1897 - Vorið kemur (áreiðanlega)

Kannski hafa einhverjir sem lesið hafa stjórnmálaskrif mín undanfarið lesið einhvern stuðning við Framsóknarflokkinn út úr þeim. Ég er samt ekkert búinn að gleyma þeim peningum sem ég átti að fá frá VÍS (og var stolið frá mér af framsóknarmönnum) eða gleyma spillingarsögu flokksins bæði gamalli og nýrri.

Þeir höfðu SÍS í vasanum og öfugt. Ekki dugði það því útgerðarauðvaldið og verðandi útrásarvíkingar voru sniðugri og sennilega ríkari líka. Ég er í þeirri skemmtilegu stöðu núna að ég þarf ekkert á stuðningi flokksins (eða annarra flokka) við eitt eða neitt að halda lengur.

Svo virðist vera að fjórflokknum verði breytt smástund í fimmflokk. Allavega er ljóst að gamlir og úr sér gengnir stjórnmálamenn munu halda áfram að ráða því sem þeir vilja eins og verið hefur undanfarin kjörtímabil.

Nýir og framsæknir stjórnmálaflokkar ná ekki að fóta sig. Illfyglin standa í vegi fyrir þeim, hvort sem um er að ræða fjórflokk eða fimmflokk. Sennilega eru það örlög okkar Íslendinga að sitja uppi með fjórflokkinn. (Undir ýmsum nöfnum) Ætli við eigum nokkuð betra skilið? Jón Gnarr er bara til skrauts hjá Bjartri Framtíð og nú er farið að falla á það skraut.

Póltitísk kaldhæðni hefur engin áhrif. Ekki frekar en það hefur áhrif hjá RUV að kalla á stjórnmálafræðing til að útskýra skoðanakannanir. Þvílíkt bull. Og að kalla þetta opinbera umræðu. Ja, svei.

Hallgrímur Helgason segist styðja Samfylkinguna. A.m.k. eins og er. Það gæti vel verið að hann gangi samt í björg fljótlega. Það er eðli rithöfunda að hugsa á sig gat.

En sleppum pólitíkinni. Ég er hundleiður á henni. Kosningarnar fara einhvern veginn. Ekki get ég kennt mér um úrslit þeirra. Nær væri að taka almennilega á móti vorinu. Þrátt fyrir tímabunda kuldatíð er það áreiðanlega á leiðinni og gott ef hann skellur ekki á með sólskin hér á Reykjavíkursvæðinju seinni partinn. Og þá verður gaman að lifa. Gróður er farinn að taka við sér, en það er bara plat. Raunverulegt vor kemur ekki fyrr en eftir páska.

Já, já. Auðvitað skrifa ég mest um sjálfsagða hluti. Kannski lýkst það upp fyrir einhverjum sem þessar línur les að gamalt fólk hugsar líka. Bara ekki alveg eins hratt. Veröldin hægir talsvert á sér þegar maður eldist. Líklega er það eðlilegt. Unga fólkið kemur ýmsu í verk einmitt með hraða sínum og ákefð. Óneitanlega finnst manni samt margt vera gert ákaflega vitlaust.

Þeir sem yngri eru vilja fremur krónuna en eitthvað annað. Svo er a.m.k. sagt. Hvernig skyldi standa á því? Trúa þeir ekki okkur sem eldri erum þegar við segjum krónuna vera undirrót alls ills? Gengisfellingar á gengisfellingar ofan eru dálítið þreytandi þó hægt sé að læra að lifa við þær. Gengisfellingar- og happdrættishugsunarháttur okkar Íslendinga er alveg að fara með okkur. Við ráðum ekkert við það að vera með sérmynt. Íslenska krónan er allsstaðar aðhlátursefni. Hefði það ekki verið vegna krónunnar þá hefði ekkert (eða a.m.k. lítið) Hrun orðið.

IMG 2701Að senda steypu uppí loftið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband