1776 - Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október n.k.

Stóri gallinn við rafbækur sem aðrar bækur er sá að maður kemst aldrei yfir að lesa nema hluta þess sem maður vildi gjarnan lesa. Bloggið tefur vissulega fyrir og sennilega gæti ég lesið mun meira ef ég væri ekki að þessum sífelldu bloggskrifum. Mér finnst bara að ég þurfi að halda mér í þjálfun (hvers vegna veit ég ekki) og meðan Moggabloggsteljarinn telur mér trú um (sennilega með réttu) að einhverjir lesi jafnan það sem ég skrifa held ég því eflaust áfram.

Helsta breytingin sem felst í stjórnarskrárdrögum þeim sem greidd verða atkvæði um þann 20. október n.k. er líklega sú að valdið til að breyta stjórnarskránni (eða semja nýja) flyst frá alþingi til fólksins í landinu enda er það illskiljanlegt að alþingi eitt eigi að ráða hvernig stjórnarskráin er. Færa má rök fyrir því að þingmönnum komi það minna við en öðrum og svo eru þeir alltaf að gera einhverjar vitleysur svo réttast er að taka þetta vald af þeim. Oftast nær er líka kosið um eitthvað allt annað í þingkosningum en stjórnarskrárbreytingar. Síðast var það þó gert árið 1959 en þá voru einmennings og tvímenningskjördæmin afnumin og tekin upp stærri kjördæmi. Alþingi hefur ætíð staðið á móti þjóðaratkvæðagreiðslum.

Það athyglisverðasta í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar nú er að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki mótfallinn því að fólk taki þátt í henni. (Þorir það ekki.) Einstakir aðilar innan þess flokks og hugsanlega fleiri stjórnmálaflokka eru því samt mótfallnir. Hætt er við að sú mótstaða verði til lítils og vel getur verið að frumvarpið verði lagt fram og mögulega samþykkt án allra breytinga nema þeirra sem leiða beint af þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hvort stjórnarskrárfrumvarpið verður síðan samþykkt óbreytt af næsta þingi er ómögulegt að spá um. Útilokað er samt að mínu álitið að skipta um stjórnarskrá nema í samræmi við kröfur þeirrar gömlu. Þ.e.a.s að nýja stjórnarskráin, sem hugsanlega verður samþykkt af þingi því sem nú situr verði einnig samþykkt óbreytt af nýju alþingi. Breytingar á þeirri stjórnarskrá sem nú er notast við hafa alltaf verið fyrirhugaðar og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og rithöfundur talaði um það í silfri Egils um daginn að svo væri. Óvíst er hvort breytingar í þjóðlífinu og stjórnarfarinu fylgja í kjölfar hugsanlegrar stjórnarskrárbreytingar. Hún getur líka mistekist með öllu, en e.t.v. er það ásættanleg áhætta að taka upp nýja stjórnarskrá.

Þetta með Fordlandiamálið sem ég tæpti aðeins á í gær er á margan hátt miklu merkilegra en ég hélt. Einkum snerist það um gúmmíræktun og á þessum tíma var gúmmíið olía heimsins. Eða reyndar miklu mikilvægara en hún. Allir áttu yfirfljótanlega olíu og fóru illa með hana. Náttúruleg heimkynni gúmmítrésins voru í Brazilíu, Einkum á Amazon svæðinu. Þar tókst þó aldrei að rækta það á plantekrum því það auðveldaði leikinn svo skordýrum og myglusveppum sem sóttu á trén. Það voru því einkum innfæddir sem gengu um og söfnuðu gúmmíi. Maður einn stal fræum af gúmmítré og fór með til London. Þar voru ræktaðir græðlingar sem seinna var farið með til Suðaustur-Asíu og gúmmírækt hafin þar. Þar gekk ræktunin vel á plantekrum því skordýr og sveppir herjuðu ekki á trén í sama mæli þar og í Brazilíu. Innan skamms fór ræktunin í Asíu framúr þeirri í Brazilíu og efnahagsleg niðurlæging Amzonsvæðisins hófst og uppgangur Suðaustur-Asíu.

Svo virðist vera að Ásta Ragnheiður forseti alþingis hafi gefið Sveini Arasyni einhverskonar heilbrigðisvottorð. Eða svo virðist hann a.m.k. álíta og þar með er málið orðið svo pólitískt að óskiljanlegt er. Mér finnst þetta með traustið ekki vera neitt sem hægt er að bíða með eða semja um einhverntíma seinna, en auðvitað er það ekki ég sem ræð þessu.

Nú er ég endanlega búinn að gefast upp á Explorernum held ég. Hann var sífellt að einhverju kvarti og kveini og vildi ekki gera það sem ég bað hann upp svo nú er ég farinn að nota Crome. Kannski gengur það betur.

IMG 1661Rigning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband