2132 - Einhver tík, sennilega pólitík

Verði samþykkt stjórnarskrá sem leyfir þjóðinni að heimta bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem er og um næstum hvað sem er þýðir það breytta stjórnskipun. Ekki verður lengur um þingbundnið lýðræði að ræða heldur verður það a.m.k. að stórum hluta beint. Kannski er það samt sem áður einmitt það sem koma skal. Tæknin leyfir það eiginlega alveg. Auðvitað verða að vera strangar reglur um hvernig slíkt skuli fara fram, en það er alls ekki of snemmt að fara að athuga það og jafnvel að gera tilraunir. Kosningar með blaði og blýanti sem mest hafa tíðkast undanfarið eru alls ekki gallalausar. Menn eru bara orðnir sæmilega vanir þeim.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í Kastljósi að ESB hefði heimtað að annaðhvort segðu menn af eða á varðandi umsóknina um aðild. Það væri semsagt drullusokkunum þar að kenna að þingsályktunartillagan var flutt. Allt sem er öndvert hans skoðunum er öðrum að kenna. Það ættu menn að vera farnir að þekkja. Hann sagðist líka vera algjörlega andvígur því sem stæði í undirrituðu ávarpi hans í einhverjum kosningabæklingi og sá texti væri alls ekki eftir hann. Það fannst mér merkilegt. Er hann að grafa sér sína eigin gröf eða er hann að reyna að bjarga Vigdísi Hauksdóttur með því að beina athyglinni að sér?

Ég er að hugsa um að hætta (alveg óumbeðinn) að styðja Bjarna Benediktsson og þá súkkulaðistrákana hann og Sigmund Davíð. Þó ég hefði ekki kosið þá í síðustu kosningum fannst mér alveg óþarfi að vera fyrirfram á móti ríkisstjórninni þeirra. Það væru jafnvel líkur á að þeir væru skárri en Jóhanna og Steingrímur. Alveg frá ráðherravalinu finnst mér samt að þeir hafi tekið aðallega rangar ákvarðanir. Sumt sem þeir hafa talað um að gera lítur samt sem áður ágætlega út, þó ekki sé hægt að kalla það hægrisinnað. Ef hjól atvinnulífsins væru farin að snúast á miklum hraða væri hægt að fyrirgefa þeim margt. En svo er bara ekki.

Björt Framtíð virðist vilja koma inn í það pláss sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til fyrir hægfara, hægrisinnaðan ESB-flokk. Það kemur samt ekki almennilega í ljós fyrr en í næstu kosningum. Samfylkingin er sennilega alveg búin að vera.

Hugsum okkur að hægt verði að hrekja bæði Ómöguleikann og Óframfylgjanleikann úti það að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald samninga í sumar. Síðan drægjust samningaviðræður alveg framað næstu stjórnarskiptum. Hvenær sem þau nú verða. Laust eftir þau yrði síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild. Það væri jafnvel verra en höfnun samningsins ef hann yrði samþykktur með mjög naumum meirihluta. En hvað er (naumur!!) meirihluti?

Ég er að komast á þá skoðun að alltof mikið sé gert úr Úkraínumálinu. Rússar séu einlægir í því að vilja komast hjá harkalegum átökum, enda hefðu þeir ekkert að græða á þeim. Hins vegar er líklegt að þeir vilji hafa áhrif á þróun mála á Krímskaga.

Hér með er pólitíkin útlæg gerð úr þessu bloggi a.m.k. í dag. Veðrið er miklu merkilegra umræðuefni. Nú þegar daginn er áberandi farið að lengja og sjálfur sílamávurinn mættur á svæðið þá þarf endilega að fara að snjóa!! Alveg eins og það sé vetur ennþá. Ég sem hélt að vorið ætlaði bara að koma svona hægt og hljótt, en svo verður víst ekki. Einmitt þegar svellin hér í kring höfðu að mestu leyti horfið þurfti endilega að fara að snjóa aftur af krafti. Ég kann bara alls ekki við þetta. Hverjum er þetta að kenna?

Auk þess legg ég til, að það vopn sem Ásgautsstaðamálið getur orðið í komandi kosningum,  (eins og Sögu-málið á Akranesi, sem enginn þorir að minnast á.) verði brýnt eftir hentugleikum þeirra sem það vilja nota. Nóg er til af allskyns skjölum sem sanna glæpinn á bæjarstjórn Árborgar. Sjá bloggið mitt frá 10. desember s.l.

IMG 0052Í Hörpunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband