1896 - Sprengisandur

Hlustaði áðan á Árna Pál og Sigmund Davíð rífast á Bylgjunni. Fannst Árni Páll komast sæmilega frá því öllusaman og með góðum vilja mátti skilja formann Framsóknarflokksins þannig að honum fyndist heppilegast að segjast styðja krónuna en gera það samt ekki.

Svo horfði ég á byrjunina á silfri Egils og Eygló Harðardóttir olli mér vonbrigðum með að vilja ekkert ræða um þá fáránlegu samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins að loka bæri Evrópustofu svokallaðri og var þannig í raun samþykk henni. Baldur Þórhallsson stóð sig eiginlega best þeirra sem fram komu fyrst í þeim þætti.

Það er tiltölulega auðvelt að vera vitur eftirá, jafnvel stórgáfaður. Gallinn við stjórnmál dagsins í dag er einkum sá að menn eru fastir í fortíðinni. Eiginlega er það ekkert interessant varðandi stjórnmálin í dag af hverju Hrunið varð. Hvernig farið verður með það fé sem falið er núna fyrir íslenskum yfirvöldum er eina málið frá Hruninu sem skiptir nokkru máli varðandi stjórnmálin í dag og svo auðvitað skjaldborgin um heimilin.

Augljóst er að það var algjört dómgreindarleysi hjá Guðbjarti Hannessyni að gera samninginn um kauphækkunina við forstjóra landsspítalans. Ef það er eitt atriði sem hefur sett þá verðbólguskriðu, sem yfirvofandi er, af stað þá er það sú ákvörðun. Svona er nú baksýnisspegillinn góður. Ekki ímynda ég mér að Guðbjartur hafi séð þetta fyrir og þannig gert þetta viljandi.

Annars hef ég skrifað svo mikið um pólitík undanfarið að ég er að hugsa um að taka mér frí. Auðvitað hef ég samt jafnmikinn áhuga á því og flestir aðrir að bæta stjórnarfarið hér á landi. Alltaf verður samt ágreiningur um leiðir að markmiðunum og þessvegna eru stjórnmálin þannig vaxin að ekki er gott að gefa þeim of mikinn tíma af sínu lífi.

Það er kostur að blogga oft og mikið. Ég reyni að blogga ekki mjög mikið í einu en þess oftar. Held að mér hafi farið fram með árunum. Annars er það annarra að dæma um það. Afleiðingin af þessu bloggstandi er sú að ég skrifa fátt annað á meðan. Jú, jú ég skrifa kannski ýmislegt annað en mesta hugsun mín fer í bloggið. Margir sem blogga gera það bara öðru hvoru og helst um eitthvað ákveðið efni. En það geri ég ekki. Læt allt flakka og hef þessvegna fáar sögur að segja. Ég er búinn með þær flestar. Samt leggst mér alltaf eitthvað til. Ef ekki vill betur skrifa ég bara um pólitík. Á henni hef ég skoðanir eins og margir aðrir. Er heppinn að því leyti að á pólitíska sviðinu hefur margt og mikið gerst á undanförnum árum.

IMG 2694Misheppnað graffiti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband