1760 - Óskírð Benediktsdóttir

Jæja, þá er barnabarn númer 2 komið í heiminn. Benni og Angela eignuðust dóttur í dag miðvikudag. Svona til viðmiðunar er þetta 12. september (Freymóður Jóhannesson), Alþingi sett í gær, stefnuræða og tunnumótmæli boðuð í kvöld. Fjölyrði ekki meira um fæðinguna enda er ég ekki vanur að blogga mikið um persónuleg málefni. Meira svona hugleiðingar um hitt og þetta. Mynd kannski á morgun eða svo.

Pólitíkin höfðar ekki mikið til mín. Pólitísku bloggin eru samt þau vinsælustu, sýnist mér. Einnig þurfa þau helst að tengjast fréttum dagsins svo margir hafi áhuga á að lesa þau. Hvorugt hentar mér. Finnst best að blogga bara um það sem mér dettur í hug í það og það skiptið. Skoðanaskiptum tók ég þátt í áðan á fésbókinni þar sem umræður snerust um verð á rafbókum og þess háttar. Það var í framhaldi af innleggi frá Jónasi Kristjánssyni.

Einkennilegt er það með þjóðaratkvæðagreiðsluna sem ráðgerð er 20. október að sumir vilja líta svo á að hún snúist um ESB. Það gerir hún allsekki en ég er samt þeirrar skoðunar að með henni hafi jafnaðar- og vinstrimönnum tekist að snúa dálítið á hægrisinna. Á margan hátt er hún auðvitað fremur tilgangslítil en stuðningsmenn hennar vilja endilega fá nýja stjórnarskrá sem ekki er algerlega verk hins traustlausa Alþingis. Framvinda stjórnarskrármálsins er langmerkasta málið sem Alþingi hefur til meðferðar í vetur. Miklu mikilvægara en hvort ríkisstjórnin lafir til loka kjörtímabilsins. Kannski er eina von framsóknarflokksins að sveigja svolítið til vinstri og einangra sjálfstæðismenn þannig.

Hætt er nefnilega við að í Alþingiskosningunum næsta vor verði úrslitin lík því sem vant er. Þar með gæti framsóknarflokkurinn orðið í oddaaðstöðu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Í dag á ég víst stórafmæli og kannski verður haldið eitthvað uppá það seinna meir. Þakka öllum þeim innilega sem hafa látið svo lítið að óska mér til hamingju á fésbókinni.

IMG 1520Sveppur. (Sennilega eitraður).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæmundur. Innilegar og margfaldar hamingjuóskir .

Þú ert ríkur maður, og kannt að meta raunverulegan auð, sem eru börnin og barnabörnin. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem kunna að meta raunverulegan auð, og sinna þeim auð.

Við erum víst ekki öll jafn fær um að sinna því sem er mest virði fyrir okkur. Þar spilar margt óuppgert og óskilgreint inn í atburðar-rásina.

Fyrirgefning og skilyrðislaus kærleikur og skilningur er vandasamasta viðfangsefni allra manna/kvenna.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.9.2012 kl. 10:36

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Til hamingju með barnabarnið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.9.2012 kl. 12:16

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk kærlega, báðar tvær.

Sæmundur Bjarnason, 14.9.2012 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband