2038 - 7 - 9 - 13

Auðvitað hefði verið skynsamlegt á sínum tíma (líklega í kringum 1920 eða svo) að fasttengja íslensku krónuna við þá dönsku. Efnahagsþróunin hér hefði með vissu orðið allt öðruvísi ef það hefði verið gert. Þjóðníðingarnir í Samfylkingunni sem sífellt eru að tala niður krónuna okkar hefðu orðið að hafa eitthvað annað fyrir stafni. Krónan, þetta óviðjafnanlega skrautblóm, sem umfram allt gerir okkur að sjálfstæðri þjóð, er heilög. Lilja Mósesdóttir vill umfram allt fleiri krónur og vill fjölga þeim með hagfræðilegum hundakúnstum. Mér finnst alveg nóg að hafa þær tvær. Venjulegu krónuna og svo þá verðtryggðu. Einu sinni var til bátagjaldeyrir, ferðamannakrónur, sparikrónur og sitthvað fleira. Jafnvel aurar. Ég er ekki viss um að rétt sé að hverfa aftur til þeirra tíma.

Sigurður G. Guðjónsson, sá frægi og umtalaði lögfræðingur og áður stjórnandi á Stöð 2 dundar við að tína rusl á morgungöngum sínum með hundinn sinn. Frá þessu er sagt í DV og hann tíundar árangurinn á fésbókarsíðu sinni að sagt er. Gallinn er bara sá að fésbókarsíða hans er ófinnanleg. Kannski geta vinir hans og svo þeir, sem lagt hafa á sig langt og strangt nám og geta kallað sig fésbókarfræðinga, fundið hana, en ekki ég.

Þetta er annars ágæt hugmynd og ættu sem flestir að taka það upp. Tína semsagt rusl á morgungöngunni. Eru það annars margir sem stunda morgungöngur? Ég hef stundum gert það en það hefur aldrei verið reglulegt.

Salvör Kristjana skrifar um þvottaklemmur og instagram. Hún segist ekki hafa vitað að hægt væri að búa til vopn úr þvottaklemmum. Þegar ég var barn og unglingur voru þvottaklemmur auðvitað aðallega notaðar til að halda þvottinum á snúrunum en hin aðalnotin, a.m.k. frá sjónarmiði okkar krakkanna var að nota þær sem einskonar skammbyssur. Auðvelt var að breyta þeim. Ekki þurfti nema að taka þær í sundur og stytta svolítið annan helminginn og nota gorminn sem gikk og festa helmingana öfuga saman með teygju. Einnig var auðvelt að breyta tvinnakefli, kerti, teygju og eldspýtum í fyrirtaks skriðdreka sem óð yfir hvað sem fyrir varð eins og hann væri upptrekktur.

Mér er minnisstætt hve konan mín varð reið yfir því að vera kölluð „homemaker“ í formála að matreiðslubók sem hún samdi fyrir margt löngu og var gefin út á ensku og ýmsum öðrum málum. Í mínum huga er enska orðið „Homemaker“ hið mesta virðingarheiti og gefur húsmóður-titlinum ekki neitt eftir. Annars var „Húsmóðir í Vesturbænum“ sérstakt hugtak hér áður fyrr og í eyrum sumra var það líkt og „Virkur í athugasemdum“ er núna.

Ýmsir óttast hið póltíkst réttsýna vinstrisinnaða feministalið. Einkum þeir sem frægir eru og er þá alveg sama fyrir hvað það er. Ef þeim hefur einhverntíma orðið eitthvað á eiga þeir að gjalda þess ævilangt. Já, ég er með JBH í huga og er minnisstæð sagan eftir Auel um Neanderdalsmannahópinn sem beitti þeirri refsingu með miklum árangri að hunsa viðkomandi alveg. Maðurinn er nefnilega samskiptavera eins og mörg önnur dýr.  

Á laugardaginn verður sjálfur 7-9-13 dagurinn haldinn hátíðlegur um land allt og jafnvel víðar. Spýtur allar verða sjálfsagt í mikilli hættu þennan dag og hjátrú af öllu tagi tekur við af trú. Trúleysi er eina vonin þennan dag. Því minnist ég á þetta núna að rétt er fyrir hjátrúarfullt fólk að undirbúa sig vandlega fyrir þennan merkisdag. Líklega eru hundrað ár síðan síðast var haldið uppá hann.

IMG 3842Marglit blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku reiðikasti í tilefni af homemaker nafnbótinni,  mér fannst hún frekar asnaleg.  En ég sá að þetta myndi sennilega auka trú væntanlegra kaupenda á því að þetta væru "pottþéttar" uppskriftir hjá mér.  Svo ég samþykkti að heita homemaker.  Enda seldist  bókin bæði vel og lengi!

Áslaug Benediktsdóttir 4.9.2013 kl. 16:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég man vel eftir þessu. Formálinn (eða var það eftirmáli aftan á bókinni?) var það eina í henni sem þú hafðir ekki séð fyrirfram og mér finnst að þetta með "homemaker" hafi einmitt verið það eina sem var athugavert við hann.

Sæmundur Bjarnason, 4.9.2013 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband