1737 - Tintron

Ætli það hafi ekki verið öðru hvoru megin við 1990 sem ég fékk, ásamt Bjarna Harðarsyni frænda mínum og fyrrum þingmanni og fleirum (man t.d. eftir Benedikt syni mínum) að fljóta með í æfingaferðalag sem Björgunarsveitin í Hveragerði fór í hellinn Tintron. Auðvitað var það Bjössi bróðir sem stóð fyrir því að bjóða okkur með. Aðra í ferðinni þekkti ég lítið sem ekkert. Líklega hafa þeir verið svona sex eða sjö.

Nei, annars. Nú man ég að ég er búinn að skrifa um þetta áður. Sé að ég hef gert það 27. júlí 2008. Mynd hef ég líka birt úr þessari frægu ferð og var það 19. október 2010. Upplýsingar þessar set ég hér vegna þeirra sem hugsanlega hafa áhuga á gömlum bloggum. Sleppi linkum. Linkar í eigin skrif finnst mér hvimleiðir.

Heitustu málin í dag snúast um kvennahljómsveit austur í Rússíá og biblíulega auglýsingu í Fréttablaðinu hér uppi á Íslandi. Bæði þessi mál snerta málfrelsi með vissum hætti og margir eru fljótir að taka afstöðu í þeim og miða þá e.t.v. við pólitískar skoðanir sínar að öðru leyti og hvað aðrir gera. Mér finnst aftur á móti að bæði þessi mál séu nokkuð erfið viðfangs og að samsláttur verði oft á milli stjórnmálaskoðana og málfrelsis og mannréttindamála yfirleitt við mál af þessu tagi.  

Sjálfum finnst mér málfrelsið eigi að njóta sín í báðum þessum tilfellum. Eða með öðrum orðum að sleppa eigi hljómsveitinni úr haldi og að Fréttablaðið sé í fullum rétti með birtingu auglýsingarinnar. Hef enga trú á að rétt sé að hún hafi farið óvart í gegn.

Grundvallarspurningin í allri pólitík er sú hvort „fólk sé fífl“ eða ekki. Ég held að svo sé ekki. Margir halda þó hinu gagnstæða fram. Þeim finnst stjórnmálin raða fólki eftir vitsmunum og telja alla vera fífl sem ekki skrifa uppá sínar skoðanir með atkvæði sínu a.m.k. Staðreyndin er bara sú að fólk á misauðvelt með að orða hugsanir sína. Hugsanirnar sem slíkar þurfa ekkert að vera verri þó þær séu illa orðaðar.

Upplýsingakerfi það sem netið býður uppá getur nýst öllum. Upplýsingar eru gull nútímans. Tækni og vísindi eru að verða almenningseign. Samt eru hæfileikar fólks auðvitað ákaflega mismunanndi. Sem betur fer. Gáfnapróf mæla einkum hæfileikann til að svara spurningum af ákveðinni gerð. Gagnlegt getur verið að vita það.

Það er nokkuð rétt skilgreining hjá Jónasi Kristjánssyni að líkja blogginu við ræðupúlt en fésbókinni við kaffispjall. Breytingin sem orðið hefur síðustu árin er þó ekki einungis sú að bloggurum hafi fækkað og kaffispjöllurum fjölgað. Meðal þeirra sem einbeita sér að fésbókinni eru margir sem ættu frekar að sinna blogginu. Margir reyna auðvitað að stunda hvorttveggja og getur gengið það ágætlega.

Með blogginu og fésbókinni er óhætt að segja að landslag fjölmiðlunar hafi breyst verulega. Þeir sem atvinnu hafa af því að skrifa í fjölmiðla hafa ekki allir gert sér grein fyrir þessu. Pólitíkusar eru ráðþrota og vita ekki hvernig bregðast skal við. Áður fyrr nægði ágætlega að hafa sæmilega stjórn á fjölmiðlunum, en nú er sú tíð liðin.

Helvítis hársbreiddin. Hlustaði áðan á einhverja samantekt í sjónvarpinu um þátttöku Íslendinga á Ólympíuleikunum sem nú er að ljúka í London. Svo var að skilja að ávallt hefði munað hársbreidd að þeir hefðu staðið sig miklu betur en þeir gerðu. Samt er alls ekki hægt að segja að Íslendingar hafi staðið sig illa. Karlalandsliðið í handknattleik hefur samt áreiðanlega valdið einhverjum vonbrigðum.

Er Moggabloggið að rísa úr öskustónni? Þegar ég leit á vinsældalistann þar í gær sá ég mér til nokkurrar furðu að sá sem var neðstur á 400 listanum var með 50 vikuheimsóknir. Þetta finnst mér hraustleikamerki því undanfarið hefur þegar ég hef kíkt hefur talan verið um 30.

Eitt get ég fullyrt. Ég skoða rauðu tölurnar í vinstra horninu á fésbókinni miklu oftar en póstinn sem settur er á netfangið mitt á Snerpu. Ætti samt ekki að gera það. Að allt eða sem flest sé fljólegt og þægilegt eru einkunnarorð fésbókarfólksins. Bæði neytenda og skaffara. Sá póstur sem kemur í pósthólfið mitt á Snerpu er oft hálfleiðinlegur. Aðallega ruslpóstu svo sem Nígeríubréf, auglýsingar og þess háttar. Stór hluti er framsendur póstur frá netut.is, en alltaf öðru hvoru samt póstur sem maður vill ekki missa af.

IMG 1285Litfagrir steinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband