2086 - Hraunbæjarmálið o.fl.

Mér finnst bera mikið á hugtakaruglingi í sambandi við Hraunbæjarmálið. Vissulega er það glæpur að skjóta með haglabyssu á fólk. Þeirri staðreynd er samt ekki mikið haldið á lofti að geðsjúklingar eru ekki líklegri til að fremja ofbeldisglæpi af því tagi en aðrir. Þeirri skoðun er samt haldið að almenningi að slíkt ofbeldi sé í sjálfu sér merki um geðveiki. Svo er ekki. Geðveiki er sjúkdómur og það eina sem e.t.v. er einkennilegt við hann er að líkamleg einkenni eru ekki alltaf fyrir hendi.

Lögreglan drap mann og hvernig sem á það er litið hlýtur það að teljast glæpur. Auðvitað er hægt að réttlæta þann glæp á margan hátt. M.a. með því að með framferði sínu hafi maðurinn stefnt öðrum í stórhættu. Það líður samt einkennilega stuttur tími frá því að sérsveitin mætir á staðinn þar til ákveðið er að láta til skarar skríða og gera manninn óskaðlegan. Sömuleiðis virðast þeir hafa farið mjög ógætilega varðandi lásasmið þann sem hjálpaði þeim að opna dyrnar að íbúðinni. Sú staðreynd að mjög erfitt er að fá upplýsingar um allt sem raunverulega gerðist bendir til þess að eitthvað sé einkennilegt við þetta mál.

Að lögreglan sjálf rannsaki ásakanir um lögregluofbeldi er fráleitt. Fámenni okkar Íslendinga er slíkt að erfitt getur reynst að finna algerlega óháðan aðila til þess, en það ætti ekki síður að vera lögreglunni í hag en öðrum að svo yrði reynt af fremsta megni. Sinnuleysi opinberra aðila gagnvart geðsjúklingum er svo aðskilið mál sem kallar svo sannarlega á breytingu. 

DV elur á öfund. Það er í mörgum tilfellum alls ekki óeðlilegt að samið sé um afskriftir ef um háar fjárkröfur er að ræða. Í sumum tilfellum hefur skuldurum tekist að koma fjármunum undan en ekki er nærri alltaf hægt að vita það. Þjóðfélag okkar byggir á því að laun manna og eignir séu mismunandi. Annað er hreinn kommúnismi. Verði mismunurinn hins vegar of mikill getur það leitt af sér allskyns vandræði. Hingað til hefur þessi misumunur ekki verið mikill á Íslandi. Á árunum í kringum síðustu aldamót jókst þessi munur meira hér en á öðrum Norðurlöndum. Slíkt er óheppilegt og á ekki vel við okkur Íslendinga.

Í það heila tekið er DV götublað að mínum dómi. Jafnvel sorpblað. Slík blöð eru samt sem áður nauðsynleg. Ég er ekki í neinum vafa um það að menn vilja helst ekki lenda í þeirri grjómulningsvél sem blaðið er alltof oft. Það sem önnur blöð og fjölmiðlar vilja helst þegja um veltir DV sér gjarnan uppúr. Slíkt er illa séð af sumum, en nauðsynlegt engu að síður.

Að mörgu leyti er óviðeigandi að minnast á sjálft ríkisútvarpið þessa dagana nema ríkisstjórnin sé fordæmd um leið. Einu sinni var samt ort:

Stundar af öllu efli
Útvarpið málvöndun.
Breytir það skafli í skefli,
skatnar fá um það grun
að fréttahraflið sé hrefli
holan á kviði nefli
allt sé að ganga af gefli
glæst ert þú nýsköpun.

Ég gerði þetta semsagt ekki. Tilefnið var það að einhverju fréttaþulinum hafði orðið það á að mismjólka sig.

IMG 4947Frá Gardavatni.


mbl.is Lögreglan leitaði skjóls hjá fjölskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ViceRoy

Lögreglan er í hreinni sjálfsvörn og atburðarás er væntanlega hröð, ekki eins og menn geti gefið sér tíma að miða í rólegheitum eins og maður væri að veiða hreindýr... Ég er ekki að reyna að réttlæta að maðurinn sé látinn, enda er þetta hörmulegt mál í alla staði.  Held menn geti bara ekki tjáð sig um þetta eins og þetta sé að fá sér kaffibolla með manni í sjálfsvígshugsunum. Þarna var skotið á menn, fyrsta svona mál á Íslandi og menn hreinlega ekki búnir undir þetta, skiljanlega.

ViceRoy, 5.12.2013 kl. 19:50

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er alveg sammála þér ViceRoy að menn hafi ekki verið undir þetta búnir. Ekki meðlimir sérsveitarinnar heldur. Þó finnst mér stjórnendur þeirra hafa hagað sér í þessu máli á margan hátt af of mikilli léttúð. Samt efast ég ekki um að endirinn hefur haft mikil áhrif á marga þeirra.

Sæmundur Bjarnason, 5.12.2013 kl. 20:18

3 identicon

þegar menn skjóta og skjóta út í loftið í miðri borg er ástæða fyrir lögregluna að mæta á staðin. Vopnuð nma hvað?? þegar sami maður skýtur svo á lögregluna gegnum hurð og svo aftur þegar reynt er að ná honum út úr íbúðini þá er það ekkert óeðlilegt að maðurinn sé skotin. Nema hvað? átti að láta hann drepa nokkra fyrst og fara svo að ganga í að vinna á honum??

ólafur 5.12.2013 kl. 20:20

4 Smámynd: ViceRoy

Skil þig aðeins betur eftir þetta svar Sæmundur, en vil bæta við:

Já þeir yfirmennirnir virðast kannski gera það, en ég held að eins og t.d. blaðamannafundurinn sem var haldinn, ég held bara að menn hafi ekki verið að ná því að þetta hefði verið að gerast.  Klassísk viðbrögð þegar svona kemur upp í fyrsta skipti, sem er hálfgerð afneitun. En ég efast ekki um að verið sé að skoða í töluðum orðum, hvernig eigi að bregðast við svona útköllum í framtíðinni. Þú sérð nú að það var annað útkall á Sauðárkróki sem reyndist af vopnuðum manni, sem reyndist svo ekki vopnaður.
   Það eru t.d. þekkt mál t.d. í Bandaríkjunum þar sem fólk einfaldlega neyða lögregluna til þess að skjóta sig í stað þess að fremja sjálfsmorð, með því að miða byssu á lögregluna... hvað gekk þessum manni til á Sauðárkróki? Við vitum það ekki.... 

Þetta mál endaði því miður hroðalega en aftur, því miður þá skapaði maðurinn gífurlega hættu, bæði fyrir nágranna sem og lögregluna, á mjög litlu svæði (50 fm íbúð ef mig minnir rétt) og það er mjörg stutt færi... enda slagkraftur kúlunnar fáranlega mikill af þessu færi.  En bíðum bara þess sem kemur út úr þessu máli og dæmum svo, þegjandi eða hljóðandi. 

ViceRoy, 5.12.2013 kl. 21:06

5 identicon

Alveg enn og aftur. Lögreglan gerði allt rétt held ég.. Loksins þegar þeir þó gerðu það! Hann fékk of mikin tíma til að láta skothriðina ganga yfir allt og alla.

Enn þetta fór bara nokkuð vel samt. Nágranar voru ekki drepnir af honum og engin lögga heldur. Hann var ekki með öflugan riffil eða stolið dínamamít. Hefði hann haft það, þá hefði hann getað gert mun meiri skaða enn hann þó gerði. Menn ættu að minnast þess held ég að þetta fór bara vel.. það er eins vel og hægt var úr því að hann kaus að reyna að drepa lögregluna með Haglabyssu sem er það öflugasta vopn sem til er á 2 til 10 metra færi...

ólafur 5.12.2013 kl. 21:44

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Miðað við það sem á undan var gengið hljóta menn að staldra við og skoða þann tímapunkt þar sem lásasmiður er kallaður til og látin glíma við læsinguna, óvarinn með öllu, einhver sagði í 20 mínútur!

Hvað voru menn að hugsa, var það forgangsmál á þessum tímapunkti að valda ekki skemmdum á útidyrahurðinni?  Eða eru yfirmenn lögreglunnar bara svona yfirmáta háttvísir?

Lögreglunni ætti að vera það kappsmál að rannsóknir á hennar málum séu með þeim hætti að sem minnst hætta sé á að niðurstaðan verði tortryggð. Ef rannsókn saksóknara verður ekki trúverðug, mun einu gilda að hvaða niðurstöðu hann kemst.

Vissi lögreglan á þeim tímapunkti sem ákvörðunin um innrás í íbúðina var tekin að maðurinn átti við geðræn vandamál að stríða og hafði það áhrif á þá ákvörðun?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.12.2013 kl. 23:33

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hver vissi hvað og á hvaða tíma. Hver tók ákvörðum um hvað gera skyldi og hvenær var hún tekin. Hvenær skyldi hún framkvæmd. Spurningarnar eru margar og kannski koma einhverntíma svör við þeim. Mínar hugleiðingar um þessi mál eru ekkert betri en annarra því ég veit ekki nærri nógu mikið um þetta til þess. Ríkissaksóknari á að stjórna rannsókn á þessu en lögreglumenn væntanlega að rannsaka. Vonum að svörin komi fljótt og verði til þess að hægt verði að læra af þessu. Margir þurfa þess.

Sæmundur Bjarnason, 6.12.2013 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband