1931 - Reynisfjara, kosningar o.fl.

Reynisfjara er hættuleg. Þetta skrifa ég bar til að erfiðara sé að ásaka mig fyrir misnotkun á þessari hugmynd Moggabloggsguðanna að kalla athugasemdir við fréttir blogg og leyfa svo að athugasemdir væru gerðar við þau. Man ekki eftir að hafa komið í Reynisfjöru en vinsælt er, bæði á baðströndum og víðar, að hlaupa undan haföldunni. Auðvitað getur það verið hættulegt eins og allur óvitaskapur er.

Jafnvel þeir sem vel eru að sér um málbeitingu deila oft um einstök orð og orðasambönd. Þetta segja þeir gjarnan sér til afsökunar, sem aldrei skrifa neitt. Mér finnst að eins megi nota þá staðreynd til marks um það að ekki sé nein skömm að því að skrifa vitlaust. Þeir sem þykjast vita betur gera oft aukaatriði að aðalatriðum með því að deila á þau. Því aðeins finnst mér hægt að gera verulegar athugasemdir við málfar að það sé í opinberum miðli sem mikið er notaður. Þó einhverjir beiti málinu öðruvísi en maður sjálfur í bloggi eða á fésbók finnst mér það alger orðhengilsháttur og málfarsfasismi að vera að gera athugasemdir við það, ef vel er hægt að skilja það sem sagt er eða reynt að segja.

Úrslit næstu kosninga geta vel snúist um það hvort mynduð verður hægri eða vinstri stjórn. Allt gæti eftir kosningarnar snúist um það hvernig Sigmundi Davíð er strokið. Ég efast ekkert um það að úrslit kosninganna verða eitthvað í líkingu við það sem skoðanakannanir hafa sýnt að undanförnu. Sennilega myndar Framsóknarflokkurinn stjórn eftir kosningar, en úrslitin geta hæglega ráðið því hvort það verður til hægri eða vinstri. Ekki Sigmundur og ekki flokkurinnn. Ef tap Sjálfstæðisflokksins heldur áfram gæti sú stjórn eflaust orðið með Samfylkingunni og Vinstri grænum. Allt bendir til að fjórflokkurinn verði áfram mjög öflugur eins og verið hefur og fátt breytist. Þó er ég að vona að heldur dragi úr áhrifum hans og spillingunni þar með.

Mér er náttúrulegt að efast um allt. Þegar ég heyri tölur lesnar um kynferðislegt ofbeldi og að þær séu frá Stígamótum komnar segir eðli mitt mér að efast um að þær séu réttar. En um leið verð ég að viðurkenna að þó þær séu e.t.v. smávegis ýktar eru þó enn meiri ýkjur að láta eins og kynferðilegt ofbeldi sé ekki til. Þannig höfum við samt hagað okkur lengi vel. Einhverjir þjáðust mikið áður fyrr, þó á yfirborðinu væri allt slétt og fellt.

Stóra fíkniefnamálið. Mikið er rætt í fréttum um stóra fíkniefnamálið, en eru þau ekki öll stór? Ég er orðinn alveg ruglaður á þessari umfjöllun og finnst stóru fíkniefnamálin vera orðin svo mörg að kannski væri rétt að einkenna þau öðru vísi. Kannski bara eins og göturnar í Þorlákshöfn i eina tíð. „Ég er víst flæktur í fíkniefnamál W.“ „Nú, ertu í framboði fyrir W-listann, þá hlýtur að vera áhætt að lána þér lyfjakassann smástund.“

Merkilegt er að Gúgli virðist hafa svipað álit á fésbókinni og ég. Það sem skrifað er á hana er ekki hægt að finna með GOOGLE leitarvélinni, en allt sem sett hefur verið á Moggabloggið getur Google.com fundið eins og skot. Þetta á að minnsta kosti við um það sem ég skrifa annars vegar á fésbókina og hins vegar á Moggabloggið. Sennilega er hægt að finna allt sem skrifað hefur verið á fésbókina þó ég kunni það ekki. Öll netnotkun fólks er þó skráð einhvers staðar. Er strax farinn að vorkenna sagnfræðingum framtíðarinnar. Mikilvægasta kunnátta þeirra getur hæglega orðið að kunna nógu vel að leita í gömlum netfærslum. Ég er t.d. sannfærður um að hægt væri að setja saman langa sögu um mig þó bara væri stuðst við netið, en skelfing væri hún ófullkomin.

Eftirfandi grein skrifaði ég í janúar 1984 í Borgarblaðið og birti reyndar á blogginu mínu fyrir rúmu ári síðan (14. Janúar 2012) Þetta er það síðasta í þessu bloggi svo þeir sem eftir þessu muna þurfa ekki að lesa lengra en að greininni. En af hverju er ég að birta hana aftur? Veit það eiginlega ekki. Er ástandið kannski dálítið svipað ennþá?

Kveikjan að því að ég birti þessa grein einu sinni enn er sú að ég las nýlega grein um fornfálegan búnað á skrifstofu þjóðskrárinnar. Sjálfur heiti ég Sæmundur Steinar Bjarnason en á einhverjum tímapunkti tapaðist miðnafnið. Sennilega vegna plássleysis hjá þjóðskránni. Systir mín Jóhanna Sigrún Bjarnadóttir hlaut svipuð örlög. Jóhönnunafnið glataðist vegna þess að hún er yfirleitt kölluð Sigrún. Kannski væri samt hægt að kippa þessu í liðinn. En svona er greinin:

Eru eiginkonur húsdýr?

Eitt er það ritverk íslenskt, sem út kemur árlega í mörgum og stórum bindum. Útgáfa þess frá 1984 kostar 10500 krónur. Allra Íslendinga eldri en 16 ára er getið í þessum bindum, hvorki meira né minna. Ekki er verk þetta oft til umræðu manna á meðal, þó vita vafalaust flestir að það er til. Hér á eftir verður fjallað lítillega um þessa merku bók.

Tæplega velkist nokkur í vafa um hvaða bók þetta er. Jú, auðvitað þjóðskráin, eða réttara sagt nafnnúmeraskrá þjóðskrárinnar.

Í þessu að ýmsu leyti ágæta ritverki, veður karlremban satt að segja uppi og ekki hef ég orðið þess var að kvenréttindakonur fordæmdu það sem vert væri.

Fleira er það og í sambandi við þessa bók sem athygli vekur, eins og tildæmis það að mikill meirihluti (líklega um eða yfir 70%) allra nafna í þessu riti sem þó á að heita grundvallarfræðirit eru rangt rituð, og á ég þar við að brodda vantar yfir stafi, é er skrifað je o.s.frv., en íslensku stafina þ æ ð og ö er þó þarna að finna.

Í bókinni má segja að litið sé á eiginkonur sem húsdýr, eða í besta falli sem börn. Nöfn þeirra eru (eins og nöfn barna undir 16 ára aldri) inndregin um eitt stafabil. Komið skal þannig í veg fyrir að eiginkonum og börnum sé ruglað saman við venjulegt fólk. Í sérstökum dálki aftast á hverri blaðsíðu er síðan aftan við nafn hverrar eininkonu getið um hver á viðkomandi kvenpersónu. Þ.e.a.s. þar er að finna nafnnúmer eiginmanns hennar. Hliðstæðu er ekki að finna hjá eiginmönnum.

Talnalykill er notaður til að tákna hjúskaparstétt fólks. T.d. hvort fólk er fráskilið, ekklar, ekkjur o.s.frv. Einn flokkurinn, sá nr. 8 vekur mesta athygli, en hann er yfir konur sem gifst hafa varnarliðsmönnum. Jafnvel þó verið geti að einhverjar hagkvæmnisástæður séu fyrir þessu, er þetta smekklaust og ber vott um fordóma. Það er ekki eins og allt kvenfólk sem gifst hefur útlendingum sé merkt svona, nei nei bara þær sem hafa lagst svo lágt að giftast varnarliðsmönnum. Og auðvitað eru engar hliðstæðar merkingar við nöfn karlmanna.

IMG 2929Svalir.


mbl.is Í hættu í briminu við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú segir nokkuð Sæmundur, ég hef aldrei tekið eftir þessu með nöfn kvenna.  Þetta er ótrúlegt að sjá.  Takk fyrir að benda á þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2013 kl. 11:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekkert að þakka, Ásthildur. Ég er svolítið dottinn í það að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig.

Sæmundur Bjarnason, 5.4.2013 kl. 16:05

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er nú ekkert verra en hvað annað

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2013 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband