir. T.d. vill afgreiðslufólk í búðum yfirleitt allt fyrir okkur gera. Kannski er það til að losna við okkur sem fyrst. Þannig má samt helst ekki hugsa.

Neikvæðni er jákvæð. Jákvæðni er meðvirkni. Hægt er að snúa útúr öllu. Yfirleitt er lítið að marka fréttatilkynningar. Venjulega er þeim ætlað að fela eitthvað. Ráðherrar segja sjaldan af sér og segja sjaldan satt. Oft má saltkjöt liggja. Umboðsmaður alþingis er hræddur við Sigríði dómsmála, kannski dóttir hans Helga Skúlasonar leikara sé skárri. Vinsældir alþingis eru sáralitlar. Af hverju skyldi það vera? Kannski ætlumst við til of mikils af því.

Er Trump orðinn alveg trompaður? 25% tollur finnst mér áhóflega hár tollur. Ef ég á að segja á hvað þetta minnir mig, þá væri það helst það að á mínum sokkabandsárum þegar ég vann hjá Hannesi Þorsteinssyni og Co. þá var 80% tollur á klósettum. Þá var sú stefna (um 1960) við lýði að leggja háan toll á alla munaðarvöru. Af hverju klósett féllu undir þá skilgreiningu skildi ég aldrei.

Ég er að sumu leyti orðinn háður því að blogga. Það er eins og hvert annað eiturlyf. Annars virðist vera endalaus vafi á því hvað sé eiturlyf og hvað ekki. Fyrir þónokkru steinhætti ég að reykja. Fyrst hætti ég þegar ekki þurfti lengur að fá lyfseðil fyrir nikótíntyggjói. Líklega hefur það verið svona um 1990. Svo gekk ég í stubbafélagið, því mér þótti það blóðugt að þurfa að borga stórfé fyrir þessa óhollustu. Að lokum tókst mér þó að hætta endanlega og mig minnir að það hafi ekki verið sérstaklega erfitt.

Einu sinni tók ég stóran gúlsopa af 75% vodka. Það þótti mér vel sterkt. Sennilega hefur það verið í sparnaðarskyni. Þetta var nefnilega smyglgóss ef ég man rétt. Áfengi hefur aldrei verið mér mikið vandamál. Matur er það frekar, enda er ég orðinn óhóflega feitur. Tölum samt ekki meira um það. Auk þess getur matur verið ýmist hollur eða óhollur.

Ekki sýnist mér það vera gáfuleg notkun á frjósömu landi að nota það fyrir grasrækt eingöngu svo kjötætur geti fengið sitt. Dýrt er það áreiðanlega. Mannskepnan getur hæglega látið sér nægja grænmeti og ávexti, en sumir eiga svo mikla peninga að þeir eru í vandræðum með þá.

IMG 8308Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gæti best trúað að páfinn tefli tollfrjálst við sjálfan sig og semji þar ekki um stórmeistarajafntefli.

Þorsteinn Briem, 5.3.2018 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband