1736 - RAAM (Race Across America)

Á Íslandi koma að meðaltali út einar fjórar til fimm bækur á dag. Vissulega er það mikið en hvað ætli megi þá segja um heiminn allan? Mig sundlar við tilhugsunina. Hef ekki hugmynd um hve margar bækur koma út á ensku á hverjum degi. Kyndillinn minn gæti þó kannski komist að því vegna þess að hann er í beinu sambandi við Amazon sem dreifir ansi miklu af bókum. Svo gæti ég auðvitað spurt Gúgla eða Wikipedíu.

Nýjasta bókin sem ég hef verið að skoða þar (Á kyndlinum, ekki Amazon) er frásögn af árlegri hjólreiðakeppni sem á margar hátt er ekki síður athyglisverð en „Tour de France“. Bókin heitir „Hell on two wheels“ og er eftir Amy Snyder. Keppnin nefnist RAAM (Race Across America) http://www.raceacrossamerica.org/raam/raam.php?N_webcat_id=1 og þó hún sé yfir þver Bandaríkin vekur hún alls enga athygli fjölmiðla eða áhorfenda. Framkvæmd hennar er líka gjörólík þeirri frönsku einkum vegna þess að hjólreiðakapparnir stoppa ekki á kvöldin heldur halda stöðugt áfram og tíma jafnvel ekki að sofa að neinu ráði.

Þó keppnin sé ekki „nema“ 3000 mílur (Tour de France er lengri) er hún á margan hátt einhver erfiðasta keppni sem um getur og tekur flesta a.m.k. svona 10 til 11 daga. Amy Snyder (höfundur bókarinnar) hefur sjálf t.d. margoft tekið þátt í járnkarlskeppni (Ironman triathlon)  http://ironman.com/events/ironman/#axzz23EYefWf1 og þykir ekkert sérstaklega mikið til slíkrar keppni koma hvað þol og erfiði snertir.

Fyrir nokkrum árum gerði sjónvarpsstöð keppninni einhver skil og áhugi vaknaði þá fyrir henni en hann er svotil alveg horfinn núna.

Að lesa í láréttri stöðu. Langmest af mínum lestri þessa dagana fer fram í Kindle Fire tölvunni minni. Mér þykir líka langbest að lesa í láréttri stöðu. Þ.e.a.s. liggjandi í bælinu. Fullklæddur er ég þó oftast við það og ligg ofan á sænginni og rúmteppinu. Að halda á tölvunni þó hún sé ekki nema hálft kíló er það erfiðasta við lesturinn. Auðvitað má sem hægast hafa handaskipti eða breyta takinu á tölvunni en samt má búast við örlitlum þreytuverk nálægt olnboganum. Oftast ligg ég á bakinu við lesturinn og vitanlega mætti lýsa lestraraðferðinni í meiri smáatriðum. Læt þetta þó nægja í bili.

Stjórnarmyndun eftir næstu kosningar kann að snúast einkum um það hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að innbyrða framsóknarflokkinn eða ekki. Þegar ég segi innbyrða á ég við það hvort þeim takist að fá framsóknarflokkinn til að mynda ríkisstjórn með sér. Þá geri ég semsagt ráð fyrir að úrslitin verði á þann veg að núverandi stjórnarandstaða (Sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur) fá meirihluta þingsæta.

Það er þó enganvegin víst. Aftur á móti er nokkuð víst að Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki hreinan meirihluta. Þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni fá líklega heldur ekki meirihluta. Framsóknarflokkurinn og smáflokkar sem kunna að verða myndaðir áður en kemur að kosningum kunna því að verða í lykilstöðu.

Já, nú er ég greinilega kominn langt framúr sjálfum mér. Kosningabaráttan er öll eftir. Svo er ekki einu sinni vitað hvenær kosningarnar verða. Nýir flokkar kunna að verða stofnaðir og gætu e.t.v. sópað til sín fylgi. Svo eru öll prófkjörin eftir. Já, pólitíkin er leiðinda tík.

IMG 1269Hvurslags er þetta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband