1839 - Ansans vesen

Auðvitað vil ég að sem flestir hafi það skítt á nýja árinu og dettur ekki í hug að þakka neinum fyrir það gamla. Margir virðast halda að nauðsynlegt sé að vera góður við alla rétt um jólin og áramótin. Svo megi taka upp fyrri hætti og spúa eitri sínu um allt. Mér leiðist bara alveg skelfilega að vera eins og allir aðrir. Þessvegna forðast ég eins og heitan eldinn allar jólakveðjurnar og nýjársóskirnar.

Nú get ég semsagt farið að taka upp fyrri hætti, sem felast einkum í þvi að hafa allt á hornum mér. Nenni samt ekki að finna að réttritun og öðrum smáatriðum eins og Eiður gerir. Nei, ég er allur í því stóra. Mestar áhyggjur hef ég núna af tertuleifunum sem liggja eins og hráviði út um allt. Þeir sem sprengjuglaðastir eru nenna aldrei að þrífa upp eftir sig. Þarna liggur pappadraslið svo framað páskum eða lengur öllum til ama, einkum þó mér.

Svo verða víst kosningar á árinu. Þær fara illa. Ætli einhverjir vinni ekki og setji saman nýja og vonlausa ríkisstjórn uppúr því. Alveg er ég viss um að hún verður ákaflega misheppnuð. Spáfötin mín eru inni í skáp og ég sé ekki almennilega hverjir verða ráðherrar, en það eru örugglega einhverjir fávitar.

Þegar illa gengur að koma ríkisstjórninni frá verður gripið til málþófs sem er þó búið að margsanna að er vonlaus aðferð. Sprengjurnar eru miklu betri. Alþingi verður sent í sumarfrí þegar veður tekur að skána og snjóinn að taka upp og bílarnir að finnast. Já, ég gleymdi víst að geta þess að snjókoma verður með mesta móti á útmánuðum. Bílar týnast og björgunarsveitir líka. Snjóflóð falla og allt verður í hers höndum.

En nú er ég hættur. „Falin er í illspá hverri, ósk um hrakför sýnu verri“ segir Stephen G. í þjóðsöng Vestur-Íslendinga, sem eru víst orðnir miklu fleiri en þessir Plat-Íslendingar sem hírast enn hérna á skerinu. Kannski taka Noregs-Íslendingar hér við ef þeir mega vera að því vegna olíudrykkju.

IMG 2268Fólk á ferðinni í Fossvogsdal. (Sennilega að flýja land)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband