1840 - Togarinn Hallgrímur

Nú er komið nýtt ár og tilvalið að hætta að blogga. Ég ætla samt ekki að gera það. Kannski blogga ég meira en áður og kannski minna. Það fer bara eftir efnum og ástæðum. Get ekkert ákveðið um það fyrirfram. Pólitíkin lekur af mér eins og mörgum öðrum. Veit samt ekki til þess að ég standi öðrum framar í slíkum efnum. Á bara sæmilega gott með að koma fyrir mig orði og er orðinn óstöðvandi í blogginu, þó ég sé alltaf að reyna að hætta.

Mér fannst það ekki sérlega sniðugt hjá forsetanum að eyða mestöllu áramótaávarpinu í að gagnrýna stjórnarskrárfrumvarpið sem liggur fyrir alþingi. Eiginlega kemur honum þetta ekkert við. Ekki var hann kosinn á stjórnlagaþing. Bauð sig ekki einu sinni fram. Hafði líka hagsmuna að gæta. Svo er þessi gagnrýni alltof seint fram komin. ÓRG hefur hvenær sem er tækifæri til þess að láta hlusta á sig. Margir hlusta á áramótaávarpið í von um að heyra eitthvað annað en venjulegt pólitískt þvaður. Ný stjórnarskrá,  sem eitthvað er spunnið í, er ómögulegt að verði samþykkt nema í talsverðum ágreiningi. Ef enginn ágreiningur er um málin þá eru þau yfirleitt lítils virði. Þá var nú Kristján Eldjárn betri en ÓRG, þó hann véraði sig og ossaði í bak og fyrir. Vigdís var bara eins og hún er. Hvorki góð né slæm. Hljóp stundum illilega á sig, en ÓRG er ennþá í stjórnmálabuxunum sínum og heldur að hann sé eitthvert sameiningartákn. Það er hann alls ekki og vill fremur sundrungu en sameiningu.

Ég er sannfærður um að ef það verður ekki Bjarni Benediktsson sem kemur í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist í stjórn á næsta kjörtímabili, þá verður það Ólafur Ragnar Grímsson. Þeir sitja uppi með hann núna eftir að Bjarni hætti stuðningi sínum við ESB og Ólafur tilkynnti formlega um andstöðu sína við sama fyrirbæri. Hvorugur getur hugsað sér hlutleysi og andstaðan er fremur skammsýn.

Ég man vel eftir kastljósviðtalinu við Eirík Inga sem komst lífs af þegar togarinn Hallgrímur fórst undan Noregi snemma á síðastliðnu ári. Það viðtal (eða eintal) er eitt af því besta sem kastljósfólkið hefur nokkurntíma gert. Venjulega er ég heldur óstöðugur áhorfandi að kastljósi ríkissjónvarpsins. Gefst stundum fljótlega upp, eða er á einhverju rápi fram og aftur og skipti jafnvel um stöðvar. Það er þó sjaldgæft að ég geri það, því sjónvarpsáhorfandi er ég lítill. Horfi þó oftast á fréttir (eða a.m.k. upphafið) og oft á báðum stöðvunum. Einhverra hluta vegna var ég að horfa á sjónvarpið þegar þetta viðtal hófst og ég horfði á það til enda og þorði varla að draga andann á meðan. Eiríkur lýsti því sem þá hafði nýlega gerst með slíkri tilfinningu að annað eins hef ég aldrei séð í sjónvarpi. Sjálfur var hann það langathyglisverðasta við viðtalið. Hægt hefði verið að segja frá atburðarásinni í styttra máli og gleymanlegra, en ég tel að útilokað hafi verið að horfa á þetta viðtal ósnortinn.

IMG 2274Bogfimi o.fl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband