1962 - París

Einu sinni í fyrndinni var fataverslum í Reykjavík sem hét París. Þá var ort:

Hún lá þarna allsber og útglennt
í afspyrnuroki á skarís
og starði á brjálaðan stúdent
í stífuðum buxum frá París.

Þetta er svosem ágætisvísa en ekkert framyfir það. Sennilega er hún mér svona minnisstæð vegna þess að ég hef gert mér einhverja hugmynd um konuna á skarísnum þegar ég heyrði vísuna fyrst.

„Eru þeir kallaðir stúdentar af því þeir eru alltaf að stúta rúðum?“ spurði Benni eitt sinn þegar stúdentaóeirðirnar í París voru alltaf í fréttum.

Sko ókei. Ég veit að ég er ekkert séní varðandi æðri fjármál. En svona horfir þetta með skuldir heimilanna í stuttu máli við mér. Mér skilst að við íslendingar skuldum einhverjum hrægömmum úti í heimi heilmiklar fúlgur af peningum. Kannski eru það samtals um 400 milljarðar. Simmi vill ekki borga þessum árans hrægömmum meira en í mesta lagi 100 milljarða. Þá eru 300 milljarðar eftir, en hvernig sú skuld eða þeir milljarðar breytast í peninga sem hægt er mjatla út í þá sem frekastir eru, hef ég bara aldrei skilið. Er svona erfitt að mynda ríkisstjórn vegna þess að þetta vefst eitthvað fyrir mönnum?

Mæðradagur hinn mikli er sagður hafa verið í gær, sunnudag. Einneigin er mér fortalið (af fésbók) að eldri dóttir Charmine konunnar hans Bjarna eigi afmæli í dag (sunnudag). Já, ég er alveg ruglaður í þessu dagsetningafári. En hvað um það. Ekki á ég móður á lífi svo mæðradagsblogg geri ég ekki, en minnist samt á þetta. Eiginlega finnst mér að þessir sérstöku kvennadagar séu orðnir fleiri en karlrembudagarnir. Það stafar sennilega af vöntun hjá mér á feminískri hugsun.

Ég er eiginlega að renna á rassgatið með að koma þessu bloggi nægilega snemma frá mér. Samt má það ekki seinna vera því pólitískar hugleiðingar sem vel gætu komið á eftir þessu úreldast yfirleitt mjög fljótt.

Eitthvað var Bjarni Benediktsson að úttala sig um stjórnarmyndunarviðræðurnar á fundi um daginn. Það finnst mér benda til að annaðhvort sé búið að semja í aðalatriðum milli þeirra fóstbræðra eða endanlega sé slitnað upp úr tilhugalífi þeirra. Kemur væntanlega í ljós á morgun (mánudag).

Mér finnst það ekki merkilegasta frétt dagsins að Noam Chomsky, hafi í mótmælaskyni við meðferð Ísraelskra yfirvalda á Palestínumönnum, tekið þátt í því að telja Stephen Hawking á að mæta ekki á ráðstefnu sem halda átti í Ísrael og þar sem hann átti að flytja erindi. Sumum finnst það samt og vel getur hugsast að þetta hafi einhver áhrif. Áróðursstríð Ísraela gegn Palestínumönnum hefur verið illa rekið að undanförnu.

IMG 3143Listræna.


mbl.is Fundað fram eftir degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband